Bækur og lexíur
Kafli 37: Ábyrgð fjölskyldunnar


Kafli 37

Ábyrgð fjölskyldunnar

Ljósmynd
An Asian family gathered for scripture study. They are sitting on sofas and the floor.

Ábyrgðarskyldur foreldranna

  • Hvaða ábyrgðarskyldum deila eiginmaður og eiginkona við að ala upp börn sín?

Hver og einn gegnir mikilvægu hlutverki innan fjölskyldu sinnar. Fyrir munn spámanna hefur Drottinn skýrt frá því hvernig framkoma og tilfinningar feðra, mæðra og barna eigi að vera gagnvart hvert öðru. Sem eiginmenn, eiginkonur og börn þurfum við að vita hvernig Drottinn ætlar okkur að uppfylla tilgang okkar sem fjölskylda. Ef við gerum öll okkar hlut, verðum við sameinuð að eilífu.

Við þessa helgu foreldraábyrgð „ber feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar.“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan, júní 1996, 10). Þau ættu að vinna saman að því að sjá fyrir andlegum, tilfinningalegum, vitsmunalegum og líkamlegum þörfum fjölskyldunnar.

Sumum störfum verða bæði eiginmaður og eiginkona að deila hvort með öðru. Foreldrar eiga að kenna börnum sínum fagnaðarerindið. Drottinn hefur varað við og sagt að ef foreldrar kenna ekki börnum sínum um trú, iðrun, skírn, og gjöf heilags anda, mun syndin falla á höfuð foreldranna. Foreldrar ættu einnig að kenna börnum sínum að biðja og hlýða boðorðunum. (Sjá K&S 68:25, 28.)

Árangursríkasta kennsla foreldranna er fordæmi þeirra sjálfra. Eiginmenn og eiginkonur ættu að sýna hvort öðru og börnum sínum ást og virðingu, bæði í orði og verki. Mikilvægt er að muna að hver einstakur í fjölskyldunni er barn Guðs. Foreldrar ættu að sýna börnum sínum ást og virðingu, vera ákveðin en góð við þau.

Foreldrar verða að skilja að börnin velja stundum rangt, jafnvel þótt þau þekki sannleikann. Þegar slíkt gerist ættu foreldrar ekki að láta hugfallast. Þeir ættu að halda áfram að kenna börnum sínum, sýna þeim ástúð og gott fordæmi, og fasta og biðja fyrir þeim.

Mormónsbók segir okkur frá því hvernig bænir föður urðu til þess að leiða uppreisnargjarnan son aftur á veg Drottins. Alma yngri hafði fallið frá kenningum réttláts föður síns, Alma, og fór um og reyndi að tortíma kirkjunni. Faðirinn bað í heitri trú fyrir syni sínum. Engill vitjaði Alma yngri, sem iðraðist síns illa lífernis. Hann varð mikilsvirtur leiðtogi kirkjunnar (sjá Mósía 27:8–32).

Foreldrar geta skapað andrúmsloft lotningar og virðingar á heimilinu, ef þeir kenna og leiðbeina börnum sínum í kærleika. Þeir ættu einnig að sjá börnum sínum fyrir ánægjulegri reynslu.

  • Hvernig geta eiginmenn og eiginkonur stutt hvort annað í hlutverkum sínum? Hvert geta einstæðir foreldrar leitað eftir stuðningi?

Ábyrgðarskyldur föðurins

  • Hvaða jákvæð dæmi þrekkið þið um feður að ala upp börn sín?

„Samkvæmt guðlegri áætlun eiga feður að sitja í forsæti fjölskyldu sinnar í kærleika og réttlæti og bera þá ábyrgð að sjá henni fyrir nauðsynjum lífsins og vernda hana“ (Vonarstjarnan, júní 1996, 10). Hverjum verðugum föður í kirkjunni gefst tækifæri til að hafa prestdæmið og verða þannig prestdæmisleiðtogi fjölskyldu sinnar. Hann ætti að leiða fjölskyldu sína og leiðbeina henni af auðmýkt og góðvild, en hvorki beita þvingun né hörku. Ritningarnar segja okkur, að þeir sem hafi prestdæmið skuli leiða aðra með fortölum, mildi, ást og góðvild (sjá K&S 121:41–44; Ef 6:4).

Faðirinn deilir blessunum prestdæmisins með fjölskyldu sinni. Hafi hann Melkísedeksprestdæmið getur hann deilt þeim blessunum, svo sem með því að gefa börnunum nafn og blessa þau, blessa sjúka, skíra börnin og veita þeim sérstakar prestdæmisblessanir og þjónustu. Undir leiðsögn ráðandi prestdæmisleiðtoga getur hann blessað börn, skírt, staðfest og framkvæmt helgiathafnir prestdæmisins. Hann ætti að sýna fjölskyldu sinni gott fordæmi með því að halda sjálfur boðorðin. Hann ætti einnig að tryggja að fjölskyldan biðji saman tvisvar á dag og hafi fjölskyldukvöld.

Faðirinn ætti að gefa sér tíma með hverju barni fyrir sig. Hann ætti að kenna börnum sínum réttar reglur, ræða við þau um vanda þeirra og áhyggjur og veita þeim ástúðlega ráðgjöf. Nokkur góð dæmi má finna í Mormónsbók (sjá 2 Ne 1:14–3:25; Al 36–42).

Það er einnig skylda föðurins að sjá fyrir líkamlegum þörfum fjölskyldunnar, tryggja nauðsynlegt fæði, húsnæði, klæði og menntun. Þótt hann geti einhverra hluta vegna ekki séð fjölskyldu sinni að fullu fyrir framfærslu, ber hann engu að síður þá ábyrgð að annast fjölskyldu sína.

Ábyrgðarskyldur móðurinnar

  • Hvaða jákvæð dæmi þekkið þið um mæður að ala upp börn sín?

David O. McKay forseti sagði að mæðrahlutverkið væri göfugasta köllunin (sjá Teachings of Presidents of the Church: David O. McKay [2003], 156). Það er heilög köllun, hlutdeild með Guði í að leiða andabörn hans í heiminn. Að fæða börn er ein alstærsta blessunin. Sé enginn faðir á heimilinu er móðirin í forsæti fyrir fjölskyldunni.

Boyd K. Packer forseti lofaði þær konur, sem ekki geta eignast börn sjálfar, en annast samt um aðra. Hann sagði: „Þegar ég tala um mæður, tala ég ekki aðeins um þær konur sem hafa fætt af sér börn, heldur einnig þær sem hafa fóstrað börn annarra og um þær mörgu konur sem, án eigin barna, hafa veitt annarra börnum móðurumhyggju“ (Mothers [1977], 8).

Síðari daga spámenn hafa kennt: „Meginábyrgð mæðra er að annast börn sín“ (Vonarstjarnan, júní 1996, 10). Móðirin þarf að gefa börnunum af tíma sínum og kenna þeim fagnaðarerindið. Hún ætti bæði að leika við þau og vinna með þeim, þannig að þau uppgvöti heiminn í kringum sig. Hún þarf einnig að kenna fjölskyldu sinni að gera heimilið að ánægjulegum dvalarstað. Ef hún er hlý og ástúðleg stuðlar hún að vellíðan og sjálfstrausti barnanna.

Mormónsbók lýsir hópi ungra manna sem urðu hetjur vegna kennslu mæðra sinna (sjá Al 53:16–23). Leiddir af spámanninum Helaman gengu þessir tvö þúsund piltar til orrustu gegn óvinum sínum. Þeir höfðu lært af mæðrum sínum að vera heiðarlegir, hugrakkir og traustir. Mæður þeirra kenndu þeim einnig, að ef þeir efuðust ekki, myndi Guð varðveita þá (sjá Al 56:47). Enginn þeirra lét lífið í bardaganum. Síðar létu þeir í ljós trú sína á kenningum mæðra sinna og sögðu: „Við efum ekki, að mæður okkar vissu það“ (Al 56:48). Sérhver móðir sem á vitnisburð getur haft djúp áhrif á börn sín.

Ábyrgðarskyldur barnanna

  • Hvernig hjálpa börnin foreldrum sínum að koma upp hamingjusömu heimili?

Börnin deila þeirri ábyrgð með foreldrum sínum, að byggja upp hamingjusamt heimili. Þau eiga að hlýða boðorðunum og vera samvinnuþýð við aðra í fjölskyldunni. Drottinn er ekki ánægður þegar börn rífast (sjá Mósía 4:14).

Drottinn hefur boðið börnum að heiðra foreldra sína. Hann hefur sagt: „Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér“ (2 Mós 20:12). Að heiðra foreldra sína táknar að elska þá og virða. Það þýðir einnig að hlýða þeim. Ritningarnar segja börnunum: „Hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt“ (Ef 6:1).

Spencer W. Kimball forseti sagði að börnin ættu að læra að vinna og deila ábyrgðarskyldum innan húss og utan. Þeim skal falið að halda húsinu snyrtilegu og hreinu (sjá Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 120).

  • Hvað eiga börnin að gera til að heiðra og virða foreldra sína?

  • Hvað gerðu foreldrar ykkar sem varð til þess að þið heiðruðuð og virtuð þau?

Blessanir fylgja því að taka á sig ábyrgðarskyldur

  • Hvað getur hver fjölskyldumeðlimur gert til að gera heimilið að hamingjuríkum stað?

Fjölskyldan verður ekki ástrík og hamingjusöm af tilviljun. Allir í fjölskyldunni verða að gera sitt til þess að svo verði. Drottinn hefur falið bæði foreldrum og börnum ábyrgðarskyldur. Ritningarnar segja að við verðum að vera hugsunarsöm, glaðvær og tillitssöm. Þegar við tölum, biðjum, syngjum eða störfum saman, njótum við þeirrar blessunar sem eining í fjölskyldunni veitir (sjá Kól 3).

  • Hvaða hefðir og venjur geta gert heimilið að hamingjuríkum stað?

Viðbótarritningargreinar og aðrar heimildir

  • Okv 22:6 (fræða barnið)

  • Ef 6:1–3 (börn hlýði foreldrum)

  • K&S 68:25–28; Ef 6:4 (ábyrgðarskyldur foreldra)

  • „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ (fáanleg á LDS.org, kirkjajesukrists.is og í mörgum ritum kirkjunnar, þar á meðal í Ensign, nóv. 1995, bls. 102; Til styrktar æskunni [birgðanúmer 36550], bls. 44; og Sannir í trúnni [birgðanúmer 36863], bls. 36–38)

  • Fjölskyldan Leiðarvísir (birgðanúmer 31180 190)