Bækur og lexíur
Kafli 40:Musterisverk og ættfræði


Kafli 40

Musterisverk og ættfræði

Ljósmynd
The east spires of the Salt Lake Temple with the Angel Moroni and clouds in the sky.

Himneskur faðir vill að börn hans komi aftur til hans

Friðþæging Jesú Krists tryggir að við munum öll rísa upp og lifa að eilífu. En ef við eigum að lifa að eilífu með fjölskyldu okkar og í návist himnesks föður, verðum við að gera allt sem Drottinn býður okkur að gera. Það felur í sér að láta skírast, verða staðfest og taka á móti helgiathöfnum musterisins.

Sem þegnar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu höfum við öll tekið á móti skírn og staðfestingu af réttum valdhafa prestdæmisins. Öll getum við einnig farið í musterið og tekið á móti þeim frelsandi athöfnum sem framkvæmdar eru þar. En mörg af börnum Guðs hafa þó ekki fengið þessi sömu tækifæri. Þau lifðu á þeim stað eða á þeim tímum að fagnaðarerindið stóð þeim ekki til boða.

Himneskur faðir vill að öll börn hans komi til baka og dvelji hjá honum. Hann hefur því séð þeim, sem dáið hafa án skírnar og helgiathafna musterisins, fyrir leið til þess að það geti gerst. Hann hefur beðið okkur að framkvæma helgiathafnir í musterunum fyrir áa okkar.

Musteri Drottins

  • Hvers vegna eru musteri mikilvæg í lífi okkar?

Musteri Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru sérstakar byggingar helgaðar Drottni. Verðugir kirkjuþegnar geta farið þangað og meðtekið helgiathafnir og gert sáttmála við Guð. Eins og skírn eru þessar helgiathafnir og sáttmálar nauðsynlegir fyrir sáluhjálp okkar. Hvort tveggja verður að framkvæma í musterum Drottins.

Við förum einnig í musterið til að læra meira um himneskan föður og son hans Jesú Krist. Við öðlumst aukinn skilning á tilgangi okkar í lífinu og sambandi okkar við Guð föður og Jesú Krist. Við lærum um fortilveru okkar, tilgang jarðlífsins og lífið eftir dauðann.

Helgiathafnir musterisins innsigla fjölskyldur saman til eilífðar

  • Hvað merkir að vera innsigluð?

Allar helgiathafnir musterisins eru framkvæmdar með krafti prestdæmisins. Með þeim krafti eru helgiathafnir sem framkvæmdar eru á jörðu innsiglaðar á himnum. Frelsarinn kenndi postulum sínum: „Hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum“ (Matt 16:19; sjá einnig K&S 132:7).

Aðeins í musterinu er hægt að innsigla okkur að eilífu sem fjölskyldur. Hjónavígsla í musterinu sameinar karl og konu sem eiginmann og eiginkonu um eilífð, ef þau heiðra sáttmála sína. Skírn og allar aðrar helgiathafnir búa okkur undir þennan helga atburð.

Þegar karl og kona giftast í musterinu, verða börn þeirra sem síðar fæðast einnig hluti eilífrar fjölskyldu þeirra. Hjón sem gifst hafa borgaralega geta einnig hlotið þessar blessanir, ef þau búa sig og börn sín undir að fara í musterið og verða innsigluð hvert öðru. Foreldrar sem ættleiða börn löglega geta látið innsigla sér þau börn.

  • Hvað verða hjón að gera til að kraftur innsiglunarinnar verði virkur í hjónabandi þeirra?

Áarnir þarfnast hjálpar okkar

  • Hvaða ábyrgð berum við gagnvart áum okkar sem dáið hafa án þess að meðtaka helgiathafnir prestdæmisins?

Mario Cannamela og Maria Vitta giftust árið 1882. Þau áttu heima í Tripani á Ítalíu og þar ólu þau upp börn sín og áttu mörg yndisleg ár saman. Mario og Maria heyrðu aldrei boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists meðan þau lifðu. Þau létu aldrei skírast. Þau fengu ekki tækifæri til þess að fara í musterið og verða innsigluð saman sem eilíf fjölskylda. Hjónabandi þeirra lauk við andlát þeirra.

Rúmri öld síðar átti mikil sameining sér stað. Afkomendur Mario og Mariu fóru til Los Angeles-musterisins og þar kraup einn af afkomendum þeirra ásamt eiginkonu sinni við altarið sem staðgenglar við innsiglun Mario og Mariu. Tár fylltu augun á þeirri gleðistundu, er þau deildu gleði sinni með Mario og Maríu.

Margir áar okkar hafa dáið án þess að heyra um fagnaðarerindið meðan þeir lifðu hér á jörðu. Þeir lifa nú í andaheiminum (sjá kafla 41 í þessari bók). Þar fræðast þeir um fagnaðarerindi Jesú Krists. Þeir sem taka á móti því, bíða eftir að helgiathafnirnar séu framkvæmdar fyrir þá. Þegar við framkvæmum þessar helgiathafnir í musterinu fyrir áa okkar, getum við tekið þátt í gleði þeirra.

  • Hvernig sýnir kenningin um sáluhjálp fyrir hina dánu réttlæti Guðs, samúð og náð?

  • Hver er reynsla ykkar af að vinna musterisverk fyrir áa ykkar?

Ættfræði – Hvernig við byrjum að hjálpa áum okkar

  • Hver eru fyrstu skrefin við að vinna ættfræðiverk?

Síðari daga heilagir eru hvattir til þess að taka þátt í ættfræðistarfi. Þannig fræðumst við um áa okkar og getum framkvæmt helgiathafnir fyrir þá. Ættfræði felur í sér þrjú grundvallarskref:

  1. Nafngreina áa okkar.

  2. Komast að því hvort helgiathafnir musterisins hafa verið framkvæmdar fyrir þá.

  3. Tryggja að helgiathafnirnar séu framkvæmdar fyrir þá.

Í flestum kirkjudeildum eru ættfræðileiðbeinendur sem geta svarað spurningum og veitt þær leiðbeiningar sem við þörfnumst. Ef enginn leiðbeinandi er í deildinni eða greininni getur biskup eða greinarforseti veitt leiðsögn.

Nafngreina áa okkar

Til þess að hægt sé að framkvæma helgiathafnir musterisins fyrir áana þurfum við að þekkja nöfn þeirra. Mörg dásamleg úrræði eru nú fyrir hendi til að hjálpa okkur að finna nöfn áa okkar.

Góð leið til að hefja söfnun upplýsinga um áa okkar er að athuga hvað við höfum á eigin heimili. Við eigum kannski fæðingar-, giftingar- eða dánarvottorð. Ef til vill finnum við fjölskyldubiblíur, minningargreinar, ættarsögur, eða dagbækur og minningabækur. Einnig getum við leitað upplýsinga hjá ættingjum. Eftir að hafa safnað upplýsingum heima fyrir og frá áum okkar, getum við notað önnur leitarúrræði, svo sem FamilySearch.org. Við getum einnig heimsótt eitt af ættfræðisöfnum kirkjunnar.

Hve mikið við finnum fer eftir því hvaða upplýsingar eru okkur tiltækar. Ef til vill höfum við litlar upplýsingar um ætt okkar og getum lítið meira en nafngreint foreldra, afa og ömmur. Sumir eiga þó mikið safn ættarheimilda og geta því nafngreint áa sína í marga ættliði.

Við getum skráð upplýsingarnar sem við fáum á fjölskylduskýrslur og áatöl.

Komist að því hvaða áar þarfnast helgiathafna musterisins

Helgiathafnir musterisins hafa verið framkvæmdar fyrir hina dánu frá fyrstu tíð kirkjunnar. Þar af leiðandi getur verið að helgiathafnir fyrir suma forfeður okkar hafi þegar verið framkvæmdar. Til þess að komast að því hvaða áar þarfnast helgiathafna, getum við leitað á tveimur stöðum. Okkar eigin fjölskylduskrár kunna að geyma upplýsingar um hvað hefur verið gert. Ef ekki, þá ættu skýrslur kirkjunnar yfir allar helgiathafnir sem framkvæmdar hafa verið í musterinu að gera það. Ættfræðiráðgjafi deildar þinnar eða greinar getur hjálpað ykkur við þetta.

Tryggja að helgiathafnirnar séu framkvæmdar

Margir áar okkar í andaheiminum bíða ef til vill í ofvæni eftir að taka á móti helgiathöfnum musterisins. Strax þegar við höfum nafngreint þessa áa ættum við að gera allt sem þarf til þess að verkið verði unnið fyrir þá.

Ein af blessunum ættfræðistarfsins er sú að fara í musterið og framkvæma helgiathafnir fyrir hönd áa okkar. Við ættum að búa okkur undir að fá musterismeðmæli svo að, þegar færi gefst, getum við unnið þetta verk. Ef börn okkar eru 12 ára eða eldri geta þau tekið þátt í því með okkur og tekið á móti skírn og staðfestingu fyrir áa sína.

Ef við höfum engan möguleika á að fara til musterisins og taka sjálf þátt í helgiathöfnunum þar, mun musterið sjá til þess að þær verði framkvæmdar af öðrum kirkjuþegnum.

  • Hvernig hefur Drottinn hjálpað ykkur eða fjölskyldumeðlimum ykkar að finna upplýsingar um áa ykkar?

Frekari ættfræðimöguleikar

  • Hvaða einföldu leiðir getur sá sem hefur miklar aðrar ábyrgðarskyldur notað til að taka þátt í ættfræðiverki?

Auk þess að sjá áum okkar fyrir helgiathöfnum musterisins getum við hjálpað þeim sem eru í andaheiminum á margan annan hátt. Við ættum að leita leiðsagnar andans þegar við í bæn hugleiðum hvað við getum gert. Við getum gert það sem hér segir, eftir því sem aðstæður leyfa:

  1. Sótt musterið eins oft og hægt er. Þegar við höfum farið í musterið fyrir okkur sjálf getum við framkvæmt frelsandi helgiathafnir fyrir aðra sem bíða í andaheiminum.

  2. Unnið að rannsóknum til að finna áa sem erfitt hefur reynst að finna. Leiðbeinandi ættfræðisafnsins getur ef til vill vísað okkur á heimildir.

  3. Unnið við úrvinnslustarf kirkjunnar. Í því starfi vinna kirkjuþegnar að upplýsingasöfnun sem sett er inn í ættfræðitölvugögn kirkjunnar. Þau gögn auðvelda okkur að finna áana.

  4. Senda ættfræðiheimildir inn í núverandi tölvuskrár kirkjunnar fyrir ættfræði. Þær skrár hafa að geyma ættarheimildir frá fólki um víða veröld sem það hefur lagt fram. Þær gera fólki kleift að miðla ættarupplýsingum sínum. Leiðbeinendur ættfræðisafnanna geta veitt frekari upplýsingar um tölvuforrit kirkjunnar.

  5. Taka þátt í fjölskyldusamtökum. Við getum komið miklu meiru til leiðar fyrir áa okkar ef við vinnum með öðrum ættingjum.

  • Hugleiðið hvað þið getið gert til að auka þátttöku ykkar í musteris- og ættfræðistarfi.

Viðbótarritningargreinar