Bækur og lexíur
Kafli 2: Himnesk fjölskylda okkar


Kafli 2

Himnesk fjölskylda okkar

Ljósmynd
Hubble image of the galaxy

Við erum börn okkar himneska föður

  • Hvað kenna ritningarnar og síðari daga spámenn okkur um ættartengsl okkar við Guð?

Guð er ekki aðeins stjórnandi okkar og skapari, hann er einnig himneskur faðir okkar. Allir menn og konur eru bókstaflega synir og dætur Guðs. „Maðurinn, sem andi, var getinn og fæddur af himneskum foreldrum, og alinn upp til þroska í eilífum híbýlum föðurins, áður en hann kom til jarðar í stundlegum líkama“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith [1998], 335).

Hver einasta persóna sem nokkru sinni hefur fæðst á jörðu er andabróðir okkar eða systir. Vegna þess að við erum andabörn Guðs, höfum við erft möguleikana til að þroska með okkur guðlega eiginleika hans. Með friðþægingu Jesú Krists getum við orðið lík okkar himneska föður og meðtekið fyllingu gleðinnar.

  • Hvernig áhrif hefur sú þekking, að þú ert barn Guðs, á þig, hugsanir þínar, orð og gerðir?

Við þróuðum persónuleika og hæfileika á meðan við lifðum á himnum

  • Hugsið um hæfileika og gjafir sem þið hafið verið blessuð með.

Ritningarnar kenna okkur að spámennirnir bjuggu sig undir að verða leiðtogar á jörðu á meðan þeir voru enn andar á himni Al 13:1–3). Áður en þeir fæddust í dauðlegum líkama, forvígði (valdi) Guð þá til að verða leiðtoga á jörðu. Jesús, Adam og Abraham voru meðal þessara leiðtoga. (Sjá Abr 3:22–23.) Joseph Smith kenndi að „hver maður sem hefur köllun til að þjóna íbúum heimsins var [for]vígður í þeim sérstaka tilgangi“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 511). Engu að síður eru allir á jörðinni frjálsir að því að meðtaka eða hafna öllum tækifærum til að þjóna.

Við vorum ekki öll eins á himnum. Við vitum, til dæmis, að við vorum synir eða dætur himneskra foreldra – karlkyns eða kvenkyns (sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan, júní 1996, 10). Við höfðum mismunandi sérgáfur og hæfileika og við vorum kölluð til að gera mismunandi hluti á jörðu. Við getum lært meira um „eilífa möguleika“ okkar, þegar við tökum á móti patríarkablessun okkar (sjá Thomas S. Monson, í Conference Report, okt. 1986, 82; eða Ensign, nóv. 1986, bls. 66).

Hula hvílir yfir minningum okkar um lífið í fortilverunni, en faðir okkar á himnum veit hver við erum og hvað við gerðum áður en við komum hingað. Hann hefur valið tímann og staðinn fyrir hvert og eitt okkar að fæðast, svo að við getum lært þær lexíur sem við persónulega þörfnumst og getum gert sem mest gagn með einstaklingsbundnum hæfileikum okkar og persónuleika.

  • Hvernig hafa hæfileikar annars fólks blessað ykkur? Hvernig geta hæfileikar ykkar og gjafir blessað aðra?

Himneskur faðir setti fram þá áætlun fyrir okkur að verða lík honum

  • Hvernig hjálpar jarðlífið okkur að verða lík himneskum föður?

Himneskur faðir okkar vissi að við gætum ekki þroskast fram úr ákveðnu marki nema við yfirgæfum hann um tíma. Hann vildi að við þroskuðum þá guðlegu eiginleika sem hann hefur. Til að gera það, þurftum við að yfirgefa heimili okkar í fortilverunni til að reynt yrði á okkur og við öðluðumst reynslu. Andi okkar þurfti að íklæðast líkama. Við mundum þurfa að yfirgefa líkama okkar við dauða og sameinast honum að nýju í upprisunni. Síðan mundum við taka við ódauðlegum líkama líkum þeim sem himneskur faðir okkar hefur. Ef við stæðumst próf okkar, mundum við meðtaka þá fyllingu gleðinnar sem himneskur faðir hefur meðtekið. (Sjá K&S 93:30–34.)

Himneskur faðir kallaði saman stórþing himna til að kynna áætlun sína um framþróun okkar (sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith, 209, 511). Við lærðum, að ef við fylgdum áætlun hans, mundum við verða lík honum. Við mundum verða reist upp; við mundum hafa allt vald á himni og jörðu; við mundum verða himneskir foreldrar og eignast andabörn rétt eins og hann gerir (sjá K&S 132:19–20).

Við lærðum að hann mundi leggja okkur til jörð þar sem við mundum sanna okkur (sjá Abr 3:24–26). Hula mundi hylja minningar okkar og við mundum gleyma okkar himneska heimili. Þetta yrði nauðsynlegt svo að við gætum beitt sjálfræði okkar til að velja gott eða illt án þess að minningin um líf okkar hjá himneskum föður hefði þar áhrif. Þannig gætum við hlýtt honum vegna trúar okkar á hann, ekki vegna þekkingar okkar eða minninga um hann. Hann mundi hjálpa okkur að þekkja sannleikann þegar við heyrðum hann aftur á jörðinni (sjá Jóh 18:37).

Á stórþinginu lærðum við einnig um tilganginn með framþróun okkar: að hafa fyllingu gleðinnar. Á hinn bóginn lærðum við einnig, að sumir mundu verða blekktir, velja aðrar leiðir og tapa áttum. Við lærðum að við myndum öll mæta erfiðleikum í lífi okkar: veikindum, vonbrigðum, sársauka, sorg og dauða. En við skildum að þetta yrði okkur gefið til að við öðluðumst reynslu og okkur til góðs (sjá K&S 122:7). Ef við leyfðum það, mundu þessir erfiðleikar hreinsa okkur fremur en sigrast á okkur. Þeir mundu kenna okkur þolgæði, þolinmæði og kærleika (sjá Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball [2006], 15–16).

Á þessu þingi lærðum við einnig, að vegna veikleika okkar mundum við öll syndga, nema lítil börn (sjá K&S 29:46–47). Við lærðum, að okkur yrði lagður til frelsari svo að við gætum sigrast á syndum okkar og sigrast á dauða með upprisu. Við lærðum, að ef við legðum trú okkar á hann, hlýddum orði hans og fylgdum fordæmi hans, yrðum við upphafin og mundum verða lík okkar himneska föður. Við mundum meðtaka fyllingu gleðinnar.

  • Skráið nokkra af eiginleikum himnesks föður. Hvernig hjálpar sáluhjálparáætlunin okkur að þroska þessa eiginleika?

Viðbótarritningargreinar