Bækur og lexíur
Kafli 41: Andaheimurinn að jarðlífi loknu


Kafli 41

Andaheimurinn að jarðlífi loknu

Ljósmynd
A mother in a wheelchair is surrounded by three young children. They are in a cemetery in front of a tombstone.

Líf eftir dauðann

  • Hvað verður um okkur eftir að við deyjum?

Himneskur faðir gerði áætlun um sáluhjálp okkar. Liður í þeirri áætlun var að senda okkur úr návist sinni til að lifa á jörðu og hljóta dauðlegan líkama af holdi og blóði. Dauðlegi líkaminn mun að lokum deyja og andinn fara í andaheiminn. Andaheimurinn er staður þar sem við bíðum, störfum, lærum, og, fyrir hina réttlátu, hvílumst frá amstri og sorg. Þar munu andar okkar dvelja uns við erum undir upprisuna búin. Þá mun líkami okkar aftur sameinast anda okkar og við hljótum það dýrðarstig sem við höfum búið okkur undir (sjá kafla 46 í þessari bók).

Mörg höfum við hugleitt hvernig andaheimurinn sé. Ritningarnar og spámenn Síðari daga heilagra hafa veitt okkur upplýsingar um andaheiminn.

  • Hvaða hughreystingu veitir sú vitneskja ykkur, að líf sé eftir dauðann? Hvernig getum við notað skilning okkar á andaheiminum eftir jarðlífið öðrum til hughreystingar?

Hvar er andaheimurinn eftir jarðlíf?

Síðari daga spámenn hafa sagt að andi þeirra sem dáið hafa sé ekki fjarri okkur. Ezra Taft Benson forseti sagði: „Stundum verður hulan milli þessa lífs og lífsins fyrir handan mjög þunn. Ástvinir okkar, sem farnir eru, eru ekki langt undan“ (í Conference Report, apr. 1971, 18; eða Ensign, júní 1971, 33). Brigham Young forseti kenndi, að andaheimurinn eftir jarðlíf væri á jörðinni, umhverfis okkur (sjá Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 279).

Hvert er eðli anda okkar?

Andaverur hafa sama líkamsform og dauðlegar verur, að öðru leyti en því að andalíkaminn er fullkominn að formi (sjá Eter 3:16). Andarnir taka með sér frá jörðu hollustu sína eða óvild gagnvart því sem réttlátt er (sjá Al 34:34). Þeir hafa sömu langanir og þrár og þeir höfðu á jörðu. Allir andar eru fullvaxta. Þeir voru fullvaxta fyrir jarðlíf sitt og þeir eru fullvaxta eftir dauðann, jafnvel þótt þeir deyi við fæðingu eða sem börn (sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith [1998], 131–32).

  • Hvers vegna er mikilvægt að vita að andi okkar mun hafa sömu viðhorf í andaheiminum og við höfum núna?

Hverjar eru aðstæðurnar í andaheiminum eftir jarðlíf?

Spámaðurinn Alma í Mormónsbók segir frá tveimur mismunandi deildum eða ríkjum í andaheiminum:

„Tekið er við öndum þeirra, sem réttlátir eru, inn í sæluríki, sem nefnist paradís, ríki hvíldar og friðar, þar sem þeir hvílast frá öllu erfiði, áhyggjum og sorg.

Og þá ber svo við, að andar hinna ranglátu, já, þeirra, sem illir eru – því að sjá, þeir eiga engan hlut eða hlutdeild í anda Drottins, því að sjá, þeir kusu hin illu verk framar hinum góðu, þess vegna komst andi djöfulsins í þá og náði eignarhaldi á húsi þeirra – þeim verður vísað út í ystu myrkur, og þar verður grátur og kvein og gnístran tanna, og það vegna þeirra eigin misgjörða, því að þeir eru fjötraðir vilja djöfulsins.

En þetta er ástand sálna hinna ranglátu, já, í myrkri, skelfingu og ótta bíða þeir þess, að brennandi og heilög reiði Guðs komi yfir þá. Þannig haldast þeir í þessu ástandi, eins og hinir réttlátu í paradís, fram að upprisutíma sínum“ (Al 40:12–14).

Öndunum er skipt í samræmi við hreinleika lífs þeirra og hlýðni við vilja Drottins meðan þeir voru á jörðu. Hinir réttlátu og ranglátu eru aðskildir (sjá 1 Ne 15:28–30), en andar þeirra geta þroskast af einu stigi á annað, þegar þeir læra reglur fagnaðarerindisins og lifa eftir þeim. Andarnir í paradís geta kennt öndunum í varðhaldinu (sjá K&S 138).

Paradís

Samkvæmt spámanninum Alma hvílast réttlátir andar frá jarðneskum málum og sorg. Engu að síður fást þeir við að vinna verk Drottins. Joseph F. Smith forseti sá í sýn, að þegar í stað eftir að Jesús Kristur var krossfestur, heimsótti hann hina réttlátu í andaheiminum. Hann útnefndi sendiboða, veitti þeim kraft og valdsumboð, og fól þeim á hendur að „flytja ljós fagnaðarerindisins til þeirra, sem í myrkri voru, já, til allra anda mannanna“ (K&S 138:30).

Kirkjan hefur verið skipulögð í andaheiminum og prestdæmishafar halda áfram með ábyrgðarskyldur sínar þar (sjá K&S 138:30). Wilford Woodruff forseti kenndi: „Hið sama prestdæmi er til staðar handan hulunnar. … Hver postuli, allir hinir sjötíu, hver öldungur, o.s.frv., sem dáið hefur í trú, mun jafnskjótt og hann kemur í gegnum huluna koma inn í þjónustuverkið“ (Deseret News, 25. jan. 1882, 818).

Fjölskyldusambönd eru einnig mikilvæg. Jedediah M. Grant forseti, ráðgjafi Brighams Young, sá andaheiminn og lýsti fyrir Heber C. Kimball því skipulagi sem þar er: „Hann sagði að fólkið sem hann sá þar væri skipulagt á fjölskyldugrundvelli. … Hann sagði: ‘Þegar ég leit á fjölskyldurnar, þá voru sumar þeirra ekki heilar, … því að ég sá fjölskyldur sem ekki var leyft að koma og dvelja saman, vegna þess að þær höfðu ekki heiðrað köllun sína hér’ “ (Deseret News, 10. des. 1856, 316-17).

Andavarðhald

Pétur postuli talaði um andaheiminn eftir dauðann sem varðhald, og það er hann fyrir suma (sjá 1 Pét 3:18–20). Í andavarðhaldinu eru andar þeirra sem hafa ekki enn meðtekið fagnaðarerindi Jesú Krists. Þessir andar hafa sjálfræði og geta látið lokkast bæði af góðu og illu. Ef þeir taka á móti fagnaðarerindinu og helgiathöfnunum sem framkvæmdar eru fyrir þá í musterunum, mega þeir yfirgefa andavarðhaldið og dvelja í paradís.

Einnig eru í andavarðhaldinu þeir sem höfnuðu fagnaðarerindinu eftir að það var boðað þeim, annað hvort á jörðu eða í andavarðhaldinu. Þessir andar búa við aðstæður sem þekktar eru sem víti. Þeir hafa fjarlægt sig frá náð Jesú Krists, sem sagði: „Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast – En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda“ (K&S 19:16–18). Eftir að hafa þjáðst fyrir syndir sínar, mun þeim leyft, með friðþægingu Jesú Krists, að erfa lægsta stig dýrðar, sem er jarðneska ríkið.

  • Hvernig eru aðstæður í andaheiminum hliðstæðar aðstæðunum í þessu lífi?

Viðbótarritningargreinar