Bækur og lexíur
Kafli 14: Skipulag prestdæmisins


Kafli 14

Skipulag prestdæmisins

Ljósmynd
Three priests (one kneeling, two standing) while the sacrament is being blessed.

Prestdæmið er á jörðu í dag

Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er stjórnað með prestdæminu. Prestdæmið, sem er alltaf tengt verki Guðs, „helst í kirkju Guðs með öllum kynslóðum og er án upphafs daganna eða loka áranna“ (K&S 84:17). Það er nú á jörðu. Ungir menn og aldnir eru skírðir inn í kirkjuna, og þegar þeir dæmast verðugir eru þeir vígðir til prestdæmisins. Þeim er veitt vald til að starfa fyrir Drottin og vinna verk hans á jörðu.

Tvær deildir prestdæmisins

  • Hvernig fengu Melkísedeks- og Aronsprestdæmið nöfn sín?

Prestdæminu er skipt í tvo hluta: Melkísedeksprestdæmið og Aronsprestdæmið (sjá K&S 107:1). „Hið fyrra nefnist Melkísedeksprestdæmi, vegna þess hve Melkísedek var mikils metinn háprestur.

Fyrir hans daga nefndist það Hið heilaga prestdæmi eftir reglu Guðssonarins.

En vegna virðingar eða lotningar fyrir nafni hinnar æðstu veru og til að forðast stöðugar endurtekningar á nafni hans, nefndi kirkjan til forna það prestdæmi eftir Melkísedek, eða Melkísedeksprestdæmi“ (K&S 107:2–4; leturbreyting í frumtexta).

Lægra prestdæmið er viðauki við Melkísedeksprestdæmið. Það nefnist Aronsprestdæmið vegna þess að það var veitt Aron og sonum hans í alla ættliði. Þeir sem hafa Aronsprestdæmið hafa vald til að starfa að ytri helgiathöfnum sakramentis og skírnar (Sjá K&S 20:46; 107:13–14, 20.)

Þeir sem hafa Melkísedeksprestdæmið hafa kraft og vald til að leiða kirkjuna og stjórna boðun fagnaðarerindisins um allan heim. Þeir hafa yfirumsjón með öllu andlegu starfi í kirkjunni (sjá K&S 84:19–22; 107:8). Þeir stjórna því starfi sem unnið er í musterunum; þeir stjórna kirkjudeildum, greinum, stikum og trúboðum. Útvalinn spámaður Drottins, forseti kirkjunnar, er ráðandi háprestur yfir Melkísedeksprestdæminu (sjá K&S 107:65–67).

Lyklar prestdæmisins

  • Hver er munurinn á prestdæminu og lyklum prestdæmisins? Hvaða prestdæmisleiðtogar meðtaka lykla?

Það er mismunur á því að vera vígður í embætti prestdæmisins og að meðtaka lykla prestdæmisins. Joseph F. Smith forseti kenndi:

„Prestdæmið er almennt séð valdsumboðið sem veitt er mönnum til að starfa í nafni Guðs. Hverjum manni sem vígður er til einhvers stigs prestdæmisins er veitt þetta valdsumboð.

En það er nauðsynlegt að hvert verk undir því valdsumboði sé unnið á réttum tíma og stað, á réttan hátt, og að réttri skipan. Krafturinn til að stjórna því verki myndar lykla prestdæmisins. Í heild sinni eru lyklarnir á hendi aðeins einnar persónu á sama tíma, spámanns og forseta kirkjunnar. Hann getur úthlutað hvaða hluta þessa kraftar sem er til annars, í því tilviki hefur sú persóna lykla þess tiltekna verks. Þannig hefur musterisforseti, stikuforseti, biskup deildar, trúboðsforseti, sveitarforseti, hver um sig lykla þess verks sem framkvæmt er í þeirri tilteknu einingu eða á þeim stað. Prestdæmi þess manns er ekki aukið með þeirri sérstöku útnefningu; … forseti öldungasveitar, til dæmis, hefur ekkert meira prestdæmi en aðrir meðlimir þeirrar sveitar. En hann hefur kraft til að stjórna formlegu starfi sem framkvæmt er í … sveitinni, eða með öðrum orðum, lykla þess hluta af því starfi“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith [1998], 141; skáletrun í frumtexta).

  • Hvernig tryggja prestdæmislyklarnir öryggi kirkjunnar?

Embætti og skyldur Aronsprestdæmisins

  • Á hvern hátt þjóna Aronsprestdæmisleiðtogar?

Þegar Aronsprestdæmið er veitt manni eða pilti, er hann vígður til embættis innan þess prestdæmis. Embætti Aronsprestdæmisins eru djákni, kennari, prestur og biskup. Hverju embætti fylgja skyldur og ábyrgð. Yfir hverri sveit er sveitarforseti, sem kennir meðlimunum skyldur sínar og felur þeim verkefni.

Sumir menn ganga í kirkjuna eða verða virkir eftir að þeir eru komnir yfir venjulegt aldursmark til að meðtaka embætti þessa prestdæmis. Þeir eru yfirleitt vígðir til embættis innan Aronsprestdæmisins en geta fljótlega fengið vígslu til annarra embætta ef þeir haldast verðugir.

Djákni

Vígja má í embætti djákna pilt, sem skírður hefur verið og staðfestur meðlimur kirkjunnar og reynst hefur verðugur, þegar hann er tólf ára gamall. Djáknum er yfirleitt falið að úthluta sakramentinu til kirkjumeðlima, hirða um kirkjubyggingar og lóðir, vera boðberar prestdæmisleiðtoga og sjá um sérstök störf, t. d. söfnun föstufórna.

Kennari

Verðugan pilt má vígja til kennara þegar hann er fjórtán ára eða eldri. Kennarar hafa allar skyldur, réttindi og kraft djáknaembættis, auk þeirra sem við bætast. Kennarar í Aronsprestdæminu eiga að hjálpa kirkjumeðlimum að lifa eftir boðorðunum (sjá K&S 20:53–59). Til að hjálpa þeim að uppfylla þá ábyrgð, er þeim venjulega falið að þjóna sem heimiliskennarar. Þeir heimsækja kirkjumeðlimi á heimilum þeirra og hvetja þá til að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins. Þeim hefur verið boðið að kenna sannleik fagnaðarerindisins (sjá K&S 42:12). Kennarar tilhafa einnig brauðið og vatnið fyrir þjónustu sakramentisins.

Prestur

Verðugan pilt má vígja til prests þegar hann er sextán ára eða eldri. Prestar hafa allar skyldur, réttindi og kraft embætta djákna og kennara auk þeirra sem við bætast (sjá K&S 20:46–51). Prestur má skíra. Hann má einnig þjónusta sakramentið. Hann má vígja aðra presta, kennara og djákna. Prestur má stjórna fundum, þegar enginn Melkísedeksprestdæmishafi er viðstaddur. Hann á að boða fagnaðarerindið þeim sem umhverfis hann eru.

Biskup

Biskup er vígður og settur í embætti til að stjórna Aronsprestdæminu í deildinni. Hann er forseti prestasveitarinnar (sjá K&S 107:87–88). Þegar hann starfar í embætti sínu fyrir Aronsprestdæmið, sér hann fyrst og fremst um veraldleg mál, t. d. fjármál og skýrslur og stjórnar umönnun fátækra og þurfandi (sjá K&S 107:68).

Biskup er einnig vígður háprestur, svo að hann geti verið í forsæti yfir öllum meðlimum deildarinnar (sjá K&S 107:71–73; 68:15). Biskup er dómari í Ísrael (sjá K&S 107:74) og á viðtöl við kirkjuþegna vegna musterismeðmæla, prestdæmisvígslna og annarra þarfa. Það er réttur hans að hafa gjöf dómgreindar.

  • Hvernig hafið þið verið blessuð með þjónustu Aronsprestdæmishafa?

Embætti og skyldur Melkísedeksprestdæmisins

  • Á hvern hátt þjóna Melkísedeksprestdæmishafar?

Embætti Melkísedeksprestdæmisins eru öldungur, háprestur, patríarki, einn hinna sjötíu og postuli.

Öldungur

Öldungar eru kallaðir til að kenna, útskýra, hvetja, skíra og vaka yfir kirkjunni (sjá K&S 20:42). Allir Melkísedeksprestdæmishafar eru öldungar. Þeir hafa vald til að veita gjöf heilags anda með handayfirlagningu (sjá K&S 20:43). Öldungar eiga að stjórna samkomum í kirkjunni eins og heilagur andi leiðir þá (sjá K&S 20:45; 46:2). Öldungar geta veitt sjúkum þjónustu (sjá K&S 42:44) og blessað lítil börn (sjá K&S 20:70). Öldungar geta verið í forsæti á kirkjusamkomum þegar enginn háprestur er viðstaddur (K&S 107:11).

Háprestur

Hápresti er veitt vald til að starfa í kirkjunni og stjórna andlegum málum (sjá K&S 107:10, 12). Hann getur einnig starfað í öllum lægri embættum (sjá K&S 68:19). Stikuforsetar, trúboðsforsetar, háráðsmenn, biskupar og aðrir leiðtogar kirkjunnar eru vígðir háprestar.

Patríarki

Patríarkar eru vígðir af aðalvaldhöfum kirkjunnar eða af stikuforsetum þegar ráð hinna tólf heimilar það, til að veita kirkjuþegnum sérstakar patríarkablessanir. Þær blessanir veita okkur nokkurn skilning á köllun okkar á jörðu. Þær eru orð Drottins til okkar persónulega. Patríarkar eru einnig vígðir háprestar (sjá K&S 107:39–56).

Hinir sjötíu

Hinir sjötíu eru sérstök vitni um Jesú Krist til heimsins og aðstoða við að byggja upp og stýra kirkjunni undir stjórn Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar (sjá K&S 107:25, 34, 38, 93–97).

Postuli

Postuli er sérstakt vitni nafns Jesú Krists um allan heim (sjá K&S 107:23). Postularnir stjórna málefnum kirkjunnar um gjörvallan heim. Þeir sem eru vígðir til embættis postula í Melkísedeksprestdæminu eru yfirleitt settir í embætti í Tólfpostulasveitinni. Hver þeirra fær alla lykla Guðsríkis á jörðu en aðeins yfirpostulinn, sem er forseti kirkjunnar, notar í raun alla lyklana. Hinir starfa undir stjórn hans.

  • Hvernig hefur þjónusta Melkísedeksprestdæmishafa orðið ykkur til blessunar?

Sveitir Aronsprestdæmisins

Drottinn hefur mælt svo fyrir að prestdæmishafar skuli skipulagðir í sveitir. Sveit er hópur bræðra sem gegna sama prestdæmisembætti.

Í Aronsprestdæminu eru þrjár sveitir:

  1. Djáknasveitin, en í henni eru mest 12 djáknar (sjá K&S 107:85). Biskup kallar forsætisráð djáknasveitarinnar úr hópi þeirra bræðra sem í henni eru.

  2. Kennarasveitin, en í henni eru mest 24 kennarar (sjá K&S 107:86). Biskup kallar forsætisráð kennarasveitarinnar úr hópi þeirra bræðra sem í henni eru.

  3. Prestasveitin, en í henni eru mest 48 prestar (sjá K&S 107:87–88). Biskup þeirrar deildar sem sveitin tilheyrir er í forsæti fyrir sveitinni. Biskupinn er háprestur og tilheyrir því einnig sveit háprestanna.

Hvenær sem fjöldi hverrar sveitar fer yfir tiltekinn fjölda, má skipta sveitinni.

Sveitir Melkísedeksprestdæmisins

Á almennum grunni kirkjunnar, mynda meðlimir Æðsta forsætisráðsins sveit, sem og postularnir tólf. Hinir sjötíu eru einnig skipulagðir í sveitir.

Sem staðarleiðtogar – í deildum og greinum og stikum og umdæmum – eru Melkísedeksprestdæmishafar skipulagðir í eftirfarandi sveitir:

Öldungasveit

Hver öldungasveit „er stofnuð fyrir fastaþjóna. Þó mega þeir ferðast, en samt eru þeir vígðir sem fastaþjónar“ (K&S 124:137). Þeir vinna flest störf sín nærri heimilum sínum. Í sveitinni eru mest 96 öldungar, undir stjórn forsætisráðs sveitarinnar. Þegar komið er yfir þann fjölda, má skipta sveitinni.

Háprestasveit

Í hverri sveit eru allir háprestar sem búa innan marka stikunnar, þar með taldir patríarkar og biskupar. Stikuforseti og ráðgjafar hans mynda forsætisráð sveitarinnar. Háprestar í hverri deild eru skipulagðir í hóp og hópleiðtogi meðal þeirra valinn.

Mikilvægi prestdæmissveita

  • Hvernig geta prestdæmissveitir hjálpað við að styrkja einstaklinga og fjölskyldur?

Þegar einhver maður eða piltur er vígður til prestdæmisins tilheyrir hann sjálfkrafa einhverri prestdæmissveit. Þaðan í frá og alla ævi er til þess ætlast að hann tilheyri prestdæmissveit í samræmi við embætti sitt (sjá Boyd K. Packer, “What Every Elder Should Know – and Every Sister as Well: A Primer on Principles of Priesthood Government,“ Ensign, febr. 1993, bls. 9).

Ef prestdæmissveit starfar eðlilega hljóta meðlimir hennar hvatningu, blessun, bræðralag og fræðslu um fagnaðarerindið frá leiðtogum sínum. Jafnvel þótt að maður kunni að vera leystur frá kirkjuköllun, svo sem kennari, sveitarforseti, háráðsmaður eða stikuforseti, breytist aðild hans að sveitinni ekki. Líta ætti á aðild að prestdæmissveit sem heilög forréttindi.

Aðildarfélög tengd prestdæminu

  • Hvernig geta aðildarfélög tengd prestdæminu hjálpað við að styrkja einstaklinga og fjölskyldur?

Allar skipulagðar einingar í kirkjunni starfa undir leiðsögn prestdæmisleiðtoga og hjálpa þeim að framkvæma verk Drottins. Forsætisráð Líknarfélags deildarinnar, Stúlknafélags, Piltafélags, Barnafélags og sunnudagaskóla starfa til dæmis undir leiðsögn biskupsráðsins. Þessar skipulagseiningar eru nefndar aðildarfélög tengd prestdæminu.

  • Hvaða hlutverk hefur þú sem einstaklingur við að hjálpa prestdæmissveitum og aðildarfélögum að ná árangri?

Viðbótarritningargreinar

  • Al 13:1–19 (á hvern hátt menn eru vígðir til prestdæmisins)

  • Matt 16:19; K&S 68:12 (postulum veittir prestdæmislyklar og vald; það sem þeir innsigla á jörðu er innsiglað á himnum)

  • K&S 20:38–67 (skyldur öldunga, presta, kennara, djákna)

  • K&S 84; 107 (opinberanir um prestdæmið)

  • 1 Kor 12:14–31 (öll embætti í prestdæminu eru mikilvæg)