Bækur og lexíur
Kafli 4: Frelsi til að velja


Kafli 4

Frelsi til að velja

Ljósmynd
Man standing at crossroads

Sjálfræði er eilíf regla

  • Hverju munduð þið svara, ef einhver spyrði ykkur hvers vegna mikilvægt sé að hafa sjálfræði?

„Þó mátt þú sjálfur velja, því að það er þér gefið“ (HDP Móse 3:17).

Guð hefur sagt okkur með spámönnum sínum, að okkur sé frjálst að velja milli góðs og ills. Við megum velja frelsi og eilíft líf með því að fylgja Jesú Kristi. Við höfum einnig frelsi til að velja ánauð og dauða með því að fylgja Satan. (Sjá 2 Ne 2:27.) Rétturinn til að velja milli góðs og ills og til að framkvæma fyrir okkur sjálf er nefndur sjálfræði.

Í fortilverunni höfðum við siðferðilegt sjálfræði. Einn tilgangur jarðlífsins er að sýna hvað við munum velja (sjá 2 Ne 2:15–16). Ef við værum neydd til að velja hið rétta, værum við ófær um að sýna hvað við mundum sjálf velja. Þar að auki höfum við meiri ánægju af því sem við gerum, þegar við höfum tekið okkar eigin ákvarðanir.

Sjálfræði var ein af þeim grundvallarreglum sem upp komu á þingi himna í fortilverunni. Það var ein af meginorsökunum fyrir átökunum milli fylgjenda Krists og fylgjenda Satans. Satan sagði: „Sjá, hér er ég, send mig og ég mun vera sonur þinn og ég mun endurreisa allt mannkyn, svo að ekki glatist ein sál, og vissulega mun ég gera það. Veit mér þess vegna heiður þinn“ (HDP Móse 4:1). Er hann sagði þetta reis hann „gegn [Guði] og reyndi að tortíma sjálfræði mannsins“ (HDP Móse 4:3). Boði hans var hafnað, og honum var varpað niður af himni ásamt fylgjendum hans (sjá K&S 29:36–37).

Sjálfræði er nauðsynlegur hluti af sáluhjálparáætluninni

Sjálfræðið gerir líf okkar á jörðu að reynslutímabili. Þegar skipulögð var jarðnesk sköpun barna Guðs, sagði Guð: „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim“ (Abr 3:25). Án gjafar sjálfræðis hefði okkur ekki verið kleift að sýna himneskum föður hvort við mundum gera allt sem hann byði okkur að gera. Vegna þess að við getum valið, erum við ábyrg gerða okkar (sjá He 14:30–31).

Þegar við veljum að lifa samkvæmt áætlun Guðs, styrkist sjálfræði okkar. Rétt val eykur kraft okkar til að taka fleiri réttar ákvarðanir.

Þegar við hlýðum hverju boðorði föður okkar, vex viska okkar og persónustyrkur. Trú okkar eykst. Okkur reynist léttara að taka réttar ákvarðanir.

Við hófum að taka ákvarðanir sem andabörn í návist himnesks föður okkar. Ákvarðanir okkar þar gerðu okkur verðug þess að koma til jarðar. Himneskur faðir okkar vill að við vöxum í trú, krafti, þekkingu, visku og öllum öðrum góðum hlutum. Ef við höldum boðorð hans og tökum réttar ákvarðanir, munum við læra og skilja. Við verðum lík honum (sjá K&S 93:28).

  • Hvernig hjálpar rétt ákvarðanataka okkur að taka fleiri réttar ákvarðanir?

Sjálfræðið krefst þess að um val sé að ræða

  • Hvers vegna er andstaða nauðsynleg?

Við getum ekki valið réttlæti nema andstæður góðs og ills séu frammi fyrir okkur. Lehí, mikill spámaður Mormónsbókar, sagði syni sínum Jakobi, að til þess að eilífur tilgangur Guðs nái fram að ganga, séu „andstæður nauðsynlegar í öllu. Væri ekki svo … næði réttlætið ekki fram að ganga, ranglæti væri ekki til, né heldur heilagleiki eða vansæld – hvorki gott né illt“ (2 Ne 2:11).

Guð leyfir Satan að standa gegn hinu góða. Guð sagði um Satan:

„Ég [lét] varpa honum niður.

Og hann varð Satan, já, sjálfur djöfullinn, faðir allra lyga, til að blekkja og blinda alla mennina og leiða þá ánauðuga að vilja sínum, já, alla þá, sem ekki hlýða á rödd mína“ (HDP Móse 4:3–4).

Satan gerir allt sem hann getur til þess að eyðileggja verk Guðs. Hann sækist eftir „vansæld alls mannkyns, … Hann sækist eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann er sjálfur“ (2 Ne 2:18, 27). Hann elskar okkur ekki. Hann leiðir engan til góðra verka (sjá Moró 7:17). Hann vill ekki að við séum hamingjusöm. Hann vill gera okkur að þrælum sínum. Hann notar margvíslegar blekkingar til að leggja okkur í þrældóm.

Þegar við fylgjum freistingum Satans, takmörkum við val okkar. Eftirfarandi dæmi bendir á hvernig það gerist. Ímyndið ykkur að þið sjáið skilti á ströndinni sem á stendur: „Hætta – hringiða. Ekkert sund leyft hér.“ Okkur kann að finnast þetta vera takmörkun. En er það svo? Við höfum ennþá marga valkosti. Okkur er frjálst að synda einhvers staðar annars staðar. Okkur er frjálst að ganga á ströndinni og tína skeljar. Okkur er frjálst að horfa á sólarlagið. Okkur er frjálst að fara heim. Okkur er einnig frjálst að gefa engan gaum að skiltinu og synda á hættulegum staðnum. En þegar hringiðan hefur einu sinni náð taki á okkur og við drögumst niður, höfum við mjög fáa valkosti. Við getum reynt að sleppa, við getum kallað á hjálp en við gætum drukknað.

Jafnvel þótt okkur sé frjálst að velja hvað við tökum til bragðs, er okkur ekki frjálst að velja afleiðingarnar af gerðum okkar. Afleiðingarnar, hvort heldur góðar eða slæmar, fylgja sem náttúruleg niðurstaða af hverju einasta vali okkar (sjá Gal 6:7; Op 22:12).

Himneskur faðir hefur sagt okkur hvernig við getum forðast að lenda í ánauð Satans. Við verðum að vera á verði og biðja ávallt, biðja Guð að hjálpa okkur að standast freistingar Satans (sjá 3 Ne 18:15). Himneskur faðir mun ekki leyfa að okkar sé freistað um megn fram (sjá 1 Kor 10:13; Al 13:28).

Boðorð Guðs beina okkur frá hættunni og í átt til eilífs lífs. Með því að velja viturlega munum við öðlast upphafningu, eilífa framþróun og njóta fullkominnar hamingju (sjá 2 Ne 2:27–28).

  • Nefnið nokkur dæmi um aðgerðir sem takmarka val okkar? Nefnið nokkur dæmi um aðgerðir sem veita okkur meira frelsi?

Viðbótarritningargreinar