Bækur og lexíur
Kafli 25: Fasta


Kafli 25

Fasta

Ljósmynd
A Fijian man in an outdoor setting. He is holding a copy of the scriptures and has his eyes closed in prayer.

Hvernig fastað er á réttan hátt?

  • Hvað getum við gert til að gera föstu að gleðilegri reynslu?

Allt frá dögum Adams hefur lýður Guðs fastað til að hjálpa þeim að komast nær honum og tilbiðja hann. Jesús sýndi mikilvægi föstunnar með eigin fordæmi (sjá Lúk 4:1–4). Í síðari daga opinberunum sjáum við að Drottinn ætlast enn til að fólk hans fasti og biðji oft (sjá K&S 88:76).

Fasta merkir að vera án fæðu og drykkjar. Fasta, öðru hverju, er holl líkamanum og gerir huga okkar frjórri.

Frelsarinn kenndi okkur að áhrifarík fasta væri meira en aðeins að vera án fæðu og drykkjar. Við verðum einnig að einbeita okkur að andlegum efnum.

Við ættum að biðjast fyrir þegar við föstum

Bæn er nauðsynlegur hluti af föstu. Í ritningunum er iðulega rætt samtímis um bænir og föstu. Föstunni eiga að fylgja einlægar bænir og við ættum að byrja og enda föstuna með bæn.

Við ættum að fasta í ákveðnum tilgangi

Tilgangur föstunnar getur verið margvíslegur. Við getum sigrast á veikleika eða vandamálum með föstu og bænum. Stundum viljum við ef til vill fasta og biðja öðrum til hjálpar og leiðsagnar, til dæmis vegna einhvers í fjölskyldunni sem er sjúkur og þarfnast blessunar (sjá Mósía 27:22–23). Með föstunni getum við lært að þekkja sannleikann á sama hátt og spámaðurinn Alma í Mormónsbók. Hann sagði: „Ég hef fastað og beðið í marga daga til að öðlast vitneskju um þetta sjálfur. Og nú veit ég sjálfur, að það er sannleikur, því Drottinn Guð hefur opinberað mér það með sínum heilaga anda“ (Al 5:46).

Við getum fastað til að hjálpa öðrum að snúast til trúar á sannleikann. Fasta getur hughreyst okkur á tímum sorgar og trega (sjá Al 28:4–6). Fasta getur gert okkur auðmjúk og fært okkur nær himneskum föður (sjá He 3:35).

Tilgangur okkar með föstunni á ekki að vera að vekja athygli annarra á okkur. Drottinn ráðlagði:

„Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta.

Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt, svo menn verði ekki varir við, að þú fastar“ (Matt 6:16–18).

Við eigum að vera glaðleg þegar við föstum og ekki auglýsa föstu okkar fyrir öðrum.

  • Hvernig hefur viðhorf okkar áhrif á reynslu okkar af því að fasta?

Dagur föstunnar

Einn sunnudag í hverjum mánuði fasta Síðari daga heilagir. Á þeim degi etum við hvorki né drekkum tvær máltíðir í röð. Ef við borðum kvöldverð á laugardagskvöldi, ættum við hvorki að eta né drekka fyrr en við kvöldverð á sunnudegi.

Allir sem líkamlega eru færir um það ættu að fasta. Við ættum að hvetja börn okkar til að fasta eftir að þau hafa verið skírð en við ættum aldrei að þvinga þau til þess. Á degi föstunnar ættum við að auðmýkja okkur sjálf frammi fyrir Drottni í föstu og bæn. Þetta er dagurinn til að biðja um fyrirgefningu á syndum okkar, kraft til að sigrast á veikleikum okkar og fyrirgefa öðrum.

Á föstusunnudegi koma kirkjuþegnar saman og meðtaka sakramentið. Þeir styrkja sig og aðra með því að gefa vitnisburð á föstu- og vitnisburðarsamkomu.

  • Hvernig hafið þið notið góðs af því að deila vitnisburði ykkar á föstu- og vitnisburðarsamkomu? Hvernig hefur það orðið ykkur til góðs að heyra aðra deila vitnisburði sínum?

Föstufórnir

  • Hvers vegna gefum við föstufórnir?

Þegar við í hverjum mánuði föstum, biður Drottinn okkur að hjálpa nauðstöddum. Ein leið til að gera það er að gefa í gegnum rétta prestdæmisvaldhafa peningana sem við hefðum eytt í matvæli fyrir máltíðirnar tvær. Við eigum að gefa eins rausnarlega og við getum. Með föstufórnum okkar tökum við þátt í því með Drottni að annast þarfir þeirra systkina okkar sem ólánsamari eru.

Við hljótum blessanir þegar við föstum

  • Hvaða blessanir getum við hlotið þegar við föstum á réttan hátt?

Jesaja, einn spámanna Gamla testamentisins, ritaði um ríkuleg loforð Drottins til þeirra sem fasta og hjálpa nauðstöddum. Okkur er lofað friði, bættri heilsu, og andlegri leiðsögn. Jesaja segir okkur frá blessunum sem koma þegar við föstum: „Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér. Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp, og hann segja: Hér er ég!“ (Jes 58:8–9).

Fastan bætir líf okkar og veitir okkur aukinn styrk. Hún hjálpar okkur að lifa eftir öðrum reglum fagnaðarerindisins vegna þess að hún færir okkur nær Drottni.

Fastan kennir sjálfstjórn

Fastan hjálpar okkur að öðlast viljastyrk. Þegar við föstum réttilega, lærum við að hafa stjórn á löngunum okkar og ástríðum. Við verðum örlítið sterkari eftir að hafa sannað fyrir okkur sjálfum, að við höfum sjálfstjórn. Ef við kennum börnum okkar að fasta, munu þau þroska með sér viljastyrk til að sigrast á stærri freistingum síðar í lífi sínu.

Fastan veitir okkur andlegan kraft

Þegar við föstum skynsamlega og með bæn, styrkjum við trú okkar. Með þeirri trú munum við hafa meiri andlegan kraft. Alma (spámaður í Mormónsbók) segir til dæmis söguna af því er hann hitti aftur syni Mósía mörgum árum eftir hin kraftaverkakenndu trúskipti þeirra. Hann gladdist innilega þegar hann komst að því að þessir vinir hans höfðu styrkt trú sína og öðlast mikinn andlegan kraft. Þann kraft höfðu þeir öðlast vegna þess að „þeir höfðu beðið mikið og fastað, og höfðu þess vegna anda spádóms og opinberunar“ (Al 17:3).

Synir Mósía höfðu prédikað í fjórtán ár fyrir Lamanítum. Vegna þess að synir Mósía höfðu fastað og beðið, jók andi Drottins kraft orða þeirra. Þetta veitti þeim mikinn árangur í trúboðsstarfi þeirra. (Sjá Al 17:4.)

Frelsarinn hefur sagt við þá sem fasta á réttan hátt: „Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér“ (Matt 6:18).

  • Hvernig getur fastan aukið okkur andlegan kraft til að standast freistingar? til að meðtaka opinberun? til að vinna réttlát verk?

Viðbótarritningargreinar