Bækur og lexíur
Kafli 21: Gjöf heilags anda


Kafli 21

Gjöf heilags anda

Ljósmynd
A young girl being confirmed. Two men are standing behind her with their hands on her head.

Heilagur andi

Í kafla 7 lærðum við að heilagur andi er meðlimur Guðdómsins. Hann er „andavera“ (K&S 130:22). Hann hefur ekki líkama af holdi og beinum. Áhrifa hans getur gætt hvarvetna samtímis. Þjónusta heilags anda er að bera vitni um föðurinn og soninn og um sannleiksgildi allra hluta. Enn fremur hreinsar heilagur andi, eða helgar, okkur til að við fáum dvalið í návist Guðs. Heilagur andi hreinsar hjarta okkar þannig að við höfum ekki lengur löngun til að gera illt.

Munur er á heilögum anda og gjöf heilags anda. Í þessum kafla munum við læra hvað gjöf heilags anda er og hvernig við getum meðtekið þá miklu gjöf frá Guði.

Gjöf heilags anda

  • Hvaða munur er á heilögum anda og gjöf heilags anda?

Gjöf heilags anda er þau forréttindi – veitt fólki sem hefur sett trú sína á Jesú Krist, verið skírt, og staðfest sem þegnar kirkjunnar – að meðtaka áframhaldandi leiðsögn og innblástur frá heilögum anda.

Joseph Smith sagði okkur trúa því að menn njóti gjafar heilags anda engu minna nú en á dögum hinna fyrstu postula. Við trúum á þessa gjöf í fyllingu hennar, krafti, mikilleika og dýrð (sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 97–98).

Menn geta þó um stundarsakir notið leiðsagnar heilags anda án þess að meðtaka gjöf heilags anda (sjá K&S 130:23). Hins vegar mun sú leiðsögn ekki verða samfelld nema viðkomandi sé skírður og taki á móti handayfirlagningu til veitingar á gjöf heilags anda. Við lesum í Postulasögunni 10 að rómverski hermaðurinn Kornelíus meðtók innblástur frá heilögum anda og vissi því að fagnaðarerindi Jesú Krists væri sannleikur. En Kornelíus meðtók ekki gjöf heilags anda fyrr en eftir að hann var skírður. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi, að ef Kornelíus hefði ekki látið skírast og meðtekið gjöf heilags anda, hefði heilagur andi yfirgefið hann (sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith, 97).

Fyrir kraft heilags anda vita nú margir utan kirkjunnar að Mormónsbók er sönn (sjá Moró 10:4–5). En þeir glata þeim vitnisburðarvotti, ef þeir meðtaka ekki gjöf heilags anda. Þeir njóta ekki þeirrar sömu stöðugu fullvissu og þeir sem eiga gjöf heilags anda.

Hljóta gjöf heilags anda

  • Hvað verðum við að gera til að hljóta stöðugt samfélag heilags anda?

Eftir að fólk hefur látið skírast er það staðfest sem kirkjuþegnar og því veitt gjöf heilags anda með handayfirlagningu. Drottinn sagði: „Hverja þá, sem trúa, skuluð þér staðfesta í kirkju minni með handayfirlagningu, og ég mun veita þeim gjöf heilags anda“ (K&S 33:15).

Allir verðugir öldungar kirkjunnar geta veitt öðrum gjöf heilags anda, eftir að hafa fengið heimild til þess. Þó er engin trygging fyrir því að viðtakandi hljóti innblástur og leiðsögn heilags anda, aðeins vegna þess að öldungarnir lögðu hendur sínar á höfuð hans eða hennar. Hver og einn verður að „taka á móti heilögum anda.“ Það táknar að heilagur andi veitist aðeins þeim sem er verðugur og þráir hjálp þessa himneska boðbera.

Til að reynast verðug hjálpar heilags anda verðum við í einlægni að leitast við að hlýða öllum boðorðum Guðs. Við verðum að halda hugsunum okkar og gjörðum hreinum.

Þekkja áhrif heilags anda

Venjulega eru samskipti heilags anda við okkur kyrrlát. Til áhrifa hans er oft vísað sem „mildrar hljóðlátrar raddar“ (sjá 1 Kon 19:9–12; He 5:30; K&S 85:6). Boyd K. Packer forseti útskýrði: „Heilagur andi talar með röddu sem þú finnur fremur en heyrir. … Þótt við tölum um að ‘hlusta’ á hvísl andans, er þó oftast lýst andlegum áhrifum með því að segja, ‘Ég fékk þá tilfinningu … ‘ “ Hann bætti við: „Þessi rödd andans talar mjúklega, segir okkur hvað við eigum að gera eða segja, eða hún kann að hvetja til gætni eða vara við“ (í Conference Report, okt. 1994, 77; eða Ensign, nóv. 1994, 60).

Ein stærsta gjöf Guðs

  • Hvaða blessana getum við orðið aðnjótandi með gjöf heilags anda?

Gjöf heilags anda er ein af dýrmætustu gjöfum Guðs til okkar. Með heilögum anda getum við vitað að Guð lifir, að Jesús er Kristur og að kirkja hans hefur verið endurreist á jörðu. Við getum fengið ábendingar heilags anda sem sýna okkur allt sem okkur ber að gera (sjá 2 Ne 32:5). Heilagur andi helgar okkur til að búa okkur undir návist Guðs. Við getum notið gjafa andans (sjá kafla 22 í þessari bók). Þessi mikla gjöf frá himneskum föður getur einnig fært okkur frið í hjarta og skilning á því sem Guðs er (sjá 1 Kor 2:9–12).

  • Hvers vegna er gjöf heilags anda ein af dýrmætustu gjöfum Guðs til okkar?

Viðbótarritningargreinar