Bækur og lexíur
Kafli 32: Tíund og fórnargjafir


Kafli 32

Tíund og fórnargjafir

Ljósmynd
Nine coins in a stack with the tenth coin lying next to them. Illustrates the principle of tithing.

Greiðsla tíundar og föstufórna

  • Hvernig sýnir vilji okkar til að greiða tíund og föstufórnir þakklæti okkar til himnesks föður fyrir allar blessanir hans okkur til handa?

Við höfum fengið boðorð sem eiga á allan hátt að búa okkur undir að lifa í návist himnesks föður. Hann hefur séð okkur fyrir leið til að þakka honum fyrir blessanir okkar. Ein þeirra leiða til að þakka honum er að greiða fúslega tíund og fórnargjafir. Þegar við greiðum þær fórnargjafir sýnum við frelsaranum að við elskum hann og viljum hlíta ráðum hans.

  • Með hvaða hætti hjálpar greiðsla tíundar og föstufórnar okkur að þakka föður okkar á himnum?

Hlýðni við tíundarlögmálið

  • Hvað er heiðarleg tíund?

Til forna hlýddu Abraham og Jakob því boðorði, að greiða tíund af arði sínum (sjá Hebr 7:1–10; 1 Mós 14:19–20; 28:20–22).

Á síðari tímum bað spámaðurinn Joseph Smith: „Ó Drottinn, sýn þjónum þínum hve mikils þú krefst af eigum fólks þíns í tíund“ (K&S 119, formáli kaflans). Drottinn svaraði: „Og þetta skal vera upphaf tíundargreiðslu fólks míns. Og eftir það skulu þeir, sem þannig hafa goldið tíund, greiða einn tíunda hluta alls ábata síns árlega, og þetta skal vera þeim gildandi lögmál að eilífu“ (K&S 119:3-4). Æðsta forsætisráðið hefur útskýrt, að „einn tíundi hluti alls ábata þeirra árlega“ vísi til tekna okkar (sjá bréf Æðsta forsætisráðsins, 19. mars 1970).

Þegar við greiðum tíund sýnum við trúfestu okkar við Drottin. Við kennum einnig börnum okkar gildi þessa lögmáls. Þau munu vilja fylgja fordæmi okkar og greiða tíund af öllu fé sem þau afla sér.

  • Að hvaða leyti er tíund fremur regla trúar en regla fjármála?

  • Hvað geta foreldrar gert til að kenna börnum sínum að greiða tíund og skilja mikilvægi þess?

Við eigum að gefa fúslega

  • Hvers vegna er viðhorf okkar mikilvægt er við greiðum tíund?

Það er mikilvægt að gefa fúslega. „Þegar einhver geldur tíund án ánægju glatar hann hluta blessunarinnar. Hann verður að læra að gefa af gleði, fús og ánægður, og þá mun gjöf hans blessuð“ (Stephen L Richards, The Law of Tithing [bæklingur, 1983], 8).

Páll postuli kenndi að mikilvægara sé hvernig við gefum en hvað við gefum. Hann sagði: „Sérhver gefi ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara“ (2 Kor 9:7).

  • Hvað felst í því að vera „glaður gjafari“?

Tíund og aðrar fórnargjafir

  • Með hvaða hætti notar kirkjan tíundarsjóði og aðrar fórnargjafir?

Sem kirkjuþegnar gefum við tíund og aðrar fórnargjafir til Drottins.

Tíund

Kirkjan notar tíundina til margra hluta. Þar má nefna:

  1. Byggja, viðhalda og reka musteri, samkomuhús og aðrar byggingar.

  2. Sjá stikum, deildum og öðrum kirkjueiningum fyrir rekstrarsjóðum. (Þessar einingar nota sjóðina til kirkjulegs starfs, meðal annars til kennslu á fagnaðarerindinu og til félagsstarfs.)

  3. Til hjálpar trúboðsstarfinu.

  4. Til menntunar ungs fólks í skólum kirkjunnar og trúarskóla, yngri og eldri bekk.

  5. Til prentunar og dreifingar á kennsluefni.

  6. Til að stuðla að ættfræði- og musterisstarfi.

Aðrar fórnargjafir

Föstufórnir. Kirkjuþegnar fasta einu sinni í mánuði og eru þá án fæðu og drykkjar sem svarar tveimur máltíðum í röð. Þeir gefa í það minnsta þá peningaupphæð sem þeir hefðu eytt í máltíðirnar tvær. Þeir mega gefa eins ríkulega og þeir geta. Sú gjöf er nefnd föstufórn. Biskupar nota þessar föstufórnir til þess að sjá hinum þurfandi fyrir fæði, húsaskjóli, fatnaði og læknismeðferð (sjá kafla 25 í þessari bók).

Hluti föstunnar er sá, að kirkjuþegnar sækja samkomu sem nefnist föstu- og vitnisburðarsamkoma. Þar deila þeir með öðrum vitnisburði sínum um Krist og fagnaðarerindi hans.

Önnur framlög. Kirkjuþegnar mega leggja fram fé til annars starfs í kirkjunni, svo sem trúboðsstarfs, menntunarsjóðsins, musterisbyggingar og mannúðarhjálpar.

Þjónusta. Kirkjuþegnar fórna einnig tíma sínum, kunnáttu og eigum til hjálpar öðrum. Sú þjónusta gerir kirkjunni mögulegt að hjálpa nauðstöddum kirkjuþegnum og fólki utan kirkjunnar um allan heim, einkum þegar náttúruhamfarir eða aðrar hörmungar verða.

Við erum blessuð þegar við gefum tíund og fórnargjafir

Drottinn lofar að blessa okkur, ef við greiðum af trúmennsku tíund okkar og fórnargjafir. Hann sagði: „Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun“ (Mal 3:10).

Síðari daga opinberun segir frá annarri blessun til þeirra sem greiða tíund: „Sannlega er það fórnar- og tíundardagur fólks míns, því að sá, sem geldur tíund, mun ekki brenna við komu hans“ (K&S 64:23).

Blessanirnar, sem okkur er heitið, eru bæði efnislegar og andlegar. Ef við gefum fúslega mun himneskur faðir sjá okkur fyrir daglegum þörfum, fæði, klæði og húsaskjóli. Talandi til Síðari daga heilagra á Filippseyjum, sagði Gordon B. Hinckley forseti, að ef fólkið „vill taka á móti fagnaðarerindinu og lifa eftir því, greiða tíund sína og föstufórnir, jafnvel þótt það séu lágar upphæðir, mun Drottinn halda sín fornu lögmál gagnvart því, og það mun hafa hrísgrjón í skálum sínum og föt til að klæðast og þak yfir höfuð sitt. Ég sé enga aðra lausn. Þau þarfnast kraftar sem er æðri öllum jarðneskum kröftum til að lyfta þeim upp og hjálpa þeim“ (“Inspirational Thoughts,“ Ensign, ágúst 1997, 7). Drottinn mun einnig hjálpa okkur að vaxa „í þekkingu á Guði, í vitnisburði, í krafti til að lifa eftir fagnaðarerindinu og hafa áhrif á fjölskyldu okkar til hins sama“ (Teachings of Presidents of the Church: Heber J. Grant [2002], 124).

Þeir sem greiða tíund og fórnargjafir munu ríkulega blessaðir. Þeir finna þá góðu tilfinningu, að þeir séu að hjálpa til við að byggja upp ríki Guðs á jörðu.

  • Hvaða blessanir hafið þið, fjölskyldumeðlimir ykkar, eða vinir ykkar hlotið vegna greiðslu tíundar og annara fórnargjafa?

Viðbótarritningargreinar