Bækur og lexíur
Kafli 27: Starf og sjálfsábyrgð


Kafli 27

Starf og sjálfsábyrgð

Ljósmynd
A man working indoors on a lathe.

Starf er eilíf regla

  • Hvaða reynslu hafið þið hlotið sem hefur sýnt ykkur mikilvægi starfs?

Himneskur faðir og Jesús Kristur hafa sýnt okkur með fordæmi sínu og kenningum, að starf er mikilvægt bæði á himni og jörðu. Guð vann að sköpun himins og jarðar. Hann lét vötnin safnast saman á einn stað og þurrlendið birtast. Hann lét vaxa gras, jurtir og tré á þurrlendinu. Hann skapaði sólina, tunglið, og stjörnurnar. Hann skapaði allt sem lifir í sjó og á landi. Síðan setti hann Adam og Evu á jörðina til að annast allt þetta og drottna yfir öllu sem lfir. (Sjá 1 Mós 1:1–28.)

Jesús sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig“ (Jóh 5:17). Hann sagði enn fremur: „Oss ber að vinna verk þess er sendi mig“ (Jóh 9:4).

Okkur er boðið að vinna

Vinna hefur fylgt lífinu allt frá því að Adam og Eva yfirgáfu aldingarðinn Eden. Drottinn sagði við Adam: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns“ (1 Mós 3:19). Adam og Eva unnu á ökrunum til að annast þarfir sínar og barna sinna (sjá HDP Móse 5:1).

Drottinn sagði við Ísraelsþjóð: „Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk“ (2 Mós 20:9).

Á fyrstu dögum hinnar endurreistu kirkju sagði Drottinn við Síðari daga heilaga: „Nú er ég, Drottinn, ekki vel ánægður með íbúa Síonar, því að iðjuleysingjar eru meðal þeirra“ (K&S 68:31).

Spámaður Guðs hefur sagt: „Starfið skal aftur í hávegum haft og ríkjandi regla í lífi kirkjuþegna okkar“ (Heber J. Grant, Teachings of Presidents of the Church: Heber J. Grant [2002], 115).

Fjölskylduábyrgð

  • Hverjar eru sumar þær ábyrgðarskyldur sem feður, mæður, og börn hafa til viðhalds heimilinu? Hvað geta fjölskyldumeðlimir gert til taka þátt í því verki?

Foreldrar vinna saman að líkamlegri, andlegri og tilfinningalegri velferð fjölskyldu sinnar. Þeir ættu aldrei að ætla öðrum að bera þá ábyrgð fyrir þá. Páll postuli skrifaði: „En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni“ (1 Tím 5:8).

Hjón leita innblásturs frá Drottni og fylgja ráðum spámannanna þegar þau ákveða ábyrgð hvers einstaklings. Sköpun heimilis, þar sem reglur fagnaðarerindisins eru daglega kenndar og ást og regla ríkir, er jafn mikilvæg og að sjá fyrir grundvallarþörfum, fæðu og fatnaði.

Börnin ættu að taka á sig sinn hluta af störfum fjölskyldunnar. Nauðsynlegt er að börnunum séu falin störf sem hæfa getu þeirra. Hrósa þarf þeim þegar þau gera vel. Gott viðhorf til starfsins, góðar starfsvenjur og kunnátta lærist með góðri reynslu af slíku á heimilinu.

Stundum verða erfiðleikar á vegi manna þegar þeir reyna að sjá fyrir fjölskyldum sínum. Varanleg veikindi, missir maka eða aldraðir foreldrar sem annast þarf, getur aukið ábyrgðina á heimilinu. Himneskur faðir okkar er minnugur fjölskyldunnar við slíkar aðstæður og veitir henni aukinn styrk til að framkvæma skyldur sínar. Hann mun ætíð blessa þau ef þau biðja í trú.

Við getum notið starfsins

  • Hvernig hefur viðhorf okkar áhrif á starfið?

Sumum leiðast öll störf. Öðrum er starfið spennandi þáttur lífsins. Ein leið til að njóta lífsins til fulls er að læra að unna starfinu.

Ekki getum við öll valið hvers konar starfi við gegnum. Sum vinnum við langan vinnudag aðeins fyrir lífsnauðsynjum. Erfitt er að njóta slíks starfs. Þó hafa þeir sem hamingjusamastir eru lært að njóta starfs síns, hvers eðlis sem það er.

Við getum hjálpað hvert öðru í starfi. Hin þyngsta byrði verður léttari þegar annar ber hana með okkur.

Viðhorf okkar til vinnunnar er mjög mikilvægt. Eftirfarandi saga segir frá manni, sem sá lengra en daglegt starf hans náði. Ferðamaður gekk fram hjá grjótnámu og sá þrjá menn að störfum. Hann spurði hvern þeirra hvað hann væri að gera. Svör þeirra sýndu afar ólíkt viðhorf til sama starfsins. „Ég er að mylja grjót,“ svaraði sá fyrsti. Næsti svaraði: „Ég er að vinna mér inn þrjá gullpeninga á dag.“ Þriðji maðurinn sagði brosandi: „Ég er að hjálpa til við að byggja hús Guðs.“

Í öllu heiðarlegu starfi getum við þjónað Guði. Benjamín konungur og spámaður Nefíta sagði: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar“ (Mósía 2:17). Þó að launin fyrir starf okkar nægi aðeins fyrir lífsnauðsynjum, erum við samt að hjálpa sumum barna Guðs.

  • Hvernig getum við bætt viðhorf okkar til vinnunnar?

Guð fordæmir iðjuleysi

Guð er ekki ánægður með þá sem eru latir eða iðjulausir. Hann sagði: „Iðjuleysinginn skal ekki eiga heima í kirkjunni, nema hann iðrist og breyti háttum sínum“ (K&S 75:29). Hann bauð einnig: „Þér skuluð ekki vera iðjulausir, því að sá, sem er iðjulaus, skal hvorki eta brauð verkamannsins né klæðast fötum hans“ (K&S 42:42).

Frá fyrstu dögum kirkjunnar hafa spámennirnir sagt Síðari daga heilögum að vera sjálfstæðir, sjálfum sér nógir og forðast iðjuleysi. Enginn sannur Síðari daga heilagur, sé hann líkamlega heill, mun af frjálsum vilja koma byrðinni af eigin framfærslu yfir á aðra. Eins lengi og þeir geta munu þeir sjá sjálfum sér og fjölskyldu sinni fyrir lífsnauðsynjum.

Kirkjuþegnar ættu einnig, eftir því sem geta þeirra leyfir, að taka á sig þá ábyrgð að annast ættingja sína, sem ekki geta séð um sig sjálfir.

  • Hvaða áhrif hefur iðjuleysi á einstaklinginn? á fjölskylduna? á samfélagið?

Starf, afþreying og hvíld

  • Hvers vegna er mikilvægt að halda jafnvægi í lífinu milli starfs, afþreyingar og hvíldar?

Við eigum hvert um sig að finna viðeigandi jafnvægi milli starfs, afþreyingar og hvíldar. Gamalt orðtak segir: „Að aðhafast ekkert er sú mesta erfiðisvinna sem til er, því aldrei er hægt að staldra við og hvílast.“ Án vinnu hefur hvíld og afþreying enga merkingu.

Hvíldin er ekki aðeins ánægjuleg og nauðsynleg, heldur er okkur boðið að hvílast á hvíldardeginum (sjá 2 Mós 20:10; K&S 59:9–12). Eftir sex daga erfiði endurnýjar hvíldardagurinn okkur og býr okkur undir næstu daga. Drottinn lofar einnig þeim sem virða hvíldardaginn „fyllingu jarðar“ (sjá K&S 59:16–20; sjá einnig kafla 24 í þessari bók).

Á öðrum dögum vikunnar getum við, auk þess að sinna störfum okkar, tekið tíma til að bæta hæfileika okkar, njóta tómstundaiðju, skemmtana eða annars sem við höfum gaman af.

  • Hvað getum við gert til að halda góðu jafnvægi á milli starfs, afþreyingar og hvíldar? Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að viðhalda slíku jafnvægi?

Blessanir starfsins

  • Hvaða blessanir hljótum við meðal annars af heiðarlegu starfi?

Guð opinberaði Adam: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns“ (1 Mós 3:19). Auk þess að vera stundlegt lögmál var þetta lögmál Adam til sáluhjálpar. Engin raunveruleg skipting er á milli andlegs, huglægs og líkamlegs starfs. Starfið er mikilvægt fyrir vöxt okkar og þroska og getur veitt mikla gleði, sem hinir iðjulausu kynnast aldrei.

David O. McKay forseti sagði: „Við skulum gera okkur ljóst, að það eru forréttindi að fá að starfa, það er blessun að hafa þrek til að starfa og það er farsæld að unna starfinu“ (Pathways to Happiness [1957], 381).

„Menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta“ (2 Ne 2:25). Starfið er lykillinn að fullri gleði í áætlun Guðs. Ef við erum réttlát, munum við lifa aftur með himneskum föður og hafa þar verk að vinna. Eftir því sem við verðum líkari honum svo verða og verk okkar líkari hans verkum. Verk hans er „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Viðbótarritningargreinar