Bækur og lexíur
Chapter 46: Lokadómurinn


Kafli 46

Lokadómurinn

Ljósmynd
Resurrected Christ with arms outstretched stands above a throng of people of all races and times, some prone, some standing. The people on the right side of Christ are in the attitude of worship. The people on the left side of Christ are in anguish. Scenes of ruin are in the foreground and background. The Washington D.C. temple is pictured in the upper left corner.

Dómar Guðs

  • Hvaða mismunandi dómar ganga á undan lokadóminum? Hver eru tengsl allra þessara dóma innbyrðis?

Víða í ritningunum segir, að sá dagur komi að við munum standa frammi fyrir dómi Guðs. Við þurfum að skilja hvernig það gerist til þess að verða betur undir þann mikilvæga atburð búin.

Ritningarnar segja að við verðum öll dæmd af verkum okkar: „Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra“ (Op 20:12; sjá einnig K&S 76:111; 1 Ne 15:32; Abr 3:25–28). Við verðum einnig dæmd „samkvæmt því sem hjörtu [okkar] þrá“ (K&S 137:9; sjá einnig Al 41:3).

Hér á jörðu erum við iðulega dæmd eftir því hve verðug við erum til að hljóta ýmis tækifæri í ríki Guðs. Þegar við erum skírð erum við dæmd verðug þeirrar helgiathafnar. Þegar við erum kölluð til þjónustu í kirkjunni, eða eigum viðtal vegna prestdæmisframa eða musterismeðmæla, erum við dæmd.

Alma kenndi að við dauðann séu andar allra manna dæmdir til sælu eða vansældar (sjá Al 40:11–15). Það er dómur.

Orð okkar, verk og hugsanir eru notuð til að dæma okkur

  • Hugsið ykkur að verða dæmd af öllum ykkar hugsunum, orðum og athöfnum.

Spámaðurinn Alma vitnaði: „Orð vor munu dæma oss, já, öll verk vor munu dæma oss … Og hugsanir vorar munu einnig dæma oss“ (Al 12:14).

Drottinn sagði: „Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða“ (Matt 12:36–37).

Með trú á Jesú Krist getum við búið okkur undir lokadóminn. Með því að fylgja honum af trúmennsku og iðrast allra synda okkar getum við fengið fyrirgefningu syndanna og orðið hrein og heilög, þannig að við getum dvalið í návist Guðs. Ef við iðrumst syndanna, látum af hverri óhreinni hugsun og breytni, mun heilagur andi breyta hjörtum okkar og við höfum ei lengur minnstu löngun til að syndga (sjá Mósía 5:2). Þá munum við, þegar við eru dæmd, verða fundin verðug þess að ganga inn í návist Guðs.

  • Hugsið um hvað þið getið gert til að bæta hugsanir ykkar, orð og gerðir.

Við verðum dæmd samkvæmt skýrslunum

  • Eftir hvaða skýrslum verðum við dæmd? Hver mun dæma okkur?

Spámaðurinn Joseph Smith sagði að hinir dánu yrðu dæmdir samkvæmt skýrslum þeim sem haldnar væru á jörðu. Við verðum einnig dæmd samkvæmt „lífsins bók“, sem haldin er á himnum (sjá K&S 128:6–8).

„Öll verðum við … að koma fram fyrir ‘dómstól hins heilaga Ísraels … verða dæmd eftir hinum heilaga dómi Guðs’ (2 Ne 9:15). Og samkvæmt sýn Jóhannesar var ‘bókum … lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.’ (Op 20:12.) ‘Bækurnar,’ sem þarna er vísað til eru ‘þær bækur, sem geyma frásagnir af verkum [okkar] … skýrslur, sem haldnar eru á jörðu. … Og bókin, sem var bók lífsins, er sú skýrsla, sem haldin er á himni’ (K&S 128:7.)“ (Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee [2000], 226–27).

Önnur skýrsla verður einnig notuð til að dæma okkur. Páll postuli kenndi að maðurinn sjálfur væri besta skýrslan um líf sitt (sjá Róm 2:15). Geymd í líkama okkar og huga er fullkomin frásögn af öllu sem við höfum gert. John Taylor forseti kenndi þennan sannleika: „[Hver einstakur] segir sögu sína sjálfur og ber vitni gegn sér … Sú skýrsla sem maðurinn sjálfur skráir í sinn eigin huga – sú skýrsla sem ekki getur logið – mun á þeim degi ljúkast upp fyrir Guði og englum, og þeim sem í dómarasæti sitja“ (Deseret News, 8. mars 1865, 179).

Jóhannes postuli sagði: „Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm“ (Jóh 5:22). Sonurinn mun síðan kalla á aðra sér til aðstoðar við dóminn. Hinir tólf, sem með honum voru í þjónustunni, munu dæma hinar tólf ættkvíslir Ísraels (sjá Matt 19:28; Lúk 22:30). Nefítarnir tólf munu dæma Nefíta og Lamaníta (sjá 1 Ne 12:9–10; Morm 3:18–19).

Erfa stað í dýrðarríki

  • Hvernig mun trúfesta okkar í jarðlífinu hafa áhrif á líf okkar í eilífðunum?

Við lokadóminn munum við erfa stað í því ríki sem við eru búin undir. Ritningarnar kenna um þrjú dýrðarríki – himneska ríkið, yfirjarðneska ríkið og jarðneska ríkið (sjá K&S 88:20–32).

Í Kenningu og sáttmálum 76, lýsir Drottinn þeim leiðum sem við getum valið til að lifa eftir á jörðu. Hann útskýrði að val okkar muni ákvarða undir hvaða ríki við verðum búin. Við lærum af þeirri opinberun, að jafnvel meðlimir kirkjunnar munu erfa mismunandi ríki, vegna þess að þeir voru ekki allir jafn trúir, hugdjarfir og hlýðnir Kristi.

Hér á eftir er því lýst hvers konar lífi við getum valið að lifa og því ríki sem val okkar leiðir til.

Himneskt

„Þetta eru þeir, sem veittu vitnisburðinum um Jesú viðtöku og trúðu á nafn hans og voru skírðir … svo að með því að halda boðorðin gætu þeir laugast og hreinsast af öllum syndum sínum og meðtekið heilagan anda.“ Þetta eru þeir sem hafa sigrað heiminn með trú sinni. Þeir eru réttlátir og sannir og því getur heilagur andi innsiglað þeim blessanir þeirra (Sjá K&S 76:51–53). Þeir sem erfa æðsta stig himneska ríkisins, þeir sem verða guðir, verða einnig að hafa hlotið eilífa hjónavígslu í musterinu (sjá K&S 131:1–4). Allir sem erfa himneska ríkið munu lifa með himneskum föður og Jesú Kristi um alla eilífð (sjá K&S 76:62).

Með því verki sem við vinnum í musterunum, hafa allir sem lifað hafa á jörðu jöfn tækifæri til að meðtaka fyllingu fagnaðarerindisins og helgiathafnir sáluhjálpar svo að þeir geti erft stað á æðsta stigi himneskrar dýrðar.

Yfirjarðneskt

Þetta eru þeir sem höfnuðu fagnaðarerindinu á jörðu, en meðtóku það síðar í andaheiminum. Þetta eru hinir heiðvirðu á jörðu, sem blindir voru fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists vegna slægðar mannanna. Þetta eru einnig þeir sem meðtóku fagnaðarerindið og vitnisburð um Jesú, en reyndust síðan ekki nógu hughraustir og trúir. Jesús Kristur mun vitja þeirra, en himneskur faðir ekki (Sjá K&S 76:73–79).

Jarðneskt

Þessir meðtóku ekki fagnaðarerindið eða vitnisburð um Jesú, hvorki hér á jörðu né í andaheiminum. Þeir munu þjást fyrir eigin syndir í varðhaldi þar til eftir Þúsundáraríkið, en þá rísa þeir upp. „Þetta eru þeir sem eru lygarar og töframenn og frillulífsmenn og hórkarlar, og allir þeir sem elska lygi og iðka.“ Þeir eru jafnóteljandi og stjörnurnar á himninum og sandkornin á sjávarströndinni. Þeirra mun vitjað af heilögum anda, en hvorki föðurnum né syninum (Sjá K&S 76:81–88, 103–6, 109).

Ystu myrkur

Þetta eru þeir sem áttu vitnisburð um Jesú fyrir heilagan anda og höfðu kynnst krafti Drottins, en leyfðu Satan að yfirvinna sig. Þeir afneituðu sannleikanum og ögruðu valdi Drottins. Fyrir þá er enga fyrirgefningu að hafa, því að þeir afneituðu heilögum anda, eftir að hafa meðtekið hann. Þeir munu ekkert dýrðarríki eignast. Þeir munu lifa í eilífu myrkri, kvöl og vansæld með Satan og englum hans um alla eilífð (Sjá K&S 76:28–35, 44–48).

Við ættum að búa okkur nú undir dóminn

  • Hveð verðum við að gera til að vera undir lokadóminn búin?

Hver dagur er í raun dómsdagur. Við tölum, hugsum og breytum í samræmi við himneskt, yfirjarðneskt eða jarðneskt lögmál. Trú okkar á Jesú Krist, sem við sýnum með daglegri breytni, ræður hvaða ríki við erfum.

Við höfum hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists í fyllingu þess. Fagnaðarerindið er lögmál himneska ríkisins. Allar helgiathafnir prestdæmisins, sem nauðsynlegar eru fyrir framþróun okkar, hafa verið opinberaðar. Við höfum farið ofan í skírnarvatnið og gert sáttmála um að lifa kristilegu lífi. Ef við reynumst trú og höldum þá sáttmála, sem við höfum gert, hefur Drottinn sagt okkur hver dómurinn verður. Hann mun segja við okkur: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims“ (Matt 25:34).

Viðbótarritningargreinar