Bækur og lexíur
Kafli 26: Fórn


Kafli 26

Fórn

Ljósmynd
Jesus Christ depicted in red and black robes. Christ is talking to a rich young man. Christ has His arms extended as He gestures toward a poorly dressed man and woman. The painting depicts the event wherein Christ was approached by a young man who inquired of Christ what he should do to gain eternal life. Christ instructed him to obey the commandments and to give his wealth to the poor and follow Him. The young man was unable to part with his wealth and went away sorrowfully. (Matthew 19:16-26) (Mark 10:17-27) (Luke 18:18-27)

Merking fórnar

Fórn merkir að gefa Drottni hvað eina sem hann krefst af tíma okkar, jarðneskum eigum, og orku, til að hrinda fram verki hans. Drottinn bauð: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis“ (Matt 6:33). Vilji okkar til að fórna er ábending um hollustu okkar við Guð. Guð hefur alltaf látið reyna á mennina, til að sjá hvort þeir setji það sem Guðs er ofar öllu öðru í lífi sínu.

  • Hvers vegna er mikilvægt að fórna þegar Drottinn æskir þess, án þess að ætlast til nokkurs í staðinn?

Fórnarlögmálið var við lýði til forna

  • Hvert var gildi fórnanna sem sáttmálslýður Drottins færði til forna?

Frá tímum Adams og Evu og fram að tíma Jesú Krists, fylgdi lýður Drottins lögmáli fórnarinnar. Þeim var boðið að fórna frumburðum hjarða sinna. Þau dýr urðu að vera fullkomin og lýtalaus. Helgiathöfnin var veitt til að minna fólkið á að Jesús Kristur, frumburður föðurins, myndi koma í heiminn. Hann yrði fullkominn á allan hátt og myndi fórna sér vegna synda okkar (sjá HDP Móse 5:5–8).

Jesús kom og fórnaði sér, alveg eins og fólkinu hafði verið sagt að hann mundi gera. Vegna fórnar hans munu allir frelsaðir frá líkamlegum dauða með upprisunni og allir geta frelsast frá syndum sínum með trú á Jesú Krist (sjá kafla 12 í þessari bók).

Með friðþægingarfórn Krists lauk fórnum með úthellingu blóðs. Í stað slíkrar ytri fórnar kom helgiathöfn sakramentisins. Helgiathöfn sakramentisins var gefin til að minna okkur á hina miklu fórn frelsarans. Við ættum að meðtaka sakramentið oft. Táknin, brauð og vatn, minna okkur á líkama frelsarans og blóð hans, sem hann úthellti fyrir okkur (sjá kafla 23 í þessari bók).

  • Hvers vegna er litið á friðþæginguna sem hina miklu og síðustu fórn?

Við verðum enn að fórna

  • Hvernig höldum við fórnarlögmálið nú á dögum?

Þótt blóðfórnum sé lokið biður Drottinn okkur enn að fórna. En nú krefst hann annars konar fórna. Hann sagði: „Ekki skuluð þér fórna mér blóðfórnum framar … brennifórnir skulu undir lok líða. … En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda“ (3 Ne 9:19–20). „Sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi“ merkir að við berum djúpa hryggð vegna synda okkar, auðmýkjum okkur og iðrumst þeirra.

Við verðum að vera fús til að fórna Drottni öllu sem við eigum

  • Hvers vegna er fólk fúst til að færa fórnir?

Páll postuli sagði að við ættum að verða að lifandi fórn, heilagri og þóknanlegri Guði (sjá Róm 12:1).

Ef við eigum að vera lifandi fórn, verðum við, sé þess krafist, að vera reiðubúin að láta allt sem við eigum af hendi fyrir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu – til að byggja upp ríki Guðs á jörðu og starfa við að leiða fram Síon (sjá 1 Ne 13:37).

Ríkur, ungur höfðingi spurði frelsarann: „Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús svaraði: „Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður.“ Þá sagði ríki maðurinn: „Alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Þegar Jesús heyrði það sagði hann: „Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt og skipt milli fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ Þegar ungi maðurinn heyrði þetta varð hann hryggur mjög. Hann var afar ríkur og hjarta hans bundið auðæfunum (sjá Lúk 18:18–23; sjá einnig myndina í þessum kafla).

Ungi höfðinginn var góður maður. En þegar reyndi á var hann ekki fús til að fórna veraldlegum eigum sínum. Lærisveinar Drottins, þeir Pétur og Andrés, voru aftur á móti fúsir til að fórna öllu vegna Guðs ríkis. Þegar Jesús sagði við þá: „Fylgið mér, yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum“ (Matt 4:19–20).

Líkt og lærisveinarnir getum við fórnað daglegum störfum okkar í þágu Drottins. Við getum sagt: „Verði þinn vilji.“ Abraham gerði svo. Hann var uppi fyrir daga Krists, þegar blóðfórna og brennifórna var krafist. Til að reyna hlýðni Abrahams bauð Drottinn honum að fórna syni sínum, Ísaki. Ísak var einkasonur Abrahams og Söru. Boðið um að fórna honum var ólýsanlega erfitt og sársaukafullt fyrir Abraham.

Engu að síður fóru þeir Ísak hina löngu leið til fjalla Móríalands, þar sem færa átti fórnina. Ferðin tók þrjá daga. Hugsið ykkur hugarangist og hjartakvalir Abrahams. Hann átti að fórna Drottni syni sínum. Þegar komið var til Móríalands bar Ísak að viðinn og Abraham bar eldinn og hnífinn að þeim stað þar sem reisa átti altarið. Ísak sagði: „Faðir minn … Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn.“ Abraham reisti síðan altarið og bar viðinn á. Hann batt Ísak og lagði hann á viðinn. Þar næst tók hann hnífinn og ætlaði að deyða Ísak. Á þeirri stundu stöðvaði engill Drottins hann með þessum orðum: „Abraham! Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn“ (sjá 1 Mós 22:1–14).

Abraham hlýtur að hafa fyllst gleði yfir því að ekki var lengur krafist að hann fórnaði syni sínum. En hann unni Drottni svo heitt, að hann var fús til að gera allt sem hann bað.

  • Hvaða dæmi um fórn hafið þið séð í lífi fólks sem þið þekkið? Hvaða dæmi um fórn hafið þið séð í lífi áa ykkar? í lífi fyrri meðlima kirkjunnar? í lífi fólks í ritningunum? Hvað hafið þið lært af þessum dæmum?

Fórnin býr okkur undir að lifa í návist Guðs

Aðeins með fórnum getum við orðið verðug þess að lifa í návist Guðs. Aðeins með fórnum getum við notið eilífs lífs. Margir sem lifað hafa á undan okkur hafa fórnað öllu sem þau áttu. Við verðum að vera fús til þess sama, ef við viljum hljóta þau ríkulegu laun sem þau njóta.

Við verðum ef til vill ekki beðin að fórna öllu. En eins og Abraham ættum við að vera fús til þess og reynast þannig verðug þess að lifa í návist Guðs.

Fylgjendur Drottins hafa ávallt fórnað miklu og á marga mismunandi vegu. Sumir hafa mátt þola mannraunir og spott vegna fagnaðarerindisins. Sumir nýliðar kirkjunnar hafa verið útskúfaðir frá fjölskyldum sínum. Lífstíðarvinir hafa snúið við þeim baki. Sumir kirkjuþegnar hafa misst atvinnu sína, aðrir týnt lífinu. En Drottinn þekkir fórnir okkar og hefur lofað: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og erfa eilíft líf“ (Matt 19:29).

Þegar vitnisburðir okkar um fagnaðarerindið vaxa verðum við fær um að færa Drottni stærri fórnir. Takið eftir fórnunum í þessum sönnu dæmum:

Kirkjuþegn í Þýskalandi safnaði tíundargreiðslum sínum árum saman, uns prestdæmishafi kæmi og tæki við tíund hans.

Heimsóknarkennari í Líknarfélaginu þjónaði í 30 ár í þeirri köllun án þess nokkru sinni að sleppa einni einustu heimsókn.

Hópur heilagra í Suður-Afríku fór akandi í þrjá daga, og stóð alla leiðina, til að geta heyrt og séð spámann Drottins.

Á svæðisráðstefnu í Mexíkó sváfu kirkjuþegnar úti undir berum himni og föstuðu meðan ráðstefnan var haldin. Þeir höfðu notað allt fé sitt til að komast á ráðstefnuna og áttu ekkert eftir fyrir fæði og húsaskjóli.

Fjölskylda ein seldi bílinn sinn til að geta lagt fram fé til byggingar musteris.

Önnur fjölskylda seldi hús sitt til að geta komist til musterisins.

Margir trúir Síðari daga heilagir hafa lítið til að lifa af, en greiða þó tíund sína og fórnir.

Einn bróðir fórnaði atvinnu sinni vegna þess að hann neitaði að vinna á sunnudegi.

Í einni kirkjugrein fórnaði unga fólkið, fúslega og af frjálsum vilja, tíma sínum til að annast smábörnin meðan foreldrarnir unnu við byggingu samkomuhússins.

Piltar og stúlkur fórna eða fresta góðum atvinnutilboðum, menntun eða íþróttatækifærum, til að þjóna sem trúboðar.

Og þannig mætti lengi telja þær fórnir sem Drottni hafa verið færðar. En staður í ríki himnesks föður er samt verður hverrar fórnar á tíma, hæfileikum, orku, peningum eða lífi. Með fórnunum getum við öðlast vitneskju frá Drottni um að við séum honum velþóknanleg (sjá K&S 97:8).

  • Hvers vegna haldið þið að vilji okkar til að fórna sé tengdur því hve reiðubúin við erum til að lifa í návist Guðs?

Viðbótarritningargreinar

  • Lúk 12:16–34 (þar sem fjársjóðurinn er, þar er og hjartað)

  • Lúk 9:57–62 (fórnin skal hæfa ríkinu)

  • K&S 64:23; 97:12 (dagurinn í dag er fórnardagur)

  • K&S 98:13–15 (þeir sem týna lífi sínu fyrir Drottin munu finna það)

  • Al 24 (fólk Ammons fórnar heldur lífi sínu en rjúfa eið sinn við Drottin)