Bækur og lexíur
Kafli 29: Heilbrigðislögmál Drottins


Kafli 29

Heilbrigðislögmál Drottins

Ljósmynd
A young girl eating an apple.

Líkami okkar eru musteri Guðs

Ein þeirra miklu blessana sem við hlutum við komuna til jarðar var efnislíkami. Við þörfnuðumst efnislíkama til að geta orðið eins og himneskur faðir. Sá líkami skiptir svo miklu máli, að Drottinn nefnir hann musteri Guðs (sjá 1 Kor 3:16–17; 6:19–20). Hann er heilagur.

Vegna þess að líkami okkar er mikilvægur, vill faðir okkar á himnum að við önnumst hann vel. Hann veit að við verðum hamingjusamari og betri ef við erum heilbrigð. Heilagur andi getur verið með okkur ef líkami okkar og hugur eru hreinir. Faðir okkar veit að við freistumst oft til að meðhöndla líkama okkar óskynsamlega eða neyta þess sem skaðar hann. Af þeirri ástæðu hefur hann sagt hvað sé hollt heilsu okkar og hvað óhollt. Margar þær upplýsingar sem Guð hefur gefið okkur varðandi heilsuna eru í Kenningu og sáttmálum, 89. kafla. Sú opinberun nefnist Vísdómsorðið.

Við verðum að hlýða Vísdómsorðinu til þess að reynast verðug þess að fara í musterið. Ef við hlýðum ekki Vísdómsorðinu, dregur andi Drottins sig í hlé frá okkur. Ef við vanhelgum „musteri Guðs“, sem er líkami okkar, sköðum við okkur sjálf líkamlega og andlega.

Okkur er boðið að setja ekki ákveðin efni í líkama okkar

  • Hvað hefur Drottinn boðið okkur að setja ekki í líkama okkar?

Drottinn býður okkur að neyta ekki víns og sterkra drykkja og á þar við áfenga drykki. Æðsta forsætisráðið hefur kennt að sterkir drykkir leiði oft til ofbeldis, fátæktar, veikinda og hörmunga á heimilinu. Oft eru þeir orsök óheiðarleika, ósiðsemi og dómgreindarskorts. Þeir eru bölvun öllum sem neyta þeirra. (Sjá “Message of the First Presidency,“ Improvement Era, nóv. 1942, 686.) Barnshafandi konur sem drekka áfengi geta skaðað börn sín bæði líkamlega og andlega. Mörg umferðarslys verða árlega sökum áfengisneyslu.

Drottinn hefur einnig sagt okkur að „Tóbak er ekki ætlað líkamanum“ (K&S 89:8). Það er skaðlegt líkama og anda. Við eigum ekki að reykja vindlinga eða vindla, eða nota munn- eða neftóbak. Vísindamenn hafa sýnt fram á að tóbak veldur mörgum sjúkdómum og getur skaðað ófædd börn.

Drottinn hefur einnig varað okkur við notkun „heitra drykkja“ (K&S 89:9). Leiðtogar kirkjunnar hafa sagt að þar sé átt við kaffi og te, sem innihalda skaðleg efni. Við ættum að forðast alla drykki sem innihalda skaðleg efni.

Við ættum ekki að nota lyf nema þegar þau eru nauðsynleg sem meðul. Sum lyf eru jafnvel skaðlegri en áfengi og tóbak (sem í raun teljast einnig til eiturlyfja). Þeir sem misnota slík lyf þurfa að leita hjálpar, biðjast fyrir um styrk, og ráðgast við biskup sinn svo að þeir geti iðrast til fulls og orðið hreinir.

Við ættum að forðast allt sem við vitum að er skaðlegt líkama okkar. Við eigum ekki að nota nein efni sem eru vanabindandi. Við ættum einnig að forðast að borða of mikið. Vísdómsorðið segir ekki frá öllu sem við eigum að forðast eða neyta, en það veitir okkur leiðsögn. Það er dýrmætt stundlegt lögmál. Það er einnig sterkt andlegt lögmál. Með því að lifa eftir Vísdómsorðinu verðum við andlega sterkari. Við hreinsum líkama okkar svo að andi Drottins geti dvalist með okkur.

  • Hvaða efni eru meðal annars nefnd í Vísdómsorðinu sem við eigum að forðast?

Okkur er kennt að ákveðnir hlutir séu hollir fyrir líkama okkar

  • Hvað segir Drottinn að sé hollt samkvæmt Vísdómsorðinu?

Ávextir, grænmeti og hollar jurtir eru okkur heilsusamleg. Það ber að nota af skynsemi og með þakklæti.

Hold fugla og dýra er einnig ætlað okkur til fæðu. Við eigum samt að neyta þess í hófi (sjá K&S 49:18; 89:12). Fiskur er einnig hollur mönnum.

Kornmeti er okkur hollt. Hveiti er sérstaklega hollt fyrir okkur.

  • Hvernig hefur neysla þessara hluta blessað ykkur?

Vinna, hvíld og hreyfing eru mikilvæg

  • Hvað hefur vinna, hvíld og hreyfing að gera með heilbrigðislögmál Drottins?

Auk Kenningar og sáttmála, 89. kafla, segja aðrar ritningargreinar okkur hvernig við getum varðveitt heilsu okkar. Þær segja til dæmis: „Látið af iðjuleysi. Verið ei framar óhrein. Sofið ei framar lengur en nauðsyn krefur. Gangið snemma til hvílu, svo að þér þreytist ekki. Rísið árla úr rekkju, svo að líkamar yðar og hugir endurnærist“ (K&S 88:124). Okkur er einnig sagt að „sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk“ (2 Mós 20:9). Dottinn ráðleggur okkur að erfiða ekki meira en styrkur okkar leyfir (sjá K&S 10:4).

Síðari tíma spámaður hefur sagt okkur að halda líkama okkar heilbrigðum. Hann ráðlagði: „Næringarríkar máltíðir, reglubundin hreyfing og hæfilegur svefn eru nauðsynleg styrkum líkama, alveg eins og viðvarandi ritningarnám og bænir styrkja huga og anda“ (Thomas S. Monson, í Conference Report, okt. 1990, 60; eða Ensign, nóv. 1990, 46).

Blessanir sem lofað er fyrir að lifa eftir heilbrigðislögmáli Drottins

  • Hvaða blessanir veitast okkur þegar við hlýðum Vísdómsorðinu?

Himneskur faðir hefur gefið okkur heilbrigðislögmál, sem segir okkur hvernig við eigum að annast líkama okkar. Um lögmál Guðs segir svo í ritningunum: „Ekkert stundlegt boðorð gef ég … , því að boðorð mín eru andleg“ (K&S 29:35). Þetta táknar að boðorð Guðs varðandi líkamlegt ástand eru vegna andlegrar velferðar okkar.

Þegar við hlýðum heilbrigðislögmáli Drottins og öðrum boðorðum hans lofar Drottinn okkur líkamlegum og andlegum blessunum.

Okkur hefur verið lofað góðri líkamlegri heilsu. Sem afleiðing af þeirri góðu heilsu munum við „hlaupa án þess að þreytast og ganga án þess að örmagnast“ (K&S 89:20). Þetta er mikil blessun, en þær andlegu blessanir sem hann lofar eru jafnvel enn meiri en þær líkamlegu.

Drottinn lofar því að við munum „finna vísdóm og mikinn þekkingarauð, jafnvel hulinn auð“ (K&S 89:19). Við munum með opinberun læra mikilvægan sannleika af heilögum anda. Boyd K. Packer forseti kenndi: „Efnislíkami okkar er verkfæri anda okkar. Í hinni dásamlegu opinberun, Vísdómsorðinu, er okkur sagt að hafa líkama okkar lausan við óhreinindi sem kynnu að slæva, jafnvel eyðileggja, þau viðkvæmu líkamlegu skynfæri sem hafa með andleg samskipti að gera. Vísdómsorðið er lykill að einstaklingsbundinni opinberun“ (í Conference Report, okt. 1989, 16; eða Ensign, nóv. 1989, 14).

Drottinn hefur einnig lofað því að engill tortímingarinnar leiði okkur hjá sér. Heber J. Grant forseti sagði: „Ef þið og ég þráum blessanir lífsins, heilsu, kraftmikinn líkama og hug; ef við þráum að engill tortímingar leiði okkur hjá sér, eins og hann gerði á dögum Ísraelsbarna, verðum við að hlýða Vísdómsorðinu; þá er Guð bundinn og blessanirnar munu berast okkur“ (Teachings of Presidents of the Church: Heber J. Grant [2002], 192).

  • Hvernig getum við hjálpað börnum og unglingum að skilja eilíft mikilvægi Vísdómsorðsins?

  • Hvað getum við gert til að hjálpa fjölskyldumeðlimum eða vinum sem eiga í erfiðleikum með að hlýða Vísdómsorðinu?

Viðbótarritningargreinar