2020–2024
Íklæðist Drottni Jesú Kristi
Aðalráðstefna apríl 2024


11:56

Íklæðist Drottni Jesú Kristi

Með því að heiðra sáttmála okkar, gerum við Guði mögulegt að úthella þeim fjölda fyrirheitnu blessana sem tengjast þessum sáttmálum.

Þegar tvö yngstu börnin mín voru að alast upp uppgötvaði ég skemmtilegar og grípandi bækur sem notuðu líka myndmál í sögum sínum. Þegar við lásum saman á kvöldin, naut ég þess að hjálpa börnum mínum að skilja táknræna merkingu höfundarins, til að kenna dýpri reglur, jafnvel reglur fagnaðarerindisins.

Mér varð dag einn ljóst að þetta væri að skila sér þegar yngri sonur minn var snemma á táningsaldri. Hann hafði byrjað að lesa nýja bók og vildi bara njóta sögunnar, en hugur hans hélt áfram að reyna að finna dýpri merkingu í öllu sem hann var að lesa. Hann var svekktur, en ég brosti hið innra.

Jesús kenndi með sögum og táknum – mustarðskorni til að kenna um trúarmátt, týndum sauði til að kenna verðmæti sálna, glötuðum syni til að kenna um eiginleika Guðs. Dæmisögur hans voru táknrænar, þar sem hann gat kennt þeim dýpri lexíur sem höfðu „eyru …[til að] …[heyra].“ Þeir sem ekki leituðu að dýpri merkingu myndu hins vegar ekki skilja, á sama hátt og margir sem lásu sömu bækurnar og ég las fyrir börnin mín vissu aldrei að til væri dýpri merking og svo miklu meira sem hægt væri að fá út úr þessum sögum.

Þegar Guð faðirinn færði eingetinn son sinn fram sem fórn fyrir okkur, varð Jesús Kristur sjálfur æðsta tákn ævarandi elsku himnesks föður til okkar allra. Jesús Kristur varð lamb Guðs.

Við njótum þeirra forréttinda og blessana að vera boðið að ganga í sáttmálssamband við Guð, þar sem líf okkar getur verið tákn fyrir þann sáttmála. Sáttmálar skapa samband sem gerir Guði kleift að móta og breyta okkur með tímanum og lyfta okkur upp til að verða líkari frelsaranum, færa okkur stöðugt nær honum og föður okkar og búa okkur að lokum undir að koma í návist þeirra.

Sérhver manneskja á jörðu er ástkær sonur eða dóttir Guðs. Þegar við veljum að vera hluti af sáttmála, mun það auka og dýpka samband okkar við hann. Russell M. Nelson forseti hefur kennt að þegar við veljum að gera sáttmála við Guð, geti samband okkar við hann orðið miklu nánara en það var fyrir sáttmála okkar og það gerir honum kleift að blessa okkur með miskunn sinni og elsku í enn ríkari mæli, sáttmálskærleika sem á hebresku er vísað til sem hesed . Sáttmálsvegurinn snýst alfarið um samband okkar við Guð – okkar hesed samband við hann.

Faðir okkar þráir innilegra samband við alla syni sína og dætur, en það er okkar val. Þegar við ákveðum að koma nær honum gegnum sáttmálssamband leyfir það honum að koma nær okkur og blessa okkur enn ríkulegar.

Guð setur skilyrði og skyldur sáttmálanna sem við gerum. Þegar við veljum að ganga í það samband, berum við honum vitni í táknrænum athöfnum hvers sáttmála að við séum fús til að hlýða þeim skilyrðum sem hann hefur sett. Með því að heiðra sáttmála okkar, gerum við Guði mögulegt að úthella þeim fjölda fyrirheitnu blessana sem tengjast þessum sáttmálum, þar á meðal auknum krafti til að breytast og verða líkari frelsaranum. Jesús Kristur er þungamiðja allra sáttmála sem við gerum og sáttmálsblessanir eru mögulegar vegna friðþægingarfórnar hans.

Skírn með niðurdýfingu er hið táknræna hlið sem gerir okkur mögulegt að ganga í sáttmálssamband við Guð. Að fara ofan í vatnið og rísa upp aftur, er táknrænt fyrir dauða frelsarans og upprisu til nýs lífs. Þegar við skírumst, deyjum við á táknrænan hátt og endurfæðumst í fjölskyldu Krists og sýnum að við erum fús til að taka á okkur nafn hans. Við persónugerum þetta tákn sáttmálans. Í Nýja testamentinu lesum við: „Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi.“ Með skírn okkar íklæðumst við Kristi á táknrænan hátt.

Helgiathöfn sakramentisins vísar líka til frelsarans. Brauðið og vatnið eru táknræn fyrir hold Krists og blóðið sem hann úthellti fyrir okkur. Í hverri viku er okkur boðin friðþægingargjöf hans með táknrænum hætti þegar prestdæmishafi, sem fulltrúi frelsarans sjálfs, býður okkur brauðið og vatnið. Þegar við etum og drekkum táknin um hold hans og blóð, verður Kristur hluti af okkur á táknrænan hátt. Við íklæðumst Kristi aftur er við gerum nýjan sáttmála í hverri viku.

Þegar við gerum sáttmála við Guð í húsi Drottins, dýpkum við samband okkar við hann enn frekar. Allt sem við gerum í musterinu, vísar til áætlunar föðurins fyrir okkur, en þungamiðja hennar er frelsarinn og friðþægingarfórn hans. Drottinn mun kenna okkur setning á setning ofan gegnum táknræna merkingu helgiathafnanna og sáttmálanna, er við ljúkum upp hjörtum okkar og reynum í bænaranda að nema hina dýpri merkingu.

Okkur er heimilað að klæðast klæðum hins heilaga prestdæmis, sem hluta af musterisgjöfinni. Það er bæði heilög skylda og heilög forréttindi.

Í mörgum trúarhefðum er sérstakur klæðnaður notaður sem tákn um trú og skuldbindingu einstaklingsins við Guð, og þeir sem leiða tilbeiðsluþjónustuna klæðast oft viðhafnarklæðum. Þessi helgu klæði hafa djúpa þýðingu fyrir þá sem klæðast þeim. Í ritningunum lesum við að til forna hafi helg viðhafnarklæði líka verið notuð í tengslum við musterishelgisiði.

Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er valið hafa að gera sáttmála við Guð í húsi Drottins, íklæðumst við helgum viðhafnarklæðum við musteristilbeiðslu, táknrænum fyrir þann klæðnað sem notaður var við forna musterishelgisiði. Við klæðumst líka klæðum hins heilaga prestdæmis bæði við musteristilbeiðslu og í daglegu lífi okkar.

Klæði hins heilaga prestdæmis eru afar táknræn og vísa einnig til frelsarans. Þegar Adam og Eva neyttu af ávextinum og urðu að yfirgefa aldingarðinn Eden, voru þeim gefnir skinnkyrtlar til að skýla sér. Líklegt er að dýri hafi verið fórnað til að búa til þessa skinnkyrtla – sem var táknrænt fyrir fórn frelsarans fyrir okkur. Kaphar er grunnhebreska orðið fyrir friðþægingu og ein merking þess er „að skýla.“ Musterisklæði okkar minna okkur á að frelsarinn og blessanir friðþægingar hans skýla okkur alla okkar ævi. Þegar við íklæðumst klæðum hins heilaga prestdæmis hvern dag, verður þetta fallega tákn hluti af okkur sjálfum.

Í Rómverjabréfinu í Nýja testamentinu, lesum við: „Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. … Íklæðist Drottni Jesú Kristi.“

Ég er svo þakklát fyrir þau forréttindi að íklæðast klæðum hins heilaga prestdæmis til að minna mig á að frelsarinn og blessanir hans altæku friðþægingar vernda mig stöðugt gegnum jarðneska ferð mína. Það minnir mig líka á að þegar ég held sáttmálana sem ég hef gert við Guð í húsi Drottins, hef ég íklæðst Kristi á táknrænan hátt, sem sjálfur er brynklæði ljóssins. Hann mun vernda mig frá illu, veita mér mátt og aukna getu, og vera ljós mitt og leiðarvísir gegnum myrkur og erfiðleika þessa heims.

Það felst djúp og falleg, táknræn merking í klæðum hins heilaga prestdæmis og tengingu þeirra við Krist. Ég trúi því að fúsleiki minn, til að íklæðast hinum heilögu klæðum verði mitt tákn til hans. Þetta er mitt eigið persónulega tákn til Guðs en ekki tákn fyrir aðra.

Ég er svo þakklát fyrir frelsara minn, Jesú Krist. Friðþægingarfórn hans í okkar þágu varð æðsta táknið um óendanlega elsku hans og föður okkar á himnum til sérhvers okkar, með hinum áþreifanlegu táknum þeirrar elsku og fórnar – örunum á höndum, fótum og síðu frelsarans – sem viðhéldust jafnvel eftir upprisu hans.

Þegar ég held sáttmála mína og skuldbindingar við Guð, þar með talið að íklæðast klæðum hins heilaga prestdæmis, getur líf mitt einmitt orðið persónulegt tákn um elsku mína og innilegt þakklæti fyrir frelsara minn, Jesú Krist og þrá mína til að hafa hann ætíð nálægan mér.

Ef þið hafið ekki enn gert það, býð ég ykkur að velja dýpra samband við Guð með því að gera sáttmála við hann í húsi Drottins. Ígrundið ræður spámanns okkar (þar á meðal hinar fallegu kenningar í neðanmálstilvísunum ræða hans, sem fylgja flestum ráðstefnuræðunum). Hann hefur ítrekað og í mörg ár talað um sáttmála og einkum síðan hann varð forseti kirkjunnar. Lærið af kenningum hans um hinar dásamlegu blessanir og hinn aukna kraft og getu sem þið getið hlotið með því að gera og halda sáttmála við Guð.

Almenn handbók segir að ekki sé gerð krafa um trúboðsköllun eða að vera trúlofaður til hjónabands til að gera musterissáttmála. Einstaklingur verður að vera að minnsta kosti 18 ára, hættur í menntaskóla eða samsvarandi námi og hafa verið meðlimur kirkjunnar í hið minnsta eitt ár. Einnig eru gerðar kröfur um staðla persónulegs heilagleika. Ef þið þráið að dýpka samband ykkar við föður ykkar á himnum og Jesú Krist með því að gera helga sáttmála í húsi Drottins, býð ég ykkur að ræða við biskup ykkar eða greinarforseta og láta hann vita af þrá ykkar. Hann mun hjálpa ykkur að vita hvernig að búa ykkur undir að meðtaka og heiðra þessa sáttmála.

Með sáttmálssambandi við Guð, getur okkar eigið líf orðið lifandi tákn um skuldbindingu okkar og innilega elsku til föður okkar á himnum, okkar hesed til hans, og þrá okkar um framþróun og að verða að lokumm eins og frelsari okkar, tilbúin dag einn að dvelja í návist þeirra. Ég ber vitni um að hinar miklu blessanir þessa sáttmálasambands eru vel gjaldsins virði. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Markús 4:33–34.

  2. Sjá Matteus 17:20.

  3. Sjá Lúkas 15:3–7.

  4. Sjá Lúkas 15:11–32.

  5. Matteus 13:9.

  6. Sjá Matteus 13:10–13.

  7. Sjá Jóhannes 3:16–17.

  8. Sjá Jóhannes 1:29; 1. Nefí 11:20–22; sjá einnig Russell M. Nelson, „The Atonement,“ Ensign, nóv. 1996, 34–35.

  9. „Með því að gera sáttmála við okkur, bindur Guð okkur ekki aðeins við sig, heldur er eins og hann festi okkur á bak sér og fari með okkur þangað sem hann einn getur farið“ God Will Prevail: Ancient Covenants, Modern Blessings, and the Gathering of Israel [2021], 8). Sjá Kenning og sáttmálar 133:53.

  10. „Allar mannlegar verur ‒ karlar og konur ‒ eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhvert þeirra guðlegt eðli og örlög.“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library).

  11. Hesed er hugtak sem lýsir sáttmálssambandi þar sem báðir aðilar eru bundnir því að vera hvor öðrum tryggir og trúfastir. … Þar sem Guð hefur hesed gagnvart þeim sem hafa gert sáttmála við hann, … mun hann áfram vinna með þeim og bjóða þeim upp á tækifæri til að breytast. … Ef þau svo villast af leið, mun hann hjálpa þeim að finna leiðina til baka til sín,“ á sama hátt og hann gerði ítrekað með sáttmálslýð sinn á tímum Gamla testamentisins. „Þegar við gerum sáttmála við Guð, höfum við gert sáttmála við þann sem mun alltaf halda orð sín. Hann mun gera allt sem hann getur, án þess að brjóta á sjálfræði okkar, til að hjálpa okkur að halda orð okkar“ (Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli,“ aðalráðstefna, október 2022; sjá einnig Muhlestein, God Will Prevail, 9–12; 5. Mósebók 7:9).

  12. Guð mun aldrei yfirgefa sáttmálssambönd sín. „Hann mun aldrei þreytast á viðleitni sinni við að hjálpa okkur og við munum aldrei þurrausa hina náðarsamlegu þolinmæði hans til okkar.“ (Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli,“). Fagnandi erum við erum bundin saman með eilífum sáttmála.

  13. Sjá Jeremía 31:33; 1. Nefí 17:40; Russell M. Nelson, „Látið Guð ríkja,“ aðalráðstefna, okt. 2020.

  14. Sjá Jakobsbréf 4:8; Kenning og sáttmálar 88:63.

  15. Sjá Russell M. Nelson, „Sáttmálar,“ aðalráðstefna, okt. 2011.

  16. Sjá Mósía 5:5; 18:8–10.

  17. Sjá Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir,“ aðalráðstefna, okt. 2019; Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða,“ aðalráðstefna, okt. 2021; Russell M. Nelson, „Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ aðalráðstefna, okt. 2022; Camille N. Johnson, „Jesús Kristur er líkn,“ aðalráðstefna, apríl 2023; Dale G. Renlund, „Aðgangur að krafti Guðs fyrir tilstilli sáttmála,“ aðalráðstefna, apríl 2023; Jean B. Bingham, „Sáttmálar við Guð styrkja okkur og vernda og búa okkur undir eilífa dýrð,“ aðalráðstefna, apríl 2022.

  18. Sjá Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli.“

  19. Sjá Rómverjabréfið 6:3–4; Kólossubréfið 2:12.

  20. Sjá 2. Nefí 31:13; Moróní 6:3; Kenning og sáttmálar 20:77.

  21. Galatabréfið 3:27.

  22. Sjá Lúkas 22:19–20.

  23. Sjá Jóhannes 6:56.

  24. Russell M. Nelson, forseti sagði: „Oft heyri ég sagt að við tökum sakramentið til að endurnýja sáttmálana sem gerðir voru við skírn. Þó að það sé rétt, þá er það miklu meira en það. Ég hef gert nýjan sáttmála. Þið hafið gert nýja sáttmála“ (sjá Dale G. Renlund, „Staðföst skuldbinding við Krist,“ aðalráðstefna, október 2019, neðanmálstilvísun 18).

  25. Sjá Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli

  26. See Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða“.

  27. Sjá 2. Nefí 28:30.

  28. Sjá „Sacred Temple Clothing,“ ChurchofJesusChrist.org.

  29. Sjá 2. Mósebók 28; 40:12–13.

  30. Sjá „Sacred Temple Clothing,“ ChurchofJesusChrist.org.

  31. Sjá 1. Mósebók 3:21.

  32. Sjá Russell M. Nelson, „The Atonement,“ 34.

  33. Rómverjabréfið 13:12, 14.

  34. Sjá Efesusbréfið 6:10–18.

  35. Sjá Mósía 24:13–15; David A. Bednar, „Bera byrðar þeirra léttilegaaðalráðstefna, apríl 2014.

  36. Sjá Sálmarnir 119:105; 1. Nefí 17:13.

  37. Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Að gefa upp eigin vilja er í raun það eina sem er okkur einmuna persónulegt og við getum sett á altari Guðs“ („Swallowed Up in the Will of the Father,“ Ensign, nóv. 1995, 24).

  38. Fyrir sumt fólk er það miklu erfiðara að klæðast musterisklæðum, ekki vegna persónulegs vals, óþæginda eða stíls, heldur vegna ákveðinna heilsufarsástæðna. Drottinn þekkir hjörtu okkar og skilur þrá okkar til að heiðra skuldbindingar okkar við hann. Sjá t.d., Mósía 4:24–25.

  39. Við ættum ekki að leitast við að dæma notkun musterisklæða hjá öðrum. Sjá Alma 41:14; Dieter F. Uchtdorf, „Hinum miskunnsama mun miskunnað verða,“ aðalráðstefna, apríl 2012.

  40. See Jeffrey R. Holland, „Engir voru með mér,“ aðalráðstefna, apríl 2009.

  41. Sjá Jóhannes 3:16–17; 15:12–13; Kenning og sáttmálar 34:3.

  42. Sjá Jesaja 49:14–16.

  43. Sjá Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli,“ 4–11; Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir“; Russell M. Nelson„Látið Guð ríkja,“; Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða“; Russell M. Nelson, „Sigrast á heiminum og finna hvíld“; Russell M. Nelson, „Tilmæli til systra minna,“ aðalráðstefna, okt. 2015.

  44. Sjá Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 26.5.1, 27.2.2, Gospel Library.

  45. Sjá Russell M. Nelson, „Lokaorð,“ aðalráðstefna, október 2019.

  46. Sjá Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli.“