Aðalráðstefna
Til stuðnings hinni rísandi kynslóð
Aðalráðstefna apríl 2024


Til stuðnings hinni rísandi kynslóð

Það eru samböndin í lífi ungmennanna sem hafa mest áhrif á ákvarðanir þeirra.

Í undirbúningi ræðu minnar hef ég laðast að frásögninni um Helaman og hina ungu syni fólks Ammons. Ég hef skynjað kraft spámanna Mormónsbókar við að kenna foreldrum, biskupum og deildarmeðlimum með námi á þessari frásögn.

Helaman var maður sem hinir ungu Ammonítar gátu treyst. Hann hjálpaði þeim að vaxa og þroskast í réttlæti. Þeir þekktu hann og elskuðu og „vildu, að [hann] gjörðist foringi þeirra.“1

Helaman unni þessum ungu mönnum sem synir hans væru og sá möguleika þeirra.2 Öldungur Dale G. Renlund kenndi að „til að geta þjónað fólki af árangri … þá þurfum við að geta séð það … með augum himnesks föður. Aðeins þá getum við byrjað að skilja hið sanna virði sálarinnar. Aðeins þá getum við skynjað þann kærleika sem himneskur faðir ber til allra barna sinna.“3 Biskupar í dag eru blessaðir með dómgreind til að sjá guðlegt auðkenni ungmennanna í umsjá þeirra.

Helaman „taldi“4 ungu mennina í umsjá sinni. Hann lagði áherslu á að byggja upp sterk tengsl við þá.

Á ögurstundu, þegar líf og dauði voru í húfi, misstu Helaman og hinir ungu stríðsmenn auga á hernum sem veitti þeim eftirför. Helaman ráðgaðist við ungmennin:

„Sjá, við vitum ekki nema þeir hafi látið staðar numið í þeim tilgangi, að við réðumst gegn þeim. …

Hvað segið þér því, synir mínir…?“5

Þessir trúföstu ungu menn svöruðu: „Faðir, sjá, Guð er með okkur, og hann mun ekki leyfa, að við föllum. Sækjum því fram.“6 Dagurinn vannst þar sem Helaman studdi þessa ungu menn í ásetningi þeirrau7 um að bregðast við.8

Hinir ungu Ammonítar höfðu góðan málstað, voru hugdjarfir og nutu „stuðnings fólksins.“9 „Þessi litli liðsauki,“ leiddur af Helaman, breiddi út „miklar vonir og glöddu … mikið“10 hjörtu reyndra hersveita Nefíta. Í dag geta biskupar leitt sín einstaklega hæfileikaríku ungmenni til þess að blessa deildina og safna saman Ísrael. Russell M. Nelson forseti hefur kennt að þetta sé „það ætlunarverk sem [þau voru send til að inna af hendi] á jörðu.“11

Líkt og þessir ungu Ammonítar sem „alltaf voru trúir því, sem þeim var treyst fyrir,“12 fylgdi Helaman leiðtogum sínum dyggilega. Sama hver áskorunin eða bakslagið var, þá var Helaman alltaf „staðráðinn“13 í því að ná fram tilgangi þeirra. Þegar honum var boðið að „[marsera áfram] með litlu syni [sína],“14 þá hlýddi hann því.

Ungmenni í dag eru blessuð þegar biskupar fylgja leiðsögn leiðtoga okkar um að „ráðgast við Stúlknafélagsforseta deildarinnar.“15 Stikuforsetar kenna biskupum og Stúlknafélagsforsetum að uppfylla skyldur sínar gagnvart ungmennum.16

Helaman heiðraði sáttmála. Þegar Ammon kenndi foreldrum ungliðanna fagnaðarerindið, tóku þessir foreldrar á móti því opnum örmum. Þeir voru svo skuldbundnir hinu nýja lífi sínu sem réttlátir lærisveinar að þeir gerðu sáttmála um að „[leggja] niður uppreisnarvopn sín.“17 Það eina sem fékk þá til að íhuga að brjóta þennan sáttmála, og hverfa aftur til gamalkunnrar bardagafortíðar sinnar, var að sjá Nefítana í hættu.

Ammónítarnir vildu hjálpa þessu fólki sem hafði boðið þeim öruggt heimili. Helaman, ásamt öðrum, sannfærði þá um að halda sáttmála sína um að berjast aldrei. Hann treysti meira á þann styrk sem Guð myndi veita en þann styrk sem þessir Ammonítar hefðu getað veitt með sverðum sínum og örvum.

Þegar Helaman og hinir ungu stríðsmenn hans stóðu andspænis ógnvekjandi áskorunum, stóð Helaman fastur fyrir. „En sjá. Þetta skiptir ekki máli – við treystum, að Guð bjargi okkur.“18 Í einu tilviki, þegar þeir voru á mörkum þess að svelta til dauða, brugðust þeir við með því að „[opna] sálir [sínar] í bæn til Guðs, að hann styrkti [þá] og bjargaði … [og] Drottinn Guð [þeirra] vitjaði [þeirra] með fullvissu um, að hann mundi varðveita [þá].“19 „vegna hinnar miklu trúar þeirra á það, sem þeim hafði verið kennt að trúa.“20

Við lærum af Helaman að þessir ungu menn nutu stuðnings foreldra sinna. Þessum trúföstu foreldrum var ljóst að meginábyrgð þeirra væri að kenna börnum sínum. Þeir kenndu börnum sínum að halda boðorðin og „ganga [grandvör]“21 frammi fyrir Guði. Mæður þeirra kenndu þeim að „ef þeir efuðust ekki, mundi Guð varðveita þá.“22 Feður þeirra voru áhrifaríkt fordæmi um að gera sáttmála.23 Þessir fyrrum stríðsmenn þekktu hrylling orrustu. Þeir fólu óreynda syni sína í umsjá Helamans og studdu þá með því að senda þeim „miklar vistir.“24

Helaman var ekki einn síns liðs er hann þjónaði sinni ungu hersveit. Hann hafði fólk í kringum sig, sem hann leitaði til eftir stuðningi og leiðsögn. Hann leitaði til Morónís hershöfðingja um hjálp og hún barst.

Enginn sem þjónar í ríki Drottins þjónar einsamall. Drottinn hefur blessað okkur með deildum og stikum. Fyrir tilstilli hins endurreista skipulags hans, höfum við úrræði, visku og innblástur til að takast á við hverskyns áskoranir.

Biskup veitir deildinni leiðsögn í gegnum ráð.25 Hann stuðlar að ársfjórðungslegum þjónustuviðtölum og hvetur síðan öldungasveit og Líknarfélag til að framfylgja þeirri ábyrgð sinni að þjóna fjölskyldum. Þessi forsætisráð hafa frumkvæði í því að meta þarfir og finna innblásnar lausnir. Stikuforsetar veita stuðning með því að leiðbeina forsætisráðum öldungasveitar og Líknarfélags um skyldur sínar.

Nauðsynlega leiðsögn fyrir leiðtoga og foreldra má finna í smáforritunum Gospel Library og Gospel Living. Í hinu innblásna efni þar getum við fundið ritningarnar, kenningar nútíma spámanna og Almenna handbók. Í ungmennaflipanum í Gospel Library eru mörg úrræði fyrir forsætisráð sveita og bekkja26 og einnig Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum. Þegar allir meðlimir deildarinnar lesa þessar innblásnu heimildir og leita leiðsagnar andans, getur Drottinn leitt alla til að styrkja ungmennin.

Öll deildin verður blessuð og efld er meðlimir einblína á hina upprísandi kynslóð. Þrátt fyrir ófullkomleika okkar og vankanta, þá býður himneskur faðir hverju okkar að liðsinna öðrum gegnum samfélag anda hans. Hann veit að við vöxum og helgumst þegar við fylgjum innblæstri heilags anda.27 Það skiptir ekki máli þótt viðleitni okkar sé ófullkomin. Þegar við erum í samstarfi við Drottin, getum við treyst því að framlag okkar verði í samræmi við það sem hann myndi gera fyrir ungmennin.

Með því að fylgja leiðsögn heilags anda við að liðsinna ungmennunum, verðum við vitni að elsku himnesks föður í lífi þeirra. Að bregðast við innblæstri Drottins, mun byggja upp samband kærleika og trausts. Það eru samböndin í lífi ungmennanna sem hafa mest áhrif á ákvarðanir þeirra.

Ungmennin munu kynnast mynstri opinberunar er þau starfa með okkur í því ferli að leita og bregðast við hugboðum um að þjóna öðrum. Þegar unga fólkið leitar til Drottins eftir þessari innblásnu leiðsögn, mun samband þeirra og traust við hann styrkjast.

Við tjáum ungmennunum traust okkar með því að bjóða stuðning og leiðsögn, án þess að taka yfir.28 Þegar við stígum til baka og leyfum ungmennunum að læra með því að ráðgast saman, velja innblásna stefnu og hrinda áætlun sinni í framkvæmd, munu þau upplifa sanna gleði og vöxt.

Henry B. Eyring forseti kenndi: „Það sem skiptir mestu er það sem [aðrir læra] frá [ykkur] varðandi hver þau raunverulega eru og geta orðið. Ég tel að það sé eitthvað sem þau munu ekki læra af fyrirlestrum. Þau munu læra það af tilfinningunni um það hver þið eruð, hvaða mann þið teljið þau geyma og hvað þið teljið að þau gætu orðið.“29

Ungmenni okkar vekja okkur undrun með hugrekki sínu, trú og getu. Þegar þau velja að vera fullgildir lærisveinar Jesú Krists, mun fagnaðarerindi hans rist í hjörtu þeirra. Að fylgja honum, verður hluti af því hver þau eru, ekki bara hvað þau gera.

Helaman hjálpaði ungu Ammonítum að sjá hvernig hugdjarfur lærisveinn Jesú Krists lifir. Við getum verið máttugar fyrirmyndir fyrir ungdóminn um það hvernig lærisveinar Krists haga lífi sínu í dag. Trúfastir foreldrar biðja fyrir þessum fordæmum í lífi barna sinna. Engin starfsemi getur komið í stað áhrifa kærleiksríks fullorðins fólks sem heldur sáttmála sína.

Biskup getur, sem forseti prestasveitar, sýnt ungmennum fordæmi um hvernig vera á trúr eiginmaður og ástríkur faðir30 með því að vernda, sjá fyrir og vera í forsæti31 á réttlátan hátt. Biskupar, sem einblína á ungmennin,32 munu hafa áhrif sem munu vara margar kynslóðir.

Ungmennin í dag eru meðal göfugustu33 anda himnesks föður. Þau voru meðal dyggustu verndara sannleika og sjálfræðis í fortilverunni.34 Þau fæddust á þessum dögum til að safna saman Ísrael með máttugu vitni sínu um Drottin Jesú Krist. Hann þekkir hvert þeirra og hina miklu möguleika þeirra. Hann er þolinmóður þegar þau vaxa. Hann mun endurleysa þau og vernda. Hann mun lækna þau og leiða. Hann mun innblása þau. Við, foreldrar þeirra og leiðtogar, höfum verið reiðubúin að styðja þau. Við höfum kirkju frelsarans til að hjálpa okkur er við ölum upp næstu kynslóð.

Ég ber vitni um að kirkja Krists, endurreist í gegnum spámanninn Joseph Smith og leidd í dag af Russell M. Nelson forseta, er skipulögð til að hjálpa ungmennum að framfylgja hinum mikla tilgangi sínum á þessum síðari dögum. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Alma 53:19.

  2. „Ef þið veljið, ef þið viljið, … getið þið verið stór hluti af nokkru stóru, miklu, tignarlegu! … Þið eruð meðal þeirra bestu sem Drottinn hefur nokkru sinni sent í þennan heim. Þið hafið getu til að verða snjallari, vitrari og hafa meiri áhrif á heiminn en nokkur fyrri kynslóða!“ (Russell M. Nelson, „Hope of Israel“ [heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fólk, 3. júní 2018], Gospel Library.)

  3. Dale G. Renlund, „Með augum Guðs,“ aðalráðstefna, október 2015.

  4. Alma 56:55.

  5. Alma 56:43–44.

  6. Alma 56:46.

  7. „Uppeldismarkmið föður okkar á himnum er ekki að láta börn sín gera það sem rétt er, heldur að láta börn sín velja að gera það sem rétt er“ (Dale G. Renlund, „Kjósið þá í dag,“ aðalráðstefna, okt. 2018).

  8. „Þegar við veitum æskunni umboð með því að bjóða þeim og leyfa þeim að framkvæma, mun kirkjan færast áfram á undraverðan hátt“ (David A. Bednar, 2020 sjá einnig 2020 Temple and Family History Leadership Instruction, 27. feb., 2020, Gospel Library).).

  9. Alma 53:22.

  10. Alma 56:17.

  11. Russell M. Nelson, „Hope of Israel,“ Gospel Library.

  12. Alma 53:20.

  13. Alma 58:12.

  14. Alma 56:30.

  15. Sjá Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 7.1.2, Gospel Library.

  16. Sjá Almenn handbók, 6.7.2.

  17. Alma 23:7.

  18. Alma 58:37.

  19. Alma 58:10–11.

  20. Alma 57:26.

  21. Alma 53:21.

  22. Alma 56:47.

  23. Sjá Alma 23:7; 24:17–19.

  24. Alma 56:27.

  25. Sjá Almenn handbók, 7.1.1.

  26. „Þegar við leitum eilífs sannleika geta eftirfarandi tvær spurningar hjálpað okkur að átta okkur á því hvort hugmynd komi frá Guði eða á sér annan uppruna: Er hugmyndin kennd stöðugt í ritningunum og í orðum lifandi spámanna? Er hugmyndin staðfest með vitni heilags anda? Guð opinberar eilífan sannleika með spámönnum sínum og heilagur andi staðfestir þann sannleika fyrir okkur og hjálpar okkur að tileinka okkur hann“ (John C. Pingree Jr., „Eilífur sannleikur,“ aðalráðstefna, okt. 2023).

  27. Sjá Kenning og sáttmálar 4:2–4.

  28. „Ef ungmenni [okkar] verða fyrir vonbrigðum með [verk Guðs], þá er líklegra að þau láti bugast af heiminum. … Hve mörg forsætisráð djákna og kennarasveita gera ekki annað en að kalla á einhvern til að flytja bæn eða bera út sakramentið? Bræður, þetta eru virkilega sérstakir andar og þeir geta gert merkilega hluti ef þeir fá tækifæri til þess!“ (Neal A. Maxwell, „Unto the Rising Generation,“ Ensign, apríl, 1985, 11).

  29. Henry B. Eyring, „Teaching Is a Moral Act“ (Trúarsamkoma í Brigham Young University, 27. ágúst 1991), 3, speeches.byu.edu.

  30. Sjá „Þema Aronsprestdæmissveita,“ Gospel Library.

  31. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library.

  32. „Við vonumst til þess að biskupsráð muni leggja mikla áherslu á prestdæmisábyrgð pilta og hjálpa þeim við sveitarskyldur sínar. Hæfir fullorðnir ungir menn verða kallaðir sem leiðbeinendur til að aðstoða forsætisráð Aronsprestdæmissveita og biskupráð við skyldur þeirra. Við erum fullviss um að fleiri piltar og stúlkur muni rísa undir áskoruninni og halda sig á sáttmálsveginum, vegna þessarar markvissu áherslu á ungmenni okkar“ (Quentin L. Cook, „Breytingar til styrktar ungmennum,“ aðalráðstefna, okt. 2019)

  33. „Himneskur faðir okkar hefur geymt marga af göfugustu öndum hans – kannski ætti ég að segja, besta liðið hans – fyrir þennan síðasta þátt. Þessir göfugu andar – þessir bestu leikmenn, þessar hetjur – eruð þið!“ (Russell M. Nelson, „Hope of Israel,“ Gospel Library).

  34. „Unglingurinn sem þú elskar gæti hafa verið einn af hugrökku stríðsmönnunum í liði sjálfræðis og sannleika. … Við getum hjálpað til með það hvernig við bregðumst við ákvörðun þeirra um að taka eigin ákvarðanir. Þeir munu skynja hvort við lítum á þá sem mögulega einn af hinum trúföstu stríðsmönnum fortilverunnar, skuldbundnir því að verja siðferðislegt sjálfræði og meðvitaðir um mikilvægi þess í að færa þeim hamingju. Ef við getum séð þá sem trúfasta stríðsmenn úr fortilverunni, gætum við líka séð sjálfstæðiskröfu þeirra sem merki um möguleika þeirra, tákn um að þeir séu að láta reyna á sjálfræðiskraftinn sem mun færa þeim hamingju“ (Henry B. Eyring, „“A Life Founded in Light and Truth“ [Brigham Young University trúarsamkoma, 15. ágúst, 2000], speeches.byu.edu).