Aðalráðstefna
„Haldið ró yðar og vitið að ég er Guð“
Aðalráðstefna apríl 2024


„Haldið ró yðar og vitið að ég er Guð“

Við getum haldið ró og vitað að Guð er himneskur faðir okkar, að við erum börn hans og að Jesús Kristur er frelsari okkar.

Á nýafstöðnu opnu húsi og fjölmiðladegi fyrir nýtt hús Drottins, fór ég fyrir hópi fréttamanna í skoðunarferð um hina helgu byggingu. Ég lýsti tilgangi musteranna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og svaraði mörgum ágætum spurningum þeirra.

Áður en ég gekk inn í himneska herbergið, útskýrði ég að þetta tiltekna herbergi í húsi Drottins stæði með táknrænum hætti fyrir friði og fegurð hins himneska heimilis, sem við getum snúið aftur til eftir þetta líf. Ég nefndi við gestina okkar að við myndum ekki tala saman í himneska herberginu, en ég væri fús til að svara öllum spurningum eftir að við færum yfir í næsta áfanga ferðar okkar.

Eftir að við yfirgáfum himneska herbergið og þar sem við komum saman á næsta stað, spurði ég gesti okkar hvort þeir hefðu einhverjar athugasemdir sem þeir vildu miðla. Einn blaðamannanna sagði nokkuð afar hjartnæmt: „Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt á ævinni. Ég vissi ekki að slík kyrrð væri til í heiminum; ég trúði einfaldlega ekki að slík kyrrð væri möguleg.“

Það kom mér á óvart hversu einlæg og sterk yfirlýsing þessarar manneskju var. Og viðbrögð blaðamannsins undirstrikuðu einn mikilvægan þátt kyrrðar – að sigrast á og lækka niður í óróa hins ytra umhverfis okkar.

Þegar ég síðar íhugaði ummæli blaðamannsins og hugleiddi hinn oft erilsama hraða okkar nútíma lífs – annríkið, hávaðann, ónæðið, truflunina og hjáleiðirnar, sem svo oft virðast krefjast athygli okkar – kom þessi ritningargrein upp í huga minn: „Haldið ró yðar og vitið að ég er Guð.“1

Ég bið þess að heilagur andi muni upplýsa sérhvert okkar þegar við hugleiðum hærri og helgari vídd kyrrðar í lífi okkar – innri andlega kyrrð sálarinnar sem gerir okkur kleift að vita og muna eftir því að Guð er faðir okkar á himnum, við erum börn hans og að Jesús Kristur er frelsari okkar. Þessi undraverða blessun stendur öllum meðlimum kirkjunnar til boða sem reyna trúfastlega að verða „sáttmálslýður Drottins.“2

Hald ró

Árið 1833 urðu hinir heilögu í Missouri fyrir miklum ofsóknum. Múgur hafði hrakið þá frá heimilum þeirra í Jacksonsýslu og nokkrir hinna heilögu höfðu reynt að koma sér fyrir í öðrum nærliggjandi sýslum. Ofsóknirnar héldu þó áfram og mörgum var hótað dauða. Við þessar erfiðu aðstæður opinberaði Drottinn spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, eftirfarandi fyrirmæli:

„Lát því hjörtu yðar huggast vegna Síonar, því að allt hold er í mínum höndum. Hald ró yðar og vitið að ég er Guð.“3

Ég trúi að boð Drottins um að „halda ró“ feli í sér miklu meira en bara að tala ekki og hreyfa sig ekki. Kannski er tilgangur hans að við minnumst hans og reiðum okkur á hann og kraft hans „alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem [við kunnum] að vera.“4 Þannig að „halda ró“ gæti verið leið til að minna okkur á að einblína ávallt á frelsarann, sem endanlega uppsprettu hinnar andlegu kyrrðar sálarinnar, sem styrkir okkur til að gera og yfirvinna erfiða hluti.

Byggja á bjarginu

Sönn trú beinist að Drottni Jesú Kristi – á hann sem hinn guðlega frumgetna son föðurins og á hann og endurlausnarverkið sem hann uppfyllti.

„Því að hann hefur uppfyllt lögmálið og krefst allra þeirra, sem á hann trúa. Og þeir, sem á hann trúa, halda sér við allt, sem gott er. Þess vegna talar hann máli mannanna barna, og hann dvelur eilíflega á himnum.“5

Jesús Kristur er frelsari okkar6, meðalgöngumaður okkar7, málsvari okkar8 hjá hinum eilífa föður og bjargið sem við ættum að byggja andlegan grunn lífs okkar á.

Helaman útskýrði: „Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“9

Tákn Krists sem „bjargið“ sem okkur ber að byggja undirstöðu lífs okkar á, er mjög lýsandi. Gætið vinsamlega að því í þessu versi að frelsarinn er ekki undirstaðan. Við erum öllu heldur hvött til að byggja okkar persónulegu andlegu undirstöðu á honum.10

Undirstaðan er sá hluti byggingar sem tengir hana við jörðu. Sterk undirstaða veitir vernd gegn náttúruhamförum og mörgum öðrum eyðandi öflum. Rétt undirstaða dreifir einnig þyngd mannvirkis yfir stórt svæði til að forðast að ofhlaða hinn undirliggjandi jarðveg og veita slétt yfirborð fyrir byggingu.

Ljósmynd
Hús með sterkum grunni.

Sterk og áreiðanleg tengsl milli jarðar og undirstöðu eru nauðsynleg ef mannvirki á að haldast traust og stöðugt til lengri tíma. Og fyrir tilteknar gerðir byggingar er hægt að nota akkerispinna og stálstangir til að festa undirstöðu byggingar við „fast bjarg,“ harða, fasta bergið undir yfirborðsefnum eins og jarðvegi og möl.

Ljósmynd
Hús fest við berggrunn.

Á svipaðan hátt verður undirstaða lífs okkar að vera tengd bjargi Krists, ef við ætlum að vera óhagganleg og staðföst. Líkja má heilögum sáttmálum og helgiathöfnum hins endurreista fagnaðarerindis frelsarans við akkerispinna og stálstangir sem notuð eru til að tengja byggingu við fast bjarg. Í hvert sinn sem við tökum trúfastlega á móti, ígrundum, höfum hugfasta og endurnýjum helga sáttmála, eru andlegir akkerispinnar okkar tryggilega fastir við „bjargið“ Jesú Krist.

„Sá, sem tryði á Guð, gæti því með vissu vonast eftir betri heimi, já, jafnvel samastaðar til hægri handar Guði, en sú von sprettur af trú og er sálum mannanna sem akkeri, er gjörir þá örugga og trúfasta og ætíð ríka af góðum verkum, Guði til dýrðar.“11

Stigvaxandi og í auknum mæli „er tímar [líða],“12 munu „dyggðir prýða hugsanir [okkar] linnulaust,“ „traust [okkar] vaxa og styrkjast í návist Guðs“ og „heilagur andi [verða okkur] stöðugur förunautur.“13 Við verðum stöðugri, grundvallaðri, fastari fyrir og hvikum ekki frá.14 Þar sem undirstaða lífs okkar er byggð á frelsaranum, erum við blessuð til að „halda ró“ – að hafa andlega fullvissu um að Guð sé faðir okkar á himnum, að við séum börn hans og að Jesús Kristur sé frelsari okkar.

Helga stundir, heilagir staðir og heimilið

Drottinn sér okkur fyrir bæði helgum stundum og heilögum stöðum til að hjálpa okkur að upplifa og læra um þessa innri ró sálar okkar.

Hvíldardagurinn er til að mynda dagur Guðs, helg stund til að minnast og tilbiðja föðurinn í nafni sonar hans, til að taka þátt í helgiathöfnum prestdæmisins og til að meðtaka og endurnýja helga sáttmála. Í hverri viku tilbiðjum við Drottin í heimanámi okkar og líka sem „samþegnar hinna heilögu,“15 á sakramentissamkomum og öðrum samkomum. Á hvíldardeginum ættu „hugsanir okkar, verk og háttsemi að vera tákn sem við gefum Guði og vísbending um elsku okkar til hans.“16 Hvern sunnudag, ef við viljum, getum við haldið ró og vitað að Guð er himneskur faðir okkar, að við erum börn hans og að Jesús Kristur er frelsari okkar.

Einn mikilvægur þáttur hvíldardagstilbeiðslu okkar er að „fara í hús bænarinnar og færa sakramenti [okkar] á helgum degi [Drottins].“17 „Hús bænarinnar“ sem við komum saman í á hvíldardegi eru samkomuhús og önnur viðurkennd húsakynni – heilagir staðir lotningar, tilbeiðslu og lærdóms. Hvert samkomuhús og hver húsakynni eru helguð með prestdæmisvaldi, sem staður þar sem andi Drottins fær dvalið og þar sem börn Guðs geta fengið „vitneskju um lausnara sinn.“18 Ef við viljum þá getum við haldið ró“ á heilögum tilbeiðslustöðum okkar og vitað með ævarandi vissu að Guð er faðir okkar á himnum, að við erum börn hans og að Jesús Kristur er frelsari okkar.

Musterið er annar heilagur staður, einkum ætlaður til að tilbiðja og þjóna Guði og læra eilífan sannleika. Við hugsum, hegðum okkur og klæðumst öðruvísi í húsi Drottins, en á öðrum almennum stöðum. Ef við viljum getum við haldið ró í hans heilaga húsi og vitað að Guð er faðir okkar á himnum, að við erum börn hans og að Jesús Kristur er frelsari okkar.

Megin tilgangur helgra stunda og heilagra staða er nákvæmlega sá sami: Að beina athygli okkar endurtekið að himneskum föður og áætlun hans, að Drottni Jesú Kristi og friðþægingu hans, að uppbyggjandi krafti heilags anda og loforðunum sem fylgja helgiathöfnum og sáttmálum hins endurreista fagnaðarerindis frelsarans.

Í dag endurtek ég reglu sem ég hef áður lagt áherslu á. Heimili okkar ættu að vera hin endanlega samsetning bæði helgra stunda og heilags staðar, þar sem einstaklingar og fjölskyldur geta haldið „ró“ og vitað að Guð er faðir okkar á himnum, að við erum börn hans og að Jesús Kristur er frelsari okkar. Að yfirgefa heimili okkar til tilbeiðslu á hvíldardegi og í húsi Drottins, er vissulega nauðsynlegt. Aðeins þegar við snúum aftur til heimila okkar með þá andlegu yfirsýn og styrk sem við hljótum á þessum heilögu stöðum og með þessum athöfnum, getum við haldið áfram að einblína á megintilgang jarðlífsins og sigrast á freistingunum sem eru svo ríkjandi í okkar fallna heimi.

Viðvarandi upplifanir á hvíldardegi, í musterinu og á heimili okkar, ættu að styrkja okkur með krafti heilags anda, með viðvarandi og öflugu sáttmálssambandi við föðurinn og soninn og „fullkomnu vonarljósi“19 á eilíf fyrirheit Guðs.

Þegar heimili og kirkja eru sameinuð undir eitt höfuð í Kristi20 gætum við verið aðþrengd á allar hliðar, en við munum ekki láta það valda okkur óróa í huga og hjarta. Við gætum orðið ráðvillt í aðstæðum okkar og áskorunum, en við munum ekki örvænta. Við gætum orðið fyrir ofsóknum, en við munum líka vita að við erum aldrei ein.21 Við getum hlotið andlegan styrk til að vaxa og verða og haldast staðföst og sönn.

Loforð og vitnisburður

Ég lofa, er við byggjum undirstöðu lífs okkar á „bjargi“ Jesú Krists, þá fáum við notið blessunar heilags anda, til að hljóta persónulega og andlega ró sálarinnar, sem gerir okkur mögulegt að vita og hafa hugfast að Guð er faðir okkar á himnum, að við erum börn hans, að Jesús Kristur er frelsari okkar og að við getum líka verið blessuð til að takast á við og sigrast á erfiðleikum.

Ég ber gleðilegt vitni um að Guð er faðir okkar á himnum, að við erum börn hans og að Jesús Kristur er lausnari okkar og „bjarg“ hjálpræðis okkar. Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins, Jesú Krists, amen.