Aðalráðstefna
Kalla, ekki falla
Aðalráðstefna apríl 2024


Kalla, ekki falla

Ef við áköllum Guð, ber ég vitni um að við munum ekki falla.

Í dag langar mig að byrja á því að vitna um hina algjöru fullvissu hjarta míns að Guð heyrir bænir okkar og svarar þeim á persónulegan hátt.

Í heimi sem tekst á við óvissu, sársauka, vonbrigði og hryggð, gætum við fundið tilhneigingu til að reiða okkur meira á persónulega getu og val, sem og þekkingu og öryggi sem kemur frá heiminum. Það gæti fengið okkur til að setja til hliðar hina raunverulegu uppsprettu liðsinnis og stuðnings, sem getur tekist á við áskoranir þessa jarðneska lífs.

Ljósmynd
Herbergi á sjúkrahúsi.

Ég minnist tilviks þegar ég var lagður inn á sjúkrahús vegna veikinda og ég átti erfitt með að sofa. Þegar ég slökkti ljósin og herbergið varð myrkvað, sá ég lýsandi skilti í loftinu fyrir framan mig sem á stóð: „Kalla, ekki falla.“ Daginn eftir sá ég, mér til undrunar, sömu skilaboðin endurtaka sig víðsvegar í herberginu.

Ljósmynd
Kalla, ekki falla skilti.

Af hverju voru þessi skilaboð svona mikilvæg? Þegar ég spurði hjúkrunarfræðinginn um þetta, sagði hún: „Það er til að koma í veg fyrir högg sem gæti aukið sársaukann sem þú hefur nú þegar.“

Eðli síns vegna færir þetta líf okkur sársaukafullar upplifanir, sumar órjúfanlegar líkama okkar, aðrar sökum veikleika eða þrenginga, enn aðrar tengdar því hvernig aðrir nota sjálfræði sitt og einhverjar vegna þess hvernig við beitum sjálfræðinu.

Er til loforð sem er máttugra en það sem frelsarinn sjálfur gaf þegar hann sagði: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á“ eða kallið: „Og fyrir yður mun upp lokið verða“?1

Bænin er sú samskiptaleið við himneskan föður okkar, sem gerir okkur kleift að „kalla og ekki falla.“ Hins vegar geta komið upp aðstæður þar sem við gætum talið að kallið hafi ekki heyrst vegna þess að við fáum ekki svar samstundis eða svar í samræmi við væntingar okkar.

Þetta leiðir stundum til kvíða, sorgar eða vonbrigða. Minnist hins vegar tjáningar Nefís um trú hans á Drottin, er hann sagði: „Hví skyldi hann þá ekki geta kennt mér að smíða skip?“2 Nú spyr ég ykkur: Hvernig má það vera, að Drottinn geti ekki leiðbeint ykkur, svo að þið fallið ekki?

Traust á svör Guðs felur í sér að samþykkja að hans vegir eru ekki okkar vegir3 og að „allt verður að gerast á sínum tíma.“4

Fullvissa þess að vita að við erum börn kærleiksríks og miskunnsams himnesks föður, ætti að vera hvatningin til að „kalla“ í einlægri bæn og „biðja án afláts [og] aldrei láta hugfallast; … svo að [verk okkar] … verði sálu [okkar] til velferðar.“5 Ímyndið ykkur tilfinningar himnesks föður þegar við biðjum í hverri bæn í nafni sonar hans, Jesú Krists. Þvílíkur kraftur og ljúfleiki tel ég að sýni sig þegar við gerum það!

Ritningarnar eru uppfullar af dæmum um þá sem ákölluðu Guð, svo þeir féllu ekki. Þegar Helaman og her hans tókust á við þrengingar sínar, ákölluðu þeir Guð og opnuðu sálir sínar í bæn. Þeir hlutu fullvissu, frið, trú og von, öðluðust hugrekki og staðfestu þar til þeir náðu markmiði sínu.6

Ímyndið ykkur hvernig Móse hefur kallað og hrópað til Guðs þegar hann stóð á milli Rauðahafsins og Egyptanna sem nálguðust til árásar, eða Abraham þegar hann hlýddi fyrirmælum um að fórna syni sínum Ísak.

Ég er þess fullviss um að hvert og eitt ykkar hefur upplifað og mun upplifa aðstæður þar sem það að „kalla“ er svarið við því að falla ekki.

Fyrir þrjátíu árum, þegar ég og eiginkona mín vorum að undirbúa borgaralegt hjónaband okkar og musterishjónaband okkar, fengum við símtal um að borgaralegum hjónaböndum hefði verið aflýst vegna verkfalls. Við fengum símtalið þremur dögum fyrir áætlaða athöfn. Eftir nokkrar tilraunir á öðrum skrifstofum og hafandi ekki fundið lausar bókanir, fórum við að finna til kvíða og að efast um að við gætum í raun gift okkur eins og til stóð.

Ég og unnusta mín „kölluðum“ og úthelltum sálum okkar til Guðs í bæn. Loks sagði einhver okkur frá skrifstofu í litlum bæ í útjaðri borgarinnar þar sem kunningi þeirra var borgarstjóri. Án þess að hika fórum við til hans og spurðum hvort hann gæti mögulega gift okkur. Okkur til gleði samþykkti hann. Ritari hans lagði áherslu á það við okkur að við yrðum að fá vottorð þar í borg og afhenda öll skjölin fyrir hádegi daginn eftir.

Daginn eftir fórum við til litla bæjarins og fórum á lögreglustöðina til að biðja um nauðsynleg skjöl. Okkur til undrunar sagði lögreglumaðurinn að hann myndi ekki láta okkur fá þau vegna þess að mörg ung pör hefðu verið á farið frá fjölskyldum sínum til að giftast leynilega í þessum bæ, sem var auðvitað ekki staðan í okkar tilfelli. Enn á ný greip okkur ótti og depurð.

Ég man eftir því hvernig ég kallaði hljóðlega til himnesks föður míns til að falla ekki. Ég hlaut skýr hughrif, sem endurtóku sífellt: „Musterismeðmæli, musterismeðmæli.“ Ég tók þegar í stað fram musterismeðmælin mín og afhenti þau lögreglumanninum, unnustu minni til undrunar.

Hve hissa við urðum þegar við heyrðum lögreglumanninn segja: „Af hverju sögðuð þið mér ekki að þið væruð frá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu? Ég þekki kirkju ykkar vel.“ Hann hófst þegar handa við að undirbúa skjalið. Það kom okkur enn frekar á óvart þegar lögreglumaðurinn yfirgaf stöðina án þess að segja neitt.

Fimmtíu mínútur liðu og hann kom ekki til baka. Klukkan var þegar 11:55 um morguninn og við höfðum til hádegis að skila pappírunum. Skyndilega birtist hann með fallegan hvolp og sagði okkur að þetta væri brúðkaupsgjöf og gaf okkur hann ásamt skjalinu.

Við hlupum í átt að skrifstofu borgarstjóra með skjalið okkar og nýja hundinn okkar. Þá sáum við opinbera bifreið koma í átt til okkar. Ég stansaði fyrir framan hana. Bíllinn stansaði og við sáum ritarann inni í honum. Þegar hún sá okkur sagði hún: „Fyrirgefið; ég sagði í hádeginu. Ég verð að sinna öðrum erindagjörðum.“

Hljóðlega og í auðmýkt kallaði ég af öllu hjarta til himnesks föður míns í auðmýkt og bað enn á ný um hjálp til að „falla ekki.“ Skyndilega gerðist kraftaverkið. Ritarinn sagði við okkur: „En fallegur hundur sem þið eigið. Hvar get ég fundið svona hund fyrir son minn?“

„Hann er handa þér,“ svöruðum við strax.

Ritarinn horfði á okkur í undrun og sagði: „Allt í lagi, förum á skrifstofuna og gerum nauðsynlegar ráðstafanir.“

Tveimur dögum síðar vorum við Carol gefin saman í borgaralegt hjónaband, eins og ráðgert var, og síðan vorum við innsigluð í musterinu í Líma, Perú.

Að sjálfsögðu þurfum við að hafa í huga að það að kalla snýst um trú og framkvæmd – trú til að bera kennsl á að við eigum himneskan föður sem svarar bænum okkar eftir hans óendanlegu visku og framkvæmd í samræmi við það sem við biðjum um. Bæn – kall – getur verið tákn um von okkar. En að grípa til aðgerða að bæn lokinni, er tákn um að trú okkar sé raunveruleg – trú sem á reynir á tímum sársauka, ótta eða vonbrigða.

Ég legg til að þið hugleiðið eftirfarandi:

  1. Hugsið alltaf til Drottins sem ykkar fyrsta valkost um hjálp.

  2. Kalla, ekki falla Snúið ykkur til Guðs í einlægri bæn.

  3. Eftir bæn, gerið þá allt sem þið getið til að hljóta þær blessanir sem þið báðust fyrir um.

  4. Verið nægilega auðmjúk til að taka á móti svarinu á hans tíma og hans hátt.

  5. Hættið ekki! Haldið áfram á sáttmálsveginum meðan þið bíðið eftir svari.

Ef til vill er einhver á þessari stundu, sem finnst eins og hann sé að falla, vegna aðstæðna, og langar til að kalla eins og Joseph Smith gerði er hann hrópaði: „Ó Guð, hvar ert þú? … Hversu lengi munt þú halda að þér hendi þinni?“7

Biðjið með „andlegum skriðþunga,“ jafnvel í aðstæðum sem þessum, eins og Russell M. Nelson forseti kenndi,8 því bænir ykkar eru ætíð heyrðar!

Munið eftir þessum sálmi:

Hóf þín dagsins hugsun fyrsta,

hjartans bænarmál?

Baðstu Guð um blessun sína,

baðstu‘ í Jesú nafni‘ um þína

sigurtrú í sál?

Ó, hve bænin huggar hrjáða,

Hún mun snúa nótt í dag.

Hún, ef finnst þér fátt til ráða,

færir allt í lag.9

Þegar við biðjumst fyrir, getum við fundið fyrir faðmi himnesks föður, sem sendi eingetinn son sinn til að létta byrðar okkar, því ef við áköllum Guð, þá ber ég vitni um að við munum ekki falla. Í nafni Jesú Krists, amen.