Aðalráðstefna
Ætlun Guðs er að leiða ykkur heim
Aðalráðstefna apríl 2024


Ætlun Guðs er að leiða ykkur heim

Allt í áætlun föðurins fyrir ástkær börn hans er hannað til að leiða alla heim.

Ég vil tjá þakklæti fyrir bænir ykkar, er ég hef hafið ferlið við að aðlagast þeirri köllun, fyrir milligöngu Nelsons forseta, að þjóna sem postuli Drottins Jesú Krists. Þið getið ef til vill ímyndað ykkur auðmýktina sem ég hef fundið fyrir og þetta hefur verið tími mjög mikils umróts og ítarlegrar sjálfsskoðunar. Það er hins vegar sannarlega mikill heiður að þjóna frelsaranum, á hvaða hátt sem er, og að taka þátt með ykkur í því að deila góðum vonartíðindum fagnaðarerindis hans.

Þar fyrir utan, hefur verið sagt að á bak við hvern nýjan postula standi undrandi tengdamóðir. Ég veit ekki hvort það hefur í raun verið sagt, en í þessu tilfelli gæti það vissulega verið. Og mig grunar að sú staðreynd að tengdamóðir mín er ekki lengur hjá okkur dragi ekkert úr undrun hennar.

Fyrir nokkrum mánuðum, þegar ég og eiginkona mín heimsóttum annað land til að sinna ýmsum kirkjuverkefnum, vaknaði ég snemma einn morguninn og horfði syfjulega út um hótelgluggann. Niðri við fjölfarna götuna sá ég að vegatálmi hafði verið settur upp og lögreglumaður var staðsettur þar nærri til að snúa bílum frá þegar þeir nálguðust tálmann. Í fyrstu fóru aðeins nokkrir bílar eftir veginum og þeim var snúið frá. En eftir því sem tíminn leið og umferðin jókst tóku að myndast bílabiðraðir.

Út um gluggann fyrir ofan fylgdist ég með lögreglumanninum sem virtist hafa ánægju af því valdi sínu að loka fyrir umferð og beina fólki frá. Í raun virtist hann fjaðurmagnaður í spori, eins og hann gæti farið að dansa, þegar hver bíll af öðrum nálgaðist tálmann. Ef ökumaður varð svekktur yfir vegatálmanum, virtist lögreglumaðurinn ekki hjálpsamur eða samúðarfullur. Hann hristi bara höfuðið ítrekað og benti í gagnstæða átt.

Vinir mínir, samlærisveinar mínir á vegi hins jarðneska lífs, hin fallega áætlun föður okkar, jafnvel hans „dásamlega“ áætlun,1 er hönnuð til að leiða ykkur heim, ekki til að halda ykkur fjarri.2 Enginn hefur sett upp vegatálma og komið einhverjum þar fyrir til að snúa ykkur frá og vísa í burtu. Í raun er því nákvæmlega öfugt farið. Guð leitar ykkar linnulaust. Hann „vill að öll börn sín velji að snúa aftur til sín“3 og hann gerir allt sem hann getur til að leiða ykkur til baka.

Okkar kærleiksríki faðir hafði umsjón yfir sköpun þessarar jarðar í þeim ótvíræða tilgangi að veita mér og þér tækifæri til að upplifa þá þroskandi og fágandi upplifanir sem fylgja jarðlífinu, tækifæri til að nota hið guðsgefna siðferðislega sjálfræði okkar til að velja hann,4 til að læra og vaxa, gera mistök, iðrast, elska Guð og náunga okkar og snúa heim til hans einhvern daginn.

Hann sendi dýrmætan, elskaðan son sinn til þessa fallna heims, til að upplifa allt svið mannlegrar reynslu, sjá öllum hinum börnum sínum fyrir fordæmi til að fylgja og til að friðþægja og endurleysa. Hin mikla friðþægingargjöf Krists fjarlægir alla vegatálma líkamlegs og andlegs dauða sem myndu aðskilja okkur frá okkar eilífu heimkynnum.

Allt í áætlun föðurins fyrir ástkær börn hans er hannað til að leiða alla heim.

Hvað kalla sendiboðar Guðs, spámenn hans, þessa áætlun í ritningum endurreisnarinnar? Þeir nefna hana endurlausnaráætlunina,5 miskunnaráætlunina,6 hina miklu sæluáætlun7 og áætlun sáluhjálpar fyrir alla „með blóði míns eingetna“.8

Hinni miklu sæluáætlun föðurins er ætlað að veita ykkur hamingju, hér og nú og um alla eilífð. Hún á ekki að standa í vegi hamingju ykkar og valda ykkur þess í stað áhyggjum og ótta.

Endurlausnaráætlun föðurins er í raun ætlað að endurleysa ykkur, bjarga ykkur fyrir þjáningu og dauða Jesú Krists9 og leysa ykkur úr greipum syndar og dauða. Hún á ekki að skilja ykkur eftir eins og þið eruð.

Miskunnaráætlun föðurins er ætlað að veita miskunn er þið snúið aftur til hans og heiðrið tryggðarsáttmála ykkar við hann. Hún á ekki að neita um miskunn og valda sársauka og sorg.

Sáluhjálparáætlun föðurins er í raun ætlað að veita ykkur sáluhjálp í himneska dýrðarríkinu, er þið veitið „vitnisburðinum um Jesú“10 viðtöku og leggið fram sál ykkar óskipta.11 Hún á ekki að halda ykkur fjarri.

Þýðir þetta að það skipti engu hvernig við lifum lífi okkar? Að það skipti ekki máli hvernig við notum sjálfræði okkar? Að við getum annað hvort samþykkt eða hafnað boðorðum Guðs? Nei, auðvitað ekki. Vafalaust voru stöðugustu boð Jesú og tilmæli í jarðneskri þjónustu hans að við breyttumst og iðruðumst og kæmum til hans.12 Allar kenningar hans gefa í grunnatriðum til kynna að það að lifa á æðra plani siðferðislegrar breytni13 sé ákall um persónulega framþróun, til umbreytandi trúar á Krist, til máttugrar breytingar hjartans.14

Guð vill að við endurstillum á róttækan hátt sjálfselskar og drambsamar skyndihvatir okkar, rekum út hinn náttúrlega mann15 svo að við „[förum og syndgum] ekki framar“.16

Ef við trúum að ætlun altækrar áætlunar föðurins sé að frelsa okkur, endurleysa okkur, sýna okkur miskunn og þar með færa okkur hamingju, hver er þá ætlun sonarins sem leiddi fram þessa miklu áætlun?

Sonurinn segir okkur sjálfur: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig.“17

Vilji Jesú er vilji hins gæskuríka föður! Hann vill gera hverju einasta barni föður síns mögulegt að ná lokatakmarki áætlunarinnar – eilíftu líf með þeim. Enginn er undanskilinn þessum guðlegu möguleikum.

Ef ykkur er tamt að hafa áhyggjur af því að þið munið aldrei standa ykkur eða að af því að kærleiksríkt umfang algjörrar friðþægingar Krists nái náðarsamlega til allra annarra, en ekki ykkar sjálfra, þá hafið þið misskilið. Algjör þýðir algjör. Algjör nær yfir ykkur og þá sem þið elskið.18

Nefí útskýrir þennan fallega sannleika: „Hann gjörir aðeins það, sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn, að hann gefur sitt eigið líf til að draga alla menn til sín. Hann hefur því boðið öllum hlut í hjálpræði sínu.“19

Frelsarinn, góði hirðirinn, fer og leitar að týndum sauðum sínum þar til hann finnur þá.20 „Hann vill ekki að neinn glatist.“21

„Armur miskunnar minnar er útréttur til yðar, og ég mun taka á móti hverjum þeim, sem koma vill.“22

„Eru nokkrir sjúkir yðar á meðal? Færið þá hingað. Eru einhverjir lamaðir, blindir, haltir, særðir, holdsveikir, tærðir, daufir eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila, því að ég hef samúð með yður.“23

Hann vék ekki á brott konunni með blóðlátið; hann hörfaði ekki undan líkþráa manninum; hann hafnaði ekki konunni sem staðin var að hórdómi; hann synjaði ekki þeim sem voru iðrandi – sama hver synd þeirra var. Og hann mun heldur ekki synja ykkur eða þeim sem þið elskið þegar þið færið honum sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Það er ekki ætlun hans eða ráðagerð eða áætlun hans, stefna, ósk eða von.

Nei, hann setur ekki upp vegatálma eða fyrirstöður; hann fjarlægir það. Hann heldur ykkur ekki fjarri; hann býður ykkur velkomin inn.24 Öll þjónusta hans var lifandi yfirlýsing um þennan ásetning.

Svo er það auðvitað sjálf friðþægingarfórn hans, sem við eigum erfiðara með að skilja, ofar okkar jarðnesku getu til að skilja. En, og þetta er mikilvægt „en“, við skiljum og fáum skilið, hinn heilaga, frelsandi ásetning friðþægingarfórnar hans.

Fortjald musterisins rifnaði í tvennt þegar Jesús dó á krossinum, til tákns um að leiðin í návist föðurins hafi verið galopnuð – fyrir alla sem vilja snúa sér til hans, treysta honum, varpa áhyggjum sínum yfir á hann og taka á sig ok hans með sáttmálsböndum.25

Með öðrum orðum, þá snýst áætlun föðurins ekki um vegatálma. Það gerði hún aldrei; það mun hún aldrei gera. Er eitthvað sem við þurfum að gera, halda boðorð, breyta einhverjum hluta í eðli okkar? Já. En með náð hans, þá er það innan seilingar, ekki utan seilingar.

Þetta eru góðu fréttirnar! Ég er ólýsanlega þakklátur fyrir þennan einfalda sannleika. Ráðagerð föðurins, áætlun hans, stefna hans, ásetningur hans, ósk hans og von hans, eru einungis til þess gerð að lækna ykkur, til að færa ykkur frið, til að leiða ykkur og ástvini ykkar heim. Um þetta vitna ég, í nafni Jesú Krists, sonar hans, amen.