Aðalráðstefna
Trúföst allt til enda
Aðalráðstefna apríl 2024


Trúföst allt til enda

Með hans hendi munið þið geta fellt hvern þann Golíat sem fram kemur í lífi ykkar.

Kæru ungu vinir, í dag langar mig að tala beint til ykkar – ungmenna kirkjunnar.

Ár er liðið frá því aðalforsætisráð Stúlknafélagsins var kallað. Hversu mikið hefur gerst á þessu síðastliðna ári!

Við höfum hitt mörg ykkar og numið kenningar Krists sameiginlega. Við höfum sungið söngva, eignast nýja vini og þjónað með ykkur í samfélagi okkar. Við höfum hlotið aukinn styrk af því að hlusta á vitnisburði ykkar á ungmennaráðstefnum og heimsviðburðum. Og við höfum tilbeðið saman í húsi Drottins.

Í hvert sinn höfum við miðlað boðskap frá Drottni okkar, Jesú Kristi. Kvöldið í kvöld verður ekki öðruvísi; ég flyt ykkur boðskap, ungmenni kirkju Jesú Krists.

Stóru spurningarnar

Hafið þið einhvern tíma hugleitt hvernig þið getið verið trúföst Guði á sama tíma og þið lifið í heimi syndar? Hvaðan fáið þið styrk til að sækja fram og halda áfram að gera gott? Hvernig upplifið þið sanna gleði?

Ég held að reynsla Davíðs af Golíat1 geti hjálpað.

Davíð og Golíat

Í Gamla testamentinu barðist her Filistea við Ísraelsmenn og á hverjum morgni og hverju kvöldi skoraði risavaxinn Filistei, að nafni Golíat, Ísraelsmenn á hólm.

Ljósmynd
Davíð og Golíat

Meðal Ísraelsþjóðarinnar bjó Davíð, ungur fjárhirðir, miklu minni en Golíat, en með gríðalega trú á Jesú Krist! David bauð sig fram til að berjast. Jafnvel konungurinn reyndi að telja honum hughvarf en Davíð kaus að setja traust sitt á Jesú Krist.

Áður hafði Davíð barist við ljón og einnig við björn. Af eigin reynslu vissi hann að Guð hafði verndað hann og gert hann sigursælan. Fyrir Davíð var málstaður Guðs mikilvægasti málstaðurinn. Fullur trúar á Guð, sem myndi ekki yfirgefa hann, tók hann því fimm slétta steina, tók slöngvu sína og fór til móts við risann.

Ljósmynd
Fimm steinar Davíðs

Ritningarnar segja okkur að fyrsti steinninn sem Davíð kastaði hafi hæft enni Golíats og endað líf hans.2

Í leit að svarinu

Þótt Davíð hafi einungis notað einn stein til að drepa Golíat, var hann reiðubúinn með fimm. Með fimm! Þetta fær mig til að hugsa um það hvernig ég geti búið mig undir að takast á við heiminn.

Hvað ef hver steinn Davíðs táknaði einhvern styrkleika sem við þurfum til að vera sigursæl í lífi okkar? Hverjir gætu þessir fimm steinar verið? Mér datt þessir möguleikar í hug:

  1. Steinn elsku minnar til Guðs.

  2. Steinn trúar minnar á frelsara okkar, Jesú Krist.

  3. Steinn þekkingar á mínu sanna auðkenni.

  4. Steinn daglegrar iðrunar minnar.

  5. Steinn aðgangs míns að krafti Guðs.

Við skulum ræða hvernig þessir styrkleikar blessa okkur.

Í fyrsta lagi, steinn elsku minnar til Guðs. Fremsta og æðsta boðorðið er að elska Guð.3 Leiðarvísirinn Til styrktar ungmennum kennir okkur: „Guð elskar ykkur. Hann er faðir ykkar. Hin fullkomna elska hans getur innblásið ykkur til að elska hann. Þegar elska ykkar til himnesks föður hefur sterkustu áhrifin í lífi ykkar, munu svo margar ákvarðanir verða einfaldari.“4

Elska okkar til Guðs og náið samband okkar við hann veitir okkur þann styrk sem við þörfnumst til að umbreyta hjörtum okkar og eiga auðveldara með að sigrast á áskorunum okkar.

Í öðru lagi, steinn trúar minnar á frelsara okkar, Jesú Krist. Þegar Jesús Kristur kom til jarðar þjáðist hann fyrir syndir okkar5 og tók á sig sorgir okkar, sársauka, veikleika og líkamlega og sálræna sjúkdóma okkar. Þess vegna veit hann hvernig á að hjálpa okkur. Að hafa trú á Jesú Krist þýðir að treysta fyllilega visku hans, tímasetningu og elsku hans og mætti til að friðþægja fyrir syndir okkar. Steinn trúar á Jesú Krist mun sigra alla „risa“ í lífi okkar.6 Við getum sigrast á þessum fallna heimi, því hann sigraðist á honum fyrst.7

Í þriðja lagi, steinn þekkingar á mínu sanna auðkenni. Ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, kenndi að mikilvægustu auðkenni okkar eru að vera börn Guðs, börn sáttmálans og lærisveinar Jesú Krists.8

Allt breytist þegar ég veit hver ég er í raun.9 Þegar ég efast um getu mína, endurtek ég oft í huga mínum eða upphátt: „Ég er dóttir Guðs, ég er dóttir Guðs,“ eins oft og ég þarf, þar til ég finn aftur fullvissu til að halda áfram.

Í fjórða lagi, steinn daglegrar iðrunar minnar. Í leiðarvísinum Til styrktar ungmennum lesum við: „Iðrun er ekki refsing fyrir synd; hún er leið frelsarans til að leysa okkur frá synd. Að iðrast þýðir að breytast – að láta af synd og snúa sér að Guði. Hún merkir að bæta sig og hljóta fyrirgefningu. Slík breyting er ekki einstakur viðburður; hún er viðvarandi ferli.“10

Ekkert veitir meira frelsi en að skynja fyrirgefningu Guðs og vita að við erum hrein og sátt við hann. Fyrirgefning er möguleg öllum.

Fimmti steinninn er steinn aðgangs míns að krafti Guðs. Sáttmálarnir sem við gerum við Guð, eins og þeir sem við gerum í helgiathöfn skírnar, veita okkur aðgang að krafti guðleikans.11 Kraftur Guðs er raunverulegur kraftur sem hjálpar okkur að takast á við áskoranir, taka góðar ákvarðanir og auka hæfni okkar til að þola erfiðar aðstæður. Hann er kraftur sem hjálpar okkur að efla þá sérstöku hæfileika sem við þörfnumst.12

Í leiðarvísinum Til styrktar ungmennum er útskýrt: „Sáttmálar tengja ykkur við himneskan föður og frelsarann. Þeir auka kraft Guðs í lífi ykkar.“13

Tölum um þessi tengsl. Munið þið eftir kennslu Krists um muninn á húsinu sem byggt er á bjargi og hinu sem byggt var á sandi?14 Öldungur Dieter F. Uchtdorf útskýrði: „Hús stendur ekki af sér storm vegna þess að húsið er sterkt. Það stendur heldur ekki bara af því að bjargið er sterkt. Húsið stendur af sér storminn vegna þess að það er kirfilega fest við þetta sterka bjarg. Það er styrkur tengingarinnar við bjargið sem skiptir máli.“15

Ljósmynd
Hús byggt á bjargi.

Persónuleg tenging okkar við Jesú Krist mun veita okkur hugrekki og fullvissu til að sækja fram meðal fólks sem virðir ekki trú okkar eða hrellir okkur. Kristur býður okkur að hafa sig stöðugt í huga; hann segir okkur: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín.“16 Hugsun um frelsarann veitir okkur skíran huga til að taka ákvarðanir, að breyta án ótta og segja nei við því sem er andstætt kenningum Guðs.17 Þegar dagurinn minn er erfiður og mér finnst sem ég þoli ekki meira, færir hugsunin um Krist mér frið og veitir mér von.

Hvernig getum við tileinkað okkur þennan kraft Jesú Krists? Lykilatriði er að hlýða sáttmálum okkar og auka trúna á Jesú Krist.

Ég vildi reyndar óska þess að Davíð hefði haft einn stein í viðbót; það væri steinn vitnisburðar míns. Vitnisburður okkar er byggður á persónulegri, andlegri reynslu þar sem við berum kennsl á hin guðlegu áhrif í lífi okkar.18 Enginn getur tekið þá þekkingu frá okkur. Að vita það sem við vitum eftir að upplifað okkar andlegu reynslu er ómetanlegt. Það veitir okkur frelsi að vera trú þeirri þekkingu. Það veitir okkur gleði! Ef við elskum sannleikann, munum við leita hans og þegar við finnum hann, verjum við hann.19

Boð

Á sama hátt og ég valdi stein númer sex, þá býð ég ykkur að koma saman með námsbekk ykkar, sveit eða fjölskyldu og hugleiða hvaða aðra styrkleika þið þurfið að öðlast til að vera trúföst Guði og, þar af leiðandi, til að sigra heiminn.

Loforð

Kæru vinir, Kristur vill óðfús fylgja okkur á lífsleið okkar. Ég lofa ykkur að er þið haldið í járnstöngina, munið þið ganga hönd í hönd með Jesú Kristi.20 Hann mun leiða ykkur og hann mun kenna ykkur.21 Með hans hendi munið þið geta fellt hvern þann Golíat sem fram kemur í lífi ykkar.

Vitnisburður

Ég ber vitni um að það felst gleði í því að biðja dag hvern, lesa í Mormónsbók dag hvern, meðtaka sakramentið á hverjum sunnudegi og að sækja trúarskólann – jafnvel snemma morguns! Það felst gleði í því að gera gott.

Það felst gleði í því að vera trúfastur Guði alheims, frelsara heimsins, konungi konunganna. Það felst gleði í því að vera lærisveinn Jesú Krists.

Guð er faðir okkar. Hann þekkir þrár hjarta ykkar og möguleika ykkar og treystir ykkur.

Kæru ungmenni, Jesús Kristur mun hjálpa ykkur að vera trúföst allt til enda. Um þennan sannleika ber ég mitt vitni, í nafni Jesú Krists, amen.