Aðalráðstefna
Treystu Drottni
Aðalráðstefna apríl 2024


Treystu Drottni

Samband okkar við Guð mun aðeins styrkjast upp að því marki sem við erum fús að setja traust okkar á hann.

Í fjölskyldu minni förum við stundum í leik sem við köllum „brjáluðu traustsæfinguna“. Kannski hafið þið líka farið í þennan leik. Tveir einstaklingar standa nokkur fet frá hvor öðrum, annar snýr baki í hinn. Við merki frá þeim sem er fyrir aftan, lætur sá sem er fyrir framan sig detta aftur á bak í fang vinar síns.

Traust er grundvöllur allra sambanda. Grunnspurning í öllum samböndum er: „Get ég treyst hinum aðilanum?“ Samband myndast aðeins þegar fólk er fúst að setja traust á hvort annað. Það er ekki samband ef annar aðilinn treystir fullkomlega en hinn ekki.

Sérhvert okkar er ástkær andasonur eða dóttir kærleiksríks himnesks föður.1 Þótt þessi andlegi skyldleiki veiti grundvöll, þá skapar hann einn og sér ekki þýðingarmikið samband við Guð. Samband er aðeins hægt að skapa þegar við veljum að treysta honum.

Himneskur faðir þráir að skapa náið, persónulegt samband við sérhvert andabarna sinna.2 Jesús tjáði þessa þrá þegar hann bað þess „að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“3 Sambandið sem Guð sækist eftir við hvert andabarn er svo náið og persónulegt að hann getur gefið allt sem hann á og allt sem hann er.4 Svoleiðis innilegt, varanlegt samband getur aðeins þróast ef það er byggt á fullkomnu, algjöru trausti.

Fyrir sitt leyti, hefur himneskur faðir frá upphafi unnið að því að miðla algjöru trausti sínu á guðlegum möguleikum sérhvers barna sinna. Traust liggur að baki þeirrar áætlunar sem hann kynnti okkur til vaxtar og framþróunar áður en við komum til jarðar. Hann átti eftir að kenna okkur eilíf lögmál, skapa jörðina, sjá okkur fyrir dauðlegum líkama, gefa okkur þá gjöf að hafa frjálst val og leyfa okkur að læra og vaxa með því að taka eigin ákvarðanir. Hann vill að við veljum að fylgja lögmálum hans og snúum aftur til að njóta eilífs lífs með honum og syni hans.

Vitandi að við myndum ekki alltaf taka góðar ákvarðanir, þá sá hann okkur líka fyrir leið til að komast hjá afleiðingum slæmra ákvarðana. Hann sá okkur fyrir frelsara – syni sínum Jesú Kristi – til að friðþægja fyrir syndir okkar og gera okkur hrein að nýju, gegn því að við iðruðumst.5 Hann býður okkur að nota reglubundið hina dýrmætu gjöf iðrunar.6

Allir foreldrar vita hversu erfitt er að treysta barni sínu nægilega mikið til að leyfa því að taka eigin ákvarðanir, sérstaklega þegar foreldrið veit að barnið er líklegt til að gera mistök og þjást af þeim sökum. Himneskur faðir leyfir okkur að taka þær ákvarðanir sem munu hjálpa okkur að ná guðlegum möguleikum okkar! Eins og öldungur Dale G. Renlund kenndi, þá er „uppeldismarkmið [hans] ekki að láta börn sín gera það sem rétt er, heldur að láta börn sín velja að gera það sem rétt er og verða að lokum eins og hann er.“7

Þrátt fyrir traust Guðs til okkar, mun samband okkar við hann aðeins styrkjast upp að því marki sem við erum fús að setja traust okkar á hann. Áskorunin er sú að við lifum í föllnum heimi og höfum öll upplifað trúnaðarbrest vegna óheiðarleika, hagræðingar, þvingunar eða annarra kringumstæðna. Þegar við höfum verið svikin, gætum við átt erfitt með að treysta á ný. Þessar neikvæðu upplifanir trausts á ófullkomnum mönnum hafa jafnvel áhrif á fúsleika okkar til að treysta fullkomnum himneskum föður.

Fyrir nokkrum árum tjáðu tveir vinir mínir, Leonid og Valentina, áhuga á að verða meðlimir kirkjunnar. Þegar Leonid byrjaði að læra fagnaðarerindið, fannst honum erfitt að biðjast fyrir. Fyrr á ævinni hafði Leonid þjáðst vegna slæmrar meðferðar og stjórnsemi yfirmanna og hafði þróað með sér vantraust á yfirboðurum. Þessar upplifanir hans höfðu áhrif á getu hans til að ljúka upp eigin hjarta og tjá himneskum föður innilegar tilfinningar sínar. Með tíma og námi, öðlaðist Leonid betri skilning á persónugerð Guðs og upplifði elsku Guðs. Um síðir varð bænin eðlileg leið fyrir hann til að tjá þakklæti og þá elsku sem hann bar til Guðs. Aukið traust hans til Guðs leiddi hann og Valentinu að lokum til að ganga í helga sáttmála til að styrkja samband sitt við Guð og hvort annað.

Ef fyrri traustsmissir kemur í veg fyrir að þið treystið Guði, fylgið þá fordæmi Leonids. Haldið þolinmóð áfram að læra meira um himneskan föður, persónugerð hans, eiginleika hans og tilgang hans. Leitið að og skráið upplifanir þess að finna elsku hans og kraft í lífi ykkar. Lifandi spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur kennt að því meira sem við lærum um Guð, því auðveldar eigum við með að treysta honum.8

Stundum er besta leiðin að læra að treysta Guði einfaldlega sú að treysta honum. Eins og í „brjáluðu traustsæfingunni“, þá þurfum við bara stundum að vera tilbúin að falla aftur á bak og leyfa honum að grípa okkur. Jarðneskt líf okkar er prófraun. Áskoranir sem reyna á okkur umfram eigin getu verða oft á vegi okkar. Þegar eigin þekking og skilningur er ófullnægjandi, er okkur eðlislægt að leita úrræða okkur til hjálpar. Í upplýsingamettuðum heimi er enginn skortur á fram settum úrræðum til lausnar á áskorunum okkar. Hin einfalda, sannreynda leiðsögn í Orðskviðunum veitir hins vegar besta ráðið: „Treystu Drottni af öllu hjarta.“9 Við sýnum traust okkar á Guði með því að snúa okkur fyrst til hans þegar áskoranir lífsins blasa við.

Eftir að ég lauk laganáminu í Utah, stóð fjölskylda mín frammi fyrir mikilvægri ákvörðun um hvar ætti að vinna og skapa okkur heimili. Eftir að hafa ráðgast saman og við Drottin, fannst okkur við knúin til að flytja fjölskyldu okkar til austurhluta Bandaríkjanna, fjarri foreldrum okkar og systkinum. Til að byrja með gekk allt vel og okkur fannst eins og við hefðum fengið ákvörðun okkar staðfesta. En svo breyttust hlutirnir. Það varð samdráttur á lögmannsstofunni og ég stóð frammi fyrir óvissu og hugsanlegum atvinnumissi, einmitt á sama tíma og Dora dóttir okkar fæddist með alvarlegar læknisfræðilegar áskoranir og langvarandi sérþarfir. Þegar ég stóð frammi fyrir þessum áskorunum, fékk ég köllun til að þjóna sem krafðist talsverðs tíma og skuldbindingar.

Ég hafði aldrei tekist á við slíka áskorun og lét yfirbugast. Ég tók að efast um ákvörðunina sem við höfðum tekið og staðfestinguna sem henni fylgdi. Við höfðum treyst Drottni og hlutirnir áttu að fara vel. Ég hafði látið mig detta aftur á bak og nú virtist sem enginn myndi grípa mig.

Dag nokkurn komu þessi orð skýrt í hug minn og hjarta: „Ekki spyrja hvers vegna; spurðu hvað ég vil að þú lærir“. Nú var ég enn ringlaðri. Einmitt á þeirri stundu sem ég átti erfitt með fyrri ákvörðun mína, bauð Guð mér að treysta sér jafnvel meira. Þegar ég lít til baka, þá var þetta afgerandi stund í lífi mínu – það var á þeirri stundu sem mér varð ljóst að besta leiðin til að læra að treysta Guði væri einfaldlega að treysta honum. Á næstu vikum fylgdist ég undrandi með þegar Drottinn afhjúpaði á undursamlegan hátt áætlun sína um að blessa fjölskyldu okkar.

Góðir kennarar og þjálfarar vita að vitsmunalegur vöxtur og líkamlegur styrkur geta aðeins átt sér stað þegar reynt er á huga og vöðva. Á sama hátt býður Guð okkur að vaxa með því að treysta á andlega kennslu sína gegnum sálarstyrkjandi upplifanir. Við getum því verið viss um að ef við höfum sýnt Guði traust áður, þá bíður okkar önnur traustsstyrkjandi upplifun. Guð einblínir á vöxt okkar og framfarir. Hann er meistarakennarinn, hinn fullkomni þjálfari sem er alltaf að styrkja okkur til að hjálpa okkur að skilja betur guðlega möguleika okkar. Það felur alltaf í sér framtíðarboð um að treysta honum örlítið meira.

Mormónsbók kennir mynstrið sem Guð notar til að styrkja okkur til að skapa sterkt samband við okkur. Í Kom, fylg mér lærðum við nýlega um það hvernig reynt var á traust Nefís til Guðs, þegar hann og bræður hans fengu boð um að snúa aftur til Jerúsalem til að ná í látúnstöflurnar. Eftir að fyrstu tilraunir þeirra mistókust, gáfust bræður hans upp og voru tilbúnir að snúa aftur án taflanna. Nefí valdi hins vegar að leggja algjört traust sitt á Drottin og tókst að ná töflunum.10 Sú upplifun hefur líklega styrkt traust Nefís á Guði þegar boginn hans brotnaði og fjölskyldan stóð frammi fyrir því að svelta í óbyggðunum. Enn á ný kaus Nefí að treysta Guði og fjölskyldunni var bjargað.11 Þessar endurteknu upplifanir veittu Nefí enn meira traust á Guði fyrir hið gríðarlega, traustsstyrkjandi verkefni, sem hann átti brátt eftir að standa frammi fyrir, að smíða skip.12

Gegnum þessar upplifanir, styrkti Nefí samband sitt við Guð með því að treysta honum stöðugt og sleitulaust. Guð notar sama mynstrið með okkur. Hann býður okkur persónulega að styrkja og dýpka traust okkar á sér.13 Í hvert sinn sem við tökum boði og bregðumst við því, þá eykst traust okkar á Guði. Ef við hunsum eða höfnum boði, þá stöðvast framþróun okkar, þar til við erum tilbúin að bregðast við nýju boði.

Góðu fréttirnar eru þær að burtséð frá því trausti sem við bárum eða bárum ekki til Guðs í fortíð, þá getum við valið að treysta Guði í dag og á hverjum degi héðan í frá. Ég lofa að í hvert sinn sem við gerum það, mun Guð vera til staðar til að grípa okkur og samband okkar byggt á trausti mun verða sterkara og sterkara, þar til við verðum eitt með honum og syni hans. Þá getum við lýst þessu yfir, eins og Nefí gerði: „Ó Drottinn, ég hef treyst þér og mun að eilífu treysta þér.“14 Í nafni Jesú Krists, amen.