Aðalráðstefna
Ávöxtur sem varir
Aðalráðstefna apríl 2024


Ávöxtur sem varir

Nauðsynlegt er að heilagur andi innsigli helgiathafnir okkar, ef við viljum öðlast hinar fyrirheitnu blessanir um alla eilífð.

Þegar ég var ungur drengur, elskaði ég ferskar, þroskaðar ferskjur. Enn í dag fæ ég vatn í munninn við þá hugsun að bíta í safaríka, þroskaða ferskju. Eftir að fullþroskaðar ferskjur hafa verið tíndar, endast þær í tvo til fjóra daga áður en þær taka að spillast. Ég á góðar minningar af því að vera með móður minni og systkinum í eldhúsinu við að varðveita ferskjurnar fyrir komandi vetur, með því að innsigla þær í krukkum. Ef við varðveittum ferskjurnar rétt, myndi þessi ljúffengi ávöxtur endast í nokkur ár, ekki bara í tvo til fjóra daga. Ef þær eru rétt tilreiddar og hitaðar, mun ávöxturinn varðveitast þar til innsiglið er rofið.

Kristur bauð okkur að „fara og bera ávöxt, … ávöxt, sem varir.“1 Hann var þó ekki að tala um ferskjur. Hann var að tala um blessanir Guðs til barna sinna. Ef við gerum og höldum sáttmála við Guð, geta blessanir sáttmála okkar náð handan þessa lífs og verið innsiglaðar okkur eða varðveittar okkur og orðið að ávexti sem varir að eilífu.

Heilagur andi, í guðlegu hlutverki sínu sem heilagur andi fyrirheitsins, mun innsigla hverja helgiathöfn þeim sem er trúfastur sáttmálum sínum, svo hún verði gild eftir jarðlífið.2 Nauðsynlegt er að heilagur andi innsigli helgiathafnir okkar, ef við viljum öðlast hinar fyrirheitnu blessanir um alla eilífð, að þær verði ávöxtur sem varir.

Þetta er einkar mikilvægt, ef við viljum hljóta upphafningu.3 Eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt: „Við ættum að byrja með endinn í huga. … Vissulega er ‚endinn,‘ sem við vildum helst ná fram, að lifa að eilífu með fjölskyldu okkar í upphöfnu ástandi, þar sem við verðum í návist Guðs, himnesks föður okkar, og sonar hans, Jesú Krists.“4 Nelson forseti hefur einnig sagt: „Himneskt hjónaband er mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir eilíft líf. Það krefst þess að maður sé giftur réttri manneskju, á réttum stað, með réttu valdsumboði og að hlýða þeim helga sáttmála af trúmennsku. Þá getum við verið fullviss um upphafningu í himneska ríki Guðs.“5

Hverjar eru blessanir upphafningar? Þær fela í sér að dvelja saman í návist Guðs um eilífð sem eiginmaður og eiginkona og erfa „hásæti, ríki, hátignir og völd, … og áframhald niðjanna alltaf og að eilífu,“6 og meðtaka allt sem Guð faðirinn á.7

Drottinn opinberaði með Joseph Smith:

„Í hinni himnesku dýrð eru þrír himnar eða stig,

Og til þess að ná því æðsta, verður maðurinn að ganga inn í þessa prestdæmisreglu [það er, hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála]

Og gjöri hann það eigi, getur hann ekki náð því.

Hann getur gengið inn í hin, en lengra nær ríki hans ekki. Hann getur ekki bætt við sig.“8

Af þessu lærum við að hægt er að vera í himneska ríkinu eða dvelja í návist Guðs og vera einhleypur. Til að hljóta upphafningu í æðstu gráðu hins himneska ríkis, verður maður að ganga í hjónaband með réttmætu valdsumboði og síðan að vera trúr sáttmálunum sem gerðir voru fyrir það hjónaband. Þegar við erum trúföst þessum sáttmálum, getur heilagur andi fyrirheitsins innsiglað hjónabandssáttmála okkar.9 Slíkar innsiglaðar blessanir verða ávöxtur sem varir.

Hvað er nauðsynlegt til að halda hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála af trúmennsku?

Russell M. Nelson forseti hefur kennt að þegar við gerum þennan eilífa hjónabandssáttmála sé um að ræða tvenns konar skuldbindingu: Lárétt samband milli eiginmanns og eiginkonu og lóðrétt samband við Guð.10 Til að blessanir upphafningar verði innsiglaðar okkur og vari áfram eftir þetta líf, verðum við að vera trú bæði láréttum og lóðréttum böndum sáttmálans.

Til að viðhalda láréttu sambandinu við maka ykkar, hefur Guð ráðlagt okkur að „elska eiginkonu [ykkar eða eiginmann] af öllu hjarta [ykkar] og … vera bundinn henni [eða honum] og engu öðru.“11 Fyrir þau sem eru gift, þá merkir það að vera bundin henni eða honum og engu öðru, að þið ráðgist saman í kærleika, þið elskið og annist hvort annað, þið setjið tíma með maka ykkar í forgang fram yfir utanaðkomandi áhugamál og þið ákallið Guð til að hjálpa ykkur að sigrast á veikleikum ykkar.12 Það merkir líka að það sé engin tilfinningaleg nánd eða kynferðisleg samskipti af neinu tagi utan hjónabands ykkar, þar með talið daður eða stefnumót, og að ekkert klám sé stundað, sem getur af sér losta.13

Til að viðhalda láréttum böndum í sáttmálanum, verður hvor aðili um sig að þrá að vera í hjónabandinu. Dallin H. Oaks forseti kenndi nýlega: „Við vitum líka að hann mun engan neyða til innsiglunarsambands gegn vilja sínum. Blessanir innsiglaðs sambands eru tryggðar öllum sem halda sáttmála sína en aldrei með því að þvinga innsiglað samband upp á aðra manneskju sem er óverðug eða ófús.“14

Hvaða lóðréttu banda vísar Nelson forseti til? Hin lóðréttu bönd eru þau sem við myndum við Guð.

Til að viðhalda hinum lóðréttu böndum við Guð, þurfum við að vera trúföst musterissáttmálunum sem við höfum gert varðandi lögmál hlýðni, fórnar, fagnaðarerindisins, skírlífis og helgunar. Við gerum einnig sáttmála við Guð um að meðtaka okkar eilífa lífsförunaut og að vera réttlátur maki og foreldri. Þegar við viðhöldum hinum lóðréttu böndum, verðum við hæf fyrir blessanir þess að tilheyra fjölskyldu Guðs gegnum sáttmála Abrahams, þar með talið blessanir sem tengjast niðjum okkar, fagnaðarerindinu og prestdæminu.15 Þessar blessanir eru einnig ávöxtur sem varir.

Þótt við vonum að allir sem ganga inn í hinn nýja og ævarandi sáttmála verði sannir og fái blessanir innsiglaðar sér um alla eilífð, þá virðist sú fyrirmynd stundum utan seilingar. Í þjónustutíð minni hef ég hitt meðlimi sem gera og halda sáttmála, þótt maki þeirra geri það ekki. Það eru líka þau sem eru einhleyp, sem aldrei hljóta tækifæri til að giftast í jarðlífinu. Þau eru líka til sem ekki eru trúföst í hjónabandssáttmálum sínum. Hvað verður um einstaklinga í öllum þessum aðstæðum?

  1. Ef þið eruð trúföst þeim sáttmálum sem þið gerðuð þegar þið hlutuð musterisgjöf ykkar, munið þið hljóta þær persónulegu blessanir sem ykkur er lofað í musterisgjöfinni, jafnvel þótt maki ykkar hafi rofið sáttmála sína eða sagt skilið við hjónabandið. Ef þið voruð innsigluð og skilduð síðar og ef innsiglun ykkar hefur ekki verið afturkölluð, munu persónulegar blessanir innsiglunarinnar gilda áfram fyrir ykkur, ef þið eruð trúföst.16

    Trúfastur maki vill ef til vill ógilda innsiglun sína vegna ótrús maka, er vekur tilfinningar svika og mikilla særinda, til að komast eins langt frá honum eða henni og mögulegt er, bæði á jörðu og um eilífð. Ef þið hafið áhyggjur af því að þið séuð á einhvern hátt bundin iðrunarlausum fyrrverandi maka, munið þá að þið eruð það ekki! Guð mun ekki krefjast þess að neinn sé í innsigluðu sambandi um alla eilífð, þvert á sinn eigin vilja. Himneskur faðir mun tryggja að við hljótum allar blessanir sem þrár okkar og val leyfa.17

    Sé hins vegar óskað eftir ógildingu innsiglunar, er sjálfræðið virt. Hægt er að fylgja ákveðnum verklagsreglum. Þetta ætti þó ekki að gerast af léttúð! Æðsta forsætisráðið hefur lyklana til að binda á jörðu og á himni. Þegar Æðsta forsætisráðið hefur veitt ógildingu innsiglunar, verða blessanir tengdar þeirri innsiglun ekki lengur í gildi; þeim er aflýst bæði lárétt og lóðrétt. Mikilvægt er að skilja að til þess að hljóta blessanir upphafningar, þá verðum við að sýna að við séum fús til að ganga inn í og halda þennan nýja og ævarandi sáttmála, hvort heldur í þessu lífi eða því næsta.

  2. Þið sem eruð einhleyp í kirkjunni, hafið í huga að „á Drottins eigin hátt og tíma verður engum blessunum haldið frá hinum trúföstu heilögu. Drottinn mun dæma og launa hverjum einstaklingi í samræmi við hjartans [þrár] hans og verk.“18

  3. Er von, ef þið hafið ekki verið trúföst musterissáttmálum? Já! Fagnaðarerindi Jesú Krists er fagnaðarerindi vonar. Sú von er frá Jesú Kristi, fyrir einlæga iðrun og hlýðni við kenningar Krists. Ég hef séð einstaklinga gera alvarleg mistök, brjóta helga sáttmála. Ég sé slíka reglubundið iðrast, verða fyrirgefið og fara aftur inn á sáttmálsveginn. Ef þið hafið rofið musterissáttmála ykkar, þá hvet ég ykkur til að snúa ykkur til Jesú Krists, ræða við biskup ykkar, iðrast og ljúka upp sál ykkar fyrir hinum máttuga lækningarmætti sem er mögulegur vegna friðþægingar Jesú Krists.

Bræður og systur, okkar kærleiksríki himneski faðir hefur gefið okkur sáttmála, svo að við getum fengið aðgang að öllu því sem hann geymir okkur. Þessar helgu blessanir frá Guði eru ljúffengari en nokkur jarðneskur ávöxtur. Þær er hægt að varðveita okkur að eilífu, svo þær verði að ávexti sem varir, ef við erum trúföst sáttmálum okkar.

Ég ber vitni um að Guð hefur endurreist valdið til að binda á jörðu og á himni. Það valdsumboð er að finna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Það er í höndum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar og er iðkað undir handleiðslu Russells M. Nelson forseta. Þau sem ganga í hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála og halda þann sáttmála, geta orðið fullkomin og að lokum hlotið fyllingu dýrðar föðurins, burtséð frá aðstæðum sem þau fá ekki ráðið við.19

Þessar fyrirheitnu blessanir sem tengjast sáttmálum okkar geta verið innsiglaðar okkur með heilögum anda fyrirheitsins og orðið ávöxtur sem varir alltaf og að eilífu. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jóhannes 15:16.

  2. Sjá Dale G. Renlund, „Aðgangur að krafti Guðs fyrir tilstuðlan sáttmála,“ aðalráðstefna, apríl 2023; Kenning og sáttmálar 132:7.

  3. Helgiathöfn er innsigluð þegar hún er gerð gild bæði á himni og jörðu, vegna þess að hún er framkvæmd af þeim sem hefur valdsumboð og er vottuð af heilögum anda.

    Okkur hættir til að hugsa um að innsiglunarvaldið eigi aðeins við um ákveðnar helgiathafnir musterisins, en það vald er nauðsynlegt til að gera allar helgiathafnir gildar og bindandi handan dauða. Innsiglunarvaldið veitir, til að mynda skírn ykkar lögmætisstimpil, svo að hún verði viðurkennd hér og á himnum. Endanlega eru allar helgiathafnir prestdæmisins framkvæmdar með lyklum forseta kirkjunnar og eins og Joseph Fielding Smith forseti útskýrði: ‚Hann [forseti kirkjunnar] hefur falið okkur vald. Hann hefur sett innsiglunarvaldið í prestdæmið okkar, vegna þess að hann hefur þessa lykla‘ [tilvitnun Harolds B. Lee, í Conference Report, október 1944, 75]“ (D. Todd Christofferson, „Innsiglunarvaldið,“ aðalráðstefna, október 2023).

    „Athöfn sem innsigluð er með heilögum anda fyrirheitsins er sú sem vottuð er af heilögum anda; það er sú sem er samþykkt af Drottni. … Enginn getur logið að heilögum anda án þess að eftir verði tekið. … Þessar reglur eiga líka við allar aðrar helgiathafnir og framkvæmdir í kirkjunni. Þannig að ef báðir aðilar [í hjónabandi] eru ‚réttvísir og sannir‘ [Kenning og sáttmálar 76:53], ef þeir eru verðugir, er vottað innsigli sett á musterishjónaband þeirra; ef þeir eru óverðugir, réttlætast þeir ekki af andanum og vottun heilags anda á sér ekki stað. Verðugleiki þar á eftir, mun fullgilda innsiglið og óréttlæti mun rjúfa hvert innsigli“ (Bruce R. McConkie, „Holy Spirit of Promise,“ í Preparing for an Eternal Marriage Student Manual [2003], 136).

    Heilagur andi fyrirheitsins er heilagur andi sem setur samþykkisstimpil á sérhverja helgiathöfn: skírn, staðfestingu, vígslu, hjónaband. Loforðið er að blessanirnar muni veitast fyrir trúfesti. Ef einstaklingur brýtur sáttmála, hvort sem hann tengist skírn, vígslu, hjónabandi eða einhverju öðru, mun andinn afturkalla samþykkisstimpil sinn og blessanirnar munu ekki berast. Sérhver helgiathöfn er innsigluð, með loforði um umbun byggðri á trúfesti. Heilagur andi afturkallar samþykkisstimpilinn þegar sáttmálar eru rofnir“ (Joseph Fielding Smith, Doctrines of Salvation, samant. Bruce R. McConkie [1954], 1:45).

  4. Russell M. Nelson, Heart of the Matter: What 100 Years of Living Have Taught Me (2023), 15. Allir sáttmálar verða að vera innsiglaðir heilögum anda fyrirheitsins, ef þeir eiga að hafa gildi eftir upprisu hinna dánu“ (sjá Kenning og sáttmálar 132:7).

  5. Russell M. Nelson, „Himneskt hjónaband,“ aðalráðstefna, október 2008.

  6. Kenning og sáttmálar 132:19.

  7. Sjá Kenning og sáttmálar 84:38.

  8. Kenning og sáttmálar 131:1–4.

  9. Sjá Kenning og sáttmálar 132:19–20. „Sá æðsti ákvörðunarstaður – upphafning í himneska ríkinu – er í brennidepli Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu“ (Dallin H. Oaks, „Dýrðarríki,“ aðalráðstefna, október 2023).

  10. „Á sama hátt og hjónabönd og fjölskyldur eru bundin sérstökum láréttum böndum, [sem] skapa sérstaka elsku, verður hið nýja samband til þegar við bindumst … Guði lóðrétt með sáttmála,“ er við göngum inn í hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála (Russell M. Nelson, Heart of the Matter, 41–42).

  11. Kenning og sáttmálar 42:22; sjá einnig Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 38.6.16. Þegar við ræðum hjónaband hér, þá er ég að vísa til hjónabandsins samkvæmt lögmáli Guðs, sem skilgreinir hjónabandið sem löglegt og lögmætt samband karls og konu (sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library).

  12. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library.

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 42:22–24.

  14. Dallin H. Oaks, „Dýrðarríki“; skáletrað hér.

  15. Sjá Kenning og sáttmálar 86:8–11; 113:8; Abraham 2:9–11.

  16. Sjá Almenn handbók, 38.4.1.

    Þegar ég þjónaði í fastatrúboði í Sviss, deildum ég og félagi minn fagnaðarerindinu með dásamlegum 60 ára gömlum svissneskum hjónum. Þegar við kenndum þessum hjónum um hina endurreistu kirkju Jesú Krists, sýndi konan mikinn áhuga á því sem við vorum að kenna. Á næstu vikum hlaut hún vitnisburð um þann raunveruleika að kirkja Jesú Krists væri endurreist, með réttu valdi frá Guði og að Jesús Kristur leiddi kirkju sína með lifandi spámönnum og postulum. Við hlökkuðum til að kenna þessum hjónum um eina göfugustu kenningu endurreisnarinnar, tækifærið til eilífs hjónabands. Það vakti hins vegar furðu mína, er við kenndum þessum hjónum um kenninguna um eilíft hjónaband, að svissneska konan sagði að hún hefði engan áhuga á að vera með eiginmanni sínum um alla eilífð. Henni fannst himnaríki ekki fela í sér að hún yrði með eiginmanni sínum þar, sem hún hafði verið gift í 36 ár. Þessi systir var skírð en eiginmaður hennar ekki. Þau voru aldrei innsigluð í musterinu.

    Fyrir marga væri himnaríki þó ekki himnaríki, án þess að vera með þeim sem þeir eru giftir. Að vera með maka að eilífu sem þú elskar, hljómar sannlega eins og himnaríki. Líkt og öldungur Jeffrey R. Holland sagði frá um sína ástkæru eiginkonu, Pat, þá væru himnaríki ekki himnaríki án hennar (sjá „Scott Taylor: For Elder Holland, Heaven without His Wife and Children ‚Would Would Be Heaven for Me,‘“ Church News, 22. júlí 2023, thechurchnews.com).

  17. Sjá Dallin H. Oaks, „Dýrðarríki.“

  18. Russell M. Nelson, „Himneskt hjónaband.“

  19. Sjá Jóhannes 15:16.