Aðalráðstefna
Sáttmálsfullvissa gegnum Jesú Krist
Aðalráðstefna apríl 2024


Sáttmálsfullvissa gegnum Jesú Krist

Þegar við förum í hús Drottins, hefjum við helga ferð til að læra að verða æðri og heilagri lærisveinar Krists.

Ástkæru bræður mínir og systur, ég bið þess að við megum endurnýjast andlega af hinum innblásna boðskap frá leiðtogum okkar þessa helgi og gleðjast yfir því sem ég nýt þess að kalla „sáttmálsfullvissu gegnum Jesú Krist.“ Þessi fullvissa er hin kyrrláta en örugga fullvissa um að hljóta þær blessanir sem Guð lofar þeim sem halda sáttmála sína og eru svo nauðsynlegar í krefjandi aðstæðum okkar tíma.

Bygging nýrra húsa Drottins um allan heim, undir innblásinni leiðsögn Russells M. Nelson forseta, hefur vakið mikinn fögnuð meðal kirkjumeðlima og er mikilvægt tákn um vöxt ríkis Drottins.

Þegar ég íhuga undursamlega upplifun mína við vígslu Feather River musterisins í Kaliforníu í október síðastliðnum, velti ég fyrir mér hvort við týnum okkur stundum í gleðinni yfir því að hafa ný musteri í borgum okkar og samfélögum og vanrækjum helgari tilgang hinna heilögu sáttmála sem eru gerðir í musterinu.

Á framhlið hvers musteris eru rituð hin hátíðlegu orð: „Heilagleiki til Drottins.“1 Þessi innblásnu orð eru skýrt boð um að þegar við förum í hús Drottins, hefjum við helga ferð til að læra að verða æðri og heilagri lærisveinar Krists. Þegar við gerum sáttmála í heilagleika frammi fyrir Guði og ásetjum okkur að fylgja frelsaranum, hljótum við kraft til að umbreyta hjörtum okkar, endurnýja anda okkar og dýpka samband okkar við hann. Slík viðleitni færir sálum okkar helgun og myndar helg bönd við Guð og Jesú Krist, sem lofa að við getum erft gjöf eilífs lífs.2 Afrakstur þessarar helgu ferðar er að við hljótum helgari og æðri fullvissu fyrir daglegt líf gagnvart sáttmálum okkar sem gerðir voru gegnum Jesú Krist.

Slík fullvissa er hápunkturinn í guðlegu sambandi okkar við Guð og getur hjálpað okkur að auka hollustu okkar við og þakklæti fyrir Jesú Krist og friðþægingarfórn hans. Hún styrkir getu okkar til að elska og þjóna öðrum og styrkir sálir okkar til að lifa í vanhelgum heimi sem stöðugt verður myrkari og meira letjandi. Það gerir okkur kleift að sigrast á fræjum efasemda og örvæntingar, ótta og vonbrigða, hugarangurs og vonleysis sem óvinurinn reynir að sá djúpt í hjörtu okkar, sérstaklega þegar lífið er erfitt, þrengingar langarvarandi eða aðstæður erfiðar. Vers í Biblíunni veitir hverju okkar góða leiðsögn, er við tökumst á við stífan vind hinna veraldlegu áskorana okkar tíma: „Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar.“3

Kæru bræður og systur, þau sem hljóta einlæga fullvissu um sáttmálana sem gerðir eru í húsi Drottins gegnum Jesú Krist, búa yfir einu sterkasta aflinu sem við getum haft aðgang að í þessu lífi.

Þegar við höfum lært Mormónsbók í Kom, fylg mér á þessu ári, verðum við vitni að því hvernig Nefí var dásamlegt lifandi dæmi um mátt slíkrar sáttmálsfullvissu, er hann stóð frammi fyrir áföllum og áskorunum, eins og að ná í töflurnar, eins og Drottinn bauð. Þrátt fyrir að Nefí væri ákaflega hryggur vegna ótta og vantrúar Lamans og Lemúels, var hann fullviss um að Drottinn myndi færa þeim töflurnar. Hann sagði við bræður sína: „Sem Drottinn lifir og sem við lifum, munum við ekki fara niður til föður okkar í óbyggðunum fyrr en við höfum lokið því, sem Drottinn bauð okkur að gjöra.“4 Af því að Nefí treysti á fyrirheit Drottins, gat hann framkvæmt það sem honum hafði verið boðið að gera.5 Síðar, í sýn sinni, sá Nefí áhrif slíkrar fullvissu er hann skrifaði: „Ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, … og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“6

Ég hef sjálfur orðið vitni að kærleiksríkum loforðum og krafti Drottins streyma í líf barna Guðs, styrkja þau til að takast á við aðstæður lífsins. Um daginn kom eiginkona mín heim eftir tilbeiðslu sína í musterinu og sagði mér hve djúpt snortin hún hefði orðið af því sem hún upplifði þar. Þegar hún kom í hús Drottins, sá hún karlmann í hjólastól fara mjög hægt áfram og konu ganga mjög erfiðlega við staf, bæði að koma hugdjörf til að tilbiðja Drottinn í húsi hans. Þegar eiginkona mín gekk inn í innvígslusvæðið, sá hún yndislega systur sem á vantaði annan handlegginn – og með einungis hluta af hinum handleggnum – framkvæma á fallegan og himneskan hátt öll þau verk sem henni voru falin.

Þegar ég og eiginkona mín ræddum þessa reynslu, komumst við að þeirri niðurstöðu að aðeins hrein og einlæg fullvissa um hin eilífu loforð sem Guð veitir með hinum heilögu sáttmálum sem gerðir voru við hann í húsi hans, gæti knúið þessa dásamlegu lærisveina Krists frá heimilum sínum á þessum ískalda degi, þrátt fyrir persónulegar aðstæður sínar.

Kæru vinir, ef það er eitthvað eitt sem við gætum eignast – og eitt sem við gætum yfirfært á börn okkar og barnabörn, sem myndi hjálpa hverju þeirra í komandi prófraunum – þá væri það fullvissa um sáttmálana sem gerðir voru gegnum Jesú Kristi. Að hljóta slíka guðlega eign, mun hjálpa þeim að lifa eins og Drottinn lofaði trúföstum fylgjendum sínum: „Mínir lærisveinar munu standa á helgum stöðum og eigi haggast.“7

Hvernig hljótum við slíka fullvissu fyrir milligöngu Jesú Krists? Hún verður til með auðmýkt, með því að hafa frelsarann að þungamiðju lífs okkar, lifa eftir reglum fagnaðarerindis Jesú Krists, meðtaka helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar og heiðra sáttmálana sem við gerum við Guð í heilögu húsi hans.

Í lokaorðum sínum á aðalráðstefnunni í október 2019, minnti okkar ástkæri spámaður á mikilvægt skref í því að öðlast sáttmálsfullvissu, með því að segja: „Persónulegur verðugleiki fyrir inngöngu í hús Drottins krefst mikils andlegs undirbúnings. … Persónulegur verðugleiki krefst algjörrar breytingar hugar og hjarta til að verða líkari Drottni, að vera heiðarlegur borgari, betri fyrirmynd og heilagri manneskja.“8 Ef við því breytum undirbúningi að musterisför, munum við breyta upplifun okkar í musterinu, sem mun umbreyta lífi okkar utan musterisins. „Þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.“9

Biskup sem ég þekki vísar ekki til elsta bekkjar Barnafélagsins sem „Barnafélagsbekkjar,“ heldur sem „undirbúningsbekkjar fyrir musterið.“ Í janúar býður biskupinn meðlimum bekkjarins og kennurum þeirra að koma á skrifstofuna sína, til að ræða hvernig þeir hyggjast verja öllu árinu við að búa sig undir að fara í musterið. Biskupinn gefur sér tíma til að fara yfir viðeigandi spurningar fyrir musterismeðmæli, sem eru svo hluti af lexíum þeirra í Barnafélaginu. Hann býður börnunum að vera undirbúin, þannig að þegar þau koma til skrifstofu biskupsins að ári liðnu, verði þau sjálfsörugg, sáttmálsfullviss, tilbúin að fá musterismeðmæli og fara í hús Drottins. Þetta árið fékk biskupinn til sín fjórar stúlkur sem voru svo spenntar, undirbúnar og sjálfsöruggar að fara í musterið að þær vildu að biskupinn prentaði meðmælin þeirra út eina mínútu eftir miðnætti á nýársnótt.

Undirbúningur er ekki bara fyrir þá sem fara í musterið í fyrsta sinn. Við ættum öll stöðugt að vera að búa okkur undir að fara í hús Drottins. Ein stika sem ég þekki hefur tileinkað sér kjörorðið: „Heimilismiðuð, kirkjustyrkt og musterisbundin.“ Bundin10 er áhugavert orð, því það merkir föst stefna, en það merkir líka viðfestur eða tryggður af, ákveðinn og staðráðinn, fullviss. Að vera musterisbundin, festir okkur tryggilega við frelsarann, veitir okkur stöðugleika og rétta stefnu og tryggir sáttmálsfullvissu okkar gegnum Jesú Krist. Þess vegna ættum við að einsetja okkur að styrkja þessa bindingu með því að tímasetja næsta fund við Drottin í hans heilaga húsi, hvort sem musterið er nærri eða fjærri.11

Okkar ástkæri spámaður minnir okkur á þessar mikilvægu reglur með því að segja: „Musterið er þungamiðja þess að styrkja trú okkar og andlegar varnir, því frelsarinn og kenning hans eru hjarta musterisins. Allt sem kennt er í musterinu, með fræðslu og með andanum, eykur skilning okkar á Jesú Kristi. Hinar nauðsynlegu helgiathafnir hans binda okkur frelsaranum með helgum sáttmálum prestdæmisins. Þegar við síðan höldum sáttmála okkar, gæðir hann okkur sínum græðandi og styrkjandi mætti. Ó, hve við þörfnumst þessa máttar á komandi dögum.“12

Frelsarinn þráir að við verðum undirbúin til að skilja, á skýran hátt, nákvæmlega hver breytni okkar á að vera þegar við gerum sáttmála við himneskan föður í hans nafni. Hann vill að við séum undir það búin að upplifa forréttindi okkar, loforð og ábyrgð; að við séum undirbúin til að hljóta þann andlega skilning og vakningu sem við þurfum í þessu lífi. Ég veit að þegar Drottinn sér jafnvel vott af þrá eða réttlátri viðleitni og fúsleika til að hafa hann og helgiathafnirnar og sáttmálana sem við gerum í húsi hans að þungamiðju lífs okkar, þá mun hann blessa okkur, á sinn fullkomna hátt, með þeim kraftaverkum og mildu miskunn sem við þörfnumst.

Það er í húsi Drottins sem við getum umbreyst á æðri og helgari hátt. Þannig að þegar við göngum út úr musterinu, umbreytt af von um fyrirheit sáttmálanna, brynjuð krafti frá upphæðum, þá tökum við musterið með okkur inn á heimili okkar og í líf okkar. Ég fullvissa ykkur um að það breytir okkur algjörlega að hafa anda húss Drottins í okkur.

Við vitum einnig frá musterinu, að ef við viljum að andi Drottins verði óheftur í lífi okkar, þá getum við hreinlega ekki og megum ekki bera óvinsamlegar tilfinningar til neins. Að gefa óvinsamlegum tilfinningum eða hugsunum rúm í hjörtum okkar eða huga, mun leiða af sér óvinsamleg orð og gjörðir, hvort heldur á samfélagsmiðlum eða á heimilum okkar, sem veldur því að andi Drottins dregur sig í hlé úr hjörtum okkar. Varpið því ekki frá ykkur djörfung ykkar, en látið traust ykkar vaxa og styrkjast.

Hin viðvarandi og hraða uppbygging mustera mun halda áfram að hvetja okkur, innblása og blessa. Mikilvægara er þó að þegar við breytum undirbúningi okkar fyrir inngöngu í musterið, munum við breyta upplifun okkar í musterinu, sem mun umbreyta lífi okkar utan musterisins. Megi þessi umbreyting veita okkur fullvissu um okkar helgu sáttmála sem við gerðum við Guð gegnum Jesú Krist. Guð lifir, Jesús er frelsari okkar og þetta er hin endurreista kirkja hans á jörðu. Ég lýsi þessum sannleik yfir af lotningu, í hinu heilaga nafni frelsara okkar, Jesú Krists, amen.