Aðalráðstefna
Hið máttuga dyggðarferli kenninga Krists
Aðalráðstefna apríl 2024


Hið máttuga dyggðarferli kenninga Krists

Ég býð ykkur að lifa endurtekið, ítrekað og meðvitað eftir kenningu Krists og hjálpa öðrum á vegi þeirra.

Fyrir mörgum árum fórum ég og eiginkona mín, Ruth og dóttir okkar, Ashley, með öðrum ferðalöngum í kajakferð til Havaí-fylkis í Bandaríkjunum. Kajak er bátur sem liggur lágt á vatni, þar sem ræðarinn snýr fram á við og notar tvöföld árablöð til að róa áfram til skiptis frá hvorri hlið. Ætlunin var að róa til tveggja lítilla eyja undan strönd Oahu og til baka aftur. Ég var fullur sjálfsöryggis, því sem ungur maður hafði ég róið á kajökum yfir fjallavötn. Stærilæti lofar aldrei góðu, er það?

Leiðsögumaðurinn veitti okkur leiðsögn og sýndi okkur úthafs kajakana sem við myndum nota. Þeir voru öðruvísi en þeir sem ég hafði áður róið. Ég átti að sitja ofan á kajaknum en ekki ofan í honum. Þegar ég steig upp á kajakinn var þungamiðja mín hærri en ég var vanur og ég var óstöðugri í sjónum.

Þegar við hófum förina, reri ég hraðar en Ruth og Ashley. Eftir stutta stund var ég langt á undan þeim. Þótt ég væri stoltur af hetjulegum hraða mínum, hætti ég að róa og beið eftir að þær næðu mér. Stór alda, um 13 sentímetra há1 – skall á hlið kajaksins míns, hvolfdi honum og ég fór í kaf. Þegar ég hafði komið kajaknum á réttan kjöl og loks náð að komast aftur upp á hann, höfðu Ruth og Ashley siglt fram hjá mér og ég var of móður til að geta haldið áfram að róa. Áður en ég náði andanum, skall önnur alda á kajakinn minn og hún var sannlega risastór, hið minnsta 20 sentímetrar2 – og hvolfdi mér aftur. Þegar mér tókst loks að rétta kajakinn við ég orðinn svo móður að ég óttaðist að mér tækist ekki að klifra upp á hann aftur.

Leiðsögumaðurinn sá aðstæður mínar, reri yfir til mín og stillti kajakinn minn af svo auðveldara væri fyrir mig að klifra upp á hann. Þegar hann sá að ég var enn of móður til að róa hjálparlaust, festi hann dráttartaug við kajakinn minn og reri síðan áfram með mig í eftirdragi. Ég náði brátt að kasta mæðinni og tók að róa þokkalega á eigin spýtur. Hann leysti taugina og ég komst til fyrstu eyjarinnar án frekari aðstoðar. Þegar þangað kom féll ég niður í sandinn, örmagna.

Eftir að hópurinn hafði hvílt sig, sagði leiðsögumaðurinn hljóðlega við mig: „Herra Renlund, ef þú bara heldur áfram að róa og heldur skriðþunganum, þá held ég að þú verðir í lagi.“ Ég fylgdi ráðum hans er við rérum til annarrar eyjar og svo aftur að upphafsstaðnum. Tvisvar reri leiðsögumaðurinn framhjá mér og sagði að ég stæði mig frábærlega. Stærri öldur skullu jafnvel á hlið kajaksins míns en mér hvolfdi ekki.

Með því að róa jafnt og þétt á kajaknum, hélt ég skriðþunga og stöðugri stefnu, sem dró úr áhrifum öldugangsins sem skall á hlið mér. Sama regla á við um andlegt líf okkar. Við verðum berskjölduð þegar við hægjum á okkur og einkum þegar við stoppum.3 Ef við höldum andlegum skriðþunga með því að „róa“ stöðugt í átt að frelsaranum, verðum við öruggari, því eilíft líf okkar sjálfra er háð trú okkar á hann.4

Andlegur skriðþungi verður til „á heilu lífsskeiði, þegar við tökum endurtekið á móti kenningu Krists.“5 Með því að gera það, kenndi Russell M. Nelson forseti, myndast „máttugt dyggðarferli.“6 Vissulega eru þættir kenningar Krists – eins og trú á Drottin Jesú Krist, iðrun, að ganga í sáttmálssamband við Drottin með skírn, taka á móti gjöf heilags anda og að standast allt til enda6 – sem ekki er ætlað að verða stakur viðburður, gátlista upplifun. Sá afmarkaði þáttur „að standast allt til enda, er í raun ekki aðskilið skref í kenningu Krists – eins og við myndum ljúka fyrstu fjóru þáttunum og hníga síðan niður, gnístandi tönnum og bíða þess að deyja. Nei, að standast allt til enda, er að beita hinum þáttum kenningar Krists ítrekað og endurtekið og þannig skapa hið „máttuga dyggðarferli“ sem Nelson forseti greindi frá.8

Endurtekið merkir að við upplifum þætti kenningar Krists allt okkar æviskeið. Ítrekað merkir að við byggjum á og bætum okkur með hverri endurtekningu. Þótt við endurtökum þættina, snúumst við ekki bara í hringi án þess að fara fram á við. Við nálgumst öllu heldur Jesú Krist eftir hverja hringrás.

Skriðþungi felur í sér bæði hraða og stefnu.9 Ef ég hefði róið kajaknum kröftuglega í ranga átt, hefði ég getað skapað verulegan skriðþunga, en ég hefði ekki náð áætluðum ákvörðunarstað. Á líkan hátt, þurfum við að „róa“ í átt að frelsaranum til að koma til hans.10

Trú okkar á Jesú Krist þarf að næra daglega.11 Hún er nærð þegar við biðjumst fyrir daglega, lærum ritningarnar daglega, íhugum gæsku Guðs daglega, iðrumst daglega og fylgjum daglega hvatningu heilags anda. Á sama hátt og ekki er heilnæmt að bíða með að borða allan mat fram á sunnudag og þá fylla okkur af næringu fyrir alla vikuna, er það ekki andlega heilnæmt að takmarka trúarnærandi athafnir okkar við einn dag í viku.12

Þegar við tökum ábyrgð á eigin vitnisburði,13 öðlumst við andlegan skriðþunga og smám saman þróum við sterkan grundvöll trúar á Jesú Krist og kenning Krists verður þungamiðja tilgangs lífsins.14 Skriðþungi eykst á sama hátt er við kappkostum að hlýða lögmálum Guðs og iðrast. Iðrun er gleðileg og gerir okkur mögulegt að læra af mistökum okkar og það er þannig sem við þróumst eilíflega. Við munum án efa upplifa stundir þar sem við hvolfum kajaknum okkar og lendum í djúpum sjó. Með iðrun getum við komist aftur um borð og haldið áfram, hversu oft sem við höfum fallið af.15 Mikilvægast er að gefast ekki upp.

Næsti þáttur kenningar Krists er skírnin, sem felur í sér skírn í vatni og, með staðfestingu, skírn heilags anda.16 Þótt skírn sé einstakur atburður, þá endurnýjum við skírnarsáttmála okkar endurtekið þegar við meðtökum sakramentið. Sakramentið kemur ekki í stað skírnar, en það tengir frumþætti kenningar Krists – trú og iðrun – með viðtöku heilags anda.17 Þegar við meðtökum sakramentið samviskusamlega,18 bjóðum við heilögum anda í líf okkar, á sama hátt og þegar við vorum skírð og staðfest.19 Þegar við höldum sáttmálann sem lýst er í sakramentisbænunum, verður heilagur andi félagi okkar.

Eftir því sem heilagur andi hefur meiri áhrif á líf okkar, þróum við smám saman og ítrekað með okkur kristilega eiginleika. Við breytumst í hjarta. Það dregur úr löngun okkar til illra verka. Tilhneiging okkar til að gera gott verður sterkari, þar til við hneigjumst „stöðugt til góðra verka.“20 Og þannig hljótum við aðgang að þeim himneska krafti sem þarf til að standast allt til enda.21 Trú okkar hefur aukist og við erum undir það búin að endurtaka hið máttuga dyggðarferli.

Hinn andlegi skriðþungi knýr okkur líka til að gera fleiri sáttmála við Guð í húsi Drottins. Margir sáttmálar færa okkur nær Kristi og tengja okkur sterkar við hann. Gegnum þessa sáttmála höfum við greiðari aðgang að krafti hans. Svo það sé á hreinu, þá eru skírnar- og musterissáttmálar ekki í sjálfu sér, einir og sér, uppspretta kraftar. Uppspretta kraftar er Drottinn Jesús Kristur og himneskur faðir okkar. Að gera og halda sáttmála, myndar farveg fyrir kraft þeirra í lífi okkar. Þegar við lifum samkvæmt þessum sáttmálum, þá verðum við að endingu erfingjar að öllu því sem himneskur faðir á.22 Skriðþunginn sem hlýst af því að lifa eftir kenningu Krists, knýr ekki einungis fram breytingu á okkar guðlega eðli til okkar eilífu örlaga, heldur vekur líka hjá okkur þrá til að hjálpa öðrum á viðeigandi hátt.

Hugleiðið hvernig leiðsögumaðurinn hjálpaði mér eftir að ég hvolfdi kajaknum. Hann hrópaði ekki úr fjarlægð gagnslausa spurningu, eins og: „Herra Renlund, hvað ertu að gera í vatninu?“ Hann réri ekki að mér og skammaði mig og sagði: „Herra Renlund, þú værir ekki í þessari stöðu ef þú værir betur á þig kominn líkamlega.“ Hann byrjaði ekki á því að draga kajakinn minn meðan ég var enn að reyna að komast upp í hann. Og hann veitti mér ekki tiltal fyrir framan hópinn. Þess í stað veitti hann mér þá hjálp sem ég þarfnaðist, á þeim tíma sem ég þurfti á henni að halda. Hann gaf mér ráð þegar ég var móttækilegur. Og hann fór út úr leið til að hvetja mig.

Þegar við þjónum öðrum, þurfum við ekki að spyrja gagnslausra spurninga eða staðhæfa hið augljósa. Flestir sem eiga í erfiðleikum vita að þeir eiga í erfiðleikum. Við ættum ekki að vera dómhörð; dómharka okkar er hvorki gagnleg né velkomin og er oftast illa upplýst.

Að bera okkur saman við aðra, getur leitt til skaðlegra mistaka, einkum ef við ályktum að við séum réttlátari en þeir sem eiga í erfiðleikum. Slíkur samanburður er eins og að vera að því kominn að drukkna í þriggja metra djúpu23 vatni, sjá einhvern annan drukkna í fjögurra metra djúpu24 vatni, dæma hann meiri syndara og líða vel með sjálfan sig. Þegar öllu er á botninn hvolft, erum við öll að berjast á okkar eigin hátt. Ekkert okkar ávinnur sér sáluhjálp.25 Við getum það aldrei. Jakob, í Mormónsbók, kenndi: „[Minnist] þess, að það er einungis í og fyrir Guðs náð, sem [við frelsumst].“26 Við þörfnumst öll altækrar friðþægingar frelsarans, ekki bara hluta hennar.

Við þurfum alla okkar samúð, samkennd og elsku í samskiptum við þau sem umhverfis eru.27 Þau sem eiga erfitt „þurfa að upplifa kærleika Jesú Krists sem endurspeglast í orðum [okkar] og gjörðum.“28 Þegar við þjónum, hvetjum við aðra oft og bjóðum fram hjálp. Þótt einhver sé ekki móttækilegur, höldum við samt áfram að þjóna eins og hann leyfir. Frelsarinn kenndi: „Slíkum skuluð þér halda áfram að þjóna. Því að þér vitið ekki, nema þeir snúi til baka og iðrist og komi til mín í einlægum ásetningi, og ég mun gjöra þá heila. Og þér skuluð vera tæki til að færa þeim sáluhjálp.“29 Verk frelsarans er að lækna. Hlutverk okkar er að elska – að elska og þjóna á þann hátt að aðrir láti laðast að Jesú Kristi. Þetta er einn af ávöxtum hins máttuga dyggðarferlis kenninga Krists.

Ég býð ykkur að lifa endurtekið, ítrekað og meðvitað eftir kenningu Krists og hjálpa öðrum á vegi þeirra. Ég ber vitni um að kenning Krists er þungamiðja áætlunar himnesks föður; þegar öllu er á botninn hvolft er það kenning hans. Þegar við iðkum trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, erum við knúin áfram á sáttmálsveginum og hvött til að hjálpa öðrum að verða trúfastir lærisveinar Jesú Krists. Við getum orðið erfingjar í ríki himnesks föður, sem er hápunktur þess að lifa trúfastlega eftir kenningu Krists. Í nafni Jesú Krists, amen.