Aðalráðstefna
Hreyfing sem innra bærir bál
Aðalráðstefna apríl 2024


Hreyfing sem innra bærir bál

Guð heyrir hverja bæn sem við flytjum og svarar hverri þeirra samkvæmt þeim vegi sem hann hefur lagt okkur til fullkomnunar.

Bræður og systur, ég hef lært sársaukafulla lexíu frá því að ég var síðast í þessum ræðustól, í október 2022. Sú lexía er: Ef þú flytur ekki viðunandi ræðu geturðu verið bannaður frá næstu ráðstefnum. Þið sjáið að mér var falið að flytja ræðu snemma í fyrsta hluta þessarar ráðstefnu. Það sem þið sjáið ekki er að ég stend á hlera með mjög viðkvæmri loku. Ef þessi ræða gengur ekki vel, mun ég ekki vera með ykkur aftur á nokkrum ráðstefnum.

Í anda þessa fallega sálms með þessum fallega kór, hef ég reyndar nýlega lært nokkuð sem ég vil miðla með hjálp Drottins í dag. Það gerir þetta að mjög persónulegu ræðuefni.

Persónulegasta og sársaukafyllsta upplifun allra þessara nýlegu atburða, hefur verið fráfall ástkærrar eiginkonu minnar, Pat. Hún var dásamlegasta kona sem ég hef nokkru sinni kynnst – fullkomin eiginkona og móðir, svo ekki sé minnst á hreinleika hennar, tjáningargáfu og andríki. Hún flutti eitt sinn ræðu sem hét: „Að fylla mæli sköpunar sinnar.“ Mér sýnist hún hafa fyllt mæli sköpunar sinnar af meiri árangri en nokkur hefði getað látið sig dreyma um. Hún var heilskipt dóttir Guðs, fyrirmyndarkona Krists. Ég var svo lánsamur að verja 60 árum ævi minnar með henni. Ef ég verð fundinn verðugur, þýðir innsiglun okkar að ég get varið eilífðinni með henni.

Önnur upplifun hófst 48 klukkustundum eftir jarðarför eiginkonu minnar. Á þeim tíma var í flýti farið með mig á sjúkrahús með alvarlegan heilsufarskvilla. Ég varði síðan fyrstu fjórum vikunum af sex vikna dvöl minni þar til skiptis í og utan gjörgæslu og með og án meðvitundar.

Nánast öll upplifun mín á spítalanum á þessu fyrsta tímabili er horfin úr minni mínu. Það sem ekki er horfið er minning mín um ferð utan spítalans, út að því sem virtust eilífðarmörk. Ég get ekki tjáð mig fyllilega um þá reynslu hér, en ég get sagt að hluti af því sem ég meðtók var áminning um að snúa aftur til þjónustu minnar af meiri ákafa, meiri helgun, meiri áherslu á frelsarann, meiri trú á orð hans.

Mér fannst ég vera að meðtaka mína eigin persónulegu útgáfu af opinberun sem gefin var hinum Tólf fyrir nærri 200 árum:

„Þú skalt bera bera nafni mínu vitni … og … senda orð mitt til endimarka jarðar. …

Þess vegna skalt þú … morgun eftir morgun, og dag eftir dag láta aðvörunarrödd þína berast. Og þegar kvölda tekur skulu íbúar jarðar ekki blunda, vegna ræðu þinnar. …

[Taktu] upp kross [þinn og fylgdu mér].“1

Kæru systur og bræður, eftir þessa reynslu hef ég reynt að taka upp kross minn af meiri kostgæfni, af meiri ákveðni, til finna hvar ég get hafið upp postullega raust, með bæði ástúð og aðvörun, að morgni, degi og fram á kvöld.

Þetta leiðir mig að þriðju sannindunum sem mér bárust á þessum mánuðum missis, veikinda og vanlíðunar. Þau voru endurnýjaður vitnisburður og ævarandi þakklæti fyrir staðfastar bænir þessarar kirkju – bænir ykkar – sem ég hef notið góðs af. Ég mun verða eilíflega þakklátur fyrir ákall þeirra þúsunda sem, líkt og hin ágenga ekkja,2 hafa ítrekað leitað inngripa himins í mína þágu. Ég hlaut prestdæmisblessanir og ég sá menntaskólabekkinn minn fasta fyrir mig, sem og nokkrar deildir hér og þar í kirkjunni. Nafn mitt hlýtur að hafa verið á bænalista nánast allra mustera í kirkjunni.

Í innilegu þakklæti fyrir allt þetta, tek ég undir með G. K. Chesterton, sem eitt sinn sagði: „Þakkir eru æðsta form hugsunar; og … þakklæti er hamingja tvöfölduð með undrun.“3 Af eigin „hamingju tvöfaldaðri með undrun“, þakka ég ykkur öllum og þakka föður mínum á himnum, sem heyrði bænir ykkar og blessaði líf mitt.

Bræður og systur, ég ber vitni um að Guð heyrir hverja bæn sem við flytjum og svarar hverri þeirra samkvæmt þeim vegi sem hann hefur lagt okkur til fullkomnunar. Mér er ljóst að um svipað leyti og svo margir báðust fyrir um að ég næði heilsu, voru jafnmargir – þar á meðal ég sjálfur – að biðja fyrir því að eiginkona mín kæmist aftur til heilsu. Ég ber vitni um að báðar þessar bænir voru heyrðar og þeim svarað af guðlega miskunnsömum himneskum föður, jafnvel þótt bænum fyrir Pat hafi ekki verið svarað eins og ég bað um. Það er af ástæðum sem einungis Guði eru kunnugar, að bænum er svarað öðruvísi en við vonuðumst til – en ég lofa ykkur að þær eru heyrðar og þeim er svarað samkvæmt hans óbrigðulu elsku og allsherjar tímasetningu.

Ef við „[biðjum] ekki ranglega“,4 eru engin takmörk fyrir því hvenær, hvar eða um hvað við eigum að biðja. Samkvæmt opinberununum, ber okkur að „biðja án afláts“.5 Okkur ber, að sögn Amúleks, að biðja fyrir þeim „sem umhverfis eru“,6 í þeirri trú að „kröftug bæn réttláts manns megnar mikið“.7 Bænir okkar ættu að vera fluttar upphátt þegar við höfum næði til að gera það.8 Ef það er ekki raunhæft, ættum við að bera þær fram sem þögul orð í hjarta okkar.9 Við syngjum að bænir séu „hreyfing sem innra bærir bál“,10 sem ætíð skulu fluttar Guði, hinum eilífa föður, í nafni hans eingetna sonar.11

Kæru vinir, bænin er okkar blessaða stund,12 okkar „einlægt mál“,13 okkar einfaldasta og hreinasta tilbeiðsluform.14 Við ættum að biðja í einrúmi, með fjölskyldum okkar og meðal safnaða af öllum stærðum.15 Við eigum að nota bæn sem skjöld gegn freistingum16 og ef okkur finnst einhvern tíma við ekki geta beðist fyrir, getum við verið viss um að sú efablendni kemur ekki frá Guði, sem þráir að eiga öllum stundum samskipti við börn sín. Vissulega má rekja sumt til andstæðingsins sem heldur okkur frá því að biðjast fyrir.17 Þegar við vitum ekki hvernig eða nákvæmlega fyrir hverju við eigum að biðja, ættum við að byrja og halda áfram, þar til heilagur andi leiðir okkur í þá bæn sem við ættum að flytja.18 Við gætum notað þessa nálgun þegar við biðjum fyrir óvinum okkar og þeim sem ofsækja okkur.19

Við getum endanlega horft til fordæmis frelsarans sem baðst svo afar oft fyrir. Mér hefur samt alltaf fundist forvitnilegt að Jesús hafi yfirhöfuð fundið þörf til þess að biðjast fyrir. Var hann ekki fullkominn? Um hvað þyrfti hann að biðja? Mér hefur jú orðið ljóst að hann vildi líka, með okkur, „leita ásjónu [föðurins], trúa orðum hans og treysta á náð hans“.20 Aftur og aftur hörfaði hann frá samfélaginu til að vera einn áður en hann ákallaði himininn með bænum sínum.21 Á öðrum stundum baðst hann fyrir með nokkrum félaga sinna. Síðan leitaði hann himins í þágu mannfjölda sem hefði þakið heila fjallshlíð. Stundum gerði bænin klæði hans dýrðleg.22 Stundum gerði hún ásýnd hans dýrðlega.23 Stundum stóð hann við bænagjörð, stundum kraup hann og hið minnsta einu sinni féll hann á ásjónu sína í bænagjörð.24

Lúkas lýsir því að þegar friðþæging Jesú hafi verið í hámarki, hafi hann beðist „enn ákafar fyrir“.25 Hvernig biðst sá sem er fullkominn enn ákafar fyrir? Við göngum út frá því að allar bænir hans hafi verið ákafar, en þegar hann uppfyllti friðþægingarfórn sína og upplifði hinn altæka sársauka, hafði hann þörf fyrir að biðjast enn ákafar fyrir, er þungi fórnar hans olli því endanlega að blóð spratt úr hverri svitaholu.

Með sigur Krists yfir dauðanum í huga og hina nýlegu gjöf hans til mín, að fá dvalið nokkrar vikur eða mánuði í jarðlífinu, ber ég hátíðlega vitni um raunveruleika eilífs lífs og nauðsyn þess að við búum okkur af fullri alvöru undir það.

Ég ber vitni um að þegar Kristur kemur, þarf hann að þekkja okkur – ekki sem skráða meðlimi á upplituðum skírnarskýrslum, heldur sem algerlega skuldbundna, trúfasta og sáttmálshaldandi lærisveina. Þetta er brýnt mál fyrir okkur öll, svo við heyrum ekki í átakanlegri eftirsjá: „Aldrei þekkti ég yður,“25 eða, líkt og Joseph Smith þýddi þetta orðtak: „[Þér] þekktuð mig aldrei.“27

Sem betur fer höfum við hjálp við þetta verkefni – mikla hjálp. Við þurfum að trúa á engla og kraftaverk og á loforð hins heilaga prestdæmis. Við þurfum að hafa trú á gjöf heilags anda, áhrifum góðrar fjölskyldu og vina og krafti hinnar hreinu ástar Krists. Við þurfum að hafa trú á opinberunum og spámönnum, sjáendum og opinberurum og Russell M. Nelson forseta. Við þurfum að trúa því að með bænum okkar og áköllum og persónulegu réttlæti, getum við vissulega stigið upp til „Síonarfjalls, … borgar hins lifanda Guðs, himneska staðar, hins helgasta allra“.28

Bræður og systur, er við iðrumst synda okkar og komum með djörfung að „hásæti náðarinnar“,29 leggjum þar fram fyrir hann innilegt og hjartnæmt bænarefni okkar, munum við finna miskunn og samkennd og fyrirgefningu kærleiksríkra handa okkar eilífa föður og hans hlýðna, algjörlega hreina sonar. Við munum síðan, með Job og öllum hinum fáguðu trúföstu, sjá heima sem eru „of undursamlegir“30 til að fá skilið. Í nafni Jesú Krists, amen.