Aðalráðstefna
Stólpar og geislar
Aðalráðstefna apríl 2024


Stólpar og geislar

Við getum líka upplifað okkar eigin ljósstólpa – einn geisla í einu.

Boðskapur minn er til þeirra sem hafa áhyggjur af vitnisburði sínum, vegna þess að þeir hafa ekki hlotið yfirþyrmandi andlegar upplifanir. Ég bið þess að ég fái veitt einhvern frið og fullvissu.

Endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists hófst með flaumi ljóss og sannleika! Unglingspiltur í uppsveitum New York, sem ber hið venjulega nafn Joseph Smith, fer í trjálund til að biðjast fyrir. Hann hefur áhyggjur af sál sinni og stöðu sinni frammi fyrir Guði. Hann leitar fyrirgefningar synda sinna. Hann veit ekki í hvaða kirkju hann á að ganga. Hann þarfnast skýrleika og friðar – hann þarfnast ljóss og þekkingar.1

Þegar Joseph krýpur í bæn og „skýrir Guði frá óskum hjarta [síns],“ umlykur hann mikið myrkur. Eitthvað illt, þrúgandi og mjög raunverulegt reynir að stöðva hann – að lama tungu hans svo hann fái ekki mælt. Myrkraöflin verða svo gríðarleg að Joseph heldur að hann muni deyja. Hann „[beitir] öllu afli sínu til að ákalla Guð og biðja hann að bjarga [sér] undan valdi þessa óvinar, sem [hefur] náð tökum á [honum].“ Og síðan „rétt á sama andartaki og [hann er] að því kominn að láta bugast af örvilnan,“ þegar hann veit ekki hvort hann fær þraukað lengur, fyllir dýrðlegur ljómi lundinn og hrekur myrkrið og óvin sálar hans burtu.2

„Ljósstólpi,“ skærari en sólin, lækkar hægt, uns hann fellur á hann. Ein vera birtist og síðan önnur.3 „Svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst.“ Hin fyrri, himneskur faðir, nefnir nafn hans og „[bendir] á hina – [Joseph!] Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!4

Með þessu flaumi ljóss og sannleika hefur endurreisnin hafist. Sannkallaður flaumur guðlegra opinberana og blessana mun fylgja í kjölfarið: Ný ritning, endurreisn prestdæmislykla, postular og spámenn, helgiathafnir og sáttmálar og endurreisn hinnar sönnu og lifandi kirkju Drottins, sem dag einn mun fylla jörðina ljósi og vitnisburði um Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans.

Allt þetta, og miklu meira, hófst með örvæntingarbæn drengs og ljósstólpa.

Við höfum líka okkar eigin örvæntingarþarfir. Við þörfnumst líka frelsis frá andlegri ringulreið og veraldlegu myrkri. Við þurfum líka að vita það fyrir okkur sjálf.5 Það er ein af ástæðum þess að Russell M. Nelson forseti hefur boðið okkur að við „[böðum okkur sjálf] í hinu dýrðlega ljós[i] endurreisnarinnar.“6

Einn stórkostlegur sannleikur endurreisnarinnar er að himnarnir eru opnir – að við getum líka tekið á móti ljósi og þekkingu frá upphæðum. Ég ber vitni um að það er sannleikur.

Við verðum þó að vera á varðbergi gagnvart andlegri gildru. Stundum fyllast trúfastir kirkjumeðlimir vonleysi og hverfa jafnvel frá, því þeir hafa ekki hlotið yfirþyrmandi andlegar upplifanir – því þeir hafa ekki upplifað sinn eigin ljósstólpa. Spencer W. Kimball forseti aðvaraði: „Ef við væntum alltaf hins stórbrotna, munu margir algjörlega missa af stöðugu opinberunarstreymi samskipta.“7

Joseph F. Smith forseti rifjaði upp álíka: „Drottinn hélt undrum mínum frá mér [þegar ég var ungur] og sýndi mér sannleikann, setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar.“8

Þetta er dæmigert mynstur Drottins, bræður og systur. Í stað þess að senda okkur ljósstólpa, sendir Drottinn okkur ljósgeisla og síðan annan og enn annan.

Þessum ljósgeislum er stöðugt úthellt yfir okkur. Ritningarnar kenna að Jesús Kristur sé „ljós og … líf heimsins,“9 að „[andi hans] gefi sérhverjum manni ljós, sem í heiminn kemur“10 og að ljós hans „[fylli] ómælisgeiminn“ og „[gefi] öllu líf.“11 Ljós Krists umlykur okkur í raun.

Ef við höfum tekið á móti gjöf heilags anda og reynum að iðka trú, iðrast og heiðra sáttmála okkar, þá erum við verðug þess að meðtaka stöðugt þessa guðlegu geisla. Með hinu eftirminnilega orðtaki öldungs Davids A. Bednar: „Við ‚lifum í opinberun.‘“12

Samt erum við öll ólík. Engir tveir einstaklingar upplifa ljós og sannleika Guðs á nákvæmlega sama hátt. Gefið ykkur tíma til að hugleiða hvernig þið upplifið ljós og anda Drottins.

Þið gætuð hafa upplifað þessa geisla vitnisburðar sem „hugarró varðandi [eitthvað]“ sem hefur valdið ykkur áhyggjum13

Eða sem hughrif – lágvær og kyrrlát rödd – sem berast „í huga [ykkar] og hjarta“14 og hvetja ykkur til að gera eitthvað gott, til að mynda að hjálpa einhverjum.

Ef til vill hafið þið verið í námsbekk í kirkju – eða í ungmennabúðum – og fundið fyrir sterkri þrá til að fylgja Jesú Kristi og vera trúföst.15 Ef til vill stóðuð þið upp og gáfuð vitnisburð sem þið vonuðuð að væri sannur og funduð síðan að hann væri það.

Ef til vill hafið þið verið að biðjast fyrir og fundið gleðiríka fullvissu um að Guð elskar ykkur.16

Þið gætuð hafa hlýtt á einhvern gefa vitnisburð um Jesú Krist sem snerti hjarta ykkar og vakti ykkur von.17

Ef til vill hafið þið verið að lesa í Mormónsbók og vers talaði í sál ykkar, eins og Guð hefði sett það þarna aðeins fyrir ykkur – og síðan varð ykkur ljóst að hann gerði það.18

Þið gætuð hafa fundið elsku Guðs til annarra þegar þið þjónuðuð þeim.19

Ef til vill eigið þið erfitt með að skynja andann á þessum tíma vegna þunglyndis eða kvíða, en búið yfir þeirri dýrmætu náðargáfu að geta litið til baka og borið kennsl á áður upplifaða „milda miskunn Drottins“20

Það sem ég á við er að leiðirnar eru margar til að hljóta himneska geisla vitnisburðar. Þetta eru auðvitað aðeins nokkrar. Þær eru kannski ekki tilþrifamiklar, en allar mynda þær hluta af vitnisburði okkar.

Bræður og systur, ég hef ekki séð ljósstólpa, en líkt og þið, hef ég upplifað marga guðlega geisla. Ég hef reynt í áranna rás að varðveita slíkar upplifanir. Ég finn að þegar ég geri það, ber ég kennsl á og man eftir jafnvel enn meira af þeim. Hér eru nokkur dæmi úr mínu eigin lífi. Þau eru ef til vill ekki tilkomumikil fyrir suma, en þau eru mér dýrmæt.

Ég man eftir að vera hávaðasamur unglingur við skírn. Þegar samkoman var um það bil að hefjast, fann ég andann hvetja mig til að setjast niður og sýna lotningu. Ég settist niður og var hljóður það sem eftir var athafnarinnar.

Áður en ég fór í trúboð, hafði ég áhyggjur af því að vitnisburður minn væri ekki nægilega sterkur. Enginn í fjölskyldu minni hafði áður þjónað í trúboði og ég vissi ekki hvort ég gæti gert það. Ég man eftir að hafa lesið og beðist fyrir í neyð minni til að hljóta öruggari vitnisburð um Jesú Krist. Svo gerðist það einn daginn, er ég ákallaði himneskan föður, að ég fann fyrir sterkri tilfinningu ljóss og hlýju. Og ég vissi. Ég bara vissi.

Ég minnist þess að hafa vaknað nótt eina mörgum árum síðar við flæði „hreinna vitsmuna,“ er sögðu mér að ég yrði kallaður til þjónustu í öldungasveitinni.21 Tveimur vikum síðar var ég kallaður.

Ég man eftir aðalráðstefnu þar sem kær meðlimur í Tólfpostulasveitinni mælti nákvæmlega sama vitnisburð og ég hafði gefið vini mínum, sem ég vonaði að heyrði.

Ég man eftir að hafa kropið með hundruðum bræðra til að biðja fyrir kærum vini sem lá meðvitundarlaus í öndunarvél á litlu, fjarlægu sjúkrahúsi, eftir að hjarta hans hafði hætt að slá. Þegar við sameinuðumst í hjarta og sárbáðum þess að lífi hans yrði þyrmt, vaknaði hann og tók sjálfur öndunarbarkann úr hálsi sér. Hann þjónar í dag sem stikuforseti.

Ég minnist þess að hafa vaknað með sterkar, andlegar tilfinningar eftir skýran draum um kæran vin og læriföður, sem lést allt of snemma og skildi eftir sig stórt tómarúm í lífi mínu. Hann var brosandi og glaður. Ég vissi að hann væri í lagi.

Þetta eru nokkrir geislanna minna. Þið hafið sjálf átt ykkar upplifanir – ykkar eigin ljósfyllta vitnisburðarflaum. Þegar við berum kennsl á, höfum í huga og söfnum þessum geislum „undir eitt,“22 mun eitthvað dásamlegt og kröftugt fara að gerast. „Ljós laðast að ljósi“ – „sannleikur umlykur sannleik.“23 Raunveruleiki og kraftur eins vitnisburðargeisla styrkir og sameinast öðrum og síðan öðrum og enn öðrum. Orð á orð ofan, setning á setning ofan, örlítill geisli hér og örlítill geisli þar – eitt lítið, dýrmætt andlegt andartak í einu – mun vaxa hið innra og verða kjarni ljósfylltra, andlegra upplifana. Ef til vill er enginn einn geisli nægilega sterkur eða bjartur til að geta gefið fullkominn vitnisburð, en saman geta þeir myndað ljós sem myrkur efasemda fær ekki sigrast á.

„Og er þetta þá ekki raunverulegt?“ spyr Alma. „Ég segi þér, já, því að það er ljós.“24

„Það, sem er frá Guði, er ljós,“ kennir Drottinn okkur, „og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“25

Bræður og systur, það merkir að með tímanum og af „mikilli kostgæfni,“22 getum við líka upplifað okkar eigin ljósstólpa – einn geisla í einu. Í miðjum þessum stólpa munum við líka finna kærleiksríkan himneskan föður sem ávarpar okkur með nafni, bendir á frelsara okkar, Jesú Krist, og býður okkur: „Hlýð þú á hann!“

Ég ber vitni um Jesú Krist, að hann er ljós og líf alls heimsins – og ykkar persónulega heims og míns.

Ég ber vitni um að hann er hinn sanni og lifandi sonur hins sanna og lifandi Guðs og að hann er höfuð þessarar sönnu og lifandi kirkju, sem er leidd af hans sönnu og lifandi spámönnum og postulum.

Megum við bera kennsl á og meðtaka dýrðlegt ljós hans og velja hann síðan fram yfir myrkur heimsins – alltaf og ævarandi. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Joseph Smith – Saga 1:10–13.

  2. Sjá Joseph Smith – Saga 1:14–16.

  3. Sjá Joseph Smith, Journal, 9.–11. nóv., 1835, 24, josephsmithpapers.org.

  4. Joseph Smith – Saga 1:17.

  5. Sjá Joseph Smith – Saga 1:20. Þegar Joseph Smith kom heim eftir Fyrstu sýnina spurði móðir hans hvort það væri í lagi með hann. Hann svaraði: „Mér líður vel. … Ég hef komist að því fyrir mig sjálfan að Öldungakirkjan er ekki sönn“ (skáletrað hér).

  6. Russell M. Nelson, „Lokaorð,“ aðalráðstefna, október 2019.

  7. Spencer W. Kimball, í Conference Report, svæðisráðstefna München, Þýskalandi, 1973, 77; vitnað í Graham W. Doxey, „The Voice Is Still Small,“ Ensign, nóv. 1991, 25.

  8. Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith (1998), 201: „Þegar ég sem drengur hóf þjónustustarfið, fór ég oft út og bað Drottin að sýna mér eitthvað undravert til þess að ég gæti hlotið vitnisburð. Drottinn hélt þó undrunum frá mér og sýndi mér sannleikann, orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar, þar til hann gerði mér mögulegt að að þekkja sannleikann allt frá hvirfli til ilja, þar til efi og ótti höfðu algjörlega horfið frá mér. Hann þurfti ekki að senda engil af himnum til að gera þetta, né þurfti hann að tala með básúnu erkiengils. Með hinni lágu, hljóðlátu rödd anda hins lifanda Guðs, veitti hann mér vitnisburðinn sem ég bý að. Og með þessari reglu og krafti mun hann veita öllum mannanna börnum þekkingu á sannleikanum, sem verður með þeim, og gera þeim mögulegt að þekkja sannleikann, eins og Guð þekkir hann, og að gera vilja föðurins eins og Kristur gerir hann.“

  9. Mósía 16:9.

  10. Kenning og sáttmálar 84:46; sjá einnig Jóhannes 1:9.

  11. Kenning og sáttmálar 88:12–13.

  12. David A. Bednar, Andi opinberunar (2021), 7.

  13. Kenning og sáttmálar 6:23.

  14. Kenning og sáttmálar 8:2; sjá einnig Helaman 5:30.

  15. Sjá Mósía 5:2; Kenning og sáttmálar 11:12.

  16. Sjá 2. Nefí 4:21; Helaman 5:44.

  17. Drottinn hefur sagt eiginleikann til að trúa vitnisburði annarra vera andlega gjöf (sjá Kenning og sáttmálar 46:13–14).

  18. Nútíma opinberun kennir að orð ritninganna „eru gefin yður af anda mínum, … Og án krafts míns gætuð þér ekki haft þau – Þess vegna getið þér vottað, að þér hafið heyrt rödd mína og þekkið orð mín“ (Kenning og sáttmálar 18:35–36).

  19. Sjá Mósía 2:17; Moróní 7:45–48.

  20. 1. Nefí 1:20. Öldungur Gerrit W. Gong hefur talað um að „horfa með augum til að sjá og fagna yfir hinni mildu miskunn Drottins í lífi okkar“ („Þjónusta,“ aðalráðstefna, apríl 2023) og hvernig „hönd Drottins í lífi okkar er oft skýrust eftir á að hyggja“ („Hafa hann ávallt í huga,“ aðalráðstefna, apríl 2016). Sú gjöf að þekkja og viðurkenna hönd Drottins í lífi okkar, jafnvel þótt við höfum ekki þekkt hana eða upplifað hana á því augnabliki, er áhrifamikil. Ritningarnar ræða oft um þann andlega kraft að muna eftir (sjá Helaman 5:9–12; Kenning og sáttmálar 20:77, 79), sem getur verið undanfari opinberunar (sjá Moróní 10:3–4).

  21. Joseph Smith kenndi: „Menn geta notið góðs af því að að fara eftir fyrstu hugboðum anda opinberunar. Þegar þið t.d. finnið flæði hreinna vitsmuna, geta hugmyndir skyndilega vaknað. Þegar þið svo farið eftir hugboðinu, getið þið sama dag eða fljótlega séð það verða að veruleika, (þ.e) sú hugsun sem andi Guðs kallaði fram í huga ykkar, mun rætast og því getið þið, með því að nema anda Guðs og skilja hann, náð smám saman stjórn á reglu opinberunar, uns þið fullkomnist í Jesú Kristi“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 132).

  22. Efesusbréfið 1:10.

  23. Kenning og sáttmálar 88:40: „Því að vitsmunir laðast að vitsmunum. Vísdómur meðtekur vísdóm. Sannleikur umlykur sannleik. Dyggð elskar dyggð. Ljós laðast að ljósi.“

  24. Alma 32:35. Alma lagði áherslu á að þessar ljósfylltu upplifanir, þótt þær séu oft smáar, eru raunverulegar í öllum skilningi. Raunveruleiki þeirra verður enn máttugri þegar þær eru sameinaðar og mynda öfluga heild.

  25. Kenning og sáttmálar 50:24.

  26. Alma 32:41.