Aðalráðstefna
Það ber vott um visku Drottins að við skulum hafa Mormónsbók
Aðalráðstefna apríl 2024


Það ber vott um visku Drottins að við skulum hafa Mormónsbók

Það er bæn mín að lestur Mormónsbókar á þessu ári verði okkur öllum gleðilegur og blessunarríkur.

Kæru bræður og systur, við erum afar þakklát fyrir viðleitni ykkar við lestur ritninganna með Kom, fylg mér. Þakka ykkur öllum fyrir framlag ykkar. Daglegt samband ykkar við Guð og orð hans hefur djúpstæðar afleiðingar. „Þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra.“1

Lestur á kenningum frelsarans í ritningunum, hjálpar okkur að umbreyta heimilum okkar í griðastað trúar og miðstöðvar trúarfræðslu.2 Það býður andanum inn á heimili okkar. Heilagur andi fyllir sálir okkar af gleði3 og breytir okkur í lærisveina Jesú Krists til æviloka.

Á síðustu árum höfum við, við lestur bóka heilagrar ritningar, fengið yfirlit yfir kenningar Guðs til barna sinna á öllum helstu ráðstöfunartímum fagnaðarerindisins.4

Við höfum á öllum ráðstöfunartímum séð kunnuglegt mynstur. Guð endurreisir eða opinberar fagnaðarerindi Jesú Krists fyrir tilstilli spámanna sinna. Fólkið fylgir spámönnunum og er ríkulega blessað. Hins vegar hætta sumir með tímanum að gefa gaum að orðum spámannanna og fjarlægja sig frá Drottni og fagnaðarerindi hans. Þetta er það sem við köllum fráhvarf. Fagnaðarerindið var fyrst opinberað Adam, en sum barna Adams og Evu snerust frá Drottni í fráhvarfi.5 Við sjáum endurtekið mynstur endurreisnar og fráhvarfs á ráðstöfunartímum Enoks, Nóa, Abrahams, Móse og annarra.

Við lifum nú, á okkar tíma, á ráðstöfunartímanum í fyllingu tímanna.6 Þetta er eini ráðstöfunartíminn sem ekki mun enda með fráhvarfi.7 Það er þessi ráðstöfunartími sem er undanfari síðari komu frelsarans Jesú Krists og þúsund ára valdatíðar hans.

Nú, hvað er þá öðruvísi við þennan ráðstöfunartíma? Hverju hefur Drottinn séð okkur fyrir í dag, einkum fyrir okkar tíma, sem mun hjálpa okkur að komast nær frelsaranum og yfirgefa hann aldrei?

Eitt svar sem mér dettur í hug eru ritningarnar – og einkum Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist.

Þótt Guð hafi lofað því að aldrei verði aftur allsherjarfráhvarf, þá þurfum við að gæta vel að því að forðast persónulegt fráhvarf og hafa í huga, eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt: „Sérhvert okkar ber ábyrgð á eigin andlegum vexti.“8 Það að læra í Mormónsbók, eins og við gerum á þessu ári, færir okkur alltaf nær frelsaranum og hjálpar okkur að vera nálæg honum.

Við köllum það „lærdóm“, sem er gott því það felur í sér áreynslu. Við þurfum samt ekki alltaf að læra nýjar staðreyndir. Stundum snýst lestur Mormónsbókar bara um að tengjast Guði þann daginn – að næra sálina, styrkjast andlega áður en haldið er út til að takast á við heiminn, eða að öðlast lækningu eftir erfiðan dag úti í heiminum.

Við lærum ritningarnar til þess að heilagur andi, hinn mikli kennari, geti dýpkað trúarlegan viðsnúning okkar til himnesks föður og Jesú Krists og hjálpað okkur að verða líkari þeim.9

Með þessar hugleiðingar í huga, gætum við velt þessu fyrir okkur: „Hvað hefur heilagur andi kennt okkur í þessari viku í Mormónsbókarnámi okkar?“ og „Hvernig færir þetta okkur nær frelsaranum?“

Þetta eru góðar spurningar fyrir ritningarnám okkar heima við. Þær eru líka tilvaldar sem spurningar til að byrja sunnudagaskólann í kirkju. Við bætum kennslu okkar í kirkju á sunnudögum með því að bæta heimanámið í vikunni. Í sunnudagaskólabekkjum okkar munu þeir því „skilja hvor annan, sá sem prédikar og sá sem meðtekur, og báðir uppbyggjast og fagna saman“.10

Hér eru nokkur vers sem andinn hefur greypt í huga minn úr Mormónsbókarnámi þessarar viku:

  • Nefí bauð Jakobi að „varðveita [þessar töflur] og afhenda niðjum mínum, mann fram af manni. Og væri um að ræða heilagar prédikanir, … opinberanir eða spádóma,“ skyldi Jakob „letra [þær] … á þessar töflur … vegna þjóðar okkar.“11

  • Jakob vitnaði síðar: „[Vér] kynnum oss [ritningarnar] … og með öllum þeim vitnisburði öðlumst vér von, og trú vor verður óhagganleg.“12

Þessi vers fengu mig til að rifja upp það sem Nefí sagði áður um látúnstöflurnar:

„Við höfðum fengið í hendur heimildaskrárnar, … kannað þær og fundið þær … okkur mikils virði, þar eð þær gjörðu okkur kleift að varðveita boðorð Drottins fyrir niðja okkar.

Það bar því vott um visku Drottins, að við skyldum hafa þær með okkur í ferðum um óbyggðirnar í átt til fyrirheitna landsins.“13

Nú, ef það var viturlegt fyrir Lehí og fjölskyldu hans að hafa ritningarnar, þá er það jafn viturlegt fyrir okkur á okkar tíma. Hið mikla verðmæti og andlegur kraftur ritninganna halda áfram að vera óskert í lífi okkar í dag.

Engin þjóð í sögunni hefur haft slíkan aðgang að Mormónsbók og öðrum ritningum sem við njótum í dag.14 Já, Lehí og fjölskylda hans voru blessuð með því að geta haft látúnstöflurnar með sér, en þau áttu ekki eintak fyrir hvert tjald! Mikilvægasta eintak Mormónsbókar er okkar persónulega eintak. Það er eintakið sem við lesum.

Í sýn Lehís um tré lífsins, kenndi Lehí okkur um mikilvægi persónulegrar upplifunar á elsku Guðs. Eftir að Lehí hafði neytt af ávextinum, sá hann eiginkonu sína, Saríu, og syni sína, Nefí og Sam, skammt frá.

„Þau stóðu rétt eins og þau vissu ekki, hvert halda skyldi.

… Ég veifaði til þeirra,“ sagði Lehí, „og hrópaði einnig hárri röddu, að þau skyldu koma til mín og neyta af ávextinum, sem eftirsóknarverðari væri öllum öðrum ávöxtum.

Og … þau komu til mín og neyttu einnig af ávextinum.“15

Ég hrífst af fordæmi Lehís um meðvitað uppeldi. Saría, Nefí og Sam lifðu góðu og réttlátu lífi. En Drottinn ætlaði þeim nokkuð betra, nokkuð ljúfara. Þau vissu ekki hvar það var að finna, en Lehí vissi það. Hann kallaði því til þeirra „hárri röddu,“ svo þau kæmu til trés lífsins og neyttu sjálf af ávextinum. Leiðsögn hans var skýr. Það var ekki hægt að misskilja hann.

Ég er afurð svipaðs meðvitaðs uppeldis.16 Þegar ég var ungur drengur, kannski 11 eða 12 ára, spurði móðir mín mig: „Mark, veistu það fyrir sjálfan þig, með heilögum anda, að fagnaðarerindið er sannleikur?“

Spurning hennar kom mér á óvart. Ég hafði alltaf reynt að vera „góður strákur“ og ég hélt að það væri nóg. En móðir mín, líkt og Lehí, vissi hins vegar að eitthvað meira þurfti til. Ég þurfti að bregðast við og vita það af eigin raun.

Ég svaraði að ég hefði ekki enn öðlast þá reynslu. Og hún virtist alls ekki hissa á svari mínu.

Þá sagði hún nokkuð sem ég hef aldrei gleymt. Ég minnist orða hennar allt til þessa dags: „Himneskur faðir vill að þú vitir það fyrir þig sjálfan. En þú verður að leggja þig fram. Þú þarft að lesa Mormónsbók og biðjast fyrir til að vita það með heilögum anda. Himneskur faðir mun svara bænum þínum.“

Ég hafði aldrei lesið Mormónsbók áður. Ég taldi mig ekki vera nógu gamlan til að gera það. En móðir mín vissi betur.

Spurning hennar kveikti í mér löngun til að vita af eigin raun.

Þannig að á hverju kvöldi, í svefnherberginu sem ég deildi með tveimur bræðrum mínum, kveikti ég ljósið fyrir ofan rúmið mitt og las kafla í Mormónsbók. Ég slökkti síðan ljósið, fór ég hljóðlega úr rúminu, á hnén og baðst fyrir. Ég baðst fyrir af meiri einlægni og af meiri þrá en ég hafði nokkru sinni gert áður. Ég bað himneskan föður um að segja mér frá sannleiksgildi Mormónsbókar.

Frá því að ég hóf að lesa Mormónsbók, hefur mér fundist að himneskur faðir væri meðvitaður um viðleitni mína. Og ég fann fyrir því að ég skipti hann máli. Þegar ég las og baðst fyrir, upplifði ég hughreystandi og friðsælar tilfinningar. Kafla fyrir kafla, varð ljós trúarinnar stöðugt bjartara í sál minni. Fyrr eða síðar varð mér ljóst að þessar tilfinningar voru staðfesting á sannleika frá heilögum anda.17 Ég hlaut vitneskju fyrir mig sjálfan um að Mormónsbók væri sönn og að Jesús Kristur væri frelsari heimsins. Ég er afar þakklátur fyrir hið innblásna boð móður minnar.

Þessi upplifun, að lesa Mormónsbók sem drengur, varð forskrift að ritningarnámi sem blessar mig enn þann dag í dag. Ég les enn Mormónsbók og krýp á hnén í bæn. Og heilagur andi staðfestir sannleika hennar aftur og aftur.

Nefí orðaði það á réttan hátt. Það bar vott um visku Drottins, að við skulum hafa ritningarnar með okkur alla okkar ævidaga. Mormónsbók er sá „burðarsteinn“ sem gerir þennan ráðstöfunartíma ólíkan öllum fyrri ráðstöfunartímum. Þegar við lærum í Mormónsbók og fylgjum lifandi spámanni, þá mun ekkert persónulegt fráhvarf verða í lífi okkar.18

Boðið um að koma að tré lífsins, með því að halda sér fast að orði Guðs, er ekki bara boð frá Lehí til fjölskyldu sinnar og það er ekki bara boð frá móður minni um að ég lesi og biðjist fyrir varðandi Mormónsbók. Það er einnig boð frá spámanni okkar, Russell M. Nelson forseta, til sérhvers okkar.

„Ég lofa ykkur,“ sagði hann, „að ef þið lesið Mormónsbók með bæn í huga daglega, þá munið þið taka betri ákvarðanir – daglega. Ég lofa að er þið íhugið það sem þið lærið, þá munu gáttir himins opnast og þið munið hljóta svör við spurningum ykkar og leiðsögn fyrir líf ykkar.“19

Það er bæn mín að lestur Mormónsbókar á þessu ári verði okkur öllum gleðilegur og blessunarríkur og færi okkur stöðugt nær frelsaranum.

Himneskur faðir lifir. Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari. Mormónsbók hefur að geyma orð hans og tjáir elsku hans. Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður Drottins á jörðinni í dag. Ég veit að þessir hlutir eru sannleikur vegna staðfestandi vitnis heilags anda, en vitni hans hlaut ég fyrst við lestur Mormónsbókar sem drengur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 64:33.

  2. „Þessi heimilismiðaða, kirkjustyrkta samþætta námsskrá, hefur þann möguleika að leysa kraft fjölskyldunnar úr læðingi, er hver fjölskylda fylgir því eftir samviskusamlega og vandlega að breyta heimilum sínum í griðarstað trúar. Ég lofa ykkur því að er þið vinnið samviskusamlega að því að endurhanna heimili ykkar í það að verða miðstöð trúarfræðslu, þá munu helgidagar ykkar að lokum verða ykkur einstaklega ljúfir. Börn ykkar munu verða spennt yfir því að læra og lifa eftir kenningum frelsarans og áhrif andstæðingsins á líf ykkar og heimili ykkar munu minnka. Breytingarnar á fjölskyldum ykkar munu verða afgerandi og varanlegar” (Russell M. Nelson, „Verum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,” aðalráðstefna, október 2018).

  3. „Sannlega, sannlega segi ég þér, ég mun veita þér af anda mínum, sem mun upplýsa huga þinn, sem mun fylla sál þína gleði“ (Kenning og sáttmálar 11:13).

  4. „Ráðstöfunartímar eru tímabil þar sem Drottinn hefur að minnsta kosti einn réttmætan þjón á jörðu sem hefur hið heilaga prestdæmi og lykla, og sem hefur guðlegt umboð til að útbreiða fagnaðarerindinu til íbúa jarðar“ (Topics and Questions, „Dispensations,“ Gospel Library).

  5. Sjá HDP Móse 5:12–16.

  6. Spámaðurinn Daníel sá okkar tíma, okkar ráðstöfun, þegar hann túlkaði draum Nebúkadnesars. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er steinninn í draumnum, sem losnaði úr fjallinu án þess að mannshendur kæmu þar nærri og veltist áfram og þekur alla jörðina (sjá Daníel 2:34–35, 44–45; Kenning og sáttmálar 65:2).

  7. „Guð faðirinn og Jesús Kristur kölluðu spámanninn Joseph Smith til að verða spámann þessa ráðstöfunartíma. Alla guðlega krafta fyrri ráðstöfunartíma átti að endurreisa með honum. Þannig yrði ráðstöfunin í fyllingu tímanna ekki takmörkuð við tíma eða stað. Hún mundi ekki enda í fráhvarfi og hún mundi fylla jarðarkringluna (Russell M. Nelson, „Samansöfnun tvístraðs Ísraels,“ aðalráðstefna, október 2006).

  8. Russell M. Nelson, „Upphafsorð,“ aðalráðstefna, október 2018.

  9. Sjá „Trúarumbreyting er markmið okkar,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024, v.

  10. Kenning og sáttmálar 50:22; sjá einnig vers 17-21.

  11. Jakob 1:3–4.

  12. Jakob 4:6.

  13. 1. Nefí 5:21–22.

  14. Nýlega var tilkynnt að 200 milljón eintökum af Mormónsbók hafi verið dreift á þessum ráðstöfunartíma. Það er svo sannarlega merkilegt. Mormónsbók hefur nú verið þýdd yfir á 113 tungumál og 17 nýjar þýðingar eru í vinnslu. Þvílík blessun að hafa Mormónsbók á prenti, á stafrænu formi, sem hljóðbók, sem myndbönd og á öðru sniði. (Sjá Ryan Jensen, „Church Distributes 200 Millionth Copy of the Book of Mormon,“ Church News, 29. desember 2023, thechurchnews.com.)

  15. 1. Nefí 8:14–16; leturbreyting hér.

  16. „Öflugustu andlegu áhrifin í lífi barns eru réttlát fordæmi ástríkra foreldra og ömmu og afa sem trúfastlega halda helga sáttmála sína. Meðvitaðir foreldrar kenna börnum sínum trú á Drottin Jesú Krist, svo að þau megi vita ‚til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna‘ [2. Nefí 25:26]. Kæruleysi og ósamkvæmni í því að halda sáttmála leiðir til andlegra slysa. Hinn andlegi skaði er oftast mestur á meðal barna okkar og barnabarna“ (Kevin W. Pearson, „Eruð þið enn fús?,“ aðalráðstefna, október 2022).

  17. Sjá Kenning og sáttmálar 6:22–24.

  18. Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Ég sagði bræðrunum, að Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar, og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar“ (í formála Mormónsbókar).

  19. Russell M. Nelson, „Mormónsbók: Hvernig væri líf þitt án hennar?,“ aðalráðstefna, október 2017.