Aðalráðstefna
Sáttmálar og ábyrgðarskyldur
Aðalráðstefna apríl 2024


Sáttmálar og ábyrgðarskyldur

Kirkja Jesú Krists er kunnug sem kirkja er leggur áherslu á sáttmálsgjörð við Guð.

„Hvernig er ykkar kirkja frábrugðin öðrum?“ Svar mitt við þessari mikilvægu spurningu hefur breyst eftir því sem ég hef þroskast og eftir því sem kirkjan hefur vaxið. Þegar ég fæddist í Utah árið 1932, voru kirkjumeðlimir okkar einungis um 700.000, flestir í Utah og nærliggjandi fylkjum. Á þeim tíma voru musterin aðeins sjö. Í dag eru meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu rúmlega 17 milljónir í um 170 löndum. Frá og með þessum 1. apríl höfum við 189 vígð musteri í mörgum löndum og 146 önnur ráðgerð og í byggingu. Mér hefur fundist ég þurfa að ræða um tilgang þessara mustera og sögu og hlutverk sáttmála í tilbeiðslu okkar. Þetta mun styðja við innblásnar kenningar fyrri ræðumanna.

I.

Sáttmáli er skuldbinding um að uppfylla ákveðnar ábyrgðarskyldur. Persónulegar skuldbindingar eru nauðsynlegar til að koma reglu á persónulegt líf okkar og til virkni samfélagsins. Þessari hugmynd er nú ógnað. Hávær minnihluti er andvígur stofnanavaldi og krefst þess að einstaklingar eigi að vera lausir við allar hömlur sem takmarka einstaklingsfrelsi þeirra. Við vitum þó út frá þúsund ára reynslu að fólk fórnar ákveðnu einstaklingsfrelsi til að öðlast kosti þess að búa í skipulögðum samfélögum. Slík afsölun á einstaklingsfrelsi er fyrst og fremst byggð á skuldbindingum eða sáttmálum, beinum eða óbeinum.

Ljósmynd
Hermenn.
Ljósmynd
Heilbrigðisstarfsfólk.
Ljósmynd
Slökkviliðsmenn.
Ljósmynd
Fastatrúboðar.

Hér eru nokkur dæmi um sáttmálsábyrgð í samfélagi okkar: (1) dómarar, (2) hermenn, (3) heilbrigðisstarfsfólk og (4) slökkviliðsmenn. Öll þau sem starfa við þessi kunnuglegu störf, skuldbinda sig til að framfylgja tilnefndum skyldum sínum – sem oft er formlega staðfest með eiði eða sáttmála. Það sama á við um fastatrúboða okkar. Auðkennandi fatnaði eða nafnspjöldum er ætlað að gefa til kynna að þau sem þeim klæðast séu undir sáttmála og beri því skylda til að kenna og þjóna og ættu að njóta stuðnings í þeirri þjónustu. Tilgangur þessu tengdu er til að minna þau sem klæðast fatnaðinum, á sáttmálsábyrgð sína. Það eru engir töfrar í einkennisfatnaði þeirra eða táknum, aðeins nauðsynleg áminning um þá sérstöku ábyrgð sem þau sem honum klæðast hafa tekið á sig. Þetta á líka við um tákn trúlofunar- og giftingarhringa og hlutverk þeirra, að vekja þeim skilaboð sem sjá þá eða vera þeim sem þá bera til áminningar um sáttmálsábyrgð sína.

Ljósmynd
Giftingarhringar.

II.

Það sem ég hef sagt um að sáttmálar séu undirstaða til að koma reglu á líf einstaklinga, á einkum við um trúarlega sáttmála. Grundvöllur og saga margra trúarlegra sambanda og skilyrða byggjast á sáttmálum. Sáttmáli Abrahams er til að mynda grundvallaratriði í nokkrum miklum hefðbundnum trúarbrögðum. Hann kynnir hina helgu hugmynd um sáttmálsloforð Guðs til barna sinna. Í Gamla testamentinu er oft vísað til sáttmála Guðs við Abraham og niðja hans.1

Fyrsti hluti Mormónsbókar, sem var ritaður á tíma Gamla testamentisins, sýnir augljóslega hlutverk sáttmála í sögu og tilbeiðslu Ísraelsmanna. Nefí var sagt að ritverk Ísraelsmanna á þeim tíma, væri „heimildaskrá Gyðinga og [hafði] að geyma sáttmála Drottins, sem hann gjörði við Ísraelsætt.“2 Í bókum Nefís er oft vísað til sáttmála Abrahams3 og til Ísraels sem „sáttmálslýðs Drottins.“4 Sú iðkun að gera sáttmála við Guð eða trúarleiðtoga, er líka skráð í ritverki Mormónsbókar um Nefí, Jósef í Egyptalandi, Benjamín konung, Alma og Moróní hershöfðingja.5

III.

Þegar kom að endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists, kallaði Guð Joseph Smith sem spámann. Við þekkjum ekki til hlítar innihald fyrstu fyrirmæla engilsins Morónís til þessa upprennandi unga spámanns. Við vitum að hann sagði Joseph að „Guð ætlaði [honum] verk að vinna“ og að leiða yrði fram „fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis,“ þar með talið „fyrirheit þau, sem feðrunum voru gefin.“6 Við vitum líka að ritningarnar sem hinn ungi Joseph las afar kappsamlega – jafnvel áður en honum var boðið að stofna kirkju – voru hinar mörgu kenningar um sáttmála sem hann var að þýða í Mormónsbók. Sú bók er aðalverkfæri endurreisnarinnar fyrir fyllingu fagnaðarerindisins, þar með talið áætlun Guðs fyrir börn hans og Mormónsbók er full af tilvísunum í sáttmála.

Þar sem Jósef var víðlesinn í Biblíunni hlýtur hann að hafa vitað að Hebreabréfið vísaði til þess ásetnings frelsarans að „gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda.“7 Hebreabréfið vísar líka til Jesú sem „meðalgöngumanns hins nýja sáttmála.“8 Það er eftirtektarvert að hin biblíulega frásögn af jarðneskri þjónustu frelsarans heitir „Nýja testamentið,“ sem er raunverulegt samheiti fyrir „nýja sáttmálann.“

Sáttmálar voru grundvallaratriði í endurreisn fagnaðarerindisins. Það er augljóst í fyrstu skrefum Drottins við að leiða spámanninn í því að skipuleggja kirkjuna sína. Um leið og Mormónsbók hafði verið gefin út, leiddi Drottinn skipulag sinnar endurreistu kirkju, sem brátt hlaut nafnið Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.9 Opinberun skráð í apríl 1830 segir, að menn „skulu teknir með skírn inn í kirkju hans,“eftir að hafa „vitnað“ (sem merkir að bera hátíðlega vitni) um „að þeir hafi sannlega iðrast allra synda sinna og séu fúsir að taka á sig nafn Jesú Krists, ákveðnir í að þjóna honum allt til enda.“10

Þessi sama opinberun kveður á um að kirkjan „komi oft saman til að meðtaka brauð og [vatn] í minningu Drottins Jesú.“ Mikilvægi þessarar helgiathafnar er augljóst í orðunum um sáttmála sem eiga við um þann öldung eða prest sem þjónustar. Hann blessar tákn brauðsins fyrir „sálir allra er þess neyta … , að þau … vitni fyrir þér, ó Guð eilífi faðir, að þau séu fús til að taka á sig nafn sonar þíns og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim.“11

Meginhlutverk sáttmála í hinni nýlega endurreistu kirkju var áréttað í formálanum sem Drottinn gaf fyrir fyrstu útgáfu opinberana sinna. Þar lýsir Drottinn því yfir að hann hafi kallað Joseph Smith vegna þess að íbúar jarðar hafi „vikið frá helgiathöfnum [hans] og rofið ævarandi sáttmála [hans].“12 Þessi opinberun útskýrir ennfremur að boðorð Drottins séu gefin til „að ævarandi sáttmála [hans] verði á komið.“13

Í dag skiljum við hlutverk sáttmála í hinni endurreistu kirkju og tilbeiðslu meðlima hennar. Gordon B. Hinckley forseti veitti þessa samantekt á áhrifum skírnar okkar og vikulegrar viðtöku okkar á sakramentinu: „Hver meðlimur þessarar kirkju sem hefur stigið ofan í skírnarvatnið er orðinn aðili að helgum sáttmála. Í hvert sinn sem við meðtökum sakramenti kvöldmáltíðar Drottins, endurnýjum við þann sáttmála.“14

Margir ræðumenn á þessari ráðstefnu hafa minnt okkur á að Russell M. Nelson forseti, vísar á svipaðan hátt oft til „sáttmálsvegarins,“ sem „leiðir okkur aftur til [Guðs] … og snýst alfarið um samband okkar við Guð.“15 Hann kennir um mikilvægi sáttmála í musterisathöfnum okkar og hvetur okkur til að sjá endinn frá upphafinu og að „hugsa himneskt.“16

IV.

Ég ræði nú meira um musterissáttmála. Til að framfylgja þeirri ábyrgð sinni að endurreisa fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists, varði spámaðurinn Joseph Smith mestum hluta síðustu æviára sinna við að stjórna byggingu musteris í Nauvoo, Illinois. Fyrir hans tilstilli opinberaði Drottinn eftirmönnum hans helgar kenningar og sáttmála til að framkvæma í musterum. Þar átti að kenna einstaklingum með musterisgjöf sáluhjálparáætlun Guðs og þeim var boðið að gera helga sáttmála. Þeim sem lifðu trúfastir eftir þessum sáttmálum var lofað eilífu lífi, þar sem „allir hlutir [eru] þeirra“ og þau „munu dvelja í návist Guðs og Krists hans alltaf og að eilífu.“17

Helgiathafnir musterisgjafar í Nauvoo-musterinu voru framkvæmdar rétt áður en fyrri brautryðjendurnir voru hraktir burtu til að hefja sögulega ferð sína til fjallanna í vestri. Við höfum vitnisburði margra brautryðjenda um að krafturinn sem þeir hlutu af því að bindast Kristi í musterisgjöf sinni í Nauvoo-musterinu, hafi veitt þeim styrk til að takast á við hið stórbrotna ferðalag og festa sig í sessi í Vestrinu.18

Einstaklingar sem hafa hlotið musterisgjöf sína, bera ábyrgð á því að klæðast musterisklæðum, fatnaði sem ekki er sýnilegur, því hann er innanklæða. Þau minna meðlimi með musterisgjöf á þá helgu sáttmála sem þeir hafa gert og blessanirnar sem þeim hefur verið lofað í musterinu. Til að ná fram þessum helga tilgangi, er okkur boðið að klæðast musterisklæðum sleitulaust, með þeim einu undantekningunum sem augljóslega eru nauðsynlegar. Þar sem sáttmálar taka sér ekki „frídag,“ mætti skilja það sem undantekningu á sáttmálsábyrgðinni og blessununum sem þeim tengjast að fara úr klæðunum. Aftur á móti staðfesta þau sem klæðast trúfastlega musterisklæðum sínum og halda stöðugt musterissáttmála sína hlutverk sitt sem lærisveina Drottins Jesú Krists.

Ljósmynd
Kort af musterum.

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er að byggja musteri um allan heim. Tilgangur þeirra er að blessa sáttmálsbörn Guðs með musteristilbeiðslu og helgri ábyrgð og krafti og einstökum blessunum þess að bindast Kristi, sem þau hljóta með sáttmála.

Ljósmynd
São Paulo-musterið, Brasilíu

Kirkja Jesú Krists er kunnug sem kirkja er leggur áherslu á sáttmálsgjörð við Guð. Sáttmálar eru óaðskiljanlegur hluti helgiathafna sáluhjálpar og upphafningar sem þessi endurreista kirkja þjónustar. Helgiathöfn skírnar og sáttmálarnir sem henni fylgja eru skilyrði fyrir inngöngu í himneska ríkið. Helgiathafnirnar og tengdir sáttmálar musterisins eru skilyrði upphafningar í himneska ríkinu, sem er eilíft líf, „[mestu] allra gjafa Guðs.“19 Þetta er það sem Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu einblínir á.

Ég ber vitni um Jesú Krist, sem er höfuð þeirrar kirkju og kalla blessanir hans yfir alla sem leitast við að halda helga sáttmála sína. Í nafni Jesú Krists, amen.