Aðalráðstefna
Statt upp, hann kallar á þig
Aðalráðstefna apríl 2024


Statt upp, hann kallar á þig

Fagnaðarerindið er ekki leið til að forðast áskoranir og vandamál, heldur lausn til að auka við trú okkar og læra hvernig takast skal á við þau.

Fyrir nokkru síðan spurði ég eiginkonu mína: „Getur þú sagt mér af hverju við, svo lengi sem ég man eftir okkur, höfum aldrei haft meiri háttar vandamál í lífi okkar?“

Hún leit á mig og sagði: „Sjálfsagt! Ég skal segja þér af hverju við höfum ekki haft meiri háttar vandamál; það er vegna þess að þú hefur mjög stutt minni!“

Skjótt og snjallt svar hennar kom mér enn einu sinni í skilning um að er við lifum eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, þá fjarlægir það ekki sársauka og þrengingar, sem nauðsynlegar eru til að vaxa.

Fagnaðarerindið er ekki leið til að forðast áskoranir og vandamál, heldur lausn til að auka við trú okkar og læra hvernig takast skal á við þau.

Ég skynjaði þennan sannleika fyrir nokkrum mánuðum, þegar ég dag nokkurn var við göngu og sjón mín varð skyndilega óskýr, dökk og flöktandi. Ég var hræddur. Svo sögðu læknarnir mér: „Ef þú hefur ekki meðferð undir eins, gætir þú jafnvel glatað sjóninni innan nokkurra vikna.“ Ég varð enn hræddari.

Og svo sögðu þeir: „Þú þarft augnhlaupssprautur – sprautur beint í augað, galopið augað – á fjögurra vikna fresti út ævina.“

Þetta var óþægileg vakning.

Þá barst mér hugsun í spurningarformi. Ég spurði mig: „Allt í lagi! Líkamlega er sjón mín ekki góð, en hvað með andlega sjón mína? Þarf ég nokkuð á meðferð að halda á því sviði? Og hvað felst í því að hafa skýra andlega sjón?“

Ég íhugaði söguna um blindan mann sem hét Bartímeus, sem lýst er í Markúsarguðspjalli. Ritningin segir: „Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: ‚Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!‘“1

Tæknilega séð, samkvæmt fjöldanum, var Jesús aðeins sonur Jósefs, hví kallaði Bartímeus hann þá „son Davíðs“? Einfaldlega vegna þess að hann bar kennsl á að Jesús var sannarlega Messías, sem spáð hafði verið að myndi fæðast sem afkomandi Davíðs.2

Það er áhugavert að þessi blindi maður, sem hafði ekki líkamlega sjón, bar kennsl á Jesú. Hann sá það andlega sem hann gat ekki séð líkamlega, á meðan margir gátu séð Jesú líkamlega en voru gjörsamlega blindir andlega.

Við lærum meira um skýra andlega sjón af þessari sögu.

Við lesum: „Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: ‚Sonur Davíðs, miskunna þú mér!‘“3

Allir umhverfis hann sögðu honum að þegja, en hann hrópaði enn meira því hann vissi hver Jesús var í raun. Hann hunsaði þessar raddir og hrópaði enn hærra.

Hann hafði sjálfur áhrif í stað þess að verða fyrir áhrifum. Þrátt fyrir að vera í takmörkuðum aðstæðum, nýtti hann sér trúna til að ná umfram takmarkanir sínar.

Fyrsta reglan sem við lærum er því: Við höfum skýra andlega sjón þegar við einbeitum okkur að Jesú Kristi og erum trygg því sem við vitum að er satt.

Bræður og systur, til að halda andlegri sjón okkar óskaddaðri, verðum við að ákveða að hlusta ekki á raddir heimsins allt um kring. Í þessum ruglingslega og ráðvillta heimi verðum við að vera trúföst því sem við vitum, trúföst sáttmálum okkar, trúföst við að halda boðorðin og ítreka trú okkar jafnvel enn ákafar, eins og þessi maður gerði. Við þurfum að hrópa vitnisburð okkar um Drottin enn hærra út í heiminn. Þessi maður bar kennsl á Jesú, var trúfastur því sem hann trúði og lét raddirnar umhverfis ekki trufla sig.

Það eru margar raddir á okkar tíma sem reyna að lækka í röddum okkar sem lærisveinum Jesú Krists. Raddir heimsins reyna að þaggar niður í okkur, en einmitt þess vegna verðum við að segja hærra frá vitnisburði okkar um frelsarann og af meiri krafti. Meðal allra radda heimsins, reiðir Drottinn sig á mig og þig til að segja frá vitnisburði okkar, að hækka róminn og verða rödd hans. Ef ekki við, hver kemur þá til með að vitna um Jesú Krist? Hver mun nefna hann á nafn og segja frá guðlegu verki hans?

Við höfum andlegt umboð sem kemur frá vitneskju okkar um Jesú Krist.

En hvað gerði Bartímeus eftir þetta?

Samkvæmt boði Drottins um að standa upp, iðkaði hann aftur trú.

Ritningin segir: „Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.“4

Þessi auðmjúki og trúfasti maður skildi að hann gæti staðið upp til betra lífs við boð Jesú. Hann vissi að hann væri yfir aðstæður sínar hafinn og það allra fyrsta sem hann gerði þegar hann heyrði að Jesús kallaði til hans, var að kasta frá sér betlarafrakka sínum.

Aftur hafði hann sjálfur áhrif í stað þess að verða fyrir áhrifum.

Mögulega hugsaði hann: „Ég þarf hana ekki lengur, nú þegar Jesús er kominn í líf mitt. Þetta er nýr dagur. Ég er kominn með nóg af þessu eymdarlífi. Með Jesú get ég hafið nýtt líf hamingju og gleði í honum, með honum og fyrir hann. Og mér er sama hvað heiminum finnst um mig. Jesús kallar til mín og hann vill hjálpa mér að lifa nýju lífi.“

Hve undursamleg breyting!

Þegar hann henti frá sér betlarafrakka sínum, varpaði hann frá sér öllum afsökunum.

Og þetta er önnur reglan: Við höfum skýra andlega sjón þegar við skiljum hinn náttúrlega mann eftir, iðrumst og byrjum nýtt líf í Kristi.

Leiðin til þess er að gera og halda sáttmála til að standa upp til betra lífs í gegnum Jesú Krist.

Svo lengi sem við komum með afsakanir til að vorkenna okkur sjálfum, fyrir aðstæður okkar og vandamál og allt það slæma sem gerist í lífi okkar og jafnvel allt slæma fólkið sem við höldum að geri okkur óhamingjusöm, þá erum við áfram með betlarafrakkann á herðum okkar. Það er satt að stundum særir fólk okkur, vísvitandi eða ekki. En við þurfum að ákveða að bregðast við með trú á Krist með því að fjarlægja andlegu og tilfinningalegu yfirhöfnina sem við erum mögulega enn í, til að fela afsakanir eða synd og kasta henni frá okkur, vitandi að hann getur og mun lækna okkur.

Það er aldrei góð afsökun að segja: „Ég er eins og ég er vegna einhverra ólukkulegra eða óþægilegra aðstæðna. Og ég get ekki breyst og ég er afsakaður.“

Þegar við hugsum á þennan hátt, ákveðum við að verða fyrir áhrifum.

Við erum áfram í betlarafrakkanum.

Að bregðast við í trú þýðir að reiða okkur á frelsara okkar, trúa því að með friðþægingu hans getum við staðið ofar öllu, við boð hans.

Þriðja reglan er í síðustu fjórum orðunum: „[Hann] kom til Jesú.“

Hvernig gat hann farið til Jesú fyrst hann var blindur? Eina leiðin til að ganga í áttina til Jesú var með því að heyra rödd hans.

Og þetta er þriðja reglan: Við höfum skýra andlega sjón þegar við hlýðum á rödd Drottins og leyfum honum að leiðbeina okkur.

Alveg eins og þessi maður hækkaði rödd sína yfir raddirnar umhverfis hann, gat hann hlýtt á rödd Drottins mitt á milli allra annarra radda.

Þetta er sama trú og gerði Pétri kleift að ganga á vatninu svo lengi sem hann hélt andlegri einbeitingu sinni á Drottni og lét ekki truflast af vindunum allt í kring.

Frásögnin af þessum blinda manni endar á orðunum: „Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi [Jesú] á ferðinni.“5

Ein af mikilvægustu lexíum þessarar sögu er að þessi maður iðkaði sanna trú á Jesú Krist og meðtók kraftaverk þar sem hann spurði af hjartans einlægni, þeirri hjartans einlægni að fylgja honum.

Þetta er grundvallarástæða þeirra blessana sem við hljótum í lífi okkar, sem er að fylgja Jesú Kristi. Þetta snýst um að bera kennsl á hann, gera og halda sáttmála við Guð vegna hans, breyta eðli okkar fyrir hann og standast staðföst allt til enda með því að fylgja honum.

Fyrir mig, þá snýst það að hafa skýra andlega sjón um að einbeita sér að Jesú Kristi.

Er þá andleg sjón mín skýr þegar ég fæ augnsprauturnar? Ja, hver er ég að dæma um það? En ég er þakklátur fyrir það sem ég sé.

Ég sé hönd Drottins skýrt í þessu helga verki og í lífi mínu.

Ég sé trú margra hvert sem ég fer, sem styrkir mína eigin trú.

Ég sé engla allt umhverfis mig.

Ég sé trú margra sem ekki sjá Drottinn líkamlega en bera kennsl á hann andlega, því þau þekkja hann innilega.

Ég ber vitni um að þetta fagnaðarerindi er svarið við öllu, því Jesús Kristur er svarið fyrir alla. Ég er þakklátur fyrir það sem ég get séð er ég fylgi frelsara mínum.

Ég lofa að þegar við heyrum rödd Drottins og leyfum honum að leiða okkur á sáttmálsvegi frelsarans, munum við blessuð með skýrri sýn, andlegum skilningi og friði í hjarta og huga alla okkar ævi.

Megum við hrópa vitnisburð okkar hærra en raddirnar í kringum okkur í heimi sem þarf að heyra meira um Jesú Krist, ekki minna. Megum við taka af okkur þann betlarafrakka sem við erum ef til vill enn í og standa ofar heiminum, fyrir betra líf í og fyrir Krist. Megum við varpa frá okkur öllum afsökunum fyrir því að fylgja ekki Jesú Kristi og finna allar góðar ástæður til að fylgja honum er við hlýðum á rödd hans. Það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.