Aðalráðstefna
Ráðvendni: Kristilegur eiginleiki
Aðalráðstefna apríl 2024


Ráðvendni: Kristilegur eiginleiki

Að lifa ráðvöndu lífi krefst þess að við séum trú Guði, hvert öðru og guðlegri sjálfsmynd okkar.

Á síðustu stundum þjónustu frelsarans, fór hann til Olíufjallsins í garð sem kallaðist Getsemane og bauð lærisveinum sínum að bíða.1 Hann var nú einn og bað til föður síns: „Ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér.“2 Hann komst í dauðans angist, sem varð þess valdandi, að hann „sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu … og með hrolli óskaði [hann] þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar.“3 Á stundu mikillar skelfingar hörfaði frelsarinn þó ekki, „heldur tæmdi hann og lauk undirbúningi [sínum] fyrir mannanna börn.“4

Sem hinn eingetni föðurins, hafði Jesús Kristur vald yfir dauða, sársauka og þjáningum og hörfaði ekki undan. Hann uppfyllti sáttmálann sem hann hafði gert við föður sinn og með því sýndi hann kristilegan eiginleika sem verður stöðugt mikilvægari í heiminum sem við lifum í – eiginleika ráðvendni. Hann var trúr Guði, hverju okkar og guðlegri sjálfsmynd sinni.

Ráðvendni

Jesús Kristur er fyrirmynd okkar. Að lifa ráðvöndu lífi krefst þess að við séum trú Guði, hvert öðru og guðlegri sjálfsmynd okkar. Ráðvendni á sér rætur í æðsta boðorðinu um að elska Guð. Þar sem að þið elskið Guð, verðið þið trú honum öllum tímum. Þið skiljið að það er til rétt og rangt og að til er alger sannleikur – sannleikur Guðs. Ráðvendni merkir að við lækkum ekki staðla okkar eða breytni til að vekja aðdáun eða til að njóta samþykkis annarra.5 Þið „breytið rétt“ og „afleiðingarnar fylgja.“6 Í nýlegri endurskoðun á trúboðsleiðarvísinum Boða fagnaðarerindi mitt er athyglisvert að hinum kristilega eiginleika ráðvendni var bætt þar við.7

Fyrir nokkrum árum var öldungi Uchtdorf falið að endurskipuleggja stikuna okkar. Í viðtali okkar spurði hann mig spurningar sem ég gleymi ekki: „Hefur eitthvað gerst í lífi þínu sem gæti orðið þér eða kirkjunni til minnkunar, ef það kæmi fyrir sjónir almennings?“ Undrandi leitaði hugur minn hratt yfir allt mitt líf, ég reyndi að rifja upp þær stundir þar sem mér gæti hafa orðið á og ég spurði sjálfan mig að því hvað aðrir myndu hugsa um mig „ef þeir vissu um allt sem ég hafði gert?“

Ég hélt á þessari stundu að öldungur Uchtdorf væri einungis að spyrja um verðugleika, en mér hefur lærst að þetta snýst í raun um ráðvendni. Var ég trúr því sem ég játaði? Myndi heimurinn sjá samkvæmni í orðum mínum og verkum mínum? Myndu aðrir sjá Guð í breytni minni?

Spencer W. Kimball forseti kenndi: „Ráðvendni“ er okkar „fúsleiki og geta til að lifa eftir trú okkar og skuldbindingum.“8

Trú Guði

Ráðvendið líferni krefst þess fyrst og fremst að við séum trú Guði.

Frá barnæsku höfum við lært söguna um Daníel í ljónagryfjunni. Daníel var alltaf trúr Guði. Afbrýðissamir félagar hans „leituðu … að finna [honum] eitthvað til saka“9 og settu á tilskipun um að einungis skyldi biðja til guða þeirra. Daníel vissi af þessari tilskipun, en fór heim og – með „opna glugga“10 – kraup hann og bað til Guðs Ísraels þrisvar á dag. Af þeim sökum var Daníel varpað í ljónagryfjuna. Daginn eftir komst konungurinn að því að Guð Daníels hafði bjargað honum og gaf út nýja tilskipun um að allir skyldu „hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann væri hinn lifandi Guð.“11

Konungurinn kynntist Guði vegna ráðvendni Daníels. Aðrir sjá Guð gegnum okkar – orð og verk. Líkt og með Daníel, mun trúfesti við Guð aðskilja okkur frá heiminum.

Frelsarinn minnir okkur á: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“12 Russell M. Nelson forseti sagði að „[sigur á heiminum] þýðir að sigrast á þeirri freistingu að huga meira að því sem þessa heims er, en því sem Guðs er. Það þýðir að treysta kenningu Krists, meira en heimspeki manna.“13 Við verðum á sama hátt að standast þá freistingu að ganga „[okkar] eigin leið og eftir ímynd [okkar] eigin guðs, en ímynd hans er í líkingu heimsins.“14

Andstætt aðdráttarafl þessa heims er nauðsynlegur hluti sáluhjálparáætlunar Guðs. Hvernig við bregðumst við aðdráttaraflinu er kjarni þess hver við erum – mælikvarði á ráðvendni okkar. Aðdráttarafl heimsins getur verið jafn ótvírætt og tryggðarbrot í hjónabandi eða jafn órætt og að pósta nafnlausa athugasemdir sem gagnrýnir kenningar eða menningu kirkjunnar. Að iðka ráðvendni í vali okkar, er ytri tjáning á innri skuldbindingu um að fylgja frelsaranum, Jesú Kristi.

Trú öðrum

Á sama hátt og ráðvendni á sér rætur í æðsta boðorðinu um að elska Guð, þá á trúmennska við hvert annað rætur í því næstæðsta, að elska náungann eins og sjálfan sig. Ráðvendið líferni er ekki fullkomið líferni; það er líferni þar sem við kappkostum fyrst og fremst dag hvern að vera trú Guði og í því samhengi að vera trú öðrum. Oaks forseti minnir okkur á: „Ákafi okkar við að halda þetta næstæðsta boðorð má ekki verða til þess að við gleymum því æðsta.“15

Heimurinn kljáist í auknum mæli við ráðvendni með því að setja sér lög eða siðareglur sem stjórna samskiptum fólks og stofnana. Þótt það geti verið gott, byggjast þessar reglur almennt ekki á algildum sannleika og þær hneigjast til að þróast út frá menningarlegu samþykki. Á svipaðan hátt og spurning öldungs Uchtdorf, þá þjálfa sumar stofnanir starfsfólk sitt í því að ígrunda hvernig ákvörðunarferli þess eða ákvarðanir þess myndu líta út, ef þær væru birtar á netinu eða á forsíðum stórra dagblaða. Þegar kirkjan er leidd fram úr móðu og myrkri,16 verðum við, eins og Daníel, að rísa ofar veraldlegum væntingum og verða ímynd hins sanna og lifandi Guðs, alltaf og alls staðar.17

Það nægir ekki að segja að við séum ráðvönd, ef verk okkar eru ekki í samræmi við orð okkar. Á sama hátt getur kristileg góðvild ekki komið í stað ráðvendni. Sem sáttmálsfólk og sem leiðtogar kirkju hans, verðum við að vera óaðfinnanleg og í samhljóm við þá staðla sem Drottinn hefur sett.

Að breyta af ráðvendni, mun efla trú og traust og fullvissa aðra um að við leitumst aðeins við að gera vilja Drottins. Í ráðum okkar stöndum við gegn utanaðkomandi áhrifum og fylgjum opinberuðu ferli Drottins um að leita skilnings frá hverri konu og hverjum karli og breyta í samræmi við þá innblásnu leiðsögn sem við hljótum.18

Við einblínum á frelsarann og gætum þess vandlega að forðast breytni sem skilja mætti að þjónaði okkar eigin hagsmunum, gagnaðist fjölskyldu okkar eða gerði sumum hærra undir höfði á kostnað annarra. Við leggjum allt kapp á að koma í veg fyrir að það líti út fyrir að breytni okkar kunni að vera undir áhrifum mannlegrar upphefðar,19 til að hljóta persónulega viðurkenningu, framkalla fleiri „læk,“ vera vitnað í eða vera birt opinberlega.

Trú guðlegri sjálfsmynd okkar

Að lifa ráðvöndu lífi, krefst þess að við séum trú guðlegri sjálfsmynd okkar.

Við þekkjum nokkur sem voru það ekki. Einkar minnisstæður er andkristurinn Koríhor, sem leiddi hjörtu margra afvega og höfðaði til „holdlegs hugarfars.“20 Samt játaði hann á síðustu andartökum lífs síns: „Ég vissi einnig, að til var Guð.“21 Henry B. Eyring forseti hefur kennt að lygar „[væru] andstæðar andlegu eðli okkar,“22 guðlegri sjálfsmynd okkar. Kóríhor blekkti sjálfan sig, en sannleikurinn var ekki í honum.23

Aftur á móti sagði spámaðurinn Joseph Smith með fullvissu: „Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég gat ekki neitað því.“24

Bróðir Josephs, Hyrum, var elskaður af Drottni „fyrir einlægni hjarta hans.“25 Hann og Joseph voru trúir allt til enda – sannir guðlegri sjálfsmynd sinni, ljósinu og þekkingunni sem þeir hlutu og trúir þeim manni sem þeir vissu að þeir gætu orðið að.

Lokaorð

Megum við laga okkur að „vilja Guðs“26 og þróa hinn kristilega eiginleika ráðvendni. Megum við fylgja fyrirmynd okkar, frelsara heimsins, og ekki hörfa undan, heldur lifa þannig að við séum trú Guði, hvert öðru og guðlegri sjálfsmynd okkar.

Líkt og Job sagði: „Þá setji Guð mig á rétta vog og hann mun viðurkenna sakleysi mitt.“27 Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.