Aðalráðstefna
Máttur andlegs skriðþunga
Aðalráðstefna apríl 2022


Máttur andlegs skriðþunga

Ég vil leggja til fimm sértækar aðgerðir sem við getum gert til að hjálpa okkur að viðhalda jákvæðum andlegum skriðþunga.

Kæru bræður og systur, ég elska ykkur. Mér þykir vænt um að fá að tala til ykkar í dag. Ég bið daglega fyrir því að þið séuð vernduð gegn grimmum árásum andstæðingsins og hafið nægan styrk til að sækja stöðugt fram gegnum þær áskoranir sem þið standið frammi fyrir.

Sumir erfiðleikar eru afar persónulegir, sem enginn annar fær greint. Aðrir gerast í sviðsljósi heimsins. Vopnuð átök í Austur-Evrópu eru þar á meðal. Ég hef oft komið til Úkraínu og Rússlands. Ég unni þessum löndum, fólkinu þar og tungumálum þess. Ég græt og bið fyrir öllum sem þessi átök hafa áhrif á. Sem kirkja, erum við að gera allt sem við getum til að hjálpa þeim sem þjást og berjast fyrir lífi sínu. Við bjóðum öllum að halda áfram að fasta og biðja fyrir öllu því fólki sem verður fyrir skaða vegna þessara hörmunga. Sérhvert stríð er hryllilegt brot gegn öllu því sem Drottinn Jesús Kristur stendur fyrir og kennir.

Ekkert okkar getur haft stjórn á þjóðum, verkum annarra eða jafnvel eigin fjölskyldumeðlima. Við getum þó haft stjórn á okkur sjálfum. Ákall mitt í dag, kæru bræður og systur, er að þið bindið enda á átök sem geisa í hjörtum ykkar, á heimilum ykkar og í lífi ykkar. Grafið hvers kyns tilhneigingar til að særa aðra – hvort sem þær tilhneigingar eru skapofsi, illyrði eða gremja gagnvart einhverjum sem hefur sært ykkur. Frelsarinn bauð okkur að bjóða hinn vangann,1 að elska óvini okkar og að biðja fyrir þeim sem misnota okkur.2

Það getur verið sárlega erfitt að láta af reiði sem manni finnst svo réttlætanleg. Það getur virst ómögulegt að fyrirgefa þeim sem hafa sært saklausa með skaðlegri breytni. Þrátt fyrir þetta, áminnir frelsarinn okkur um að „[fyrirgefa] öllum mönnum.“3

Við erum fylgjendur Friðarhöfðingjans. Við þörfnumst aldrei sem áður þess friðar sem aðeins hann getur veitt. Hvernig getum við vænst þess að friður ríki í heimi þegar við stuðlum ekki persónulega að sátt og samlyndi? Bræður og systur, ég veit að það sem ég legg til er ekki einfalt. Fylgjendur Jesú Krists ættu þó að setja fordæmi sem heimurinn getur tileinkað sér. Ég bið ykkur að gera allt sem þið getið til að binda enda á þau persónulegu átök sem geisa í hjörtum ykkar og í lífi ykkar.

Ég undirstrika þetta ákall til athafna með því að ræða hugtak sem ég var nýlega minntur á, þegar ég horfði á körfuboltaleik.

Í þeim leik var fyrri hálfleikur eins og barátta á vegasalti, upp og niður. Á síðustu fimm sekúndum fyrri hálfleiks, skoraði bakvörður annars liðsins með fallegu þriggja stiga skoti. Þegar aðeins ein sekúnda var eftir, stal liðsfélagi hans innkastinu og skoraði aðra körfu rétt í þann mund sem flautan gall! Liðið fór því í búningsklefann með fjögurra stiga forskot og augljósan skriðþunga. Því tókst að viðhalda þeim skriðþunga í seinni hálfleik og vinna leikinn.

Skriðþungi er máttugt hugtak. Við höfum öll upplifað hann á einn eða annan hátt – til dæmis í farartæki sem eykur hraðann eða þegar ágreiningur verður skyndilega að deiluefni.

Ég spyr því, hvað getur komið af stað andlegum skriðþunga. Við höfum séð dæmi um bæði jákvæðan og neikvæðan skriðþunga. Við þekkjum fylgjendur Jesú Krists, sem snerust til trúar og uxu í trú sinni. Við þekkjum einnig þá sem eitt sinn voru trúfastir, en urðu fráhverfir. Skriðþungi getur sveiflast í hvora áttina sem er.

Við höfum aldrei þarfnast jákvæðs andlegs skriðþunga jafn mikið og nú, til að draga úr þeim hraða sem aukinn er af illsku og hinum myrku táknum tímanna. Jákvæður andlegur skriðþungi mun viðhalda framrás okkar mitt í ótta og óvissu af völdum faraldra, flóðbylgja, eldgosa og hernaðarátaka. Andlegur skriðþungi getur hjálpað okkur að standast miskunnarlausar, viðurstyggilegar árásir andstæðingsins og komið í veg fyrir tilraunir hans til að grafa undan okkar persónulega, andlega grunni.

Ýmsar gjörðir geta vakið andlegan skriðþunga. Hlýðni, elska, auðmýkt, þjónusta og þakklæti4, svo fátt eitt sé talið.

Í dag vil ég leggja til fimm sértækar aðgerðir sem við getum gert til að hjálpa okkur að viðhalda jákvæðum andlegum skriðþunga.

Fyrsta: Farið á sáttmálsveginn og haldið ykkur á honum.

Fyrir ekki svo löngu dreymdi mig skýran draum, þar sem ég hitti stóran hóp af fólki. Það spurði mig margra spurninga, en algengust var spurningin um sáttmálsveginn og hvers vegna hann sé svo mikilvægur.

Í draumnum útskýrði ég að við komumst á sáttmálsveginn með því að láta skírast og með því að gera okkar fyrsta sáttmála við Guð.5 Í hvert sinn sem við meðtækjum sakramentið, lofuðum við aftur að taka á okkur nafn frelsarans, að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans.6 Á móti lofaði Guð okkur að andi Drottins verði ætíð með okkur.

Síðar gerðum við fleiri sáttmála í musterinu, þar sem við hlytum jafnvel æðri loforð. Helgiathafnir og sáttmálar veittu okkur aðgang að guðlegum krafti. Sáttmálsvegurinn væri eini vegurinn sem leiddi til upphafningar og eilífs lífs.

Í draumnum, spurði síðan kona hvernig einhver sem hefur rofið sáttmála sína, geti komist aftur á veginn. Svar mitt við spurningu hennar, leiðir til annarrar ábendingar minnar:

Uppgötvið gleði daglegrar iðrunar.

Hversu mikilvæg er iðrun? Alma kenndi að við ættum „ekkert annað [að] prédika en iðrun og trú á Drottin.“7 Iðrunar er krafist af öllum ábyrgum einstaklingum sem þrá eilífa dýrð.8 Það eru engar undantekningar. Í opinberun til spámannsins Josephs Smith, ávítaði Drottinn kirkjuleiðtoga þess tíma fyrir að þeir kenndu ekki börnum sínum fagnaðarerindið.9 Iðrun er lykillinn að framþróun. Sönn trú hjálpar okkur að halda áfram á sáttmálsveginum.

Óttist hvorki að iðrast, né sláið iðrun á frest. Satan hefur yndi af eymd ykkar. Bindið enda á það. Útilokið áhrif hans í lífi ykkar! Byrjið í dag að upplifa gleði þess að afklæðast hinum náttúrlega manni.10 Frelsarinn elskar okkur alltaf, en einkum þegar við iðrumst. Hann hét því að „þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist [mun] kærleikur minn til þín ekki bifast.“11

Ef ykkur finnst þið hafa villst of langt frá eða verið of lengi fjarri sáttmálsveginum og sjáið enga leið til baka, þá er það einfaldlega ekki satt.12 Hafið vinsamlega samband við biskup ykkar eða greinarforseta. Hann er fulltrúi Drottins og mun hjálpa ykkur að upplifa gleði og lausn iðrunar.

Hér er svo aðvörun: Að snúa aftur á sáttmálsveginn þýðir ekki að lífið verði einfalt. Þessi vegur er torveldur og stundum mun hann verða sem brött brekka.13 Þessum bratta er þó ætlað að reyna og kenna okkur, fága eðli okkar og hjálpa okkur að verða heilög. Þetta er eini vegurinn sem liggur til upphafningar. Spámaður nokkur14 lýsti „blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu. Og ef þeir haldast staðfastir allt til enda, er tekið á móti þeim á himni og þeir fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“15

Að ganga sáttmálsveginn með daglegri iðrun, knýr fram jákvæðan andlegan skriðþunga.

Þriðja ábending mín: Lærið um Guð og hvernig hann vinnur.

Ein mesta áskorun okkar tíma er að greina á milli sannleika Guðs og falsana Satans. Af þeirri ástæðu brýndi Drottinn fyrir okkur að „[biðja] ávallt, … [svo við fengjum sigrað] Satan og umflúið þjóna Satans, sem vinna verk hans.“16

Móse gaf dæmi um það hvernig greina mætti á milli Guðs og Satans. Þegar Satan kom og freistaði Móse, sá Móse í gegnum blekkinguna, því hann hafði rétt áður átt samskipti við Guð, augliti til auglitis. Móse áttaði sig fljótt á því hver Satan var og skipaði honum í burtu.17 Þegar Satan þrjóskaðist við, vissi Móse hvernig ákalla átti Guð til frekara liðsinnis. Móse hlaut guðlegan styrk, hastaði aftur á hinn illa og sagði: „Vík burt frá mér Satan, því að aðeins þann eina Guð vil ég tigna, sem er Guð dýrðarinnar.“18

Við ættum að fylgja því fordæmi. Vísið áhrifum Satans burt úr lífi ykkar! Ég sárbið ykkur að fylgja honum ekki ofan í „djúp vansældar og óendanlegs volæðis.“19

Á ógnarhraða getur vitnisburður, sem ekki er daglega nærður „hinu góða orði Guðs,“20 orðið að engu. Því er mótefnið við ráðabruggi Satans augljóst: Við þurfum að tilbiðja Drottin daglega og læra fagnaðarerindi hans. Ég bið ykkur að láta Guð ríkja í lífi ykkar. Gefið honum sanngjarnan hluta af tíma ykkar. Þegar þið gerið það, takið þá eftir því sem gerist varðandi jákvæðan andlegan skriðþunga ykkar.

Ábending númer fjögur: Leitið og væntið kraftaverka.

Moróní fullvissaði okkur um að „Guð hefur ekki hætt að vera Guð kraftaverka.“21 Hver einasta bók ritninganna sýnir hve fús Drottinn er til að grípa inn í líf þeirra sem á hann trúa.22 Hann klauf Rauðahafið fyrir Móse, hjálpaði Nefí að endurheimta látúnstöflurnar og endurreisti kirkju sína með spámanninum Joseph Smith. Hvert þessara kraftaverka tók tíma og var ef til vill ekki nákvæmlega það sem þessir einstaklingar höfðu beðið Drottin um í fyrstu.

Á sama hátt, mun Drottinn blessa ykkur með kraftaverkum ef þið trúið á hann og „[efist] ekki.“23 Gerið það andlega sem þarf til að leita kraftaverka. Biðjið Guð í trúrækni að hjálpa ykkur að iðka þess konar trú. Ég lofa því að þið getið upplifað það sjálf að Jesús Kristur „veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.“24 Fátt eykur andlegan skriðþunga ykkar meira en skilningur á því að Drottinn hjálpar ykkur að færa fjöll í lífi ykkar.

Ábending númer 5: Bindið enda á ágreining í einkalífi ykkar.

Ég endurtek ákall mitt um að binda endi á ágreining í lífi ykkar. Sýnið auðmýktina, hugrekkið og styrkinn sem þarf, bæði til að fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar. Frelsarinn hefur heitið því að „ef [við fyrirgefum] mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir [okkar] himneskur fyrirgefa [okkur].“25

Eftir tvær vikur, upp á dag, fögnum við páskum. Í millitíðinni býð ég ykkur að leitast við að binda enda á persónulegan ágreining, sem hefur íþyngt ykkur. Er nokkuð betra hægt að gera til að sýna Jesú Kristi þakklæti fyrir friðþægingu hans? Ef fyrirgefning virðist ómöguleg að sinni, biðjið þá að kraftur fyrir friðþægingarblóð Jesú Krists hjálpi ykkur. Þegar þið gerið það, lofa ég persónulegum friði og mikilli aukningu andlegs skriðþunga.

Þegar frelsarinn friðþægði fyrir alla menn, gerði hann þeim sem fylgja honum mögulegt að hafa aðgang að mætti lækningar, styrkingar og endurlausnar. Þessi andlegu forréttindi standa öllum til boða sem leitast við að hlýða á hann og fylgja honum.

Kæru bræður og systur, ég hvet ykkur af öllu hjarta til að fara á sáttmálsveginn og halda ykkur á honum. Upplifið gleði þess að iðrast daglega. Lærið um Guð og hvernig hann vinnur. Leitið og væntið kraftaverka. Bindið enda á ágreining í lífi ykkar.

Þegar þið framfylgið þessum atriðum, lofa ég ykkur styrk til að halda áfram á sáttmálsveginum af auknum skriðþunga, sama hvaða hindrunum þið standið frammi fyrir. Ég lofa ykkur auknum styrk til að standast freistingar, meiri hugarró, lausn frá ótta og aukinni samheldni í fjölskyldu ykkar.

Guð lifir! Jesús er Kristur! Hann lifir! Hann elskar okkur og mun hjálpa okkur. Ég ber þess vitni, í helgu nafni endurlausnara okkar, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 3. Nefí 12:39.

  2. Sjá 3. Nefí 12:44.

  3. Kenning og sáttmálar 64:10; sjá einnig vers 9.

  4. Eins og Páll postuli sagði: „Þakkið alla hluti“ (1. Þessaloníkubréf 5:18). Þakklæti er eitt af öruggustu mótefnunum gegn örvæntingu, vanmáttarkennd og andlegri deyfð. Hvaða hluti getum við þakkað Guði fyrir? Þakkið honum fyrir fegurð jarðar, fyrir endurreisn fagnaðarerindisins og fyrir þá óteljandi vegu sem hann og sonur hans gera mátt sinn tiltækan okkur hér á jörðu. Þakkið honum fyrir ritningarnar, fyrir engla sem svara bænum okkar til Guðs um hjálp, fyrir opinberun og fyrir eilífar fjölskyldur. Þakkið Guði mest af öllu fyrir gjöf sonar hans og friðþægingu Jesú Krists, sem gerir okkur kleift að uppfylla það ætlunarverk sem við höfum verið send til jarðar til að vinna.

  5. Til að skilja sáttmálsveginn, er mikilvægt að skilja að sáttmáli er tvíhliða skuldbinding á milli Guðs og eins barna hans. Í sáttmála setur Guð skilmálana og við samþykkjum þá. Á móti, gefur Guð okkur loforð. Mörgum sáttmálum fylgja ytri tákn – eða helgiathafnir – sem við tökum þátt í, ásamt vitnum. Skírn er t.d. tákn fyrir Drottni um að sá einstaklingur sem lætur skírast hafi gert sáttmála um að halda boðorð Guðs.

  6. Sjá Moróní 4:3; 5:2; Kenningu og sáttmála 20:77, 79.

  7. Mósía 18:20.

  8. Sjá HDP Móse 6:50, 57.

  9. Sjá Kenningu og sáttmála 93:40–48.

  10. Sjá Mósía 3:19.

  11. Jesaja 54:10, skáletrað hér; sjá einnig 3. Nefí 22:10. Kærleikur er þýddur úr hebreska hugtakinu hesed, kjarnyrtu orði með djúpstæða merkingu sem nær yfir góðvild, miskunn, sáttmálselsku og fleira.

  12. Það er mögulegt að bæta fyrir sumar syndir, en ekki aðrar. Ef einstaklingur misnotar eða ræðst á einhvern eða tekur líf annars, er ekki hægt að bæta það að fullu. Í þessum tilvikum getur syndarinn aðeins gert takmarkað mikið og enn á eftir að greiða upp stóran hluta. Þar sem Drottinn er fús til að fyrirgefa eftirstöðvarnar, getum við komið til hans sama hversu langt við höfum villst frá. Þegar við iðrumst af einlægni, mun hann fyrirgefa syndir okkar. Þær eftirstöðvar sem við skuldum, mismunur synda okkar og getu til að bæta skaðann að fullu, verður aðeins mögulegt að greiða með því að virkja friðþægingu Jesú Krists í lífi okkar, og hann getur veitt okkur náðargjöf. Fúsleiki hans til að fyrirgefa eftirstöðvarnar er ómetanleg gjöf.

  13. Sjá 2. Nefí 31:18–20.

  14. Nefíski spámaðurinn Benjamín konungur.

  15. Mósía 2:41.

  16. Kenning og sáttmálar 10:5; skáletrað hér.

  17. Sjá HDP Móse 1:16; sjá einnig vers 1–20.

  18. HDP Móse 1:20.

  19. Helaman 5:12.

  20. Moróní 6:4.

  21. Mormón 9:15; sjá einnig vers 19.

  22. Postulinn Jóhannes sagði sig hafa skráð kraftaverk frelsarans, svo að „[við tryðum] að Jesús sé Kristur“ (Jóhannes 20:31).

  23. Mormón 9:21.

  24. Jesaja 40:29.

  25. Matteus 6:14.