Aðalráðstefna
En við gáfum þeim engan gaum
Aðalráðstefna apríl 2022


En við gáfum þeim engan gaum

(1. Nefí 8:33)

Sáttmálar og helgiathafnir beina okkur til Drottins Jesú Krists og hjálpa okkur að hafa hann ávallt í huga í framþróun okkar á sáttmálsveginum.

Eiginkona mín, Susan, synir okkar þrír og konur þeirra, öll barnabörn okkar og öldungur Quentin L. Cook, sessunautur minn í Tólfpostulasveitinni í nær 15 ár, munum öll staðfesta það að ég syng ekki vel. Þrátt fyrir skort minn á sönghæfni, þá nýt ég þess að syngja sálmana um endurreisnina. Sambland innblásinna texta og tignarlegra laglína hjálpar mér að læra hinar mikilvægu reglur fagnaðarerindisins og hrærir við sál minni.

Einn þeirra sálma sem hefur blessað líf mitt á markverðan hátt er „Fylkjum liði.“ Nýlega hef ég verið að hugleiða og læra um ákveðna setningu í þessum sálmi. „Eigi munum virða vondra manna tal, vorum Guði einum hlýða skal.“1

Eigi munum virða.

Þegar ég syng „Fylkjum liði,“ hugsa ég oft um fólkið í sýn Lehís er það sótti fram á veginum sem leiddi að lífsins tré, og ekki bara „ríghaldandi sér,“ 2 heldur „hélt [það] stöðugt fast í járnstöngina, þar til það komst. Og það féll fram og neytti af ávexti trésins.“3 Lehí lýsti mannfjöldanum í hinni stóru og rúmmiklu byggingu sem „[benti á hann] með fyrirlitningu sem og á þá … sem neyttu af ávextinum.4 Svar hans við háði og móðgunum er stórkostlegt og eftirminnilegt: „En við gáfum þeim engan gaum.“5

Ég bið þess að heilagur andi muni blessa okkur og upplýsa er við hugleiðum sameiginlega hvernig við getum hlotið styrk til að „[gefa] … engan gaum“ að hinum illu áhrifum og hæðnisröddum sem tilheyra þeim heimi sem við búum í.

Gefa ekki gaum

Orðtakið að gefa gaum merkir að taka vel eftir eða að veita einhverju eða einhverjum athygli. Þar af leiðandi áminnir textinn í „Fylkjum liði“ okkur um að vera ákveðin í að veita „vondra manna [tali]“ enga athygli. Lehí og fólkið sem neytti ávaxtar trésins með honum, er gott fordæmi þess að veita því háði og fyrirlitningu sem kemur oft frá hinni stóru og rúmmiklu byggingu enga athygli.

Kenning Krists skrifuð „með anda lifanda Guðs … á hjartaspjöld [okkar]“6 eykur getu okkar til að „gefa ekki gaum“ að hinum mörgu truflunum, háði og tálbeitum í okkar fallna heimi. Við eflumst til að mynda að andlegum styrk með því að beina trú okkur að og á Drottin Jesú Krist. Trú á lausnarann er regla verka og kraftar. Þegar við störfum í samræmi við sannleika fagnaðarerindis hans erum við blessuð með andlegri getu til að sækja stöðugt fram í áskorunum jarðlífsins og jafnframt einblína á þá gleði sem frelsarinn býður okkur. Já, „ekkert þarf að hræðast, ef höldum rétta braut, hjálp oss veitir Drottinn, að sigra hverja þraut.“7

Persónulegt samband fyrir sáttmála

Þegar við göngum inn í helga sáttmála og meðtökum helgiathafnir prestdæmisins verðuglega, tengjum við og bindum ok okkar við Drottin Jesú Krist og himneskan föður.8 Þetta þýðir einfaldlega að við treystum á frelsarann sem málsvara okkar9 og meðalgöngumann10 og treystum á verðleika, miskunn og náð hans11 á ferðalagi lífsins. Þegar við erum stöðug í því að koma til Krists og erum undir oki með honum, meðtökum við hreinsandi, læknandi og styrkjandi blessanir hinnar altæku og eilífu friðþægingar hans.12

Að lifa og elska skuldbindingar sáttmálanna, skapar samband við Drottin sem er afar persónulegt og andlega öflugt. Þegar við heiðrum skilyrði helgra sáttmála og helgiathafna, þá drögumst við smám saman og stigvaxandi að honum13 og upplifum áhrif guðleika hans og lifandi veruleika í lífi okkar. Jesús verður þá mikið meira en miðpunktur frásagna í ritningunum; fordæmi hans og kenningar hafa áhrif á alla þrá okkar, hugsanir og gjörðir.

Ég hef í raun ekki getu til að lýsa fullnægjandi hinum áreiðanlegu eiginleikum eða krafti sáttmálssambands okkar við hinn upprisna og lifandi son Guðs. Ég ber hins vegar vitni um að sambandið við hann og himneskan föður er raunverulegt og hin endanlega uppspretta fullvissu, friðar, gleði og þess andlega styrks sem gerir okkur kleift að „[hræðast] ei þó að árás ógni [okkur].“14 Sem lærisveinar Jesú Krists er gera og halda sáttmála, þá getum við verið blessuð með hugrekki, því „oss mun Drottinn styrkja hvar sem er“15 og gefið engan gaum að hinum illu áhrifum og veraldlegri illkvittni.

Þegar ég heimsæki meðlimi kirkjunnar um víða veröld, spyr ég þá oft þessarar spurningar: „Hvað hjálpar ykkur við að „gefa ekki gaum“ að veraldlegum áhrifum, hæðni og spotti? Svör þeirra eru mjög leiðbeinandi.

Vaskir meðlimir undirstrika oft hápunkt þess mikilvægis að bjóða heilögum anda inn í líf sitt með dyggilegum ritningarlærdómi, heitri bænargjörð og vandlegum undirbúningi fyrir þátttöku í helgiathöfn sakramentisins. Oft er líka talað um andlegan stuðning trúfastra fjölskyldumeðlima og traustra vina, nauðsynlegar lexíur sem lærast í hirðisþjónustu og þjónustu í hinni endurreistu kirkju Drottins og getuna til að greina algeran tómleika alls þess sem er í eða kemur frá hinni stóru og rúmmiklu byggingu.

Ég hef tekið eftir ákveðnu mynstri í svörum þessara meðlima sem er mjög merkilegt. Fyrst og fremst hafa þessir lærisveinar sterkan vitnisburð um hamingjuáætlun himnesks föður og hlutverk Jesú Krists, lausnara okkar og frelsara. Í öðru lagi er andleg þekking þeirra og sannfæring einstaklingsbundin, persónuleg og eindregin; hún er ekki almenn og óljós. Ég hlusta á þessar trúföstu sálir tala um sáttmála sem veita þeim styrk til að sigrast á mótlæti og um tengingu þeirra við hinn lifandi Drottin sem styður þá bæði á góðum og slæmum tímum. Jesús Kristur er þessum einstaklingum sannarlega persónulegur frelsari.

Ljósmynd
Áttaviti

Helgir sáttmálar og helgiathafnir virka að miklu leyti eins og áttaviti í lífi okkar. Áttaviti er tæki sem notað er til að segja til um aðalstefnur norðurs, suðurs, austurs og vesturs til leiðsagnar og staðsetningar á sjó og landi. Á svipaðan hátt vísa sáttmálar og helgiathafnir okkur á Drottin Jesú Krist og hjálpa okkur að hafa hann ávallt í huga í framþróun okkar á sáttmálsveginum.

Ljósmynd
Kriststyttan

Aðalstefna okkar allra í jarðlífinu er að koma til Krists og fullkomnast í honum.16 Heilagir sáttmálar og helgiathafnir hjálpa okkur að einblína stöðugt á frelsarann og leggja okkur fram, með náð hans,17 við að verða líkari honum. Vissulega er það svo að „leiða mun oss afl sem hulin höndin ber, hér á leiðum sannleikans.“18

Halda stöðugt fast í járnstöngina

Sáttmálssamband okkar við Guð og Jesú Krist er sá farvegur sem gerir okkur mögulegt að öðlast getu og styrk til að „gefa ekki gaum.“ Þessi tengsl eru styrkt er við höldum stöðugt fast í járnstöngina. Eins og bræður Nefís spurðu: „Hvað merkir járnstöngin, sem faðir okkar sá liggja að trénu … ?

Og ég sagði þeim, að hún táknaði orð Guðs. Og hver sá, sem fylgir orði Guðs og varðveitir það, mun aldrei farast, né heldur geta freistingar eða eldtungur andstæðingsins blindað þá og leitt þá þannig til tortímingar.“19

Gætið að því að þeim einstaklingum sem „halda fast í,“ frekar en að „ríghalda sér“ í orð Guðs er lofað að þeir fái staðist freistingar og eldtungur andstæðingsins.

Það sem er áhugavert er að postulinn Jóhannes lýsti Jesú Kristi sem Orðinu.20

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. …

Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. …

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, (og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum).“21

Þar af leiðandi er eitt af nöfnum Jesú Krists „Orðið.“22

Að auki segir í áttunda trúaratriðinu: „Vér trúum, að Biblían sé orð Guðs, að svo miklu leyti sem hún er rétt þýdd. Vér trúum einnig, að Mormónsbók sé orð Guðs.“23

Þess vegna eru kenningar frelsarans, eins og þær eru skráðar í hinum heilögu ritningum, einnig „orðið.“

Leyfið mér að leggja til að það að halda fast í orð Guðs felur í sér (1) að minnast, heiðra og styrkja það persónulega samband sem við höfum við frelsarann og föður hans fyrir tilstilli sáttmála og helgiathafna hins endurreista fagnaðarerindis og (2) að nota hinar heilögu ritningar með bæn af einlægni og stöðugleika og kenningar hinna lifandi spámanna og postula sem öruggar heimildir um opinberaðan sannleika. Þegar við erum skuldbundin og „höldum fast í“ Drottin og umbreytumst með því að lifa eftir kenningu hans, 24lofa ég því að við munum blessuð, bæði einstaklingsbundið og sameiginlega, og „standa á helgum stöðum og eigi haggast,“25 Ef við erum í Kristi, þá mun hann vera í okkur og ganga með okkur.26 Já, „lið sitt mun hann hvetja og hylla starf hvers manns, helgað málstað sannleikans.“27

Vitnisburður

Fylkjum liði. Halda fast í. Gefa ekki gaum.

Ég ber vitni um að trúfesti við sáttmála og helgiathafnir hins endurreista fagnaðarerindis frelsarans, gerir okkur kleift að fylkja liði í verki Drottins, að halda fast í hann sem Orð Guðs og að gefa ekki gaum að freistingum andstæðingsins. Megi hvert okkar lyfta sverði í baráttunni fyrir því sem rétt er, jafnvel „andans sverði,“28 í hinu heilaga nafni Drottins Jesú Krists, amen.