Aðalráðstefna
Dýrðlegur kærleikur í áætlun föðurins
Aðalráðstefna apríl 2022


Dýrðlegur kærleikur í áætlun föðurins

Tilgangur kenninga og reglna þessarar endurreistu kirkju, er að undirbúa börn Guðs fyrir sáluhjálp í himneska ríkinu og upphafningu í æðstu gráðu þess.

Áætlun fagnaðarerindisins sýnir kærleika himnesks föður til barna hans. Til að skilja þetta, verðum við að skilja áætlun hans og boðorð. Hann elskar börn sín svo mikið, að hann gaf eingetinn son sinn, Jesú Krist, til að verða frelsari okkar og lausnari, til að þjást og deyja fyrir okkur. Við, í hinni endurreistu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, höfum einstakan skilning á áætlun himnesks föður. Hann veitir okkur öðruvísi sýn á tilgang jarðlífsins, á hinn guðlega dóm sem fylgir og hin endanlegu, dýrðlegu örlög allra barna Guðs.

Ég ann ykkur, bræður og systur. Ég ann öllum börnum Guðs. Jesús var spurður: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Hann kenndi að æðstu boðorð Guðs væru að elska Guð og náungann.1 Þessi boðorð eru æðst, vegna þess að þau bjóða okkur að vaxa andlega með því að líkja eftir elsku Guðs til okkar. Ég vildi að við skildum betur hina kærleiksríku kenningu sem himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, hafa komið á í Kirkju Jesu Krists hinna Síðari daga heilögu. Það sem ég segi hér á að gera ljóst hvernig elska Guðs útskýrir þessa kenningu og hinar innblásnu reglur kirkjunnar.

I.

Algengur misskilningur á dóminum eftir jarðlífið, er að gott fólk fari á stað sem kallast himinn og vont fólk fari á ævarandi stað sem kallast helja. Þessi falskenning um eingöngu tvo endanlega staði, gerir ráð fyrir því að þeim sem ekki geta haldið öll boðorðin sem krafist er til að komast til himna, er ætlað að fara til heljar.

Kærleiksríkur himneskur faðir hefur betri áætlun fyrir börn sín. Hin opinberaða kenning í hinni endurreistu kirkju Jesú Krists kennir að öll börn Guðs – með vissum undantekningum sem ekki verða hér tíundaðar – munu að lokum enda í ríki dýrðar.2 „Í húsi föður míns eru margar vistarverur,“3 kenndi Jesús. Af nútíma opinberun vitum við að þessar vistarverur eru innan þriggja mismunandi dýrðarríkja. Í lokadóminum mun sérhvert okkar hljóta dóm í samræmi við verk okkar og þrá hjartans.4 Áður en að því kemur, þurfum við að þjást fyrir syndir sem við höfum ekki iðrast fyrir. Ritningarnar kveða skýrt á um það.5 Síðan mun hinn réttláti dómari okkar sjá okkur fyrir vistarveru í einu þessara dýrðarríkja. Á þennan hátt, eins og við vitum með nútíma opinberun, munu þeir „dæmdir af verkum sínum og í samræmi við verk sín hlýtur hver maður sín eigin yfirráð í þeim híbýlum, sem fyrirbúin eru.“6

Drottinn hefur ákveðið að opinbera tiltölulega lítið um tvö þessara dýrðarríkja. Aftur á móti hefur Drottinn opinberað mikið um æðsta dýrðarríkið, sem Biblían lýsir sem „[ljóma] sólarinnar.“7

Í hinni „[himnesku]“ dýrð8 eru þrjú stig.9 Æðst þeirra er upphafning í himneska ríkinu, þar sem við getum orðið eins og Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur. Til að hjálpa okkur að þroska guðlega eiginleika og breyta eigin eðli, sem nauðsynlegt er til að ná guðlegum möguleikum okkar, hefur Drottinn opinberað kenningu og sett boðorð grundvallað á eilífum lögmálum. Þetta er það sem við kennum í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, vegna þess að tilgangur kenningarinnar og reglnanna í hinni endurreistu kirkju er að búa börn Guðs undir sáluhjálp í himneskri dýrð og einkum undir upphafningu æðsta stigs hennar.

Sáttmálar og fyrirheitnar blessanir hinna trúföstu í musterum Guðs eru lykillinn að þessu. Þetta útskýrir byggingu mustera um heim allan, sem kórinn hefur sungið svo fallega um. Sumum finnst þessi áhersla torskilin og þeir skilja ekki að sáttmálar og helgiathafnir musterisins geri okkur kleift að ná upphafningu. Þetta verður aðeins skilið í samhengi við opinberaðan sannleika hinna þriggja dýrðargráða. Sökum mikillar elsku Guðs til allra barna sinna, hefur hann fyrirbúið önnur dýrðarríki – eins og öldungur Quentin L. Cook útskýrði í gær – sem öll eru dásamlegri en við fáum skilið.10

Friðþæging Jesú Krists gerir allt þetta mögulegt. Hann hefur opinberað að hann „gjörir föðurinn dýrðlegan og frelsar öll handaverk hans.“11 Þessi sáluhjálp er veitt í mismunandi dýrðarríkjum. Við vitum af nútíma opinberun að „öllum ríkjum er gefið lögmál.“12 Mikilvægt er:

„Sá, sem ekki fær staðist lögmál himneska ríkisins, fær ekki staðist himneska dýrð.

Og sá, sem ekki fær staðist lögmál yfirjarðnesks ríkis, fær ekki staðist yfirjarðneska dýrð.

Og sá, sem ekki fær staðist lögmál jarðnesks ríkis, fær ekki staðist jarðneska dýrð.“13

Með öðrum orðum, þá ákvarðar það lögmál sem við veljum að lifa eftir í kærleiksáætlun himnesks föður, hvaða dýrðarríki við hljótum í lokadóminum. Í þeirri áætlun eru mörg ríki, svo að öll börn hans geti hlotið ríki sem þau „fá staðist.“

II.

Kenningar og reglur hinnar endurreistu kirkju Drottins eiga við um þennan eilífa sannleika á þann hátt sem aðeins verður fyllilega skilið í samhengi við kærleiksáætlun himnesks föður fyrir öll börn hans.

Við heiðrum því sjálfræði einstaklingsins. Flestir eru kunnugir því mikla starfi kirkjunnar að efla trúfrelsi. Þetta starf er til að efla framgang áætlunar okkar himneska föður. Við leitumst við að hjálpa öllum börnum hans – ekki aðeins eigin meðlimum – til að njóta hins dýrmæta valfrelsis.

Á líkan hátt erum við stundum spurð um ástæðu þess að við sendum trúboða til svo margra landa, jafnvel meðal kristinna þjóða. Við erum einnig spurð hvers vegna við gefum gríðarlegt magn af hjálpargögnum til fólks sem ekki eru meðlimir kirkju okkar, án þess að tengja það trúboðsstarfi okkar. Við gerum þetta vegna þess að Drottinn hefur kennt okkur að virða öll börn hans sem bræður okkar og systur og við viljum miðla öllum af okkar andlegu og stundlegu allsnægtum.

Eilíf kenning veitir einnig aðra hugsýn varðandi börn. Með þessari hugsýn, lítum við á barnsburð og barnauppeldi sem hluta af hinni dýrðlegu áætlun. Þetta er gleðileg og helg skylda þeirra sem eiga kost á að framfylgja henni. Okkur er því boðið að kenna og styðja við reglur og verklag sem skapa bestan jarðveg til vaxtar og hamingju fyrir börn í áætlun Guðs.

III.

Að lokum, þá er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu réttilega þekkt sem fjölskylduvæn kirkja. Það sem er hins vegar ekki fyllilega skilið, er að fjölskyldugildi okkar takmarkast ekki aðeins við jarðnesk sambönd. Eilíf sambönd eru líka undirstaða trúar okkar. Ætlunarverk hinnar endurreistu kirkju er að hjálpa öllum börnum Guðs að verða hæf fyrir það sem Guð þráir fyrir þau sem endanleg örlög. Með endurlausninni sem veitt er með friðþægingu Krists, geta allir öðlast eilíft líf (upphafningu í himneska ríkinu), sem móðir Eva sagði að „Guð gefur öllum þeim, sem hlýðnast.“14 Þetta er meira en sáluhjálp. Russell M. Nelson forseti hefur minnt okkur á að „í eilífri áætlun Guðs er sáluhjálp einstaklingsbundin; [en] upphafningin er fjölskyldumál.“15

Grundvallaratriði fyrir okkur er opinberun Guðs um að upphafning fáist aðeins með trúfesti við sáttmála eilífs hjónabands milli karls og konu.16 Þessi dýrðlega kenning er ástæðan fyrir því að við kennum að „kynferði er nauðsynlegur eiginleiki einstaklingsins … og samræmist tilgangi hans í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð.“17

Þetta er einnig ástæða þess að Drottinn hefur boðið sinni endurreistu kirkju að standa gegn félagslegum og lagalegum þrýstingi um að hverfa frá hefðbundnu hjónabandi karls og konu, að standa gegn breytingum sem gera muninn á körlum og konum einsleitan eða rugla saman eða breyta kyni.

Afstaða hinnar endurreistu kirkju til þessara grundvallaratriða vekur oft upp andstöðu. Við skiljum það. Áætlun okkar himneska föður leyfir „andstæður í öllu“18 og harðasta andstaða Satans beinist að því sem er mikilvægast í þeirri áætlun. Þar af leiðandi leitast hann við að vinna gegn framþróun til upphafningar með því að afskræma hjónabandið og letja til barneigna eða rugla kynferði. Samt sem áður vitum við að þegar til lengdar lætur, verður hinn dýrðlegi tilgangur og áætlun okkar kærleiksríka himneska föður ekki breytt. Persónulegar aðstæður geta breyst og áætlun Guðs tryggir að til lengri tíma litið, mun hinum trúföstu sem halda sáttmála sína gefið tækifæri til að verða hæfir fyrir hverja fyrirheitna blessun.19

Einstaklega dýrmætt kennslugagn, sem hjálpar við að búa okkur undir „[mestu] allra gjafa Guðs,“20 er yfirlýsingin um fjölskylduna frá 1995.21 Staðhæfingar hennar eru auðvitað frábrugðnar sumum gildandi lögum, iðkunum og málstöðum, svo sem samlífi og hjónabandi samkynhneigðra. Þeir sem ekki skilja að fullu kærleiksáætlun föðurins fyrir börn hans, gætu talið fjölskylduyfirlýsinguna einungis stefnuyfirlýsingu sem ætti að breyta. Síðari daga heilagir standa hins vegar fast á því að fjölskylduyfirlýsingin, grundvölluð á óumbreytanlegri kenningu, sé skilgreinandi fyrir fjölskyldusambönd, þar sem mikilvægasti hluti okkar eilífu framþróunar getur farið fram.

Þetta er efnislegt innihald hinnar einstöku kenningar og reglna hinnar endurreistu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

IV.

Í mörgum samböndum og aðstæðum í jarðlífinu, verður hvert okkar að búa við skoðanamun. Sem fylgjendur Krists, sem ættu að elska náungann, ættum við að lifa í friði við þá sem ekki trúa því sem við gerum. Við erum öll börn kærleiksríks himnesks föður. Hann hefur ákvarðað okkur öllum líf eftir dauðann og að lokum dýrðarríki. Guð vill að við keppum öll að hæstu mögulegu blessunum hans, með því að halda æðstu boðorð hans, sáttmála og helgiathafnir, sem allar ná hápunkti í hans heilögu musterum sem reist eru um allan heim. Við verðum að leitast við að deila þessum eilífa sannleika með öðrum. Við virðum þó alltaf ákvarðanir þeirra, af kærleiksskyldu til náunga okkar. Líkt og spámaður Mormónsbókar kenndi, þá verðum við að sækja fram, í „ást til Guðs og allra manna.“22

Eins og Russell M. Nelson forseti sagði á síðustu ráðstefnu: „Aldei í sögu heimsins hefur persónuleg vitneskja um frelsarann verið jafn mikilvæg og brýn fyrir sérhverja mannssál. … Hin hreina kenning Krists er máttug. Hún breytir lífi allra þeirra sem skilja hana og reyna að lifa eftir henni.“23

Að við megum öll tileinka okkur þessa helgu kenningu í eigin lífi, er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.