Aðalráðstefna
Sáttmálar við Guð styrkja okkur, vernda og búa okkur undir eilífa dýrð
Aðalráðstefna apríl 2022


Sáttmálar við Guð styrkja okkur, vernda og búa okkur undir eilífa dýrð

Þegar við veljum að gera sáttmála og halda þá, verðum við blessuð með aukinni hamingju í þessu lífi og dýrðlegu eilífu lífi í framtíðinni.

Systur, þvílík gleði að koma saman í heimssystralagi! Sem konur sem gera og halda sáttmála við Guð, deilum við andlegum tengslum sem hjálpa okkur að takast á við áskoranir okkar tíma og búa okkur undir síðari komu Jesú Krists. Það að halda þessa sáttmála gefur okkur tækifæri til að verða áhrifamiklar konur sem leiða aðra til frelsarans.

Þær sem hafa verið skírðar, gerðu sáttmála á þeim eftirminnilega degi um að taka á sig nafn Jesú Krists, að hafa hann ávallt í huga, halda boðorð hans og þjóna honum allt til enda. Þegar við gerum þetta, lofar himneskur faðir að fyrirgefa syndir okkar og sjá okkur fyrir samfélagi heilags anda. Þessar blessanir koma okkur á þá slóð sem mun leyfa okkur að dvelja með honum og syni hans, í himneska ríkinu, ef við höldum áfram og stöndumst allt til enda. Hverjum skírðum einstaklingi hefur verið heitið þessum forréttindum, ef hún eða hann heldur þá sáttmála sem þau gerðu þennan sérstaka dag.

Þeir sem gera fleiri sáttmála í musterinu, meðtaka kröftug loforð sem skilyrðast við persónulega trúfesti. Við lofum því hátíðlega að fylgja boðorðum Guðs, lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, vera siðferðislega hrein og helga Drottni tíma okkar og hæfileika. Í staðinn lofar Guð blessunum í þessu lífi og því tækifæri að snúa aftur til hans.1 Í því ferli er okkur gefinn kraftur til að greina á milli sannleika og villu, rétts og rangs mitt á meðal þeirra fjölmörgu, ruglandi og neikvæðu radda sem herja á okkur. Þetta er mögnuð gjöf!

Í undirbúningi fyrir fyrstu ferð mína til musterisins, höfðu móðir mín og margreyndar systur í Líknarfélaginu hjálpað mér að velja þá hluti sem ég myndi þarfnast, þar á meðal fallegan viðhafnarklæðnað. Mikilvægasti undirbúningurinn kom samt áður en ég vissi hverju ég ætti að klæðast. Eftir að hafa tekið mig í viðtal til að ákvarða verðugleika minn, útskýrði biskup minn þá sáttmála sem ég myndi gera. Vandlegar útskýringar hans gáfu mér tækifæri til að hugsa um og vera tilbúin að gera þá sáttmála.

Þegar dagurinn rann upp, tók ég þátt af þakklæti og friði. Jafnvel þótt ég skyldi ekki fyllilega þá sáttmála sem ég gerði, þá vissi ég að ég væri bundin Guði í gegnum þessa sáttmála og væri lofað blessunum ef ég héldi þá, sem ég fengi vart skilið. Allt frá þessari fyrstu reynslu, hef ég stöðugt verið fullvissuð um að ef við höldum sáttmálana sem við gerðum við Guð, munum við geta sótt í kraft frelsarans, sem styrkir okkur í óumflýjanlegum raunum, veitir vernd frá áhrifum andstæðingsins og býr okkur undir eilífa dýrð.

Lífsreynsla getur verið allt frá hinu skondna til hins átakanlega, frá því hræðilega til hins dýrðlega. Hver reynsla hjálpar okkur að skilja umvefjandi elsku föðurins betur og getu okkar til að breytast fyrir náðargjöf frelsarans. Að halda sáttmála okkar gerir krafti frelsarans kleift að hreinsa okkur er við lærum af reynslunni – hvort sem það sé minniháttar dómgreindarbrestur eða stór mistök. Lausnarinn er þar til að grípa okkur þegar við hrösum ef við snúum okkur til hans.

Ljósmynd
Klettasig

Hafið þið einhvern tíma staðið á háum kletti með tærnar á brúninni og snúið bakinu að hyldýpinu fyrir aftan? Í klettasigi hamast hjartað er maður stendur á brúninni, jafnvel þó að maður maður sé í öruggri tengingu við sterk reipi og tæki sem geta flutt þig í öryggi. Það að stíga aftur á bak af klettinum og sveifla sér út í loftið krefst trausts á akkerið sem hefur verið fest örugglega í jarðfastan hlut. Það krefst trausts á þeirri persónu sem heldur spennu á reipinu er þið ferðist niður á við. Jafnvel þó að búnaðurinn veiti ykkur nokkra getu til að stjórna ferð ykkar niður, þá verðið þið að treysta því að félagi ykkar muni ekki láta ykkur falla.

Ljósmynd
Sig-akkeri
Ljósmynd
Stúlka sígur niður niður eftir kletti

Ég man vel eftir því að fara í klettasig með hópi stúlkna. Ég var fyrst í hópnum til að síga. Þegar ég steig aftur á bak af klettinum, féll ég stjórnlaust niður. Sem betur fer kipptist bandið við og þetta ofhraða fall mitt hætti. Þar sem ég hékk hálfa leið niður eftir grófum klettinum, bað ég heitt fyrir hverjum þeim eða hverju því sem hélt mér frá því að detta í grjótið.

Síðar komst ég að því að akkerisboltinn hafði ekki verið festur nægilega vel og er ég steig út af klettabrúninni, skall sá sem hélt mér uppi á bakið og dróst að klettabrúninni. Einhvern veginn skorðaði hann fætur sína af við nokkra steina. Öruggur í þeirri stöðu, gat hann látið mig síga hægt og rólega, eina hönd í einu, niður með reipinu. Þó að ég sæi hann ekki, vissi ég að hann væri að nýta alla krafta sína til að bjarga mér. Annar vinur var við rætur klettsins, tilbúinn að grípa mig ef reipið héldi ekki lengur. Þegar ég var komin nægilega nálægt, greip hann í sigbeltið mitt og hjálpaði mér niður á jörðina.

Með Jesú Krist sem akkeri okkar og hinn fullkomna félaga, höfum við verið fullvissuð um elskandi styrk hans í erfiðleikum og með endanlega björgun vegna hans. Eins og M. Russell Ballard forseti hefur kennt: „Trú á Guð og son hans, Drottin Jesú Krist, er … akkerið sem við verðum að hafa í lífi okkar til að halda fast í á tímum samfélagslegrar ókyrrðar og vonsku. … Trú okkar … verður að vera byggð á Jesú Kristi, lífi hans og friðþægingu og á endurreisn fagnaðarerindis hans.“2

Sá andlegi búnaður sem heldur okkur frá því að brotna á klettum mótlætis, er vitnisburður okkar um Jesú Krist og þeir sáttmálar sem við gerum. Við getum treyst á þennan stuðning til að leiða okkur og bera í öryggið. Sem viljugur félagi okkar, mun frelsarinn aldrei leyfa okkur að falla lengra en í seilingarfjarlægð. Hann er til staðar til að lyfta og hvetja, jafnvel á tímum þjáningar og sorgar. Kraftur hans hjálpar okkur að ná okkur eftir eyðileggjandi áhrif ákvarðana annarra. Stundum verðum við að setja á okkur beltið sjálf og tryggja að hnútarnir séu vandlega bundnir. Við verðum að velja að vera tengd frelsaranum, bundin honum með sáttmálum okkar.3

Hvernig styrkjum við þetta akkeri? Við biðjum með auðmjúku hjarta, lesum og hugleiðum ritningarnar, meðtökum sakramentið í anda iðrunar og lotningar, leggjum okkur fram við að hlýða boðorðunum og fylgjum leiðsögn spámannsins. Þegar við uppfyllum dagleg verkefni okkar á „æðri og helgari“ hátt4 verðum við tengdari frelsaranum og hjálpum öðrum á sama tíma að koma til hans.

Hvernig lítur þessi „æðri og helgari“ háttur út? Við reynum að lifa eftir fagnaðarerindinu í öllum samskiptum okkar. Við önnumst hina þurfandi með því að sinna hirðisþjónustu, tjáum kærleika með einfaldri þjónustu. Við miðlum fagnaðarerindinu með þeim sem þarfnast friðar og styrktar og „vita ekki hvar hann er að finna.“5 Við vinnum að því að sameina fjölskyldur um eilífð, beggja vegna hulunnar. Við þá sem hafa gert sáttmála í húsi Drottins, hefur Russell M. Nelson forseti sagt: „Hver fullorðinn musterisþjónn skal íklæðast helgum musterisklæðum … [sem] minnir okkur líka … [á að] sækja fram dag hvern á sáttmálsveginum, á æðri og helgari hátt.”6 Þetta verk er ekki bara einhver tækifæris ákefð, heldur er það nauðsynlegt fyrir daglega hamingju okkar – og eilífa gleði.

Það er ekkert mikilvægara fyrir eilífa framþróun okkar en að halda sáttmála okkar við Guð. Þegar musterissáttmálar okkar eru í gildi, getum við treyst á gleðilega endurfundi við ástvini handan hulunnar. Barnið, foreldrið eða makinn sem hefur yfirgefið jarðlífið, vonast eftir því af öllu hjarta að þið verðið trú sáttmálunum sem binda ykkur saman. Ef við hunsum sáttmála Guðs eða tökum þá ekki alvarlega, setjum við þessi eilífu tengsl í hættu. Nú er kominn tími til að iðrast, bæta og reyna aftur.

Hamingjan er innantóm ef við skiptum blessunum eilífrar gleði út fyrir tímabundin þægindi. Sama hve gömul við erum, þá er þetta heilber sannleikur: að lykillinn að varanlegri hamingju er að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists og halda sáttmála okkar. Spámaður okkar, Nelson forseti, hefur lýst því yfir að „besta tryggingin og eina varanlega hamingjan fæst með því að halda í járnstöng endurreists fagnaðarerindis Jesú Krists, sem fullkomnast með sáttmálum sínum og helgiathöfnum. Þegar við gerum svo, getum við stýrt örugglega í gegnum ólgusjó, því við höfum aðgang að valdi Guðs.“7

Mörg okkar upplifa ólgusjó. Þegar við hrekjumst á öldum mótlætis og blindumst stundum í sírennsli tára sem koma á þessum erfiðisstundum, vitum við stundum ekki hvert við eigum að stefna lífsins bát okkar. Ef til vill teljum við okkur ekki hafa styrkinn til að róa í land. Að minnast þess hver þið eruð – ástkær börn Guðs – hvers vegna þið eruð á jörðunni og markmiðs ykkar um að dvelja með Guði og ástvinum ykkar, getur skýrt sýn ykkar og beint ykkur í rétta átt. Í miðju stormviðrisins er bjart ljós sem lýsir okkur leiðina. „Ég er ljósið sem skín í myrkrinu,“ sagði Jesú.8 Við erum fullvissuð um öryggi þegar við horfum til ljóss hans og viðhöldum réttmæti sáttmála okkar.

Það hafa verið forréttindi að hitta konur á öllum aldri, sem búa við mjög mismunandi aðstæður og halda sáttmála sína. Á hverjum degi horfa þær til Drottins og spámanns hans fyrir leiðsögn, frekar en til vinsælla miðla. Þrátt fyrir einstaklingsbundnar áskoranir og skaðlega heimspeki heimsins, sem reynir að letja þær frá því að halda sáttmála sína, þá eru þær ákveðnar að haldast á sáttmálsveginum. Þær treysta á loforðið „allt, sem [faðirinn] á,9 Hver sem aldur ykkar er, þá hefur hver og ein ykkar kvenna, sem hafið gert sáttmála við Guð, getuna til að halda ljósi Drottins á lofti og leiða aðra til hans.10 Hann mun blessa ykkur með prestdæmisvaldi sínu þegar þið haldið sáttmála ykkar og gera ykkur kleift að hafa djúpstæð áhrif á alla sem þið komist í samband við. Eins og Nelson forseti sagði þá eruð þið konurnar sem munið uppfylla spádómana sem spáð hefur verið um!11

Kæru systur, haldist framar öllu á sáttmálsveginum til Jesú Krists. Við höfum verið blessaðar að koma til jarðar þegar musteri eru á víð og dreif um jörðina. Það að gera og halda musterissáttmála stendur hverjum verðugum meðlimi kirkjunnar til boða. Ungt fullorðið fólk, þið þurfið ekki að bíða eftir hjónabandi eða trúboði með að gera þessa helgu sáttmála Þið getið undirbúið ykkur sem stúlkur að öðlast þá vernd og þann styrk sem musterissáttmálar veita, strax eftir 18 ára aldur, þegar þið eruð tilbúnar og þráið að heiðra þessa musterissáttmála.12 Þið sem þegar hafið meðtekið blessanir musterisins, leyfið ekki að lastarar og truflanir dragi ykkur frá eilífum sannleika. Lesið og leitið svara hjá áreiðanlegum heimildum til að öðlast meiri skilning á heilagri merkingu sáttmálanna sem þið hafið gert. Farið í musterið eins oft og þið getið og hlustið á andann. Þið munið skynja þá ljúfu fullvissu að þið séuð á vegi Drottins. Þið munið öðlast hugrekkið til að halda áfram og koma með aðra með ykkur.

Ég ber vitni um að þegar við veljum að gera sáttmála við himneskan föður og meðtökum af krafti frelsarans til að halda þá, munum við blessuð með meiri hamingju í þessu lífi en við getum nú ímyndað okkur og dýrðlegu eilífu lífi í framtíðinni.13 Í nafni Jesú Krists, amen.