Aðalráðstefna
Trúarstigi
Aðalráðstefna apríl 2022


Trúarstigi

Vantrú kemur í veg fyrir að við getum séð kraftaverk, á sama tíma og að hugarfar trúar á frelsarann leysir krafta himins úr læðingi.

Hvernig munu áskoranir lífsins hafa áhrif á trú okkar á Jesú Krist? Hvaða áhrif mun trú okkar hafa á þá gleði og þann frið sem við upplifum í þessu lífi.

Það var árið 1977. Síminn hringdi og skilaboðin á línunni fengu mikið á okkur. Carolyn og Doug Tebbs voru í því að flytja inn á nýja heimilið sitt eftir að útskrifast úr meistaranámi. Öldungasveitin hafði komið til að fylla sendiferðabílinn. Doug leit aftur fyrir sig í síðasta skiptið, til að vera viss um að hann gæti bakkað út. Það sem hann sá ekki var litla dóttir hans, Jennie, sem hljóp aftur fyrir bílinn einmitt á röngu augnabliki. Á einu augnabliki var ástkær dóttir þeirra, Jennie, farin.

Hvað myndi gerast næst? Myndi sársaukinn sem þau upplifðu svo áþreifanlega og þessi óhugsandi missir, skapa óyfirstíganlega gjá milli Carolyn og Doug eða myndi þetta binda hjörtu þeirra saman og staðfesta trú þeirra á áætlun himnesks föður?

Leiðin í gegnum þrengingar þeirra hefur verið löng og sársaukafull, en þau fundu einhvers staðar andlegan varaforða til að missa ekki von, en „[halda] … stefnu [sinni].“1 Á einhvern hátt urðu þessi ótrúlegu hjón enn kristilegri. Skuldbundnari. Samúðarfyllri. Þau trúðu því að Guð myndi, á sínum tíma, helga þrengingar þeirra, þeim til góðs.2

Þó að sársauki þeirra og missir myndi ekki og gæti ekki horfið alveg, hafa Carolyn og Doug fundið fyrir huggun vegna þeirrar fullvissu að með því að halda sér fast við sáttmálsveginn, þá myndi þeirra ástkæra Jennie vera þeirra um eilífð.3

Fordæmi þeirra hefur styrkt trú mína á áætlun Drottins. Við sjáum ekki alla hluti. Hann gerir það. Drottinn sagði við Joseph Smith í Liberty fangelsinu: „Vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs. Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?“4

Þegar við meðtökum vilja Drottins, kennir hann okkur að ganga með sér.5 Sem ungur trúboði, þjónandi í Tahítí, var ég beðinn um að veita veiku ungabarni blessun. Við lögðum hendur okkar á höfuð hans og blessuðum hann með lækningu. Hann hresstist við, en veiktist svo aftur. Í annað skiptið sem við blessuðum hann, gerðist það sama. Svo kom ósk um þriðja skiptið. Við báðum til Drottins að hans vilji mætti verða. Stuttu síðar snéri þessi ungi andi aftur til baka til síns himneska heimilis.

Við fundum hins vegar frið. Við hefðum viljað að ungabarnið lifði, en Drottinn hafði aðrar áætlanir. Það að viðurkenna vilja hans í stað okkar eigin, er lykillinn að því að finna gleði, sama hverjar aðstæður okkar eru.

Hin einfalda trú sem við höfum á Jesú Krist, þegar við byrjum fyrst að læra um hann, getur dvalið í hjörtum okkar er við tökumst á við áskoranir lífsins. Trú okkar á hann getur og mun leiða okkur í gegnum margbreytileika lífsins. Sannarlega munum við komast að því að það er einfaldleiki handan margbreytileika lífsins6 er við höldumst „staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi.“7

Hluti af tilgangi lífsins er að leyfa þessum mögulegu hindrunum að verða að stiklusteinum er við klifrum upp hinn svokallaða „trúarstiga, stiga því það gefur í skyn að trúin er ekki kyrrstaða.“ Hún getur farið upp eða niður, samkvæmt ákvörðunum sem við tökum.

Þegar við keppum að því að byggja trú á frelsarann, skiljum við ef til vill ekki fyllilega elsku Guðs til okkar og hlýðum kannski lögmálum hans af skyldurækni. Sektarkennd gæti jafnvel orðið aðalhvati okkar frekar en elska. Mögulega höfum við enn ekki myndað raunveruleg tengsl við hann.

Þegar við leitumst við að auka við trú okkar, gætum við orðið ráðvillt vegna orða Jakobs. Hann minnti okkur á að „trúin er ónýt án verkanna.“8 Okkur gæti skrikað fótur ef við höldum að allt byggist á okkur. Ef við erum of háð okkur sjálfum, getur það hindrað getu okkar til að tengjast kröftum himins.

Ef við, hins vegar, færumst nær sannri trú á Jesú Krist þá fer hugarfar okkar að breytast. Við gerum okkur grein fyrir því að hlýðni og trú á frelsarann gerir okkur hæf til að hafa anda hans ávallt með okkur.9 Hlýðni er ekki lengur skapraun heldur verður hún verkefni.10 Við gerum okkur grein fyrir því að hlýðni við boðorð Guðs veitir okkur traust hans. Með trausti hans, kemur aukið ljós. Þetta ljós lýsir leið okkar og leyfir okkur að sjá betur veginn sem við eigum að taka.

Það er meira. Þegar trú okkar á frelsarann eykst, sjáum við örlitla breytingu, meðal annars guðlegan skilning á sambandi okkar við Guð – staðfasta tilfærslu frá „hvað vil ég?“ í „hvað vill Guð?“ Eins og frelsarinn, viljum við framkvæma „ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“11 Við viljum vinna verk Guðs og vera verkfæri í höndum hans.12

Framþróun okkar er eilíf. Russell M. Nelson forseti hefur sagt að himneskur faðir vilji að við vitum svo mikið meira.13 Þegar við þroskumst, skiljum við betur það sem Drottinn kenndi Joseph Smith: „Því að ef þér haldið boðorð mín, munuð þér taka á móti fyllingu hans og verða dýrðlegir í mér … Fyrir því segi ég yður: Þér munuð hljóta náð á náð ofan.“14

Það er okkar ákvörðun hve hátt við förum í stiganum. Öldungur Neil L. Andersen kenndi: „Trúin er val, ekki tilviljun.“15 Við getum tekið ákvörðun um að velja það sem nauðsynlegt er til að auka trú okkar á frelsarann.

Hugleiðið áhrif þeirra ákvarðana sem teknar voru þegar Laman og Lemúel fóru niður trúarstigann á meðan Nefí kleif hærra. Er til skýrari munur á milli svars Nefís, „ég mun fara og gera“16 og athugasemdar Lamans og Lemúels, sem höfðu rétt áður séð engil, „hvernig má það vera, að Drottinn framselji okkur?”17

Vantrú kemur í veg fyrir að við getum séð kraftaverk, á sama tíma og að hugarfar trúar á frelsarann leysir krafta himins úr læðingi.

Jafnvel þegar trú okkar er veik, þá mun hönd Drottins ávallt vera útrétt.18 Fyrir mörgum árum, fékk ég það verkefni að endurskipuleggja stiku í Nígeríu. Á síðustu stundu var dagsetningunni breytt. Í stikunni var maður, sem hafði ákveðið að fara úr bænum á fyrsta degi ráðstefnunnar. Hann vildi ekki eiga það á hættu að vera kallaður sem stikuforsetinn.

Á meðan hann var í burtu lenti hann í hræðilegu slysi, en slasaðist ekki. Þetta varð til þess að hann hugleiddi hvers vegna lífi hans hefði verið þyrmt. Hann endurskoðaði ákvörðun sína. Hann iðraðist og mætti auðmjúkur á ráðstefnuna á nýrri dagsetningu. Jú, hann var kallaður til að vera nýi stikuforsetinn.

Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Einungis með því að stilla vilja okkar í takt við Guðs, getum við fundið fyllingu hamingjunnar. Allt annað og minna orsakast í minni skammti.“19

Eftir að hafa gert „allt, sem í okkar valdi stendur,“ getum við „beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs.“20 Ég sá þetta þegar ég þjónaði McCormick-fjölskyldunni sem hirðisþjónn. Mary Kay hafði verið gift í 21 ár og þjónaði trúfastlega í köllunum sínum. Ken var ekki meðlimur kirkjunnar og hafði engan áhuga á að verða það, en þar sem hann elskaði konu sína valdi hann að mæta með henni í kirkju.

Einn sunnudag fann ég hvatningu til að gefa Ken vitnisburð minn. Ég spurði hann hvort ég mætti gera það. Svar hans var einfalt en skýrt: „Nei takk.“

Ég var undrandi. Ég hafði fundið þessa hvatningu og reynt að fylgja henni. Það var freistandi að ákveða að ég hefði gert minn hlut. Eftir bæn og hugleiðslu, gat ég samt séð að þrátt fyrir að áform mín væru rétt, þá hafði ég treyst of mikið á sjálfan mig og of lítið á Drottin.

Seinna snéri ég til baka, en með annað viðhorf. Ég myndi fara, einungis sem verkfæri í höndum Drottins, með enga aðra þrá en að fylgja andanum. Með mínum trúfasta félaga, Gerald Cardon, fórum við inn á heimili McCormick-fjöldskyldunnar.

Skömmu seinna fannst mér ég hvattur til að bjóða Gerald að syngja „Ég veit minn lifir lausnarinn.“21 Hann leit á mig með spurningu í svip en með trú á minni trú, gerði hann það. Yndislegur andi fyllti herbergið. Mér fannst ég hvattur til að bjóða Mary Kay og Kristinu, dóttur þeirra, að miðla vitnisburði sínum. Þær gerðu það og andinn varð sterkari. Í raun runnu tár niður kinnar Kens eftir vitnisburð Kristinar.22

Guð hafði tekið við. Hjörtu höfðu ekki einungis orðið fyrir áhrifum, heldur þeim verið breytt að eilífu. Tuttugu og eitt ár af vantrú hreinsuðust burt með krafti heilags anda. Ken var skírður viku seinna. Ári seinna, voru Ken og Mary Kay innsigluð í húsi Drottins um tíma og alla eilífð.

Við höfðum upplifað sameiginlega hvað það þýddi að skipta okkar eigin vilja út fyrir vilja Drottins og trú okkar á hann hafði aukist.

Hugleiðið vinsamlega eftirfarandi spurningar sem spámenn Guðs hafa sett fram, er þið vinnið að því að klífa trúarstiga ykkar.

Hef ég afklæðst hrokanum?23

Gef ég rúm í hjarta mínu fyrir orð Guðs?24

Leyfi ég þrengingum mínum að vera helgaðar mér til góðs?25

Er ég fús til að láta vilja minn innbyrðast í vilja föðurins?26

Hefur mig langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, finn ég slíkt nú?27

Leyfi ég Guði að ríkja í lífi mínu?28

Ef núverandi braut ykkar er í andstöðu við trú ykkar á frelsarann, finnið þá vinsamlega leiðina til baka til hans. Upphafning ykkar og afkomenda ykkar byggir á því.

Megum við gróðursetja trúarfræjum djúpt í hjörtum okkar. Megum við næra þessi fræ, er við bindum okkur frelsaranum með því að heiðra þá sáttmála sem við höfum gert við hann. Í nafni Jesú Krists, amen.