Aðalráðstefna
Hughraustur lærisveinn á síðari dögum
Aðalráðstefna apríl 2022


Hughraustur lærisveinn á síðari dögum

Við skulum vera sjálfsörugg, ekki afsakandi, hugrökk, ekki huglaus, trúföst, ekki óttaslegin er við höldum uppi ljósi Drottins á þessum síðustu dögum.

Siðferðislegt sjálfræði er gjöf Guðs til allra barna sinna.1 Okkur er „frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna, eða velja helsi og dauða í samræmi við ánauð og vald djöfulsins.“2 Guð mun ekki þvinga okkur til að gera gott og djöfullinn getur ekki þvingað okkur til að gera illt.3 Þótt sumir haldi að jarðlífið sé keppni á milli Guðs og andstæðingsins, þá þarf bara orð frá frelsaranum „og Satan þagnar og er útlægur. … Það er styrkur [okkar] sem reynt er á – ekki Guðs.“4

Að endingu munum við því uppskera samkvæmt okkar ævilanga vali sem við höfum sáð.5 Hvað segir heildarútkoma hugsana okkar, langana, orða og verka um elsku okkar til frelsarans, útvaldra þjóna hans og hinnar endurreistu kirkju hans? Eru skírnar-, prestdæmis- og musterissáttmálar okkar mikilvægari en lof heimsins eða fjöldi „læka“ á samfélagsmiðlum? Er kærleikur okkar til Drottins og boðorða hans sterkari en kærleikur okkar til nokkurs eða einhvers í þessu lífi?

Andstæðingurinn og fylgjendur hans hafa alltaf reynt að eyða verkum Krists og spámanna hans. Boðorð frelsarans eru, ef ekki algjörlega hunsuð, oft rökrædd og sögð tilgangslaus af mörgum í heimi okkar tíma. Sendiboðum Guðs, sem kenna „óþægilegan“ sannleika, er oft vísað frá. Jafnvel sjálfur frelsarinn var sagður „mathákur og vínsvelgur,“6 sakaður um að trufla afstöðu almennings og valda sundurlyndi. Veiklundaðir og undirförlir menn „tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum“7 og „[flokki]“ hinna fyrri kristnu var „alls staðar mótmælt.“8

Frelsarinn og fyrstu fylgjendur hans tókust á við alvarlega innri og ytri andstöðu og við upplifum það sama. Í dag er næstum ómögulegt að lifa trú okkar af hugrekki, án þess að vekja stundum upp einhverja háðsfingur hinna veraldlegu, raunverulega og sýndarlega. Það er gefandi að fylgja frelsaranum af sjálfstrausti, en stundum getum við lent í samstuði við þá sem tala fyrir heimspekina „etið, drekkið og verið kát,“9 þar sem trú á Krist, hlýðni og iðrun er varpað fyrir róða með blekkingu um að Guð muni réttlæta smávægilega synd, því hann elski okkur svo mikið.

Sagði frelsarinn ekki um okkar tíma „með [sinni] eigin rödd eða með rödd þjóna [sinna]“10 að sá tími „mun að bera er menn þola ekki hina heilnæmu kenningu heldur hópa að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það sem kitlar eyrun“ og að margir „munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að kynjasögum“?11 Harmaði hann ekki að „til einskis dýrka þeir mig því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið“?12 Aðvaraði hann ekki að „úr hópi sjálfra ykkar [myndu] koma menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér“?13 Sá hann ekki fyrir að „[illt yrði kallað] gott og hið góða illt“14 og að „heimamenn manns verða óvinir hans“?15

Hvað þá með okkur? Ættum við að óttast eða finna til ógnar? Ættum við að lifa eftir trúarbrögðum okkar af þröngsýni? Vissulega ekki! Með trú á Krist þurfum við ekki að óttast ámæli manna eða óttast formælingar þeirra.16 Með frelsarann við stjórnvölinn og lifandi spámenn til að leiða okkur, „hver er þá á móti okkur?“17 Við skulum vera sjálfsörugg, ekki afsakandi, hugrökk, ekki huglaus, trú, ekki hrædd er við höldum uppi ljósi Drottins á þessum síðustu dögum.18

Frelsarinn gerði ljóst: „Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. … En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“19

Þótt sumir kjósi fremur Guð sem er án boðorða, þá skulum við af þeim sökum vitna ákveðin með orðum öldungs D. Todds Christofferson um að Guð „sem engar kröfur gerir, er jafngildi Guðs sem á sér ekki tilveru. “20

Þótt sumir kjósi fremur að vera vandlátir á boðorðin sem þeir lifa eftir, þá skulum við af gleði taka á móti því boði frelsarans að „lifa eftir sérhverju orði, sem fram gengur af Guðs munni.“21

Þótt margir trúi að Drottinn og kirkja hans fyrirgefi „hvað eina sem hjarta [þeirra] þráir,“22 skulum við djarflega lýsa yfir að rangt sé að „fylgja fjöldanum til illra verka,“23 því „mannfjöldi getur ekki gert það rétt sem Guð hefur lýst rangt.“24

„Ó, minnstu þess og haf það hugfast … hve ströng [en þó frelsandi] boðorð Guðs eru.“25 Stundum er litið á það sem umburðarleysi að kenna þau af skýrleika. Við skulum því sýna af virðingu að ekki er aðeins mögulegt, heldur nauðsynlegt að elska barn Guðs sem aðhyllist aðrar skoðanir en okkar eigin.

Við getum meðtekið og virt aðra, án þess að styðja trú þeirra eða gjörðir sem eru ekki í samræmi við vilja Drottins. Engin þörf á því að fórna sannleikanum á altari velvildar og félagslegrar eftirsóknar.

Síon og Babýlon eru ósamrýmanlegar. „Enginn getur þjónað tveimur herrum.“26 Höfum öll þessa vekjandi spurningu frelsarans í huga: „Hví kallið þig mig herra, herra, og gerið ekki það, sem ég segi?“27

Við skulum sýna elsku okkar til Drottins með heilshugar, sjálfviljugri hlýðni.

Ef ykkur finnst þið vera lent á milli lærisveinsins í ykkur og heimsins, hafið þá í huga að okkar kærleiksríki frelsari „býður … [arm] miskunnarinnar [útréttan til ykkar], og hann segir: Iðrist, og ég mun taka á móti yður.“28

Russell M. Nelson forseti kenndi að „Jesús Kristur, mun koma til leiðar einhverju sínu máttugasta verki frá þessum tíma fram að endurkomu sinni.“29 Hann kenndi líka að „þeir sem velja veg Drottins, munu líklega standast ofsóknir.“30 Að vera „[virt] þess að þola háðung vegna nafns Jesú,“31 getur stundum fallið okkur í skaut, er við „látum rödd hans vera í fyrirrúmi allra annarra.“32

„Sæll er sá,“ sagði frelsarinn, „sem hneykslast ekki á mér.“33 Á öðrum stað lærum við að „gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.“34 Engri! Við skulum því spyrja okkur sjálf: „Stenst ég um hríð, en læt við og við hneykslast þegar þrenging eða ofsókn verður vegna orðsins?35 Byggi ég staðfastlega á bjargi Jesú Krists og þjóna hans?“

Siðferðisafstæðissinnar halda því fram að sannleikurinn sé aðeins félagsleg samsetning, að það séu engin siðferðisleg algildi. Það sem þeir eru raunverulega að segja er að það sé engin synd,36 að „hvaðeina sem maður [gerir] er ekki glæpur,“37 sem er heimspeki sem andstæðingurinn eignar sér hreykinn! Við skulum því varast úlfa í sauðagæru sem eru alltaf að safna nýliðum og „hylja oft [eigin] atferlisvanda með vitsmunalegum fyrirvörum.“38

Ef við viljum virkilega vera hugrakkir lærisveinar Krists, munum við finna leið til þess. Að öðrum kosti býður andstæðingurinn upp á lokkandi valkosti. Sem trúir lærisveinar „þurfum við ekki að biðjast afsökunar á trú okkar eða hverfa frá því sem við vitum að er satt.“39

Að lokum nokkur orð um þá fimmtán þjóna Guðs sem sitja fyrir aftan mig. Þegar hinir veraldlegu „segja við sjáendurna: ‚Sjáið ekki sýnir,‘ og við spámennina: ‚Sjáið ekki það sem satt er,‘“40 þá eru hinir trúföstu „krýndir blessunum að ofan, já, fyrirmælum ófáum, og opinberunum á sínum tíma.“41

Það er ekki að undra að slíkir menn verði þeim leiðarvísir sem eru óánægðir með orð Guðs, eins og spámennirnir boða það. Þeir sem hafna spámönnunum gera sér ekki grein fyrir að „enginn þýðir neinn spádóm ritningarinnar af sjálfum sér“ eða að vilja manns, „heldur [tala helgir menn nú] orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“42

Líkt og Páll, þá „fyrirverða [þessir Guðs menn sig] ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin,“ en eru „[bandingjar]“ hans43 á þann hátt að kenningin sem þeir kenna er ekki þeirra, heldur þess sem kallaði þá. Líkt og Pétur, þá „[gátu þeir] ekki annað en talað það sem [þeir höfðu] séð og heyrt.“44 Ég ber vitni um að Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin er skipuð góðum og heiðarlegum mönnum sem elska Guð og börn hans og eru elskaðir af honum. Orðum þeirra ættum við að taka á móti, sem kæmu þau af munni Drottins, „með fullkominni þolinmæði og trú. … Því að gjörið þér það, munu hlið heljar eigi á [okkur] sigrast … og Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá [okkur].“45

„Engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás þessa verks“;46 því mun sigrihrósandi miða áfram, með eða án ykkar eða mín, svo „ kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna.“47 Ekki láta blekkjast eða hræðast af háværum andstæðingshljóðum sem koma frá hinni miklu og rúmgóðu byggingu. Örvæntingarfullur hljóðstyrkur þeirra jafnast ekki á við kyrrlát áhrif hinnar kyrrlátu, lágværu raddar á sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda.

Ég ber vitni um að Kristur lifir, að hann er frelsari okkar og lausnari og að hann leiðir kirkjuna sína með Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni og tryggir þannig að við „[berumst ekki] fram og aftur af hverjum kenningarvindi.“48

„Sannir lærisveinar Jesú Krists,“ kenndi Nelson forseti, „eru fúsir til að standa upp úr, mæla fram og vera öðruvísi en veraldlegt fólk. Þeir eru óhræddir, hollir og hughraustir.“49

Bræður og systur, þetta er góður dagur til að vera góður! Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.