Aðalráðstefna
Fullur lotningar yfir Kristi og fagnaðarerindi hans
Aðalráðstefna apríl 2022


Fullur lotningar yfir Kristi og fagnaðarerindi hans

Megi minningin um það sem augu okkar hafa séð og hjörtu okkar skynjað, auka lotningu okkar gagnvart friðþægingarfórn freslarans.

Ég á kæran vin, bráðgáfaðan háskólaprófessor sem er kominn á eftirlaun, afkastamikinn ritöfund og framar öllu, staðfastan lærisveinn Jesú Krists. Hann hefur oft heimsótt Landið helga til að taka þátt í ráðstefnum, stunda vísindarannsóknir og leiða hópa. Samkvæmt honum, þá undrast hann í hvert skipti sem hann heimsækir landið þar sem Jesús gekk, því hann lærir vafalaust eitthvað nýtt, undravert og heillandi um frelsarann, jarðneska þjónustu hans og ástkært móðurland hans. Sú lotning sem vinur minn sýnir þegar hann talar um allt það sem hann lærir í Landinu helga er smitand og þessi undrun hefur verið grundvöllurinn að hinum miklu afrekum hans og námsárangri.

Þegar ég hef hlustað á reynslusögur hans og upplifað ákafa hans, hef ég hugleitt hversu mikið meira andlegt undur, ef svo mætti segja, við gætum og ættum að upplifa gagnvart fagnaðarerindi Jesú Krists og hverju það getur breytt fyrir lærisveinshlutverk okkar og ferð okkar í áttinni að eilífu lífi. Þetta undur sem ég tala um, er upplifun tilfinninga, lotningar og furðu sem allir eiga sameiginlega sem gera frelsarann og kenningar hans að miðpunkti lífsins og viðurkenna auðmjúklega nærveru hans í lífi sínu. Slík tilfinning dásemdar, innblásin af áhrifum heilags anda, eykur áhugann á að lifa kenningu Krists af gleði. 1

Ritningin geymir nokkur dæmi um það hvernig þessi tilfinning er staðfest. Spámaðurinn Jesaja tjáir til dæmis dýpt þakklætis síns fyrir Drottin með því að fagna í honum.2 Þeir sem heyrðu Jesú kenna í samkunduhúsinu í Kapernaum, undruðust kenningu hans og þann styrk sem hann kenndi með.3 Það var sama tilfinning sem smaug inn í hjartarætur Josephs Smith er hann las í Biblíunni, í fyrsta kapítula Jakobsbréfs, sem leiddu hann til að leita vísdóms Guðs.4

Bræður mínir og systur, þegar við berum meiri lotningu fyrir Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans, erum við hamingjusamari, áhugasamari um verk Guðs og berum kennsl á hönd Drottins í öllum hlutum. Að auki er nám okkar á orðum Guðs þýðingameira, meiri tilgangur með bænum okkar, lotning í tilbeiðslu okkar og við ötulli í þjónustu okkar í ríki Guðs. Allt þetta stuðlar að því að áhrif heilags anda verði reglulegri í lífi okkar5 Þar af leiðandi styrkist vitnisburður okkar um frelsarann og fagnaðarerindi hans, við höfum Krist lifandi í okkur,6 og við munum lifa lífi okkar „rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, … og auðug að þakklátsemi.“7 Þegar við lifum á þennan máta, verðum við sterkari andlega og erum vernduð gegn því að falla í gildru andlegs andvaraleysis.

Slíkt andvaraleysi einkennist af stöðugt minni áhuga á því að vinna verk fagnaðarerindis Drottins af fullum krafti. Það hefst oftast þegar okkur finnst að við höfum þegar meðtekið alla þá nauðsynlegu þekkingu og blessanir til að öðlast hamingju í þessu lífi. Þetta andvaraleysi, ef svo mætti segja, veldur því að við tökum gjafir fagnaðarerindisins sem sjálfsögðum hlut og eftir það eigum við á hættu að hunsa bæði reglulega tilbeiðslu okkar í fagnaðarerindi Jesú Krists8 og þá sáttmála sem við höfum gert. Þar af leiðandi munum við smám saman fjarlægjast Drottin, veikjast í getu okkar til að „[hlýða] á hann,“9 verða áhugalaus og ónæm fyrir mikilleika verks hans. Efi varðandi þann sannleika sem við höfum þegar hlotið kann að smjúga í huga okkar og hjarta og gerir okkur berskjölduð fyrir freistingum óvinarins.10

Séra Aiden Wilson Tozer, þekktur höfundur og frækinn fylgjandi Krists, skrifaði: „Andvaraleysi er hættulegur fjandmaður andlegs vaxtar.“11 Var þetta ekki nákvæmlega það sem gerðist fyrir Nefítana, stuttu eftir fæðingu Krists? „Tákn og undur frá himni fóru að vekja stöðugt minni furðu þess, svo að hjörtu þess tóku að forherðast,“ … „og það tók að efast um allt, sem það hafði heyrt og séð.“ Þannig tókst Satan að „[blinda] augu þess og fékk það til að trúa því, að kenning Krists væri heimskuleg og einskis verð.“12

Ástkæru bræður mínir og systur, frelsarinn hefur fyrirbúið leið fyrir okkur í sinni fullkomnu og altæku elsku og þekkingu á mannlegu eðli,13 til að forða okkur frá því að falla í gildru andlegs andvaraleysis. Boð frelsarans veitir okkur víðara sjónarhorn, sérstaklega í þessum flókna heimi sem við búum í: „Lær af mér og hlusta á orð mín. Gakk í hógværð anda míns og þú munt eiga frið í mér.“14 Þegar við þiggjum boð frelsarans, sýnum við auðmýkt okkar, þrá okkar til að vera námfús og von um að verða líkari honum.15 Þetta boð felur einnig í sér að þjóna honum og veita börnum Guðs hirðisþjónustu „af öllu hjarta [okkar] mætti, huga og styrk,“16 Kjarni viðfangsefnis okkar í þessari ferð er að sjálfsögðu æðstu boðorðin tvö: að elska Drottinn Guð okkar og náungann eins og okkur sjálf.17

Þess konar hegðun er hluti af guðlegu eðli Jesú og var greinilegt í öllu sem hann tók sér fyrir hendur í jarðneskri þjónustu sinni.18 Þegar við því sannlega einsetjum okkur að helga okkur því að horfa til hans og læra af fullkomnu fordæmi hans,19 lærum við að þekkja hann betur. Við verðum áhugasamari og þráum heitar að tileinka okkur æðstu staðlana um hvernig okkur ber að lifa, hvaða fordæmi okkur ber að setja og hvaða boðorðum að hlýða. Við öðlumst einnig aukinn skilning, visku, guðlega eiginleika og náð gagnvart Guði og náunga okkar.20 Ég fullvissa ykkur um að geta okkar til að skynja áhrif og elsku frelsarans mun aukast í lífi okkar, styrkja trú okkar, auka þrá okkar til að framkvæma í réttlæti og hvatninguna til að þjóna honum og öðrum.21 Að auki mun þakklæti okkar fyrir þær blessanir og áskoranir sem við upplifum verða stöðugra og hluti af hinni sönnu tilbeiðslu okkar.22

Kæru vinir mínir, allt þetta styrkir okkar andlegu hrifningu á fagnaðarerindinu og hvetur okkur til að halda sáttmálana sem við gerum við Drottin af gleði – jafnvel mitt í hringiðu þeirra erfileika og áskorana sem við upplifum. Að sjálfsögðu verðum við að tileinka okkur kenningar frelsarans af trú og heilum hug, ef þetta á að verða svo,23 og vinna að því að innleiða eiginleika hans í tilveru okkar.24 Að auki verðum við að koma nær honum í gegnum iðrun okkar,25 og leita fyrirgefningar hans og endurleysandi kraftar í lífi okkar og halda boðorð hans. Drottinn lofaði því sjálfur að hann myndi gera leiðir okkar greiðar, ef við myndum treysta á hann af öllu hjarta, viðurkenna hann í öllu lífi okkar og reiða okkur ekki á eigið hyggjuvit.26

Ljósmynd
Öldungur Jones með Wes

Maður sem ég hitti nýlega, Wes að nafni og er hér á ráðstefnunni í dag, tók á móti boði Krists um að læra um hann og fagnaðarerindi hans og tók að upplifa undur elsku hans eftir að hafa haldið sér fjarri sáttmálsveginum í 27 ár. Hann sagði mér að dag einn hefði trúboði haft samband við hann á Facebook, öldungur Jones, sem var tímabundið á svæði Wes, áður en hann færi í hið upphaflega úthlutaða trúboð sitt í Panama. Þegar öldungur Jones rakst á síðu Wes, ekki vitandi fyrirfram að hann væri þegar meðlimur kirkjunnar, fann hann fyrir leiðsögn heilags anda og vissi að hann ætti samstundis að hafa samband við Wes. Hann flýtti sér að fylgja þeirri hvatningu. Wes var undrandi yfir þessum skilaboðum og gerði sér grein fyrir því að Drottinn væri meðvitaður um hann þrátt fyrir fjarlægð hans frá sáttmálsveginum.

Upp úr því fóru Wes og trúboðarnir að tala reglulega saman. Öldungur Jones og félagi hans veittu honum þjónustuverk vikulega og sendu andleg skilaboð sem hjálpuðu Wes að endurvekja hrifningu sína á frelsaranum og fagnaðarerindi hans. Það tendraði aftur vitnisburð hans um sannleikann og elsku frelsarans til hans. Wes fann þann frið sem kemur frá huggaranum og öðlaðist þann styrk sem hann þurfti til að snúa aftur í hjörðina. Hann sagði mér að þessi reynsla hefði endurlífgað hann andlega og tilfinningalega og hjálpaði honum að láta af biturð sem hafði grafið um sig yfir árin vegna erfiðrar reynslu sem hann hafði átt.

Eins og hinn hugulsami vinur minn, prófessorinn sem ég minntist á áður, hefur sagt, þá er alltaf eitthvað dásamlegt og heillandi við það að læra um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans.27 Drottinn hefur gefið dásamleg loforð sem ná til allra, líka okkar, sem leitast við að læra um hann og heimfæra orð hans upp á líf sitt. Við Enok sagði hann: „Sjá, andi minn er yfir þér, þess vegna mun ég réttlæta öll þín orð. Og fjöllin munu hörfa undan þér og fljótin breyta farvegi sínum. Og þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér.“28 Hann sagði með þjóni sínum Benjamín konungi: „Og vegna sáttmálans, sem þér hafið gjört, skuluð þér nefnast börn Krists, synir hans og dætur hans. Því að sjá. Á þessum degi hefur hann getið yður andlega, því að þér segið, að hjörtu yðar hafi breyst fyrir trú á nafn hans. Þess vegna eruð þér af honum fædd og eruð orðin synir hans og dætur hans.“29

Þegar við því vinnum að því hörðum höndum að læra um frelsarann og fylgja fordæmi hans, þá lofa ég ykkur því, í hans nafni, að guðlegir eiginleikar hans munu ritaðir í huga okkar og hjörtu,30 að við munum verða líkari honum og að við munum ganga með honum.31

Ástkæru bræður mínir og systur, ég bið þess að við munum ávallt fyllast lotningu gagnvart Jesú Kristi og hans algeru, altæku og fullkomnu elsku. Megi minning þess sem augu okkar hafa séð og hjörtu okkar skynjað auka undrun okkar yfir friðþægingarfórn frelsarans, sem getur læknað okkur af andlegum og tilfinningarlegum sárum okkar og hjálpað okkur að koma nær honum. Megum við dásama hin miklu loforð sem faðirinn hefur í höndum sér og fyrirbúið þeim sem eru trúfastir.

„Ríkið er yðar og blessanir þess eru yðar og auðæfi eilífðarinnar eru yðar.

Og sá, sem veitir öllu viðtöku með þakklæti, mun dýrðlegur gjörður.“32

Jesús er lausnari heimsins og þetta er kirkja hans. Um þann sannleika ber ég vitni, í hinu undraverða, heilaga og upphafna nafni frelsara okkar, Jesú Krists, amen.