Aðalráðstefna
Sáttmálsvegurinn: Vegurinn til eilífs lífs
Aðalráðstefna apríl 2022


Sáttmálsvegurinn: Vegurinn til eilífs lífs

Vegurinn til fullkomnunar er sáttmálsvegurinn og Jesús Kristur er miðpunktur allra helgiathafna og sáttmála.

Valdamikill konungur þráði að sonur sinn skyldi ráða ríkjum í einu af konungsríkjum hans. Prinsinn þurfti að læra og vaxa að visku til að taka hásætið. Dag nokkurn hitti konungurinn prinsinn og sagði honum frá áætlun sinni. Þeir samþykktu að prinsinn skyldi fara til annars bæjar og öðlast reynslu. Þar myndi hann takast á við áskoranir, en njóta einnig margs góðs af því. Konungurinn sendi hann svo til bæjarins, þar sem vænst var af prinsinum að hann sannaði tryggð sína fyrir konungi og sýndi að hann væri hæfur til að meðtaka þau forréttindi og þá ábyrgð sem konungurinn hafði að geyma fyrir hann. Prinsinum var gefið frelsi til að velja hvort hann hlyti þessi forréttindi eða ekki, með hliðsjón af þrám sínum og trúfesti. Ég er viss um að þið viljið vita hvað varð um prinsinn. Sneri hann aftur til að erfa konungsríkið?

Kæru bræður og systur, hvert okkar er prins eða prinsessa. Kærleiksríkur himneskur faðir hefur sent okkur í jarðlífið til að njóta blessana líkama, sem verður ódauðlegur vegna friðþægingarinnar og upprisu Jesú Krists. Þess er vænst að við búum okkur undir að snúa aftur í návist Guðs með því að „gjöra allt, sem Drottinn Guð [okkar] býður [okkur]“ (Abraham 3:25).

Okkur til hjálpar, kom frelsarinn til að endurleysa okkur og sýna veginn aftur til Guðs. Börnum Guðs er boðið að koma til frelsarans og fullkomnast í honum. Í ritningunum finnum við boð um að koma til Drottins oftar en 90 sinnum og meira en helmingur þessara boða eru persónuleg boð frá Drottni sjálfum. Að samþykkja boð frelsarans þýðir að meðtaka af helgiathöfnum hans og halda sáttmála okkar við hann. Jesús Kristur er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6) og hann býður okkur „öllum sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín“ (2. Nefí 26:33).

Trúarnám okkar og kennsla eykur trúarumbreytingu okkar til himnesks föður og Jesú Krists og hjálpar okkur að verða líkari þeim. Þrátt fyrir að allt hafi ekki verið opinberað um það „hvenær og hvernig blessanir upphafningar [verði] veittar,“ þá erum við engu að síður fullvissuð um þær (M. Russell Ballard, „Von í Kristi,“ aðalráðstefna, apríl 2021).

Æðsti presturinn Alma, sem kenndi í Sarahemlalandi, skýrði frá afgerandi boði Jesú Krists:

„Sjá. Hann býður öllum mönnum til sín, því að armur miskunnarinnar er útréttur til þeirra, og hann segir: Iðrist, og ég mun taka á móti yður.

Já, hann segir: Komið til mín og neytið ávaxtarins af lífsins tré“ (Alma 5:33–34).

Frelsarinn sjálfur býður okkur að koma til sín og taka á okkur ok hans, svo við megum finna hvíld í hávaðasömum heimi (sjá Matteus 11:28–29). Við komum til Krists með því að „iðka trú á [hann], iðrast daglega, gera sáttmála við Guð með því að meðtaka helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar og með því að standast allt til enda með því að halda sáttmálana“ (General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 1.2.1, ChurchofJesusChrist.org). Vegurinn til fullkomnunar er sáttmálsvegurinn og Jesús Kristur er miðpunktur allra helgiathafna og sáttmála.

Benjamín konungur kenndi að vegna þeirra sáttmála sem við gerum, verðum við synir og dætur Krists, sem hefur getið okkur andlega og í hans nafni er okkur gefið frelsi, því „ekkert annað nafn er til, sem sáluhjálp veitir“ (sjá Mósía 5:7–8). Við frelsumst er við stöndumst allt til enda, með því að „[fylgja] fordæmi sonar hins lifanda Guðs“ (2. Nefí 31:16). Nefí veitti þá leiðsögn að takmarkinu væri ekki náð bara með því að komast inn á krappa og þrönga veginn; við „[verðum að] sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna“ (sjá 2. Nefí 31:19–20).

Kenning Krists hjálpar okkur að finna og halda okkur á sáttmálsveginum og fagnaðarerindið er þannig byggt upp að fyrirheitnar blessanir Drottins hljótast með helgiathöfnum og sáttmálum. Spámaður Guðs, Russell M. Nelson forseti, áminnti okkur í sjónvarpsútsendingu þann 16. janúar 2018: „Haldið ykkur á sáttmálsveginum. Skuldbinding ykkar um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og halda síðan þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda, fyrir karla, konur og börn hvarvetna. … Endapunktur þess erfiðis sem hvert okkar stefnir að er að hljóta kraft í húsi Drottins, innsiglast sem fjölskyldur, að vera trúföst sáttmálunum sem við gerðum í musterinu, sem gera okkur hæf fyrir æðstu gjöf Guðs – sem er hið eilífa líf“ („Er við sækjum áfram saman,“ Líahóna, apr. 2018).

Guð mun hvorki snúa baki við sambandi sínu við neinn sem heldur sáttmála sína af trúfesti, né halda aftur af fyrirheitnum blessunum um eilíft líf. Er við heiðrum helga sáttmála, færumst við nær frelsaranum. Öldungur David A. Bednar kenndi okkur í gær að sáttmálar fagnaðarerindisins og helgiathafnir virki eins og áttaviti sem gefur okkur aðalstefnuna til að koma til Krists og verða líkari honum.

Sáttmálar marka veginn aftur til Guðs. Helgiathöfn skírnar og viðtaka gjafar heilags anda, prestdæmisvígsla og sakramentið, leiða okkur til musteris Drottins til að meðtaka af helgiathöfnum upphafningar.

Ég vil minnast á tvo hluti sem frelsarinn lagði áherslu á, til að hjálpa okkur að halda sáttmála af trúfesti:

  1. Heilagur andi getur kennt okkur, minnt okkur á kenningar frelsarans og dvalið hjá okkur eilíflega (sjá Jóhannes 14:16, 26). Hann getur verið okkur stöðugur förunautur til að leiðbeina okkur á sáttmálsveginum. Russell M. Nelson forseti kenndi að „á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf, “ aðalráðstefna, apríl 2018).

  2. Frelsarinn innleiddi helgiathöfn sakramentisins til að við mættum hafa hann ávallt í huga og svo að andi hans sé ætíð með okkur. Skírnin opnar hliðið að eilífu lífi og sakramentið hjálpar okkur að sækja staðföst fram á sáttmálsveginum. Þegar við tökum sakramentið, er það sem vitnisburður til föðurins um að við höfum son hans ávallt í huga. Þegar við höfum hann ávallt í huga og höldum boðorð hans, munum við ætíð hafa anda hans með okkur. Til viðbótar við þetta loforð, endurnýjar Drottinn loforðið um fyrirgefningu synda, er við iðrumst synda okkar af auðmýkt.

Til að vera trúföst sáttmálum okkar, ættum við að kappkosta að láta andann búa okkur undir að meðtaka sakramentið verðug, og einnig tökum við reglulega af sakramentinu til að hafa andann ætíð hjá okkur.

Þegar dóttir okkar var fimm ára, átti hún rafhlöðudrifinn leikfangabíl og hafði gaman af því að keyra hann um húsið. Eitt kvöld kom hún til mín og sagði: „Pabbi, bíllinn ekur ekki lengur. Gætum við tekið eldsneyti úr þínum bíl og fært það yfir svo hann geti ekið aftur? Kannski þarf hann eldsneyti eins og þinn bíll til að geta ekið.“

Ég tók síðar eftir því að rafhlaðan var tóm og sagði henni því að bíllinn æki aftur eftir um klukkustund. Hún sagði, með mikilli eftirvæntingu: „Já! Við förum með hann á bensínstöðina.“ Ég tengdi rafhlöðuna einfaldlega við rafmagn til að hlaða hana og eftir eina klukkustund gat hún keyrt bílinn, með hlaðinni rafhlöðunni. Hún lærði í framhaldinu að mikilvægt væri að endurhlaða alltaf rafhlöðuna með því að tengja hana við rafmagn.

Alveg eins og dóttir okkar lærði um tengslin milli rafhlöðunnar og orkunnar sem knúði áfram leikfangabílinn hennar, getum við lært um Jesú Krist, sakramentið og andann. Við þurfum andann til að vísa veginn í gegnum jarðlífið, er við höldum trúföst sáttmála okkar, og við þurfum sakramentið til að hlaða okkar andlega mann. Endurnýjun skírnarsáttmála okkar og viðtaka sakramentisins viðheldur trúfesti við alla aðra sáttmála. Við getum verið fullviss um hamingjuríkan endi þegar við lærum og virðum boð frelsarans af kostgæfni og njótum fyrirheitinna blessana hans. Hann sagði: „Og þú skalt fara í hús bænarinnar, svo að þú getir enn betur haldið þér óflekkuðum frá heiminum, og færa sakramenti þín á helgum degi mínum“ (Kenning og sáttmálar 59:9).

Ég ber vitni um að þau sem halda sáttmála sína fá fyrirheit um „frið í þessum heimi, og eilíft líf í komanda heimi“ (Kenning og sáttmálar 59:23). Ég ber vitni um að þegar þið meðtakið reglubundið af táknum frelsarans fyrir tilstilli sakramentisins, munuð þið hafa anda hans ykkur til leiðsagnar á sáttmálsveginum og vera trúföst sáttmálum ykkar. Í nafni Jesú Krists, amen.