Aðalráðstefna
Óttast ekki, trú þú aðeins!
Aðalráðstefna apríl 2022


Óttast ekki, trú þú aðeins!

Hefjið leit ykkar að hamingju með því að taka á móti þeirri gnægð sem við höfum þegar hlotið frá gjafara allra góðra gjafa.

Ég beini orðum mínum í dag til unga fólksins í kirkjunni, sem eru allir á aldri Russells M. Nelson forseta eða yngri. Ég nota sjaldan myndefni, en ég fæ ekki staðist að deila þessu.

Ljósmynd
Bréf frá Marin Arnold

Þetta cri de coeur er frá átta ára vinkonu minni, Marin Arnold, skrifað þegar hún var sjö ára. Ég mun þýða fyrir ykkur hennar endurbættu forn-egypsku:

Kæri biskup,

Adalradstebna

var leiðinlegt hvers vegna

verðum við að

hafana? Segðu mér hvers vegna

Einlælega, Marin

Arnold.1

Marin mín, ræðan sem ég ætla að flytja, mun eflaust valda þér aftur vonbrigðum. Þegar þú svo skrifar biskupi þínum til að kvarta, þá er mikilvægt að þú segir honum að ég heiti „Kearon. Öldungur Patrick Kearon.“

Í næstum tvö ár hefur heimsfaraldur af biblíulegum toga umvafið plánetuna okkar og þó að þessi plága hafi komið í veg fyrir næstum allt félagslíf, þá kom hún augljóslega ekki í veg fyrir grimmd, ofbeldi og miskunnarlausa pólitíska árásargirni – landlæga og heimslæga. Eins og þetta væri nú ekki nóg, en við stöndum enn frammi fyrir langvarandi félagslegum og menningarlegum áskorunum, allt frá efnahagsskorti til umhverfisvanhelgunar og kynþáttamisréttis og margs annars.

Slíkur strekkingsvindur og dimmir dagar geta dregið kjark úr ungmennum meðal okkar, þeirra sem við horfum til af bjartsýni og eldmóð varðandi framtíð lífs okkar. Sagt hefur verið að „kraftur æskunnar sé sameiginlegur auður alls heimsins. Hinir … ungu … eru andlit … framtíðar okkar.“2 Börn okkar eru líka þeir treystendur sem falið er að gæta að örlögum kirkjunnar.

Skiljanlegt er að hugsjón ungmenna dvíni örlítið eins og okkar tímar eru. Dr. Laurie Santos, prófessor við Yale-háskólann, setti nýlega á laggirnar námskeið sem ber titilinn: „Sálfræði og hið góða líf.“ „Fyrsta árið sem námskeiðið var í boði, skráði sig næstum [einn fjórði hluti] [allra] háskólanema.“3 Yfir 64 milljónir manna heimsóttu þá hlaðvarpið hennar. Þegar blaðamaður einn skrifaði um þetta fyrirbæri, tiltók hann hversu sárt væri að sjá svo marga skarpa, unga nemendur – og fullorðna – „leita einhvers [af örvæntingu] sem þeir hafa týnt“ eða, sem verra er, að þrá eitthvað sem þeir hafa aldrei átt.4

Bón mín í dag til ungmenna okkar og ykkar foreldra og fullorðinna sem leiðbeinið þeim, er að þið hefjið leit ykkar að hamingju með því að taka á móti þeirri gnægð sem við höfum þegar hlotið frá gjafara allra góðra gjafa.5 Einmitt á tíma er svo margir í heiminum spyrja djúpstæðra spurninga um sálina, ættum við að svara með „hinum góðu tíðindum“6 fagnaðarerindis Jesú Krists. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem heldur á lofti hlutverki og boðskap frelsara heimsins, býður mikilvægustu leiðina bæði til að finna gott og gera gott á slíkum tímum neyðar.

Russell M. Nelson forseti hefur sagt að þessi kynslóð ungs fólks búi yfir getu til að hafa „meiri áhrif [til góðs] á heiminn en nokkur fyrri kynslóð.“7 Við, af öllu fólki, ættum að „syngja söng hinnar endurleysandi elsku,“8 en það krefst aga – „lærisveinsgöngu,“ ef svo mætti segja – af því tagi sem verndar gegn neikvæðum viðhorfum og skaðlegum venjum, sem myndu fara með okkur út af laginu, er við reynum að syngja söng eilífs hjálpræðis.

Jafnvel þótt við stæðum „sólarmegin á götunni,“9 rekumst við vissulega stundum á náungann sem er staðráðinn í að finna eitthvað svart og dapurlegt við allt. Þið þekkið kjörorð hans: „Það er alltaf dimmast rétt áður en það verður kolsvart.“ Þvílík illkynja sýn og ömurleg tilvera! Já, við gætum stundum viljað flýja þaðan sem við erum, en við ættum vissulega aldrei að hlaupa frá því sem við erum – börn hins lifandi Guðs sem elskar okkur, er alltaf fús til að fyrirgefa okkur og mun aldrei, aldrei yfirgefa okkur. Þið eruð hans dýrmætasta eign. Þið eruð barnið hans, sem hann hefur gefið spámenn og fyrirheit, andlegar gjafir og opinberanir, kraftaverk og boðskap og engla beggja vegna hulunnar.10

Hann hefur líka gefið ykkur kirkju sem styrkir fjölskyldur fyrir jarðlífið og bindur þær saman um eilífð. Hún sér okkur fyrir meira en 31.000 deildum og greinum, þar sem fólk kemur saman, syngur, fastar og biður hvert fyrir öðru og gefur fátækum af eigin fjármunum. Þar er hverjum manni gefið nafn, hann meðtalinn og honum þjónað og þar þjóna leikmenn og samferðarfólk hvert öðru sjálfviljugt í köllunum, sem geta verið allt frá skrifstofustörfum til forsjárskyldu. Ungt fullorðið fólk – sem og eldri hjón – þjónar í trúboði í þúsundatali á eigin kostnað, án þess að fá neitt um það sagt hvar það muni erfiða og ungir sem aldnir meðlimir rölta í musterin til að framkvæma nauðsynlegar helgiathafnir til að binda saman fjölskyldu mannkyns – djörf athöfn í svo sundruðum heimi, en hún lýsir því yfir að slík sundrung sé aðeins tímabundin. Þetta eru aðeins nokkrar af þeim ástæðum sem við gefum fyrir „voninni sem [við eigum].“11

Á okkar tímum eru málin auðvitað gríðarlega erfið, sem allir lærisveinar Jesú Krists standa frammi fyrir. Leiðtogar þessarar kirkju helga líf sitt því að leita leiðsagnar Drottins til að leysa þessi vandamál. Ef sum þeirra verða ekki leyst öllum til ánægju, geta þau kannski verið hluti þess kross sem Jesús sagði að við yrðum að taka upp til að fylgja honum.12 Það er einmitt vegna þess að dimmir dagar og erfið mál myndu koma, að Guð lofaði að hann myndi leiðbeina spámönnum úr skýi að degi og eldstólpa að nóttu, sjá okkur fyrir járnstöng, ljúka upp þröngu hliði að þröngum vegi og umfram allt, veita okkur mátt til að fullna skeiðið.13

Svo dveljið endilega allan veislutímann, jafnvel þótt þið séuð ekki viss um spergilkálið. Njótið ljóssins hans og ljáið málstaðnum eigið kerti.14 Þau skilja þetta rétt í Barnafélaginu: Jesús vill í raun „að [við séum] honum sólskinsbarn.“15

Þegar gyðingaleiðtoginn Jaírus bað Jesú um að lækna 12 ára dóttur sína, sem lá dauðvona heima, staldraði mannfjöldinn svo lengi umhverfis frelsarann að þjónn kom þar brátt og sagði við þennan áhyggjufulla föður: „Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur.

En er Jesús heyrði þetta sagði hann við hann: Óttast ekki, trú þú aðeins og mun hún heil verða.“16

Hún læknaðist. Það munið þið líka. „Óttast ekki, trú þú aðeins.“

Þar sem hvert ykkar í þessum áheyrendahóp er dýrmætt Guði og þessari kirkju, þá lýk ég með þessari sérstöku postullegu yfirlýsingu. Áður en þið nokkru sinni hlutuð gjöf heilags anda, höfðuð þið ljós Krists plantað í sál ykkar,17 það „[ljós], sem er í öllu, … gefur öllu líf“18 og hefur áhrif til góðs í hjörtum allra manna sem nokkru sinni hafa lifað eða munu lifa. Það ljós var gefið til að vernda og kenna ykkur. Ein af megin skilaboðum þess eru þau að lífið er dýrmætast allra gjafa, gjöf sem okkur hlýst aðeins eilíflega, með friðþægingu Drottins Jesú Krists. Sem ljós og líf heimsins,19 kom hinn eingetni sonur Guðs til að gefa okkur líf með því að sigra dauðann.

Við verðum að skuldbinda okkur þessari gjöf lífsins fyllilega og koma þeim fljótt til hjálpar sem eiga á hættu að gefast upp á þessari helgu gjöf. Leiðtogar, ráðgjafar, vinir, fjölskylda – fylgist með einkennum þunglyndis, örvæntingar eða einhverju sem bendir til sjálfsskaða. Bjóðið fram hjálp ykkar. Hlustið. Bregðist á einhvern hátt við, eftir því sem við á.

Til allra ungmenna okkar þarna úti, sem eiga í baráttu, hverjar sem áhyggjur ykkar eða erfiðleikar eru, þá er dauði af völdum sjálfsvígs augljóslega ekki svarið. Það mun ekki lina sársaukann sem þið finnið eða sem þið haldið að þið valdið. Þar sem heimurinn þarfnast svo sárlega alls þess ljóss sem mögulegt er, lágmarkið þá ekki hið eilífa ljós sem Guð gæddi sál ykkar áður en þessi heimur varð til. Talið við einhvern. Biðjið um hjálp. Eyðileggið ekki líf sem Kristur gaf líf sitt til að varðveita. Þið getið tekist á við baráttu þessa jarðneska lífs, því við munum hjálpa ykkur við það. Þið eruð sterkari en þið gerið ykkur grein fyrir. Hjálp er tiltæk frá öðrum og einkum frá Guði. Þið eruð elskuð, metin og þörf er fyrir ykkur. Við þörfnumst ykkar! „Óttast ekki, trú þú aðeins.“

Sá sem tókst á við aðstæður sem voru langtum vonlausari en þið munið nokkru sinni gera, hrópaði eitt sinn: „[Haldið] áfram [mínir kæru ungu vinir]. Hugrekki, … áfram til sigurs! Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft.“20 Við höfum svo mikið að gleðjast yfir. Við höfum hvert annað og við höfum hann. Ég bið þess að þið neitið okkur ekki um það tækifæri að hafa ykkur, í hinu helga nafni Drottins Jesú Krists, meistara okkar, amen.