Aðalráðstefna
Af öllu hjarta
Aðalráðstefna apríl 2022


Af öllu hjarta

Ef við viljum að frelsarinn lyfti okkur til himna, þá getur skuldbinding okkar við hann og fagnaðarerindi hans ekki verið léttvægt eða tilviljanakennt.

Fórn til hans

Nokkrum dögum áður en Jesús Kristur gaf líf sitt í okkar þágu, var hann í musterinu í Jerúsalem og virti fyrir sér fólk gefa í fjárhirslu musterisins. „Margir auðmenn lögðu þar mikið,“ en svo kom þar fátæk ekkja sem „lét þar tvo smápeninga.“ Upphæðin var svo lítil að hún var varla þess virði að skrá hana.

Ljósmynd
Ekkja gefur tvo smápeninga

Samt vakti þetta, að því er virtist ómerkilega framlag, athygli frelsarans. Það vakti honum í raun slíka athygli að hann „kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: ,Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna.

Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.‘“1

Með þessari einföldu athugun, kenndi frelsarinn okkur hvernig fórnir eru mældar í ríki hans – og það er nokkuð frábrugðið því hvernig við mælum yfirleitt hlutina. Fyrir Drottni var verðmæti framlagsins ekki mælt út frá áhrifunum sem það hafði á musterissjóðinn, heldur áhrifunum sem það hafði á hjarta gefandans.

Með því að lofa þessa trúföstu ekkju, gaf frelsarinn okkur mælikvarða fyrir lærisveinshlutverkið á öllum mörgulegum sviðum. Jesús kenndi að fórn okkar gæti verið stór eða lítil, en hvort heldur sem er, þá verður hún að vera færð af öllu hjarta.

Þessi regla er endurómuð í ákalli spámannsins Amalekís í Mormónsbók: „[Komið] til Krists, sem er hinn heilagi Ísraels, og [takið] við hjálpræði hans og endurlausnarkrafti. „Já, komið til hans og leggið fram sálir yðar óskiptar sem fórn til hans.“2

Hvernig er þetta þá mögulegt? Mörgum okkar virðist slíkur mælikvarði skuldbindingar af allri sálu vera utan seilingar. Við erum þegar svo önnum kafin. Hvernig getum við komið jafnvægi á hinar fjölmörgu kröfur lífsins og þrár okkar til að helga Drottni alla sál okkar?

Ef til vill er áskorunin sú að við teljum að jafnvægi þýði að deila tíma okkar jafnt á milli alls þess sem togast á. Í þessu ljósi, er skuldbinding okkar við Jesú Krist eitt af mörgu sem við verðum að huga að í þéttsetinni dagskrá okkar. Ef til vill er þó hægt að sjá þetta á annan hátt.

Jafnvægi: Líkt og að hjóla á reiðhjóli

Ég og eiginkona mín, Harriet, njótum þess að hjóla saman. Það er dásamleg leið til að hreyfa sig og jafnframt verja tíma saman. Á meðan við erum að hjóla, og ég er ekki að hökta og blása of mikið, njótum við fallega heimsins í kringum okkur og eigum jafnvel skemmtilegt samtal. Við þurfum sjaldan að huga að því að halda jafnvægi á hjólunum okkar. Við höfum hjólað svo lengi núna að við þurfum ekki einu sinni að hugsa um það – það er orðið okkur eðlislægt.

Alltaf þegar ég horfi á einhvern læra að hjóla í fyrsta sinn, þá er ég minntur á að það er ekki auðvelt að halda jafnvægi á þessum tveimur mjóu hjólum. Það tekur tíma. Það þarf æfingu. Það þarf þolinmæði. Við gætum jafnvel dottið einu sinni eða tvisvar.

Mikilvægast alls er þó að þeir sem ná að halda jafnvægi á reiðhjóli læri þessi atriði:

Horfið ekki á fætur ykkar.

Lítið fram á veginn.

Hafið augun á veginum framundan. Einblínið á ákvörðunarstað ykkar. Stígið síðan fótstigin áfram. Að halda jafnvægi, snýst allt um að hjóla áfram.

Svipaðar reglur gilda um það að finna jafnvægi í lífi okkar sem lærisveinar Jesú Krists. Hvernig þið deilið tíma ykkar og orku yfir á mörg mikilvæg verkefni, er mismunandi frá einstaklingi til einstaklings og frá einu lífstímabili til annars. Hið sameiginlega viðfangsefni okkar allra er þó að feta veg meistara okkar, Jesú Krists og snúa aftur í návist okkar kærleiksríka föður á himnum. Þetta viðfangsefni verður að vera stöðugt og ófrávíkjanlegt, hver sem við erum og hvað annað sem er að gerast í lífi okkar.3

Lyfta: Eins og að fljúga flugvél

Það getur verið þeim gagnlegt sem eru miklir hjólreiðamenn að bera saman lærisveinshlutverkið og hjólreiðar. Hafið engar áhyggjur, þið sem sem eruð það ekki. Ég hef aðra samlíkingu sem ég er viss um að allir karlar, konur og börn geta tengt við.

Lærisveinshlutverkinu, eins og flest í lífinu, mætti einnig líkja við að fljúga flugvél.

Hafið þið einhvern tíma staldrað við og hugsað um hversu ótrúlegt það er að stór farþegaþota geti í raun hafið sig upp frá jörðu og flogið? Hvað er það sem veldur því að þessar flugvélar geti svifið tignarlega um himinhvolfið, yfir höf og heimsálfur?

Svo einfaldað sé, þá flýgur flugvél aðeins þegar loft hreyfist yfir vængi hennar. Sú hreyfing skapar mismun á loftþrýstingi sem lyftir flugvélinni. Hvernig fáum við þá nægt loft til að hreyfast yfir vængina til að framkalla lyftingu? Svarið er þrýstingur framávið.

Flugvélin nær engri hæð þegar hún situr á flugbrautinni. Jafnvel á vindasömum degi lyftist flugvélin ekki nema hún keyri áfram og nægur þrýstingur sé til að vinna gegn þeim krafti sem heldur henni niðri.

Á sama hátt og skriðþunginn fram á við heldur reiðhjólinu í jafnvægi og uppréttu, þá gerir það flugvél kleift að yfirvinna þyngdaraflið og togið.

Hvað þýðir þetta fyrir okkur sem lærisveina Jesú Krists? Það þýðir að ef við viljum finna jafnvægi í lífinu og ef við viljum að frelsarinn lyfti okkur til himna, þá getur skuldbinding okkar við hann og fagnaðarerindi hans ekki verið léttvægt eða tilviljanakennt. Við verðum, líkt og ekkjan í Jerúsalem, að leggja fram sál okkar óskipta. Fórn okkar kann að vera lítil, en hún verður að koma frá hjarta okkar og sál.

Að vera lærisveinn Jesú Krists, er ekki bara eitt af mörgu sem við gerum. Frelsarinn er hinn hvetjandi kraftur að baki alls þess sem við gerum. Hann er ekki áningarstaður í ferðalagi okkar. Hann er ekki fallegur hliðarvegur eða jafnvel stórt kennileiti. Hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir [Jesú Krist].“4 Þetta er vegurinn og okkar endalegi ákvörðunarstaður.

Jafnvægi og lyfta hljótast með því að „sækja fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna.“5

Fórn og helgun

Hvað þá með þau mörgu verkefni og skyldur sem gera líf okkar svo annasamt? Að verja tíma með ástvinum, fara í skóla eða búa sig undir atvinnu, afla tekna, annast fjölskylduna, þjóna í samfélaginu – hvernig passar þetta allt saman í myndina? Frelsarinn fullvissar okkur:

„Því að himneskur faðir yðar veit, að þér þarfnist alls þessa.

En leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis hans, og allt þetta mun bætast yður að auki.“6

Það merkir þó ekki að þetta sé auðvelt.7 Það krefst bæði fórnar og helgunar.

Það gerir kröfu um að láta af sumu og auka við annað.

Fórn og helgun eru tvö himnesk lögmál sem við höfum gert sáttmála í musterinu um að hlýða. Þessi tvö lögmál eru svipuð en þó ekki eins. Að fórna, merkir að láta af einhverju í þágu þess sem er meira virði. Í fornöld fórnaði fólk Guðs frumburðum hjarða sinna til heiðurs hinum væntanlega Messíasi. Í gegnum söguna hafa trúfastir heilagir fórnað eigin þrám, þægindum og jafnvel eigin lífi fyrir frelsarann.

Við höfum öll eitthvað, stórt eða smátt, sem við þurfum að fórna til að geta fylgt Jesú Kristi algjörlega.8 Fórnir okkar sýna það sem við sannlega metum. Fórnir eru helgar og Drottinn heiðrar þær.9

Helgun er frábrugðin fórn hið minnsta á einn mikilvægan hátt. Þegar við helgum eitthvað látum við það ekki eyðast upp á altarinu. Við látum það öllu heldur verða að gagni í þjónustu Drottins. Við helgum honum það og hans heilaga tilgangi.10 Við öðlumst þær talentur sem Drottinn hefur gefið okkur og keppum að því að auka við þær, margfalt, til að verða jafnvel enn nytsamari við að byggja upp ríki Drottins.11

Afar fá okkar verða einhvern tíma beðin að fórna eigin lífi í þágu frelsarans. Okkur er þó öllum boðið að helga honum líf okkar.

Eitt verk, ein gleði, einn tilgangur

Þegar við reynum að vera hreinlíf og líta til Krists í hverri hugsun, 12 mun allt annað taka að falla í réttar skorður. Okkur finnst lífið ekki lengur vera eins og langur listi aðskildra verkefna, sem erfitt er að hafa jafnvægi á.

Með tímanum verður þetta allt að einu verki.

Einni gleði.

Einum helgum tilgangi.

Þetta er verk kærleiksríks og þjónandi Guðs. Það er að elska og þjóna börnum Guðs.13

Þegar við skoðum líf okkar og sjáum hundrað hluti sem þarf að gera, fallast okkur hendur. Þegar við sjáum eitt verk – að elska og þjóna Guði og börnum hans, á hundrað mismunandi vegu – þá getum við einblínt á það með gleði.

Þannig gefum við alla sál okkar – með því að fórna öllu sem heldur aftur af okkur og helga allt annað Drottni og tilgangi hans.

Hvatningarorð og vitnisburður

Kæru bræður og systur og vinir, ykkur mun stundum finnast þið ekki geta staðið upp og haldið áfram. Kærleiksríkur faðir ykkar á himnum þekkir hjarta ykkar. Hann veit að þið getið ekki gert allt það sem þið þráið í hjarta að gera. Þið getið þó elskað og þjónað Guði. Þið getið gert ykkar besta við að halda boðorðin. Þið getið þó elskað og þjónað börnum hans. Erfiði ykkar mun hreinsa hjarta ykkar og búa ykkur undir glæsta framtíð.

Þetta virtist ekkjan við fjárhirslu musterisins hafa skilið. Hún vissi sannlega að fórn hennar myndi ekki breyta örlögum Ísraels, en hún gæti breytt og blessað hana – því þótt lítil væri, þá var hún allt hennar.

Svo, kæru vinir mínir og ástkærir samlærisveinar Jesú Krists, „þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott,“ því við erum að „leggja grunninn að miklu verki.“ Af hinu smáa okkar mun spretta „hið stóra.“14

Ég ber vitni um að þetta er sannleikur, eins og ég ber líka vitni um að Jesús Kristur er meistari okkar, lausnari okkar og okkar eini vegur til baka til ástkærs föður okkar á himnum. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Markús 12:41–44.

  2. Omní 1:26.

  3. Börnum og ungmennum okkar er boðið að þroskast jafnt á öllum sviðum er þau fylgja Jesú Kristi, sem á unga aldri „þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum“ (Lúkas 2:52).

  4. Jóhannes 14:6.

  5. 2. Nefí 31:20.

  6. 3. Nefí 13:32–33; sjá einnig Matteus 6:32–33. Þýðing Josephs Smith, Matteus 6:38 veitir frekari skilning: „Leitið því ekki þess sem heimsins er, heldur leitist fyrst við að byggja upp ríki Guðs og koma á réttlæti hans, (í Matteus 6:33, neðanmálstilvísun a).

  7. Eitt dæmi er frá spámanni okkar, Russell M. Nelson forseta. Þegar hann var á hátindi starfsferils síns sem hjartaskurðlæknir var hann kallaður sem stikuforseti. Öldungarnir Spencer W. Kimball og LeGrand Richards veittu kallið. Þeir skildu hversu kröfumikið starfið hans var og sögðu við hann: „Ef þér finnst þú of upptekinn og ættir ekki að svara símtalinu, þá eru það forréttindi þín.“ Hann svaraði því til að sú ákvörðun hans um hvort hann ætti að þjóna þegar hann væri kallaður eða ekki, hafði verið tekin fyrir löngu, þegar hann og eiginkona hans gerðu musterissáttmála við Drottin. „Við skuldbundum okkur þá,“ sagði hann, „að ,[leita] fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis‘ [Matteus 6:33], og vorum fullsviss um að allt annað myndi bætast okkur, eins og Drottinn lofaði“ (Russell Marion Nelson, From Heart to Heart: An Autobiography [1979], 114).

  8. Nelson forseti talaði nýverið um þá „þörf sérhvers okkar að fjarlægja gamlan óþarfa úr lífi okkar, með liðsinni frelsarans. Ég býð ykkur að biðjast fyrir til að fá greint óþarfann sem þið ættuð að fjarlægja úr lífi ykkar, svo að þið getið orðið verðugri,“ („Upphafsboðskapur,“ aðalráðstefna, apríl 2021).

  9. Ritningarnar segja að Guði finnst fórnir okkar helgari en það sem við fáum áorkað (sjá Kenning og sáttmálar 117:13). Þetta gæti verið ein ástæða þess að Drottinn mat eyrir ekkjunnar meira en framlag auðmannanna. Hið fyrra var fórn sem hefur hreinsandi áhrif á gefandann. Hið síðara var ekki fórn, þótt það hefði komið meiru til leiðar fjárhagslega, og lét gefandann eftir óbreyttan.

  10. Afar fá okkar verða einhvern tíma beðin að fórna eigin lífi í þágu frelsarans. Okkur er þó öllum boðið að helga honum líf okkar.

  11. Sjá Matteus 25:14–30.

  12. Sjá Kenning og sáttmálar 6:36.

  13. Á þennan hátt sjáum við í lífi okkar spádóm Páls postula uppfyllast: „Sem hann í náð sinni ætlaði sér að framkvæma í fyllingu tímanna: Að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi“ (Efesusbréfið 1:10).

  14. Kenning og sáttmálar 64:33.