Aðalráðstefna
Trúarumbreyting að vilja Guðs
Aðalráðstefna apríl 2022


Trúarumbreyting að vilja Guðs

Persónuleg trúarumbreyting okkar felur í sér ábyrgðina að miðla heiminum fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ég er þakklátur fyrir máttuga spámannlega kvaðningu Russells M. Nelsons forseta til trúboðsþjónustu og hvetjandi trúboðsboðskap M. Russells Ballard forseta og öldungs Marcos A. Aidukaitis í dag.

Trúboðsverkefni í Stóra-Bretlandi, seint á síðasta ári, veitti mér tækifæri til að íhuga þá dýrlegu, andlegu atburði sem voru grunnurinn að ákvörðun minni um að þjóna sem trúboði.1 Þegar ég var 15 ára, var ástkær eldri bróðir minn, Joe, 20 ára – en á þeim tíma var það sá aldur sem þurfti að ná til að þjóna í trúboði. Vegna Kóreustríðsins, var fáum Bandaríkjamönnum leyft að þjóna. Aðeins var hægt að kalla einn í hverri deild á ári.2 Það kom á óvart þegar biskupinn okkar bað Joe um að skoða þennan möguleika með föður okkar. Joe hafði verið að útfylla umsóknir til að komast í læknanám. Faðir okkar, sem var ekki virkur kirkjumeðlimur, hafði gert fjárhagsráðstafanir til að styðja hann og var ekki fylgjandi því að Joe færi í trúboð. Pabbi benti á að Joe gæti komið fleiri góðum hlutum til leiðar með því að fara í læknanám. Það var mikið ósætti um þetta mál í fjölskyldunni.

Í merkilegu samtali við skynsaman og fordæmisgefandi eldri bróður minn, komumst við að þeirri niðurstöðu að ákvörðun hans um það hvort hann þjónaði í trúboði eða ekki og setti menntun sína á frest, væri háð þremur spurningum: (1) Er Jesús Kristur guðlegur? (2) Er Mormónsbók orð Guðs? og (3) Er Joseph Smith spámaður endurreisnarinnar? Ef Joe svaraði þessum spurningum játandi, væri skýrt að hann gæti komið fleiri góðum hlutum til leiðar með því að færa heiminum fagnaðarerindið, fremur en að verða læknir fyrr en ella.3

Þetta kvöld baðst ég heitt fyrir og með einbeittum huga. Andinn staðfesti óafneitanlega fyrir mér að svarið við öllum þremur spurningum væri já. Þetta var mér þýðingarmikill atburður. Ég skildi að þessi sannindi myndu hafa áhrif á sérhverja ákvörðun sem ég tæki fyrir lífstíð. Ég vissi líka að ég myndi þjóna í trúboði ef ég fengi tækifæri til þess. Eftir ævilanga þjónustu og andlegar upplifanir, hef ég öðlast skilning á því að sönn trúarumbreyting er árangur þess að samþykkja vilja Guðs af ásetningi og að við getum notið leiðsagnar heilags anda í verkum okkar.

Ég átti þegar vitnisburð um guðleika Jesú Krists, sem frelsara heimsins. Þetta kvöld hlaut ég andlegan vitnisburð um Mormónsbók4 og um spámanninn Joseph Smith.

Joseph Smith var verkfæri í höndum Guðs

Vitnisburður ykkar mun styrkjast þegar þið vitið í hjörtum ykkar, vegna bæna ykkar, að spámaðurinn Joseph Smith var verkfæri í höndum Guðs. Á síðustu átta árum hefur eitt hlutverka minna í Tólfpostulasveitinni verið að skoða og lesa alla hina merkilegu pappíra og skjöl Josephs Smith og þær rannsóknir sem leiddu til útgáfu ritverksins Heilagir.5 Vitnisburður minn og aðdáun mín á spámanninum Joseph Smith hefur styrkst gríðarlega og aukist eftir að hafa lesið um hvetjandi atburði lífs hans og forvígða spámannsþjónustu hans.

Þýðing Josephs á Mormónsbók fyrir gjöf og kraft Guðs var grundvallaratriði í endurreisninni.6 Mormónsbók er samkvæm sjálfri sér, fallega skrifuð og hefur að geyma svör við mikilvægustu spurningum lífsins. Hún er annað vitni um Jesú Krist. Ég vitna um að Joseph Smith hafi verið réttlátur, fullur trúar og verkfæri í höndum Guðs til að leiða fram Mormónsbók.

Þær opinberanir og þeir atburðir sem skráðir eru í Kenningu og sáttmála, veita lykla, helgiathafnir og sáttmála sem nauðsynleg eru fyrir sáluhjálp og upphafningu. Þær setja ekki einungis fram nauðsynlegar upplýsingar til að stofna kirkjuna, heldur veita einnig djúpstæðar kenningar sem gera okkur kleift að skilja tilgang lífsins og gefur okkur eilíft sjónarhorn.

Eitt af fjölmörgum dæmum um spámannshlutverk Josephs Smith er að finna í 76. kafla Kenningar og sáttmála. Kaflinn er afdráttarlaus skrásetning sýnar á himnum, þar á meðal dýrðarríkjanna, sem spámaðurinn Joseph og Sidney Rigdon voru blessaðir að hljóta þann 6. febrúar 1832. Í þá daga kenndi mikill meirihluti kirkna að friðþæging frelsarans myndi ekki veita flestu fólki sáluhjálp. Talið var að fáir yrðu frelsaðir og mikill meirihluti dæmdur til heljar og fordæmingar, meðal annars til óendanlegrar kvalar „af yfirþyrmandi og ólýsanlegum styrkleika.“7

Opinberunin sem 76. kafli hefur að geyma, veitir dýrlega sýn í dýrðarríkin, þar sem mikill meirihluti barna himnesks föður, sem var hugdjarfur í fortilverunni, verður ríkulega blessaður í kjölfar lokadómsins.8 Sýnin um dýrðarríkin þrjú, þar sem hið lægsta „er ofar öllum skilningi,“9 er afdráttarlaus afsönnun á hinni almennu en röngu kenningu þess tíma að meirihlutinn yrði dæmdur til heljar og fordæmingar.

Þegar við áttum okkur á að Joseph Smith var aðeins 26 ára, hafði takmarkaða menntun og litla eða enga þekkingu á hinu hefðbundna þýðingartungumáli Biblíunnar, var hann sannlega verkfæri í höndum Drottins. Í 17. versi í kafla 76, var hann innblásinn til að nota orðið óréttvís í stað orðsins [fordæming], sem var notað í Jóhannesarguðspjalli.10

Áhugavert er að 45 árum síðar var það leiðtogi í ensku biskupakirkjunni og menntaður fornmenntafræðingur,11 Frederic W. Farrar, er skrifaði The Life of Christ,12 sem hélt því fram að skilgreiningin um fordæmingu í Biblíu Jakobs konungs hafi komið til vegna mistaka í þýðingu úr hebresku og grísku yfir á ensku.13

Margir á okkar tíma hafa tekið upp þá hugmynd að engin afleiðing ætti að vera fyrir synd. Þeir styðja að láta synd skilyrðislaust óátalda án iðrunar. Opinberuð kenning okkar hrekur ekki aðeins hugmyndina um að flest fólk sé eilíflega dæmt til heljar og fordæmingar, en styður einnig að persónuleg iðrun sé forsenda þess að geta meðtekið friðþægingu frelsarans og erft himneska ríkið.14 Ég ber vitni um að Joseph Smith hafi sannlega verið verkfæri í höndum Drottins til að leiða fram endurreisn fagnaðarerindis hans!

Vegna endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists, skiljum við mikilvægi bæði iðrunar og „[réttlætisverka].“15 Við skiljum hina gríðarmiklu þýðingu friðþægingar frelsarans og frelsandi helgiathafnir og sáttmála hans, meðal annars þá sem gerðir eru í musterinu.

„[Réttlætisverkin]“ stafa af og eru ávöxtur trúarumbreytingar. Sönn trúarumbreyting er árangur þess að samþykkja vilja Guðs af ásetningi og skuldbindingu.16 Hlaðborð þeirra ávaxta og blessana sem leiða af trúarumbreytingu er sannur og varanlegur friður og persónuleg fullvissa um endanlega sælu15 – þrátt fyrir storma lífsins.

Trúarlegur viðsnúningur til frelsarans breytir hinum náttúrlega manni í helgaða, endurfædda, hreinsaða persónu – nýja sköpun í Kristi.18

Mörgum er haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna

Hverjar eru skyldurnar sem fylgja trúarumbreytingu? Í Liberty-fangelsinu skrifaði spámaðurinn Joseph að mörgum „er [aðeins] haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna.“19

Í inngangi Drottins að Kenningu og sáttmálum var sett fram yfirgripsmikil yfirlýsing um tilgang Drottins fyrir okkur. Hann sagði: „Þess vegna kallaði ég, Drottinn, sem þekki þær hörmungar er koma munu yfir íbúa jarðar, þjón minn Joseph Smith yngri og talaði til hans frá himni og gaf honum fyrirmæli.“ Hann leiðbeinir áfram: „Að hinir veiku og einföldu fái boðað fyllingu fagnaðarerindisins til endimarka heims, og frammi fyrir konungum og stjórnendum.“20 Þetta á við um fastatrúboða. Þetta á við um hvert okkar. Þetta ætti að vera í brennidepli hjá öllum sem hafa verið blessaðir með trúarumbreytingu að vilja Guðs. Frelsarinn býður okkur náðarsamlega að vera rödd hans og hendur.21 Elska frelsarans verður okkur leiðarljós. Frelsarinn kenndi lærisveinum sínum: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“22 Hann sagði við Joseph Smith: „Prédikið fagnaðarerindi mitt fyrir hverri skepnu, sem ekki hefur meðtekið það.“23

Einni viku eftir að Kirtland-musterið var vígt, þann 3. apríl 1836, sem var páskasunnudagur og einnig páskahátíð gyðinga, birtist Drottinn Joseph og Oliver Cowdery í mikilfenglegri sýn. Drottinn meðtók musterið og sagði: „Þetta er upphaf þeirra blessana, sem úthellt verður yfir fólk mitt.“24

Eftir að þessari sýn lauk, birtist Móse „og fól okkur lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum og að leiða ættkvíslirnar tíu úr landinu í norðri.“25

Russell M. Nelson forseti, okkar ástkæri spámaður í dag, sem hefur þessa sömu lykla, kenndi í morgun: „Þið piltar, hafið verið fráteknir fyrir þennan tíma, er hin fyrirheitna samansöfnun Ísraels á sér stað. Er þið þjónið í trúboði, gegnið þið mikilvægu hlutverki í þessum fordæmislausa atburði!“26

Til að fyrirmæli frelsarans um að miðla fagnaðarerindinu verði hluti af því hver við erum, þurfum við að upplifa trúarumbreytingu að vilja Guðs; við þurfum að elska náunga okkar, miðla hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og bjóða öllum að koma og sjá. Sem meðlimir kirkjunnar, þykir okkur vænt um svar spámannsins Josephs til Johns Wentworth, ritstjóra Chicago Democrat, árið 1842. Hann óskaði eftir upplýsingum um kirkjuna. Joseph lauk svari sínu með því að nota „Sannleiksstaðal“ sem inngang að Trúaratriðunum þrettán. Sannleiksstaðallinn gefur hnitmiðað til kynna hverju skuli áorkað:

„Engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás þessa verks; ofsóknir kunna að herja, múgur sameinast gegn því, herir safnast saman, óhróður breiðst út, en sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið.“27

Þetta hefur verið skýrt kall til margra kynslóða af Síðari daga heilögum, sérstaklega trúboða. Í anda „Sannleiksstaðals,“ erum við þakklátir fyrir að trúfastir trúboðar hafi miðlað fagnaðarerindinu, mitt í heimsfaraldri. Trúboðar, við elskum ykkur! Drottinn biður hvert og eitt okkar til að miðla fagnaðarerindi sínu í orði og í verki. Persónuleg trúarumbreyting okkar felur í sér ábyrgðina að miðla heiminum fagnaðarerindi Jesú Krists.

Blessanir þess að miðla fagnaðarerindinu felast meðal annars í því að við aukum trúarumbreytingu okkar að vilja Guðs og látum Guð ríkja í lífi okkar.28 Við blessum aðra, svo þeir megi upplifa að „gjörbreyting“ hafi orðið í hjörtum þeirra.29 Það felst sannlega eilíf gleði í því að hjálpa við að leiða sálir til Krists.30 Að vinna að eigin trúarumbreytingu og annarra, er hið göfuga verk.31 Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Ég þjónaði í Bretlandstrúboðinu frá 1. september 1960 til 1. september 1962.

  2. Hinir piltarnir þurftu að vera tiltækir fyrir herkvaðningu.

  3. Eftir að Joe sneri aftur úr trúboði sínu, útskrifaðist hann úr læknanámi og þjónaði sem læknir með góðum árangri. Trúboð hans bjó hann einnig undir að vera biskup, stikuforseti, svæðisfulltrúi og trúboðsforseti.

  4. Sjá Moróní 10:4. Ég hafði nú þegar lesið Mormónsbók. Vegna alvarleika þessa máls í fjölskyldu okkar, baðst ég fyrir með einbeittum huga.

  5. Sjá Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018) og bindi 2, No Unhallowed Hand, 1846–1893 (2020).

  6. Þýðingin hófst þann 7. apríl 1829 og henni lauk í kringum 1. júlí 1829. Það hefur verið athyglisvert að læra um staðreyndirnar sem tengjast þýðingunni. Ég kunni sérstaklega að meta að lesa handrit prentverksins og upprunalegt handrit Mormónsbókar, sem gefið var út sem bindi 3 og 5 í ritröðinni Opinberanir og þýðingar úr The Joseph Smith Papers. Þetta eru hvort tveggja tímamóta útgáfur.

  7. Frederic W. Farrar, Eternal Hope: Five Sermons Preached in Westminster Abbey, November and December, 1877 (1892), xxii.

  8. Sýnin hefur þá með sem ekki læra um Krist í þessu lífi, börn sem deyja áður en ábyrgðaraldri er náð og þá sem hafa engan skilning.

  9. Kenning og sáttmálar 76:89.

  10. Sjá Jóhannes 5:29.

  11. Farrar menntaði sig við King‘s College, London og við Trinity College, Cambridge. Hann var klerkur við ensku þjóðkirkjuna (biskupakirkjuna), erkidjákni við Westminster Abbey, prófastur dómkirkjunnar í Canterbury og prestur í konunglegu hirðinni.

  12. Sjá Frederic W. Farrar, The Life of Christ (1874).

  13. Sjá Farrar, Eternal Hope, xxxvi–xxxvii. Frederic Farrar fannst hann knúinn til að leiðrétta kenningar varðandi fordæmingu og hel. Hann kunngerði það sem honum fannst vera „einfaldar, tvímælalausar og óumdeilanlegar staðreyndir. … Sögnin „að fordæma“ og samstofna orð, koma ekki í eitt skipti fyrir í Gamla testamentinu. Í Nýja testamentinu á grísku er ekkert orð sem hefur slíka merkingu.“ Hann útskýrir að orðið fordæming sé „alvarleg þýðingarvilla … [sem] spillir og skyggir á raunverulega merkingu framsetningar Drottins“ (Eternal Hope, xxxvii). Farrar bendir einnig á yfirgnæfandi dæmi um kærleiksríkan föður á himnum um alla Biblíuna, sem frekari sönnur á því að skilgreiningarnar um helju og fordæmingu, sem notaðar eru í ensku þýðingunni, séu rangar (sjá Eternal Hope, xiv–xv, xxxiv, 93; sjá einnig Quentin L. Cook, „Áætlun föður okkar – nægilega stór fyrir öll börn hans,“ aðalráðstefna, apríl 2009).

  14. Tengingin milli iðrunar og friðþægingarinnar er kunngerð í Kenningu og sáttmálum 19:15–18, 20. Að auki er óendanleg refsing útskýrð í Kenningu og sáttmálum 19:10–12.

  15. Kenning og sáttmálar 59:23.

  16. Sjá Mósía 27:25; Kenningu og sáttmála 112:13; sjá einnig Dale E. Miller, „Færa sálum okkar frið og lækningu,“ aðalráðstefna, október 2004.

  17. Sjá Mósía 2:41.

  18. Sjá Dallin H. Oaks, „The Challenge to Become,“ Ensign, nóv. 2000, 33; Liahona, jan. 2001, 41; sjá einnig 2. Korintubréf 5:17; Bible Dictionary, „Conversion.“

  19. Kenning og sáttmálar 123:12.

  20. Kenning og sáttmálar 1:17, 23.

  21. Ef þetta er þrá okkar, erum við „[kölluð] til verksins“ (Kenning og sáttmálar 4:3; sjá einnig Thomas S. Monson, „Kölluð til verksins,“ Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júní 2017).

  22. Matteus 28:19.

  23. Kenning og sáttmálar 112:28.

  24. Kenning og sáttmálar 110:10.

  25. Kenning og sáttmálar 110:11.

  26. Sjá Russell M. Nelson, „Prédika fagnaðarboðskap friðarins,“ aðalráðstefna, apríl 2022; sjá einnig Russell M. Nelson, „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  27. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 441.

  28. Sjá Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020.

  29. Alma 5:14.

  30. Sjá Kenningu og sáttmála 18:15; sjá einnig Jakobsbréfið 5:19–20.

  31. Sjá Alma 26:22; Kenningu og sáttmála 18:13–16; sjá einnig Bible Dictionary, „Conversion.“