Aðalráðstefna
„Þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra“
Aðalráðstefna apríl 2022


„Þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra“

Þegar við sýnum auðmýkt og iðkum trú á Jesú Krist, gerir náð Krists og altæk friðþægingarfórn hans okkur kleift að breytast.

Thomas S. Monson forseti sagði eitt sinn sögu um fangavörðinn Clinton Duffy. „Á fjórða og fimmta áratugnum var [Duffy yfirfangavörður] vel þekktur fyrir þá viðleitni sína að endurhæfa mennina í fangelsi hans. Einn gagnrýnandi sagði: ,Þú ættir að vita að hlébarðar skipta ekki um bletti!‘

Duffy varðstjóri svaraði: ,Þú ættir að vita að ég vinn ekki með hlébarða. Ég vinn með körlum og karlar breytast á hverjum degi.‘“1

Ein mesta lygi Satans er að karlar og konur geti ekki breyst. Þessi ósannindi eru sögð og endursögð á marga mismunandi vegu, þar sem heimurinn segir að við getum einfaldlega ekki breyst – eða, það sem verra er, að við ættum ekki að breytast. Okkur er kennt að aðstæður okkar skilgreini okkur. Við ættum að „meðtaka hver við raunverulega erum,“ segir heimurinn, „og vera sönn okkar raunverulega eðli.“

Við getum breyst

Þótt sannarlega sé gott að vera ósvikin, þá ættum við að vera sönn okkar raunverulega sanna eðli, sem synir og dætur Guðs með guðlegt eðli og örlög til að verða eins og hann er.2 Ef markmið okkar er að vera sönn þessu guðlega eðli og örlögum, þá þurfum við öll að breytast. Andlega orðið yfir breytingu er iðrun. „Of margir,“ segir Russell M. Nelson forseti, „líta á iðrun sem refsingu – eitthvað sem forðast á, nema við alvarlegustu aðstæður. … Þegar Jesús biður þig og mig að ,iðrast,‘ er hann að bjóða okkur að breytast.“3

Skilyrði Guðs

Framleiðendur tölvuhugbúnaðar nota skilyrtar fullyrðingar til að segja tölvum hvað þeim ber að gera. Þetta eru stundum nefndar ef-þá fullyrðingar. Eins og ef x er satt, gerðu þá y.

Drottinn vinnur líka með því að nota skilyrði: skilyrði trúar, skilyrði réttlætis, skilyrði iðrunar. Dæmin eru mörg um skilyrtar fullyrðingar frá Guði, eins og:

Ef þú heldur boðorð mín og stendur stöðugur allt til enda, [þá] skalt þú öðlast eilíft líf, en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs.“4

Eða: „Ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, [þá] mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda.“5

Jafnvel elska Guðs er líka bundin skilyrðum, þótt hún sé óendanleg og fullkomin.6 Dæmi:

Ef þér haldið boðorð mín, [þá] verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“7

Öldungur D. Todd Christofferson útskýrði enn frekar þennan sannleika fagnaðarerindisins, er hann kenndi: „Sumum er tamt að segja: ,Frelsarinn elskar mig eins og ég er,‘ og það er vissulega rétt. Hann getur þó ekki tekið nokkurt okkar í ríki sitt eins og við erum, ‚því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans‘ [HDP Móse 6:57]. … Fyrst er nauðsynlegt að greiða úr syndum okkar.“8

Hið veika getur orðið að styrk

Sú blessun að hljóta mátt Guðs okkur til hjálpar við að breytast er líka skilyrt. Frelsarinn, sem talaði fyrir munn spámannsins Moróní í Mormónsbók, kenndi: „Og komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir. Og náð mín nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir mér. Því að ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga trú á mig, þá mun ég láta veikleika verða styrk þeirra.“9

Þegar við skoðum betur það sem Drottinn er að kenna okkur hér, þá segir hann fyrst að hann gefi körlum og konum veikleika, í eintölu, sem er hluti af jarðneskri reynslu okkar sem fallnar eða holdlegar verur. Við höfum orðið náttúrleg sem karlar og konur, vegna falls Adams. Með friðþægingu Jesú Krists getum við þó sigrast á veikleika okkar eða föllnu eðli.

Hann segir síðan að náð hans nægi og ef við auðmýkjum okkur og trúum á hann, þá mun hann „láta [veikleika] [fleirtala] verða styrk [okkar].“ Með öðrum orðum, þegar við breytum fyrst föllnu eðli okkar, veikleika okkar, þá munum við geta breytt hegðun okkar, veikleikum okkar.

Kröfur þess að breytast

Við skulum fara yfir kröfur þess að breytast samkvæmt forskrift Drottins:

Í fyrsta lagi þurfum við að auðmýkja okkur sjálf. Skilyrði Drottins fyrir breytingu er auðmýkt. „Ef þeir auðmýkja sig fyrir mér,“10 sagði hann. Andstæða auðmýktar er dramb. Dramb verður til þegar við teljum okkur vita betur – þegar það sem okkur finnst er sett ofar því sem Guði finnst.

Benjamín konungur kenndi: „Hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs … og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann … losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og verði sem barn, undirgefinn, hógvær [og] auðmjúkur.“11

Til þess að breytast, þurfum við að afklæðast hinum náttúrlega manni og verða auðmjúk og undirgefin. Við verðum að vera nógu auðmjúk til að fylgja lifandi spámanni. Nógu auðmjúk til að gera og halda musterissáttmála. Nógu auðmjúk til að iðrast daglega. Við verðum að vera nægilega auðmjúk til að vilja breytast, „með því að gefa hjörtu [okkar] Guði.“12

Í öðru lagi verðum við að hafa trú á Jesú Krist. Aftur, orð frelsarans: „Ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga trú á mig,“13 mun hann gefa þeim kraft til að sigrast á veikleikum sínum. Auðmýkt, ásamt trú á Jesú Krist, mun gera okkur mögulegt að fá aðgang að styrkjandi mætti náðar hans og fyllingu blessana sem bjóðast vegna friðþægingar hans.

Nelson forseti kenndi: „Sönn iðrun hefst með trú á að Jesús Kristur hafi mátt til að hreinsa, lækna og styrkja okkur. … Það er trú okkar sem virkjar mátt Guðs í lífi okkar.“14

Í þriðja lagi getur hann með náð sinni látið hið veika verða að styrk. Ef við auðmýkjum okkur og höfum trú á Jesú Krist, þá mun náð hans gera okkur kleift að breytast. Með öðrum orðum, þá hann mun styrkja okkur til að breytast. Þetta er mögulegt, því eins og hann segir: „Náð mín nægir öllum mönnum.“15 Styrkjandi, virkjandi náð hans gefur okkur kraft til að sigrast á öllum hindrunum, öllum áskorunum og öllum veikleikum, er við leitumst við að breytast.

Stærstu veikleikar okkar geta orðið okkar stærstu styrkleikar. Við getum breyst og „[orðið] ný sköpun.“16 Hið veika getur í raun „[orðið að styrk okkar].“17

Frelsarinn framkvæmdi sína altæku og eilífu friðþægingu á þann hátt að við gætum í raun breyst, iðrast og orðið betri. Við getum í raun fæðst aftur. Við getum sigrast á venjum, fíkn og jafnvel „[tilhneigingu] til illra verka.“18 Sem synir og dætur kærleiksríks föður á himnum, höfum við kraftinn hið innra til að breytast.

Dæmi um breytingu

Ritningarnar eru fullar af dæmum um karla og konur sem breyttust.

Sál, farísei og virkur ofsækjandi hinnar kristnu frumkirkju,19 varð Páll, postuli Drottins Jesú Krists.

Alma var prestur í hirð hins rangláta Nóa konungs. Hann heyrði orð Abinadís, iðraðist fyllilega og varð einn af hinum miklu trúboðum Mormónsbókar.

Sonur hans Alma varði ungdómsárum sínum í að eyðileggja kirkjuna. Hann var í hópi „svívirðilegustu … syndara,“20 þar til hann upplifði hjartans breytingu, varð öflugur trúboði, að eigin rétti.

Móse var ættleiddur í fjölskyldu faraós og alinn upp í vellystingum sem egypskur prins. Þegar hann svo komst að því hver hann í raun var og uppgötvaði guðleg örlög sín, breyttist hann og varð hinn mikli löggjafarspámaður Gamla testamentisins.21

Ég hef alltaf hrifist af afa eiginkonu minnar, James B. Keysor, og máttugri breytingu hjarta hans.22 Hann fæddist trúföstum Síðari daga heilögum brautryðjendum í Salt Lake-dalnum árið 1906 og missti móður sína ungur að árum og átti erfiða æsku. Hann var fjarri kirkjunni á unglingsárum og yngri fullorðinsárum og tileinkaði sér á þeim tíma ýmsar slæmar venjur. Engu að síður kynntist hann og kvæntist trúfastri konu og saman ólu þau upp fimm börn.

Árið 1943, eftir erfið ár kreppunnar miklu og seinni heimsstyrjaldarinnar, fór Bud, eins og hann var kallaður af vinum og vandamönnum, frá Utah og flutti til Los Angeles í Kaliforníu til að leita sér að vinnu. Á þessum tíma að heiman, bjó hann hjá systur sinni og eiginmanni hennar, sem þjónaði sem biskup deildar þeirra.

Með ást og áhrifum systur sinnar og mágs, tók áhugi hans á kirkjunni að glaðna og hann byrjaði að lesa Mormónsbók á hverju kvöldi, áður en hann fór að sofa.

Kvöld eitt, þegar hann las í 34. kapítula í Alma, varð hjarta hans snortið við eftirfarandi orð:

„Já, ég vildi, að þið stigjuð fram og hertuð eigi hjörtu ykkar lengur. …

Því að sjá. Þetta líf er tími mannanna til að búa sig undir að mæta Guði. Já, sjá. Dagur þessa lífs er dagurinn, sem menn hafa til að leysa verk sitt af hendi.“23

Við lestur þessara versa kom sterk tilfinning yfir hann og hann vissi að hann yrði að breytast, iðrast og hann vissi hvað hann varð að gera. Hann stóð upp úr rúminu sínu, kraup niður og tók að biðjast fyrir, sárbað Drottin að fyrirgefa sér og gefa sér þann styrk sem hann þyrfti til að gera breytingar á lífi sínu. Bæn hans var svarað og upp frá þeim tíma varð honum aldrei litið til baka. Bud hélt áfram að þjóna í kirkjunni og var trúfastur og hollur Síðari daga heilagur allt til æviloka. Hann hafði breyst á allan hátt. Hugur hans, hjarta, gjörðir og öll tilvera hans hafði breyst.

Bræður og systur, endanleg guðleg örlög okkar og tilgangur eru að verða eins og okkar himneski faðir og frelsari okkar Jesús Kristur. Þetta á sér stað þegar við breytumst eða iðrumst. „[Mynd frelsarans mun þá greypst í svip okkar].“24 Við verðum ný, hrein, öðruvísi og við höldum einfaldlega áfram að vinna að þessu á hverjum degi. Stundum kann okkur að finnast við taka tvö skref fram á við og síðan eitt skref aftur á bak, en við höldum áfram í auðmýkt og trú.

Þegar við síðan sýnum auðmýkt og iðkum trú á Jesú Krist, gerir náð Krists og altæk friðþægingarfórn hans okkur kleift að breytast.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er vissulega frelsari okkar og lausnari. Náð hans nægir vissulega. Ég lýsi yfir að hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“25 Í nafni Jesú Krists, amen.