Aðalráðstefna
Lexíur við brunninn
Aðalráðstefna apríl 2022


Lexíur við brunninn

Við getum snúið til frelsarans fyrir þann styrk og þá lækningu sem mun gera okkur kleift að uppfylla allt það sem við vorum send hingað til að gera.

Hve gleðilegt það er að koma hér saman með ykkur á þessum kvennafundi aðalráðstefnu.

Ég ólst upp í vesturhluta New York-ríkis og sótti kirkju í lítilli grein kirkjunnar, um 32 km frá heimili okkar. Þar sem ég sat í sunnudagaskóla í kjallaranum á gömlu, leigðu kapellunni okkar, ein með vinkonu minni henni Patti Jo, hefði ég aldrei getað ímyndað mér að vera hluti af heimssystralagi milljóna kvenna.

Fyrir fimm árum síðan varð eiginmaður minn, Bruce, alvarlega veikur þegar við vorum að þjóna með hinum helguðu heilögu á svæðinu í austurhluta Evrópu. Við snérum heim og hann lést einungis nokkrum vikum síðar. Líf mitt breyttist á einni nóttu. Ég var í sorg og fannst ég veikburða og varnarlaus. Ég grátbað Drottinn um að leiða mig áfram: „Hvað vilt þú að ég geri?“

Viku seinna var ég að fara í gegnum póstinn minn þegar mynd á litlum sölubæklingi vakti athygli mína. Þegar ég skoðaði hann nánar gerði ég mér grein fyrir því að þetta var málverk af samversku konunni með Jesú við brunninn. Á þeirri stundu talaði andinn skýrt til mín: „Þetta er það sem þú átt að gera.“ Ástkær himneskur faðir var að bjóða mér að koma til frelsarans og læra.

Mig langar að miðla ykkur þremur lexíum sem ég er að læra er ég held áfram að bergja „lifandi vatn“1úr brunni hans.

Í fyrsta lagi: Aðstæður okkar í fortíð og nútíð skilgreina ekki framtíð okkar

Systur, ég veit að mörgum ykkar finnst, eins og mér fannst, þið óöruggar með að takast á við erfiðar áskoranir og missi – missi vegna þess að framvinda lífs ykkar er ekki eins og þið vonuðust til, báðust fyrir um og skipulögðuð.

Sama hverjar aðstæður okkar eru, þá er líf okkar heilagt og hefur þýðingu og tilgang. Hver okkar er ástkær dóttir Guðs, fædd með guðdómleika í sál okkar.

Frelsari okkar, Jesú Kristur, gerði okkur það mögulegt í gegnum friðþægingarfórn sína, að hreinsast og læknast, sem gerir okkur hæfar til að uppfylla tilgang okkar á jörðinni, þrátt fyrir ákvarðanir fjölskyldumeðlima, hjúskaparstöðu okkar, líkamlega eða andlega heilsu okkar eða nokkuð annað.

Hugleiðið konuna við brunninn. Hvernig var líf hennar? Jesús sá að hún hafði átt fimm eiginmenn og var ekki gift manninum sem hún var þá í sambúð með. Samt, þrátt fyrir erfiðleika hennar í lífinu opinberaði frelsarinn það einna fyrst fyrir henni að hann væri Messías. Hann sagði: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“2

Hún varð kraftmikið vitni og lýsti því yfir fyrir íbúum borgar sinnar, að Jesús væri Kristur. „Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar.“3

Fortíð hennar og nútíð skilgreindu ekki framtíð hennar. Á sama hátt getum við valið að snúa til frelsarans í dag, fyrir þann styrk og þá lækningu sem mun gera okkur kleift að uppfylla allt það sem við vorum send hingað til að gera.

Í öðru lagi: Krafturinn býr í okkur

Í kunnuglegu versi í Kenningu og sáttmálum, hvetur Drottinn konur og karla til að „starfa af kappi fyrir góðan málstað og gjöra margt af frjálsum vilja sínum og koma miklu réttlæti til leiðar; því að krafturinn býr í þeim.“4

Systur, krafturinn býr í okkur til að koma miklu réttlæti til leiðar!

Russell M. Nelson forseti bar því vitni: „Hver kona og karl sem gerir sáttmála við Guð og heldur þá sáttmála og tekur verðuglega þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, hefur beinan aðgang að krafti Guðs.“5

Ég hef komist að því að þegar við vinnum að því að heiðra helga sáttmála sem gerðir eru við skírn og í heilögum musterum, mun Drottinn blessa okkur með „sínum græðandi og styrkjandi mætti“ og með „[andlegum skilningi] og vakningu aldrei sem fyrr.“6

Í þriðja lagi: „Af hinu smáa sprettur hið stóra“7

Í fjallræðunni kenndi Jesú lærisveinum sínum: „Þér eruð salt jarðar“8 og „Þér eruð ljós heimsins.“9 Seinna líkti hann vexti himnaríkis við súrdegi „er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt.“10

  • Salt

  • Súrdeig

  • Ljós

Hvert og eitt hefur áhrif á allt í kringum sig, jafnvel í mjög litlum skömmtum. Frelsarinn býður okkur að nota kraft sinn til að vera eins og salt, súrdeig, og ljós.

Salt

Það er merkilegt hvaða áhrif það hefur á bragð þess sem við borðum, að dreifa smá salti yfir það. Samt er salt eitt ódýrasta og einfaldasta innihaldsefnið.

Í 2. Konungabók lesum við um „[þjónustustúlku]“11 sem var tekin til fanga af Sýrlendingum og varð þjónustustúlka konu Naamans, hershöfðingja sýrlenska hersins. Hún var sem salt, hún var ung, lítilvæg á heimsvísu og líf hennar sem þræll í ókunnu landi var örugglega ekki það sem hún hafði vonast eftir.

Hún talaði hins vegar tvær setningar með krafti Guðs, og bar vitni fyrir eiginkonu Naaman: „Það vildi ég að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi lækna hann af holdsveikinni.“12

Trúarfyllt orð hennar bárust til Naamans sem hann fylgdi, sem gerði honum kleift að læknast bæði líkamlega og andlega.

Við horfum oft til þjónanna sem sannfærðu Naaman um að baða sig í ánni Jórdan eins og spámaðurinn Elísa bauð honum að gera, en Naaman hefði ekki einu sinni verið við dyr Elísa, án [þjónustustúlku].“

Þið kunnið að vera ung eða finnast þið lítilvæg, en þið getið verið sem salt í fjölskyldu ykkar, í skólanum og samfélagi ykkar.

Súrdeig

Hafið þið borðað brauð sem er ekki úr súrdeigi? Hvernig mynduð þið lýsa því? Þétt? Þungt? Hart? Með örlitlum súr þá rís brauðið, lyftist og verður léttara og mýkra.

Þegar við bjóðum anda Guðs inn í líf okkar, getum við skipt „hugleysi“13 út fyrir innblásið viðhorf sem lyftir öðrum og býr til rúm í hjarta okkar til að læknast.

Nýlega lá vinkona mín í rúminu á jóladagsmorgun, yfirkomin af sorg. Börn hennar grátbáðu hana að fara á fætur en hún var hinsvegar full sársauka vegna væntanlegs fráskilnaðar síns. Grátandi í rúminu úthellti hún hjarta sínu í bæn til himnesks föður og sagði honum frá angist sinni.

Þegar hún lauk bæn sinni, hvíslaði andinn að henni að Guð væri meðvitaður um sársauka hennar. Hún fylltist samúð hans til hennar. Þessi helga reynsla staðfesti réttmæti tilfinninga hennar og veitti henni von um að hún væri ekki að syrgja ein. Hún fór á fætur og fór út og byggði snjókarl með börnum sínum og þungbær morguninn varð að hlátri og gleði.

Ljós

Hvað þarf mikið ljós til að rjúfa myrkur í herbergi? Einungis örlítinn geisla. Sá ljósgeisli í myrku herbergi getur stafað af krafti Guðs í ykkur.

Jafnvel þó ykkur finnist þið vera ein þegar stormar lífsins geisa, getið þið lýst ljósi inn í myrkur misskilnings, glundroða og vantrúar. Ljós ykkar í trú á Kristi getur verið stöðugt og öruggt, leiðandi þá til öryggis og friðar sem kringum ykkur eru.

Systur, hjörtu geta breyst og líf verið blessuð er við bjóðum ögn af salti, skeið af súr og ljósgeisla.

Ég ber vitni um að frelsarinn er saltið í lífi okkar, hann býður okkur að bragða á gleði sinni og elsku.14 Það er hann sem er súrinn þegar líf okkar er erfitt, hann færir okkur von15 og léttir byrðar okkar16 með óviðjafnanlegum mætti sínum og endurleysandi elsku.17 Hann er ljós okkar,18 sem lýsir okkur á leiðinni heim.

Ég bið þess að við getum komið til frelsarans, eins og konan við brunninn og bergt af lifandi vatni hans. Við getum lýsti því yfir með íbúum Samaríu: „Við trúum því … við höfum sjálfir heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“19 Í nafni Jesú Krists, amen.