Kom, fylg mér
Kenning og sáttmálar 71; 77; 82
Duldir fjársjóðir
Kannið hvað leynist rétt undir yfirborði ritninganna.
Drottinn mun hnekkja óvinum okkar þegar honum hentar.
Drottinn mun á endanum hnekkja óvinum okkar.
Að „hnekkja“ einhverjum, merkir að rugla þá, koma þeim á óvart, sigra þá, verða þeim til skammar eða skelfa þá.
Þegar Drottinn sagði við Joseph Smith að „hefji einhver raust sína gegn yður, mun honum hnekkt, þegar mér hentar“ (Kenning og sáttmálar 71:10; leturbreyting hér), þá var hann að lofa að þeir sem eru andsnúnir fagnaðarerindinu munu einhvern tíma upplifa neikvæðar afleiðingar ákvarðana sinna.
„Þegar mér hentar“ merkir að Drottinn hefur sína eigin tímasetningu. Við verðum að sætta okkur við að margir munu ekki þurfa að sæta ábyrgð verka sinna samstundis – og að það er í lagi. Við getum treyst Drottni og tímasetningu hans.
Við ættum auðvitað að standa með sannleikanum. Þegar við gerum það, ættum við samt að virða trú annarra og rétt þess til að velja að meðtaka ekki fagnaðarerindið.
Hafið ekki áhyggjur af þeim sem hafa gert það að markmiði sínu að gagnrýna og rífa niður kirkjuna, sem eru fús til að ljúga um og rangtúlka trú okkar. Látið Drottin fást við það. Hann mun hnekkja þeim og veita þeim tækifæri til að læra og breytast – að endingu.
Rétt eins og við, eru dýr eilífar skepnur sem himneskur faðir hirðir um.
Vinir okkar, dýrin, eru líka sköpuð af himneskum föður.
Það gæti virst ómerkilegt, en það er sannarlega nokkuð dásamlegt opinberað í Kenningu og sáttmálum 77: Dýrin hafa líka sál!
Margir hafa alltaf trúað þessu – það virðist satt – jafnvel þótt þess sé ekki nákvæmlega getið í Biblíunni og Mormónsbók. En Drottinn lýsti þessu yfir á ótvíræðan hátt.
Eins og fólkið, voru „dýrin“ og „skriðkvikindin“ og „fuglar loftsins“ sköpuð andlega fyrst. Andalíkamar þeirra, eins og okkar, líkjast efnislíkama þeirra. Þau, eins og við, munu njóta „eilífrar sælu“ – hamingju og gleði í upprisnum líkömum sínum. (Sjá Kenning og sáttmálar 77:2–3.)
Við vitum að himneskur faðir skapaði dýrin, fól okkur ráðsmennsku yfir þeim og vill að við komum vel fram við þau. Rétt eins og við, eru þau eilífar verur sem himneskur faðir hirðir um.
Nýtið blessanirnar vel sem þið hafið hlotið.
Sú hugmynd að miklum mætti fylgi mikil ábyrgð á ekki upptök meðal ofurhetja. Frelsarinn lýsti sama viðhorfi þegar hann sagði við spámanninn Joseph Smith: „Af þeim, sem mikið er gefið, er mikils krafist“ (Kenning og sáttmálar 82:3).
Hæfileikar okkar, gjafir og blessanir koma frá Drottni. Það er slæm hugmynd að taka þeim sem sjálfsögðum. Ef Drottinn hefur blessað ykkur með skarpan huga og þekkingarþorsta, en þið sóið samt tíma ykkar í skóla og slugsið með slakar einkunnir, hafið þið misnotað gjöf ykkar. Sama gildir um einhvern með íþróttastyrk, sem notar stöðu sína til að leggja aðra í einelti, eða manneskju sem er blessuð með góða kímnigáfu, sem notar hana til að gera lítið úr fólki (mörg okkar þurfa að vinna í slíku).
Drottinn vill að við gerum okkar besta – og það miðast við okkar eigin getu, vel á minnst, ekki einhvers annars. Það fer eftir því hvaða færni við skírskotum til: Ykkar „besta“ gæti verið betra eða lakara en það „besta“ einhvers annars. Það er allt í lagi! Verið þakklát fyrir styrkleika ykkar og auðmjúk yfir veikleikum ykkar og leyfið Drottni að hjálpa ykkur að ná möguleikum ykkar sjálfra.