Eftir þetta líf
Svör við nokkrum spurningum
Áætlun himnesks föður getur veitt okkur yfirsýn og frið varðandi líf eftir dauðann.
Myndskreyting: Thomas Arnaud
Hvað gerist eftir að við deyjum?
Þetta er ef til vill spurning allra trúarbragða. Svörin sem við höfum fyrir tilstilli Jesú Krists og fagnaðarerindis hans eru áhrifamikil. Þetta líf er ekki endir alls. Vegna þess að Jesús Kristur reis upp, munu andar okkar sameinast líkama okkar og við munum öll rísa upp einn daginn.
Auðvitað eru fleiri atriði um líf eftir dauðann sem hafa borist okkur með nútíma opinberunum sem geta svarað öðrum spurningum sem við gætum haft. Hér eru nokkrar slíkar spurningar, ásamt nokkrum stuttum svörum.
Hvernig eru andalíkamar?
Andi er einskonar efni, aðeins „fíngerðara eða tærara“ (Kenning og sáttmálar 131:7). Andalíkamar líta út eins og fullorðnir mannslíkamar.
Hvar er andaheimurinn?
Hvað á sér stað í andaheiminum?
Meðal annars eru þar andar sem hafa meðtekið fagnaðarerindið skipulagðir til að boða fagnaðarerindið þeim öndum sem ekki hafa meðtekið fagnaðarerindið. Þeir andar geta valið að meðtaka það eða hafna því.
Hvernig eru upprisnir líkamar?
Upprisnir líkamar geta ekki dáið, eru hold og bein og eru fullkomnir. Þeir eru dýrðlegir og fallegir. „Ekkert er fallegra ásýndar en upprisinn karl eða kona.“
Hvað á sér stað í himneska ríkinu?
Þau sem eru í æðstu gráðu himneska ríkisins verða lík himneskum föður og upplifa fyllingu gleðinnar. Þau öðlast allt sem faðirinn á. Þau taka þátt í verki hans og dýrð. Þau voru innsigluð í hjónaband um eilífð og lifa nú í eilífum fjölskyldum og eignast sjálf eilíf andabörn.
Hvað með fólk sem giftist aldrei í þessu lífi?
Himneskur faðir er fullkomlega réttvís og miskunnsamur. „Drottinn hefur lofað að þeim sonum hans og dætrum sem halda boðorðin, eru trú sáttmálum sínum og þrá hið rétta, verði ekki neitað um neinar blessanir í eilífðinni.“
Foreldrar mínir voru innsiglaðir í musterinu en eru nú fráskildir. Hverjum er ég innsigluð/aður?
Þið gætuð hafa „fæðst í sáttmálann“ (þ.e. fæðst eftir að foreldrar ykkar voru innsigluð í musterinu) eða þið gætuð hafa verið innsigluð foreldrum ykkar í musterinu, eftir að þau voru innsigluð hvort öðru. Í báðum tilvikum eru blessanir ykkar enn í gildi, jafnvel þótt foreldrar ykkar kjósi að skilja og fá innsiglun sína ógilta.
Val foreldra ykkar hefur ekki áhrif á blessanir ykkar. Mikilvægast er að þið séuð áfram trúföst og leitið blessana musterisins sjálf. Hvað fjölskyldusambönd ykkar varðar, ættuð þið að „[treysta] á Drottin og leita huggunar hans,“ vitandi að „himneskur faðir mun tryggja að hver og einn hljóti allar þær blessanir sem þrár hans og val leyfa.“
Hvað verður um þá sem deyja af völdum sjálfsvígs?
Við vitum ekki hvað verður um fólk sem deyr af völdum sjálfsvígs og við getum ekki dæmt það (á sama hátt og á við um alla, þegar allt kemur til alls). „Þrátt fyrir bestu viðleitni ástvina, leiðtoga og fagfólks er ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir sjálfsvíg. …
Það er ekki rétt af einstaklingi að taka eigið líf. Einungis Guð er hins vegar fær um að meta hugsanir, verk og ábyrgðarstig viðkomandi (sjá 1. Samúelsbók 16:7; Kenning og sáttmálar 137:9). …
Þeir sem hafa misst ástvin vegna sjálfsvígs, geta fundið von og lækningu í Jesú Kristi og friðþægingu hans.“