Hjálp og leiðsögn fyrir framtíð ykkar
Lífið fer ekki alltaf eftir áætlunum ykkar, en það mun breyta lífi ykkar til hins betra ef þið treystið Drottni.
Stundum gæti virst sem heimurinn sé fullur óvissu. Þið gætuð verið að velta fyrir ykkur hvað framtíðin geymir ykkur. Mér leið eins.
Foreldrar mínir og ég gengum í kirkjuna þegar ég var 16 ára. Á þeim tíma var ég afar óframfærinn. Eftir að hafa gengið í kirkjuna, öðlaðist ég sjálfstraust. Ég lærði hver ég er, hvaðan ég er, hvers vegna ég er hér og hvert ég fer eftir þetta líf.
Ég áttaði mig þá á því að jafnvel þótt ég vissi ekki nákvæmlega hvers konar hluti ég myndi gera í lífi mínu, þá var hjálp og leiðsögn til staðar sem leiddi mig til góðrar framtíðar.
Það sama á við um ykkur!
Leiðsögn frá spámanninum
Ég var 17 ára þegar spámaðurinn, Spencer W. Kimball forseti (1895–1985), heimsótti Suður-Kóreu árið 1975. Ég sá hann á samkomu þar sem um 400 kóresk ungmenni komu saman til að hlýða á rödd hans.
Kimball forseti sagði frá því hvernig hann hefði lært ritningarnar og beðist fyrir á hverjum degi frá unga aldri. Hann talaði um mikilvægi þess að forgangsraða. Hann bauð okkur að sækja trúarskólann, búa okkur undir trúboð og eilíft hjónaband og vinna að sáluhjálp. Hann gaf líka vitnisburð sinn.
Orð spámannsins upplýstu huga minn. Ég var í menntaskóla, en hafði ekki áhuga á náminu. Ég elskaði íþróttir! Ég spilaði fótbolta þegar mér gafst tækifæri til og gerði það oft í stað þess að læra. Ég var ekki góður nemandi. Eftir að hafa hlýtt á spámanninn, naut ég enn fótboltans, en ég ákvað að forgangsraða örlítið.
Ég myndi gera mitt besta til að læra. Ég myndi þjóna í trúboði, innsiglast í musterinu og eignast hamingjuríka fjölskyldu. Ég vissi að ef ég ætti að eiga slíka góða framtíð, þá yrði ég að fylgja spámanninum – sama hvað.
Með öllum ykkar tækifærum og áskorunum, mun allt verða í lagi hjá ykkur ef þið fylgið leiðsögninni sem lifandi spámenn veita okkur.
Ótryggt verkefni
Ég hafði einsett mér að þjóna í trúboði, en það er einnig herskylda í Suður-Kóreu. Eftir menntaskóla gengu margir piltar í herinn, luku skyldu sinni og urðu sér svo þegar úti um menntun og atvinnu. Það var erfitt að gefa tvö ár í viðbót í trúboðsþjónustu. Það voru aðeins fáeinir kóreskir öldungar á þessum tíma.
Þegar ég varð 19 ára hélt ég við skuldbindingu mína, undirbjó mig og sendi inn trúboðspappírana mína. Ég var kallaður til að þjóna í Busan-trúboðinu í Kóreu. Ári síðar var ég kallaður í herinn. Ég var sorgmæddur yfir því að neyðast til að hætta í trúboði.
Þegar ég lauk herþjónustu minni þremur árum síðar, fannst mér ég ekki enn hafa lokið trúboði mínu. Allir sögðu við mig: „Þú hefur þegar þjónað í trúboði. Drottinn skilur aðstæður þínar og því er allt í lagi að þjóna bara í eitt ár.“
Ég spurði góða vinkonu mína frá trúarskólanum hvað ég ætti að gera. Hún sagðist vita að ég myndi þjóna í eitt ár til viðbótar í trúboði mínu. Traust hennar veitti mér sjálfstraust og staðfestingu til að þjóna enn frekar. Ég þjónaði síðara ár trúboðs míns í Seoul-trúboðinu í Kóreu. Þegar ég lauk því var ég 25 ára. Síðar giftist ég þessari sömu vinkonu og við vorum innsigluð í Laie-musterinu á Havaí.
Þessi reynsla kenndi mér að við munum standa okkur vel, jafnvel þótt hlutirnir gerast ekki eins og við væntum. Þegar áætlanir okkar og framtíðarsýn falla að vilja Drottins fyrir okkur sjálf, mun hann hjálpa við ákvarðanir lífsins.
Góð framtíð er möguleg
Þótt ég væri ekki viss um það sem unglingur hvernig líf mitt yrði, komst ég að því að lykillinn að árangri er að setja hið andlega í fyrsta sæti – ekki aðeins í þessu lífi, heldur líka í komandi lífi.
Þegar þið eruð skírð, hlutuð þið gjöf heilags anda. Þegar þið einbeitið ykkur að hvatningunni sem þið hljótið, mun heilagur andi vernda ykkur og leiðbeina ykkur á réttan veg. Þið munið líka finna huggun og frið.
Þegar þið búið ykkur undir framtíðina, munið þá eftir að:
-
Læra ritningarnar.
-
Halda áfram að biðja.
-
Fylgja spámanninum.
-
Treysta alltaf á Drottin.
Þegar ég var á ykkar aldri, lærði ég um eiginleika frelsarans og hvernig ég gæti orðið líkari honum. Hann er fullkominn. Ég get ekki fyllilega verið eins og hann í þessu lífi, en ég er að reyna mitt besta og hef orðið betri í því að gera það.
Ég veit að Jesús Kristur lifir. Vegna hans, hef ég bjarta von um framtíðina – og þið getið það líka!