Þegar áraunir virðast of miklar
Áskoranir eru hluti af lífinu. Með hjálp getum við greint þær út frá sjónarhorni Guðs.
Mount Timpanogos er fjall í Utah, Bandaríkjunum, sem er 3.353 metra hátt og fullt af fossum, klettaveggjum, engjum og dýralífi. Að standa við rætur fjalls sem þessa getur látið ykkur finnast þið vera afar lítil. Þið sjáið hvorki yfir né umhverfis það. Það getur virst afar stórt og óyfirstíganlegt.
Í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá Timpanogos-fjalli getið þið þó séð það á annan hátt. Frá þessu sjónarhorni getið þið séð slóðir og vegi sem hafa verið lagðir um fjallið. Það sýnir að aðrir hafa verið þar áður og að það er til örugg leið yfir og umhverfis fjallið.
Áraunir lífs ykkar núna gætu verið eins. Að horfast í augu við mjög erfiðar áskoranir, getur verið eins og að horfa upp á svo stór fjöll að maður sér ekki yfir þau eða jafnvel umhverfis þau. Þau geta virst of stór og jafnvel ómögulegt að komast framhjá þeim. Slíkir erfiðleikar gætu jafnvel valdið því að ykkur finnst þið lítil, vonsvikin, hrædd og einmana.
Hér er þó annað sem við getum reynt. Takið skref til baka og reynið að sjá erfiðleika ykkar út frá öðru sjónarhorni – út frá sjónarhorni Guðs.
Út frá þessu sjónarhorni, gætuð þið líka áttað ykkur á því að þið eruð ekki skilinn eftir ein til að leysa vandamál ykkar. Þið eigið föður á himnum sem elskar ykkur og mun hjálpa ykkur. Aðrir, einkum frelsarinn, hafa líka komist í gegnum erfiðleikatíma. Þau vilja veita ykkur þá leiðsögn sem þið þurfið til að sigrast á erfiðleikum ykkar, jafnvel þeim þungbæru.
Hvernig getum við breytt sjónarhorni okkar?
1 Fylgið áætlun himnesks föður.
Jesús Kristur er hin fullkomna fyrirmynd okkar. Reglurnar sem hann kenndi eru einfaldar, máttugar og auðveldar að skilja. Þýðir það að alltaf sé auðvelt að fylgja þeim? Nei, reyndar ekki. Ekki alltaf. Í hvert sinn sem við fylgjum honum í trú, mun viðhorf okkar hins vegar breytast. Við tökum að líta á áskoranir sem tækifæri til að komast nær frelsaranum, fremur en að líta á þær sem refsingu, fyrirstöðu eða hindrun sem stöðvar framrás okkar.
2 Biðjið Guð um hjálp.
Guð er himneskur faðir ykkar. Hann þekkir ykkur, elskar ykkur og er fús til að hjálpa ykkur hvenær sem þið biðjið um hann. Russell M. Nelson forseti hefur kennt að „yfirsýn Drottins nær út fyrir ykkar jarðnesku visku. Viðbrögð hans við bænum ykkar gætu komið ykkur á óvart og munu hjálpa ykkur að hugsa himneskt.“
Þegar þið biðjist fyrir, getur Guð hjálpað ykkur að sjá það sem þið fáið ekki séð núna. Hann getur leitt ykkur í gegnum áraunir ykkar og jafnvel veitt ykkur frið og styrk er þið fylgið honum.
3 Biðjið aðra um hjálp.
Himneskur faðir hefur sett gott fólk umhverfis ykkur, sem getur liðsinnt ykkur. Þegar þið takist á við áskoranir sem virðast yfirvofandi, íhugið þá að ræða við traustan fjölskyldumeðlim, vin, kirkjuleiðtoga eða biskup ykkar.
Að biðja verðugan prestdæmishafa um blessun huggunar og leiðsagnar, er önnur dásamleg leið til að sjá sjálfan sig og lífið út frá sjónarhorni Guðs.
Sjáið skýrt
Líkt og risavaxið fjall sem stendur í vegi ykkar, geta áraunir ykkar stundum virst of miklar. Þegar þið lifið eftir áætlun Guðs og leyfið honum og öðrum að hjálpa ykkur, getið þið séð áskoranir ykkar í nýju ljósi.
Þið getið stigið skref til baka og séð að það er leið til að sigrast á áraunum ykkar. Jesús Kristur sér okkur fyrir leið sem þið getið farið. Hversu miklar sem áraunir okkar virðast vera, þá er Guð máttugri.