2023
Tungumál andans
Janúar 2023


„Tungumál andans,“ Líahóna, jan. 2023.

Frá Síðari daga heilögum

Tungumál andans

Ég lærði að andinn getur hjálpað okkur að miðla kærleika himnesks föður, jafnvel þegar okkur finnst við ófullnægjandi.

Ljósmynd
rúta

Ljósmynd birt með leyfi höfundar; myndskreyting: Jennifer M. Potter

Myndskreyting: Jennifer M. Potter

Ég varði sumrunum í að ferðast um Evrópu með danshóp. Áhorfendur okkar, frammistaða og kraftur voru mismunandi, en við höfðum eina venju sem alltaf hélst óbreytt: Við lukum hverri sýningu á því að syngja „Guð sé með þér uns við hittumst heil“1 á tungumáli landsins sem við vorum að heimsækja. Þar sem flestir í danshópnum mínum tilheyrðu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, elskuðum við þessa venju. Þetta var yndisleg aðferð til að tengjast áhorfendum og miðla elsku himnesks föður.

Undir lok einnar þessara ferða, vorum við nýkomin inn fyrir landamæri Þýskalands og vorum að æfa lagið á þýsku fyrir komandi sýningar. Við komumst svo að því að á þessu tiltekna svæði í Þýskalandi væri töluð sorbneska, mállýska sem hafði lítið að gera með sönginn sem við höfðum æft svo dyggilega.

Í rútuferðinni á sýninguna var ég uppgefin og vildi bara sofa alla leiðina. Stjórnendur okkar höfðu þó aðrar hugmyndir. Þeir höfðu beðið leiðsögufólkið okkar að þýða sálminn yfir á sorbnesku. Þeir vildu nú að allir hálfsofandi dansararnir í rútunni lærðu lagið, einungis nokkrum klukkustundum fyrir flutning okkar.

Við gerðum okkar besta. Í lok sýningarinnar stóðum við saman fremst á sviðinu og tókum að syngja. Ég man hvað ég varð hissa, þar sem þessi ókunnugu orð, sem ég hafði ruglað saman nokkrum klukkustundum áður, komu auðveldlega upp í huga minn. Ég fann að fyrri efasemdir mínar um að við væri tilbúin fyrir sönginn hurfu, þegar ég treysti á andann til að minna mig á textann.

Ljósmynd
dansandi par

Þegar við höfðum lokið dansinum og tókum að syngja, kom andinn texta lagsins upp í huga minn.

Ljósmynd birt með leyfi höfundar

Áhorfendur virtust undrandi og síðan hrifnir. Þegar söngnum lauk, féll þögn yfir mannfjöldann. Fólkið stóð síðan upp og tók að syngja fyrir okkur söng sem þau útskýrðu síðar að væri þakklætissöngur sem venjulega væri sunginn til að tjá þakklæti við sérstök tækifæri.

Ég fann afar sterkt fyrir andanum á þessari stundu, jafnvel þótt ég skildi ekki hvað fólkið var að syngja. Ég var svo þakklát fyrir að Drottinn hafði hjálpað mér að tjá elsku sína, þrátt fyrir vanmáttartilfinningar mínar. Ég var minnt á að kærleikur himnesks föður er alheimsboðskapur. Hversu ólík sem við gætum verið, þá fáum við öll skilið tungumál andans.