2023
Ljós lífsins
Janúar 2023


„Ljós lífsins,“ Líahóna, jan. 2023.

Ljós lífsins

Frelsarinn Jesús Kristur er ljós okkar, líf og vegur – í gær, í dag og eilíflega.

Ljósmynd
mynd af Jesú Kristi

Hluti af Einblína á gleði, eftir Michael T. Malm

Þegar sólin settist einn annan sunnudag árið 1948, var ég á gangi niður með Trent-fljóti í Nottingham á Englandi. Ég var 20 ára trúboði og hafði nýlega verið kallaður sem umdæmisforseti. Þetta hafði verið langur og þreytandi dagur fullur af fundum og þjónustu, en ég var glaður og ánægður í starfi.

Þegar ég gekk meðfram ánni, fór ég með bæn í hjarta. Í von um að finna einhverja leiðsögn frá Drottni, spurði ég: „Er ég að gera það sem þú vilt?

Yfirgnæfandi tilfinning friðar og skilnings kom yfir mig. Á því augnabliki vissi ég að Jesús Kristur þekkti mig og elskaði. Ég sá hvorki sýn né heyrði rödd, en ég hefði ekki getað vitað af veruleika og guðleika Krists af meiri krafti, þótt hann hefði staðið frammi fyrir mér og nefnt mig með nafni.

Þessi ljúfa og blíða reynsla hefur mótað líf mitt. Frá þeim degi til dagsins í dag, hafa allar mikilvægar ákvarðanir sem ég hef tekið verið leiddar af áhrifunum af þekkingu minni á frelsaranum. Í áranna rás og um allan heim hef ég vitnað um að Jesús Kristur er sonur Guðs, ljós heimsins. Það eru forréttindi okkar að koma til hans, fylgja honum og finna ljós hans í lífi okkar.

Ljós heimsins

Kvöld eitt, mörgum árum eftir þessa eftirminnilegu trúboðsupplifun, horfðum ég og eiginkonan mín, Barbara, til himins. Þegar við gerðum það, virti ég með aðdáun fyrir mér milljónir stjarna, sem virtust einkar bjartar og fallegar þetta kvöld. Hugsanir mínar beindust af lotningu að orðum Drottins til Móse: „Ótal heima hef ég skapað og ég skapaði þá einnig í eigin tilgangi, og ég skapaði þá með syninum, sem er minn eingetni“ (HDP Móse 1:33).

Frá frelsaranum kom kraftur sköpunar og hann lýsir upp sólina, tunglið og stjörnurnar (sjá Kenningu og sáttmála 88:7–10). Hann getur réttilega sagt: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins“ (Jóhannes 8:12; sjá einnig Jóhannes 9:5).

Með orðum Dallin H. Oaks forseta, annars ráðgjafa í Æðsta forsætisráðinu: „Jesús Kristur er ljós heimsins, af því að hann er uppspretta þess ljóss sem ,kemur úr návist Guðs til að fylla ómælisgeiminn‘ [Kenning og sáttmálar 88:12].“ Ljós frelsarans er „hið sanna ljós, sem lýsir hverjum manni, sem í heiminn kemur“ (Kenning og sáttmálar 93:2; sjá einnig 84:46). Með þessu ljósi getum við þekkt „gott frá illu“ (Moróní 7:16). Þetta alheimsljós er þekkt sem „ljós sannleikans,“ „ljós Krists“ og „andi Krists“ (Kenning og sáttmálar 88:6; 88:7; Moróní 7:16).1

Jóhannes postuli sagði: „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því“ (Jóhannes 1:5). Á okkar tíma vinnur Satan yfirvinnu við það að leiða börn Guðs í myrkur og útilokar „ljósið og lífið og [sannleika] heimsins“ (Eter 4:12).

Við fáum ekki fullkomlega skilið – eða metið – frelsarann og fagnaðarerindi hans þegar við missum ljós hans og sannleika. Þegar við hins vegar iðrumst og hlýðum, þjónum og tilbiðjum hann, sigrum við myrkrið. Ljós hans kemur aftur og fjarlægir skugga heimsins úr aðstæðum okkar og huga.

Blessuð af ljósinu

Þegar heimur okkar verður dimmari og óstöðugri, getur það virst vera áskorun að finna ljós Drottins í lífi okkar. Russell M. Nelson forseti hefur þó áminnt okkur: „Hið aukna myrkur, sem fylgir þrengingum, gerir ljósi Jesú Krists kleift að skína sífellt bjartar.“2

Ég hef komist að því að ljós hans skín bjartar í sál minni þegar ég gef hinu andlega tíma á kyrrlátum, hljóðum stundum, eins og á kvöldinu með Barböru. Það er þá sem andleg áhrif, leiðsögn og ljós berast okkur. Það er þá sem við skiljum hve sannlega blessuð við erum að eiga frelsara.

Sem ljós heimsins, lýsir ljós frelsarans veg hins jarðneska ferðalags okkar, með fordæmi sínu og kenningum (sjá Jóhannes 8:12). Hann léttir byrði okkar með kærleika sínum og samúð (sjá Matteus 11:28–30). Hann léttir hjarta okkar með von og lækningu fyrir tilstilli friðþægingar sinnar (sjá Moróní 7:41). Hann upplýsir líka huga okkar með „anda sannleikans“ (Kenning og sáttmálar 6:15; sjá einnig 11:13).

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Á hverju æviskeiði, í öllum okkar hugsanlegu aðstæðum og í hverri áskorun sem við tökumst á við, þá er Jesús Kristur ljósið sem eyðir óttanum, veitir fullvissu og leiðsögn og varanlegan frið og gleði.“3

Ljósmynd
M. Russell Ballard ungur fullorðinn maður

Öldungur Ballard þjónaði í trúboði í Englandi frá 1948 til 1950.

Haldið ljósi yðar á lofti

Forréttindin að miðla öðrum ljósi frelsarans og bjóða þeim að koma til hans og finna elsku hans til þeirra, hafa alltaf verið mér sérstök. Ég naut þess að vera trúboði í Englandi. Ég naut þess að vera trúboðsforseti í Kanada. Ég nýt líka núverandi köllunar minnar sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar. Köllun mín veitir mér tækifæri til að bera vitni um Jesú Krist og miðla boðskap endurreisnarinnar um allan heim.

Til forna sagði frelsarinn við lærisveina sína:

„Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum“ (Matteus 5:14, 16).

Við fólk Nefís sagði hann: „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft – það sama og þér hafið séð mig gjöra.“ Hann sagði líka: „Þér vitið, hvað yður ber að gjöra í kirkju minni. Því að þau verk, sem þér hafið séð mig vinna, þau skuluð þér einnig vinna“ (3. Nefí 18:24; 27:21).

Á okkar tíma væntir frelsarinn þess líka að lærisveinar hans noti ljósið til geta „rekið myrkrið frá [okkur]“ (Kenning og sáttmálar 50:25). Ljós okkar skín er við elskum eins og Jesús elskaði. Ljós okkar skín er við miðlum vitnisburði okkar um endurreisnina og von okkar á Krist. Ljós okkar skín þegar við hefjum upp raddir okkar til varnar sannleikanum. Þegar svo ljós okkar skín, löðum við aðra að uppsprettu þess ljóss.

Innið af hendi óeigingjarna þjónustu og þið munið finna ljós hans í hjarta ykkar. Biðjið auðmjúklega um tækifæri til að miðla fagnaðarerindinu og þið munuð leidd til þeirra sem eru reiðubúnir að taka á móti ljósi hans. Elskið aðra í smáu og stóru og þið gerir þennan heim betri og bjartari.

Ljósmynd
Jesús Kristur að kenna

Hluti af Jesús Kristur, eftir Harry Anderson

Ljós sem óendanlegt

Ég er eilíflega þakklátur fyrir þá reynslu sem ég hlaut sem ungur trúboði í Englandi, er ég komst að því sjálfur að Jesús er Kristur. Ég veit þetta betur í dag, þar sem ég hef upplifað lífið með allri sinni sorg gleði.

Þjónusta mín í kirkjunni hefur blessað mig með undraverðum og sérstökum upplifunum, sem eru of margar og sumar of heilagar til að ræða um. Það er engin gjöf mikilvægari og dýrmætari sem ég get gefið börnum mínum, barnabörnum, barnabarnabörnum og ykkur, vinum mínum um allan heim, en hinn örugga vitnisburð minn um að Jesús er Kristur, sonur okkar eilífa föður, frelsari alls mannkyns.

Elskuleg eiginkona mín, Barbara, lést árið 2018. Hve þakklátur ég er fyrir að vita að vegna musterisinnsiglunar okkar og vegna Jesú Krists munum við verða saman aftur, með fjölskyldu okkar, um alla eilífð.

Stundum verð ég þreyttur. Á þeim augnablikum staldra ég við og horfi á mynd af frelsaranum. Ég hugsa til hans í Getsemane og þá verð ég allt í einu ekki lengur þreyttur. Ég veit í hjarta mínu að vegna þess að hann sigraði heiminn, þá er það svo að „myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína“ (1. Jóhannesarbréf 2:8).

Ég veit að Jesús Kristur lifir. „Hann er … óendanlegt ljós, sem aldrei getur myrkvast“ (Mósía 16:9). Hann er ljós okkar, líf og vegur – í gær, í dag og eilíflega. Megum við vera trúföst í því að fylgja honum og láta ljós hans skína í heiminum.

Heimildir

  1. Sjá Dallin H. Oaks, „The Light and Life of the World,“ Ensign, nóv. 1987, 63–64.

  2. Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020.

  3. David A. Bednar, „The Light and the Life of the World“ (jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins, 6. des, 2015), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.