2023
Fjölskyldur eru eilífar
Janúar 2023


„Fjölskyldur eru eilífar,“ Líahóna, jan. 2023.

Helstu trúarreglur

Fjölskyldur eru eilífar

Ljósmynd
brosandi fjölskylda

Fjölskyldan er grundvallareining samfélags og kirkju. Meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu trúa að fjölskyldur geti verið eilífar. Við vinnum að því að styrkja fjölskyldur okkar á jörðu. Við trúum líka að við getum hlotið blessun eilífrar fjölskyldu.

Fjölskylda Guðs

Allir menn eru andasynir eða dætur himneskra foreldra. Við heyrum öll til fjölskyldu Guðs. Við eigum okkur öll guðlegt eðli og örlög. Ef við lifum réttlátlega, getum við snúið aftur til ævarandi dvalar hjá himneskum föður okkar, sem hluti af fjölskyldu hans.

Ljósmynd
nýgift hjón fyrir utan musterið

Brúðkaupsljósmynd, eftir Joseph Kaluba

Eilífar fjölskyldur

Þegar karl og kona eru gift í musterinu og halda sáttmála sína, mun hjónaband þeirra vara að eilífu. Sú musterishelgiathöfn er kölluð innsiglun. Börn sem fæðast eftir að foreldrarnir hafa innsiglast, eru fædd í þann sáttmála. Börn sem fæðast áður en foreldrar þeirra innsiglast, geta verið innsigluð þeim í musterinu, svo þau geti verið eilíf fjölskylda. Kirkjumeðlimir vinna ættarsögu sína og musterisverk, svo þeir geti innsiglað fjölskyldur sínar saman gegnum allar kynslóðir. Blessun eilífrar fjölskyldu er gerð möguleg vegna Jesú Krists og friðþægingar hans.

Hjónaband

Hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði. Fagnaðarerindi Jesú Krists kennir eiginmönnum og eiginkonum að vera trú og trygg hvort öðru í hjónabandssáttmála sínum. Þau ættu að vera trú í hugsun, orði og verki. Hjónaband er sambúð byggð á jafnræði og hjónin ættu að hvetja, hugga og hjálpa hvort öðru.

Ljósmynd
foreldrar með ungbarn

Foreldrar og börn

Guð bauð Adam og Evu að eignast börn. Kirkjuleiðtogar hafa kennt að þetta boðorð sé enn í gildi. Mæður og feður vinna saman að því að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti (sjá Kenning og sáttmálar 68:25–28). Börnum er kennt að heiðra foreldra sína og hlýða þeim (sjá 2. Mósebók 20:12).

Kenna og læra

Foreldrar kenna börnum sínum að elska Guð og hlýða boðorðum hans. Fjölskyldulíf gefur okkur tækifæri til að finna gleði og læra þolinmæði og óeigingirni. Þessir eiginleikar hjálpa okkur að verða líkari Guði og búa okkur undir að lifa hamingjusöm sem fjölskyldur að eilífu.

Styrkja fjölskyldur

Það þarf vinnu, einbeitingu og þolinmæði til að byggja upp farsæla fjölskyldu. Reglur fagnaðarerindisins, eins og trú, bæn, fyrirgefning, elska, vinna og heilnæm skemmtun, geta hjálpað okkur að finna gleði í fjölskyldulífi. Við getum líka hlotið persónulega opinberun til að vita hvernig við getum styrkt fjölskyldur okkar.

Ljósmynd
mynd af Jesú Kristi

Ímynd Krists, eftir Heinrich Hofmann

Blessanir fyrir alla

Öllum gefst ekki tækifæri til að vera hluti af fyrirmyndar fjölskyldu hér á jörðu. Guð hefur þó lofað að allir sem halda boðorð hans munu hljóta allar blessanir eilífrar fjölskyldu. Við getum treyst honum og tímasetningu hans.