2023
Áhrifamáttur fordæmis
Janúar 2023


„Áhrifamáttur fordæmis,“ Líahóna, jan. 2023.

Fyrirmynd trúar

Áhrifamáttur fordæmis

Ég vissi að eina leiðin til að koma eiginkonu minni í kirkjuna væri með fordæmi mínu. Þegar ég breytti hegðun minni fór hún að finna fyrir anda Guðs.

Ljósmynd
hjón biðja saman

Ljósmynd eftir Cody Bell

Dag einn á leiðinni í vinnuna sá ég tvo unga menn prédika orð Guðs úti á götu. Þeir stöðvuðu mig og spurðu hvort ég vildi vita meira um Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Á þeim tíma vissi ég ekki hvert fjölskylda mín stefndi. Við höfðum engan andlegan áttavita til að leiða okkur.

Ég hafði drukkið áfengi um morguninn, svo ég man ekki mikið af því sem trúboðarnir sögðu mér. Þeir gáfu mér Mormónsbók og bækling um spámanninn Joseph Smith og létu mig fá símanúmerið sitt. Síðar um daginn byrjaði ég að lesa. Eitthvað snerti sál mína þegar ég las Mormónsbók og það undraði mig hvernig 14 ára drengur gat fengið svona undursamlega sýn.

Ég var að leita sannleikans, svo ég hóf að hitta trúboðana. Eftir að hafa tekið flestar lexíurnar, vissi ég að ég þyrfti að láta skírast. Þegar skírnardagurinn minn nálgaðist, var þó lexía sem mér reyndist erfitt að heyra. Sú lexía var um Vísdómsorðið.

Þessi lexía var erfið fyrir mig, því ég drakk oft áfengi. Vinnuumhverfið mitt var erfitt. Allir sem ég vann með neyttu áfengis og það gerði ég líka. Ég fór oft út til að fá mér í staupið eftir vinnu og kom heim seint á kvöldin.

Trúboðarnir stóðu sig þó frábærlega. Ég elska þá enn fyrir það. Þeir kenndu mér að Guð vill að við séum sterk og að hann hafi gefið okkur Vísdómsorðið til að blessa okkur. Það var mjög erfitt fyrir mig að hlýða þessu lögmáli, en hægt og rólega fór ég að halda það. Ég man að ég hringdi í trúboðana á hverjum degi, sagði þeim frá framförum mínum og að ég hefði ekki drukkið þann daginn. Þeir voru afar ánægðir með framfarir mínar.

Með hjálp þeirra, lét ég skírast og gekk inn í hjörð Jesú Krists. Ég fann fyrir andanum þennan fallega dag! Ég var þó einn þegar ég gekk í kirkjuna. Mig langaði til að fjölskyldan mín væri með mér.

Þegar ég talaði um kirkjuna við eiginkonu mína, Clirime, hlustaði hún ekki til að byrja með. Afi hennar tilheyrði annarri trú og hún velti fyrir sér hvers vegna Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefði yfirleitt komið til Albaníu. Ég vissi að eina leiðin til að eiginkona mín tæki á móti fagnaðarerindinu væri með fordæmi mínu. Með verkum okkar, getur fólk séð hver við erum í raun og veru.

Clirime tók eftir breytingum á mér, þar sem ég hætti áfengisdrykkju og tók að koma snemma heim úr vinnunni. Vegna breytinganna sem ég var að gera, fór hún að finna fyrir anda Guðs þegar ég sagði henni frá kirkjunni. Ég get ekki lýst þeirri gleðitilfinningu sem ég upplifði þegar hún sagði mér að einn daginn myndi hún líka láta skírast. Fljótlega fór hún að taka trúboðslexíurnar, sem ég hjálpaði trúboðunum að kenna. Það gladdi mig sérlega þegar hún ákvað skírnardag, sex mánuðum eftir að ég var skírður.

Með skírn hennar og skírn tveggja barna okkar, þegar þau hvort um sig urðu átta ára, fannst mér við geta orðið eilíf fjölskylda. Skírnin var þó bara byrjunin. Til að búa okkur undir að fara í musterið, vissum við að við yrðum að fylgja Guði til loka lífs okkar, halda boðorðin, fara í kirkju, meðtaka sakramentið, þjóna í köllunum, lesa ritningarnar og læra meira um sáttmála og sáluhjálparáætlunina.

Dagurinn, þegar við vorum innsigluð sem fjölskylda í musterinu í Frankfurt í Þýskalandi, var annar fallegur dagur. Í musterinu skildi ég betur þá hamingjuáætlun sem Guð hefur fyrir okkur og ég fann fyrir kærleika hans.

Ég man enn loforðin sem ég og Clirime gáfum í musterinu. Alltaf þegar eitthvað fer úrskeiðis eða við eigum í erfiðleikum, leitar hugur minn aftur til þessara loforða.

Sem fjölskylda, reynum við að lifa í sátt við hvert annað, því það var það sem við fundum fyrir í musterinu. Í hvert sinn sem ég hugsa um musterið finnst mér ég hamingjusamur og blessaður. Ég veit að Guð er raunverulegur og að hann elskar okkur og vill að við séum hamingjusöm.